Færsluflokkur: Dægurmál

Hugsað til Ástjarnar

Ástjörn Það er oft gaman að hugsa til liðinna daga. Ég fór t.d. að hugsa aðeins áðan þegar að ég sá gamla ferðamynd frá Ásbyrgi frá sumrinu 1988. Um leið áttaði ég mig á að tveir áratugir eru í sumar síðan að ég fór fyrst í sumarbúðirnar Ástjörn. Það er orðinn nokkur tími. Ég fór þangað tvö sumur í röð, var heilan mánuð hvort sumar. Það var lærdómsríkur og gefandi tími.

Það voru auðvitað viss viðbrigði að halda í burt að heiman, upplifa eitthvað nýtt og njóta góða veðursins á þessum slóðum. Þetta er góður tími í minningunni. Ég var ekki lengi að detta í þann gír að njóta þessa staðar, enda var svo margt við að vera og þetta var notalegur tími. Eins og gefur að skilja var fyrra sumarið lærdómur og það var gaman, tíminn leið hratt enda var svo gott veður og þetta var góð lífsreynsla í minningarbankann.

Síðara sumarið var vissulega öðruvísi. Maður vissi að hverju gengið var. Það var í minningunni skemmtilegra sumar, enda var þá svo virkilega skemmtilegur hópur saman þar. Ég kynntist fjölda góðs fólks þarna, suma hef ég haldið sambandi við og suma ekki hitt síðan. Það er eins og gengur. Það væri gaman að vita hvað varð af sumum. Skemmtilegt að hugsa aftur til þessa tíma allavega. Þetta var mjög lærdómsríkur tími, enda er ég viss um að allir sem fara á Ástjörn koma glaðari í hjartanu heim til sín. Þetta er nauðsynlegt fyrir krakka að upplifa.

Annars þekki ég auðvitað betur til annarra sumarbúða, en amma mín Hanna Stefánsdóttir var lengi aðaldriffjöðurin í rekstri sumarbúðanna við Hólavatn, en þar hefur frábært starf verið unnið. Þau sem unnið hafa þar á sviði trúarinnar hafa fært mörgum góðar minningar og eitt er víst að sumarbúðirnar eru mikils virði. Það er nauðsynlegt fyrir krakka að upplifa slíkt ævintýri. Mér fannst það allavega ævintýri að halda t.d. í Ástjörn. Þetta voru skemmtileg sumur í minningunni.

Bogi Pétursson var forstöðumaður á Ástjörn þegar að ég var þar. Hann var allt í öllu þar áratugum saman. Allir þeir sem fóru til Ástjarnar í hans tíð hugsa til hans með hlýju. Einstakur maður. Ég kynntist allavega vel minn tíma þar hvað Bogi er yndislegur og gefandi persónuleiki. Það var heilsteypt og góð mótandi reynsla að dvelja þar. Alla tíð hefur Bogi verið gulls ígildi í mínum huga eftir þennan tíma.

Það gæti meira en vel verið að maður líti bara í Ástjörn í sumar. Það er orðið langt síðan að ég hef farið þar heim í hlað. Það er eflaust margt breytt þar frá mínum tíma, en undirstaðan þar er þó sú sama og hún er mikils virði.

Menntaskólinn í Reykjavík sigrar í Gettu betur

Gettu betur Menntaskólinn í Reykjavík vann glæsilegan sigur í Gettu betur fyrir stundu í bráðabana eftir hörkuspennandi úrslitaviðureign við Menntaskólann í Kópavogi. Liðin voru jöfn eftir hraðaspurningar, bæði með 20 stig. Eftir því sem leið á bjölluspurningarnar jókst forskot MK og flest stefndi orðið í sigur þeirra.

