Færsluflokkur: Dægurmál

Stórtíðindi að sunnan

Snjór á íslenskum vetri Stórtíðindi hafa borist að sunnan, sem setja stórt mark á fréttaumfjöllun fjölmiðlanna á hvíldardeginum sjálfum. Íslenskur vetur er hafinn í Reykjavík. Þar snjóar og fólk þarf víst að moka út bílana sína og á í erfiðleikum með að komast milli áfangastaða sinna. Athyglisvert að fylgjast með þessari umfjöllun.

Það er engu líkara en að snjór hafi aldrei fallið í Reykjavík í nóvember áður. Merkilegt að heyra af þessu. Hér á Akureyri höfum við kynnst íslenskum vetri vel síðustu dagana. Snjóað hefur heil ósköp og í gær var hér um 20 stiga frost. Algjör gaddur og ekta íslenskur vetur er það sem við okkur blasir hér þessa dagana. Einfaldara getur það varla orðið.

Fyrir mig sem hef mokað stéttina mína á hverjum degi síðustu viku og hef þurft að komast um í blindbyl og kalsatíð síðustu vikuna er merkilegt að fylgjast með stórtíðindunum að sunnan. Þær verða enn meira áberandi fyrir vikið. En svona er nú einu sinni ekta íslenskur vetur. Við vitum hvar við búum og við hverju er hægt að búast. Svo einfalt er það nú bara.

mbl.is Snjóþekja á Reykjavíkursvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akureyri fallegasti bærinn á landinu

Akureyri Það var ánægjulegt að sjá í Fréttablaðinu í gær að Akureyri hefði verið valinn fallegasti bær landsins í skoðanakönnun blaðsins. Akureyri hlaut 22,4% atkvæða þeirra sem þátt tóku í könnuninni og hlaut því mjög góða kosningu í efsta sætið. Hafnarfjörður, vinabær Akureyrar, varð svo í öðru sætinu. 

Við Akureyringar erum nú svo hrifnir af bænum okkar að þetta kemur okkur nú ekki á óvart, en þetta er fínn heiður auðvitað. Mér finnst ánægjulegt að sjá hversu miklu munar á Akureyri og Hafnarfirði miðað við allt. Skemmtilegast fannst mér að lesa rýni álitsgjafa blaðsins um könnunina, en sumir áttu erfitt með að leyna vonbrigðum sínum með að Akureyri hefði orðið fyrir valinu.

Útlit fyrir hörkufrost á morgun

Frost Það hefur verið heldur betur napurt hér fyrir norðan í dag. Hörkugaddur, á mannamáli sagt. Ekki er útlit fyrir annað í veðurkortunum. Það er jafnvel spáð tuttugu gráðum á morgun í innsveitum hér fyrir norðan. Það horfir jafnvel svo illa að frostið haldist alveg fram að mánaðarmótum. Við erum því að upplifa hörkuvetur, ekta íslenskt vetrarveður.

Mér finnst snjórinn og vetrartíðin núna minna mig einna helst á byrjun vetrar árið 1995. Þá snjóaði og snjóaði snemma að vetrinum og þetta var einn snjóþyngsti vetur í seinni tíð hér fyrir norðan. Það hefur allavega ekki gerst síðan að þetta byrji af jafnmiklum þunga og jafnsnemma og raun ber vitni nú. Þá horfðum við á stanslausa kuldatíð vikum saman og mikinn þunga í snjó. Ætla að vona að svo slæmt verði þetta ekki núna.

Það er ekki laust við að jólatilfinningin vaxi þó í manni við allan þennan snjó og kulda. Það eru nú aðeins fimm vikur til jóla og það styttist óðum í jólamánuðinn, aðventan hefst af krafti eftir hálfan mánuð. Þó að úti snjói og kuldagarrinn minni á sig nú boðar hann þó besta tíma ársins, sjálf jólin. Það verður nú gaman þegar að jólaljósin fara að kvikna á næstu tíu til tólf dögum og jólaljósin lýsa upp skammdegið, sem nú er búið að taka allt yfir.

mbl.is Kuldabolinn ekki á förum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Runólfur segir upp á Bifröst - Bryndís rektor

Runólfur Ágústsson Runólfur Ágústsson, rektor Háskólans á Bifröst, hefur beðist lausnar frá störfum frá 1. desember nk. Vindar hafa blásið um skólann síðustu daga vegna persónu Runólfs og fylkingar nemenda með og á móti rektor myndast með áberandi hætti í kastljósi fjölmiðla. Staðan var orðin óviðunandi og gat varla endað með öðruvísi hætti. En Runólfur hefur unnið þessum skóla mikið gagn og flestir virða þau verk, þó á móti hafi blásið og starfsferli hans sem rektors hafi lokið með frekar leiðinlegum hætti.

mynd Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor og fyrrum alþingismaður, hefur verið sett tímabundið sem rektor Háskólans á Bifröst frá 1. desember að telja. Mjög líklegt verður að teljast að Bryndís verði rektor og verði ráðin formlega til starfa síðar.

Bryndís var á síðasta ári ráðin til starfa að Bifröst sem forseti lagadeildarinnar þar. Þá lauk þingmannsferli hennar, en hún var alþingismaður Alþýðubandalagsins og Samfylkingarinnar á árunum 1995-2005 og var þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2001-2004.


mbl.is Bryndís Hlöðversdóttir tekur við sem rektor tímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hasar á Bifröst

Þórólfur Ágústsson Það er ekki hægt að segja annað en að háskólasamfélagið á Bifröst ólgi í illdeilum. Miðpunkturinn er Runólfur Ágústsson, rektor á Bifröst. Hann hefur nú verið kærður til siðanefndar skólans, m.a. fyrir ástarsamband sitt við einn nemanda Háskólans, ónæði af veisluhöldum á hans vegum og fleiri þætti. Ítarleg umfjöllun var um málið í báðum kvöldfréttatímum ljósvakamiðlanna og greinilegt að átök eru milli nemendanna og rektorsins.

Er ekki hægt að segja annað en að þetta mál allt sé hið dapurlegasta fyrir Háskólann á Bifröst, sem er einn öflugasti háskóli landsins. Runólfur boðaði í dag til fundar nemenda og starfsfólks til að kanna hvort hann nyti trausts til starfa sinna á Bifröst áfram. Meirihluti fundarmanna lýsti yfir stuðningi við rektorinn þar. Deilur eru nú um boðun fundarins og hvernig