Með því að landa þrem stigum fyrir þríþrautina náði MR að jafna MK undir lokin og knýja fram bráðabana. Þetta var spennuþrungin stund og mátti heyra saumnál detta í sjónvarpsútsendingunni er haldið var í bráðabanann og liðin voru jöfn, bæði með 27 stig. Tókst MR að svara tveim spurningum í bráðabana og með því landa sigri. Ævintýralega skemmtilegt kvöld og mikil spenna. Svoleiðis á það auðvitað að vera á úrslitakvöldi, ekki satt?

Þetta er í þrettánda skipti sem MR sigrar í Gettu betur, frá því að keppnin hófst árið 1986. Skólinn sigraði fyrst árið 1987, en síðan vann skólinn keppnina í heil ellefu ár í röð, á árunum 1993-2003. Það var ótrúleg sigurganga, sem andstæðingum þeirra á þessu langa tímabili gramdist mjög í geði vissulega en gerði þá sigursælasta lið í sögu keppninnar. Þeir hafa stundum staðið nærri sigri síðan og landa nú þrettánda sigrinum. Þeir hljóta að vera ansi glaðir í kvöld með sitt.

Mér fannst MR-liðið það langbesta í ár. Mjög sterkt og gott lið. MK var klárlega næstbesta liðið, þeir komu rosalega á óvart og stimpluðu sig rækilega inn á kortið. Þetta er lið sem hefur vaxið alveg rosalega í gegnum allt ferlið og þeir eru varla síðri sigurvegarar í kvöld í raun. Þetta var svo tæpt að þetta gat í raun fallið á hvorn veginn sem var. En tvö glæsileg lið sem stóðu sig firnavel. En sárindi MK-inga hljóta að vera mikil, en þeir geta verið stoltir með sitt þó.

Bloggvinur minn, Magnús Þorlákur Lúðvíksson, er í sigurliði MR ásamt Birni Reyni Halldórssyni og Hilmari Þorsteinssyni. Ég óska þeim innilega til hamingju og auðvitað öllum MR-ingum. Það verður fróðlegt að sjá hvort að MR sé að fara að feta í aðra eins langa sigurgöngu og áður, eftir svolítið erfitt tímabil síðustu fjögur árin.

mbl.is MR-ingar höfðu betur í Gettu betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ömurlegt virðingarleysi í samfélaginu

Það er skelfilegt að lesa fréttir af því að fólk ráðist á eldri borgara, að tilefnislausu algjörlega að því er virðist. Í þessari frétt ráðast tveir menn á eldri mann, á áttræðisaldri. Það er því miður að verða svo að svona fréttir eru hættar að vera einstakt fyrirbæri, þetta er orðið alltof algengt. Það er eiginlega ekki undrunarefni að maður hugsi við að lesa svona fréttir á hvaða leið samfélagið okkar sé eiginlega.

Er virðingarleysið orðið algjört? Því miður er ekki hægt annað en hugsa á þeim forsendum. Hvers vegna ætti yngra fólk að ráðast að tilefnislausu að ráðast á gamalt fólk nema vegna þess að eitthvað sé stórlega að. Þetta er grimmd og mannvonska af verstu sort. Það þarf svosem ekkert að rökstyðja það frekar. Svona fréttir eru napur vitnisburður þess hvernig samfélagið er orðið að mörgu leyti.

Merkilegast við þessa frétt fannst mér, fyrir utan auðvitað að ráðist var á eldri borgara, að það þurfti að nota maze-úða á annan árásarmanninn og fjórir lögreglubílar héldu í útkallið. Sjokkerandi. En já, það er víst árið 2007, segir einhver. En þetta er sorglegt, engu að síður.

mbl.is Ráðist á mann á áttræðisaldri á Miklubrautinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt hjá Þorvaldi Davíð

Þorvaldur Davíð Það er gleðiefni að Þorvaldur Davíð hafi hlotið inngöngu í Juilliard-listaháskólann í New York. Hann er fyrsti Íslendingurinn sem hlýtur inngöngu í leiklistardeildina þar. Fá orð þarf svosem að hafa um Juilliard, en það er auðvitað einn af fremstu listaháskólum heims og þarf að vera mjög fær á sínu sviði í listinni til að komast þar inn.

Þorvaldur Davíð er mjög efnilegur leikari, hefur staðið sig vel og fyrir löngu vakið athygli hér heima fyrir verk sín. Ég óska honum góðs gengis í Juilliard þegar að hann heldur til New York og hann eigi góðan og glæsilegan feril.

mbl.is Þorvaldur Davíð hlaut inngöngu í Juilliard
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dorrit lærbrotnar á skíðaferðalagi í Aspen

Dorrit Dorrit Moussaieff, forsetafrú, lærbrotnaði á skíðaferðalagi í Aspen í Bandaríkjunum í vikunni. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur nú haldið til Bandaríkjanna til að vera við hlið hennar. Forsetahjónin hafa oft haldið til Aspen á skíði, en þangað heldur jafnan ríka og fræga fólkið til útivistar, og frægt varð þegar að þau voru stödd þar á aldarafmæli heimastjórnar á Íslandi 1. febrúar 2004.

Átta ár eru á þessu ári síðan að Ólafur Ragnar axlarbrotnaði í útreiðartúr á Suðurlandi. Það var þá sem þjóðin kynntist fyrst eiginlega Dorrit, en fréttamyndirnar af henni stumrandi yfir forsetanum og er hann var fluttur til Reykjavíkur urðu frægar.

Forsetafrúin mun hafa farið í aðgerð vegna lærbrotsins og dvelur á sjúkrahúsi í Colorado. Ég óska henni góðs bata.

mbl.is Dorrit lærbrotnaði í skíðaslysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórundarlegur dómur

Ég verð að viðurkenna að ég varð nokkuð hissa þegar að ég sá fréttina um dóm héraðsdóms Norðurlands vestra í þessu myndsímamáli. Mjög athyglisvert. Það er eitthvað alveg nýtt að ákæruvald hafi þurft að sýna fram á kynferðislega örvað hugarástand til að fá menn dæmda fyrir brot á 209. grein hegningarlaganna. Það hefur hingað til þótt nóg að fyrir liggi að ákærðir fremdu tiltekna athöfn sem særði blygðunarkennd fólks.

Það getur varla annað verið en að þessum dómi verði áfrýjað og honum snúið við fyrir Hæstarétti Íslands. Fátt annað hægt að segja svosem um þetta.


mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir að taka mynd af naktri konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðanaskipti um þjóðsöng - fyndin handtaka

Spaugstofan Það var nokkur húmor yfir þessari frétt um handtöku Spaugstofumanna vegna brota þeirra á lögum um þjóðsöng lýðveldisins. En það fer sannarlega ekkert á milli mála að þetta hefur verið ansi heitt mál, miklar tilfinningar og harðar skoðanir í því. Sitt sýnist hverjum. Hef fengið eins og ég benti á í gær mikinn slatta af tölvupósti um málið og svo hafa umræður verið nokkrar hér á vefnum eins og allir sjá sem líta hér í heimsókn.

Í grunninn liggur málið allt mjög ljóst fyrir. Sumum finnst allt í lagi að brjóta þessi lög. Þar ræður gamla góða "af því bara" svarið. Mjög skondið þannig séð. Nokkrir aðilar trompuðust yfir skrifum mínum hér í gærkvöldi þar sem ég talaði fallega um þjóðsönginn og fannst greinilega allt í lagi að senda mér tölvupóst þar sem viðkomandi, sumir nafnlausir, láta að því liggja að ég væri að vega að tjáningar- og málfrelsi með ummælum mínum um lögbrot Spaugstofunnar. Þar sem þeir sem þetta sögðu geta ekki annað en sent nafnlausa pósta eru orð þeirra með öllu marklaus. Geti fólk ekki sett nafn sitt með svona ómerkilegheitum er skoðunin dauð, sama gildir á þessum vef hér!

Mér finnst að ég hafi svosem sagt allt það sem mér finnst um þetta. Hef fengið lífleg viðbrögð. Þetta hefur verið málefnalegt að mestu hér, það er sjálfsagt að fólk hafi skoðanir á þessu máli og segi það sem því finnst. Það gildir það sama um aðra, rétt eins og mig. Á mínum vef segi ég það sem mér finnst. Ef ég ætlaði að vera sammála öllum væri þessi vefur þurr og leiðinlegur. Finnst mjög gott að fá komment, eina skilyrðið sem ég hef sett er að þar skrifi fólk hér á kerfinu, allavega með nafni og vitað sé hver skrifi. Mér finnst það ekki óeðlileg krafa. Hafi menn skoðun hljóta þeir að geta sett nafnið með því. Eðlileg grundvallarregla.

Eftir stendur að lögin voru brotin með mjög áberandi hætti. Það deilir enginn um það. Refsiákvæði eru í þeim tilfellum tekin fram. Lögin eru mjög skýr og þarf ekki lagasérfræðinga til að sjá það allt saman. Í heildina skiptir því litlu hvað ég segi um þetta og eða aðrir þannig séð. Þetta mál er í höndum þeirra sem eiga að framfylgja lögunum. Mér fannst þó mikilvægt að segja mína skoðun, hika ekkert í þeim efnum. Bæði skrifa um lögbrotið sem slíkt og eins segja hvað mér finnst um þjóðsönginn. Það er heiðarlegt og gott, sé svo sannarlega ekki eftir því.

Það verður svo bara að sjá til hvað gerist í þessu máli er á hólminn kemur.

mbl.is Handtaka átti Spaugstofumenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spaugstofan brýtur lög - deilur um þjóðsönginn

Spaugstofan Það er ljóst að Spaugstofan braut lög um þjóðsöng lýðveldisins Íslands með grínatriði sínu í afmælisþætti sínum á laugardagskvöldið. Skiptar skoðanir hafa verið á þessu atriði. Skrifaði ég um þetta hér í gær og fékk fjölda kommenta og voru það lífleg skrif, bæði þeirra sem voru innilega sammála mér og þeirra sem fannst grínið allt í lagi.

3. gr. laga nr. 7/1983 um þjóðsöng Íslendinga hlýtur að teljast mjög skýr, en þar segir: "Þjóðsönginn skal ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upprunalegu gerð". Þá segir ennfremur í 6. gr. sömu laga: ,,Brot gegn ákvæðum laga þessara varða sektum eða [fangelsi allt að 2 árum]. Með mál út af slíkum brotum skal farið að hætti opinberra mála". Það er erfitt að líta öðruvísi á en að þetta atriði hafi brotið þessa þriðju grein.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist í þessu máli. Þar skiptir í raun litlu máli hvað mér eða Jóni og Gunnu úti í bæ finnist um þetta atriði, heldur það að um er að ræða brot á þessum löum sem skuli fara yfir með þeim hætti sem bær er. Fjallað var um þetta mál í hádegisfréttum Rásar 1 og þar kom fram að rísi ágreiningur um notkun þjóðsöngsins skeri forsætisráðherra úr um hann. Svo var auðvitað bent á það sem flestir ættu að vita að ekki er heimilt að nota þjóðsönginn á nokkurn hátt í viðskipta- eða auglýsingaskyni.

Þetta hlýtur að teljast prinsipp-mál í meðferð þjóðsöngsins. Ef engin meining er að baki refsiákvæðunum í þessari fyrrnefndu sjöttu grein í lögum um þjóðsönginn ætti að afnema þau. Það er alveg ljóst að eitt tilvik þar sem þjóðsöngurinn er notaður með öðrum hætti en tekið er fram í lögum um hann markar það hvernig tekið er á þeim. Að því leyti telst þetta visst prinsipp-mál auðvitað og fróðlegt að sjá hvað gerist í þeim efnum.

Kommentin hér í gær voru úr öllum áttum. Sérstaklega fannst mér ánægjulegt að sjá góð komment félaga míns og bloggvinar, Eyþórs Inga Jónssonar, organista hér við Akureyrarkirkju. Hann fór þar yfir sitt mat á þessu. Erum við mjög sammála í þeim efnum. Það má vel vera að mörgum hafi þótt húmorinn góður. Það er í mínum huga aukaatriði. Þetta snýst um virðingu við þjóðsönginn og það að um hann gilda lög.

Það má vel vera að einhverjum hafi þótt fyndið að snúa lofsöng séra Matthíasar upp á Alcan og áliðnaðinn, en lög eru lög þrátt fyrir það. Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu máli. En ég þakka enn og aftur kommentin hér í gær og þær skoðanir sem þar komu fram.

Fór Spaugstofan illa með þjóðsönginn?

Spaugstofan er orðin goðsögn í íslenskri sjónvarpssögu. Þeir eiga glæsilegan feril að baki. Þátturinn í gærkvöldi var þeirra 300. frá árinu 1989 - merkileg tímamót það. Var að enda við að horfa á þáttinn núna, enda var ég ekki heima í allt gærkvöld. Varð svolítið hissa yfir þessum merkilega þætti í sögu Spaugstofunnar. Það vakti athygli mína að þar var þjóðsöngurinn tekinn, skipt um texta og verið að grínast eitthvað.

Það má vel vera að einhverjir telji mig gamaldags þegar að ég segi þetta, en ég ætla þó að gera það samt. Mér finnst þjóðsöngurinn vera mun heilagri en svo að hann sé gerður að gamanmáli, honum breytt og tjaskað til vegna deilna um eitt dægurmálanna. Spaugstofan hefur annars aldrei verið feimin að stuða og segja sitt, kalla fram skiptar skoðanir og þora að gera grín að mönnum og málefnum.

Allir muna t.d. eftir því þegar að Spaugstofan gerði grín að kirkjunni fyrir áratug og var kærð fyrir klámtilburði af manni einum héðan frá Akureyri. Þeir hafa ekki farið í gegnum 300 þætti og tvo áratugi án þess að stuða. Enda erfitt að gera grín í gegnum svona langan tíma svo allir brosi og séu sáttir.

En það að grínast með þjóðsönginn vakti athygli í þessum þætti. Fannst þetta svona frekar stingandi, get ekki annað sagt. En það er eins og það er bara. Ekki hægt annað en segja sína skoðun á því. Fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða viðbrögð þetta kalli á í samfélaginu.


Undurfögur skýjahöll

Skýjahöll yfir Vík Ein mynd getur sagt meira en mörg orð í sjálfu sér - verið sjálfstæð frásögn með frétt. Enda er fréttaumfjöllun litlaus án mynda, blöðin væru þurr og slöpp án mynda og svipmikil fréttamynd í sjónvarpi af tímamótaviðburði gæti orðið eftirminnilegri en löng frásögn fréttamanns.

Sjálfur hef ég mjög gaman af myndum. Set oftast myndir með skrifunum hér, oft myndir sem segja stundum ekki síður meira en frásögnin. Það eru oft myndir sem vekja athygli lesandans áður en hann les skrifin. Þannig á það nefnilega að vera að mínu mati. Sterk mynd skiptir jú alltaf máli.

Þessi fréttamynd af skýjahöllinni í Vík í Mýrdal er virkilega falleg. Hún fangar athyglina allavega um leið, flott sjónarhorn og fullkomin veðurmynd. Enda ekki furða að hún væri verðlaunuð. Veðurmyndirnar eru ansi margar fallegar og það eru margir áhugaljósmyndararnir sem festa eftirminnileg augnablik í náttúrunni, augnablik veðurfarsins, á filmu. Það sást vel í ljósmyndasamkeppni Stöðvar 2 t.d. á síðasta ári.

mbl.is Skýjahöll yfir Vík í Mýrdal valin mynd ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband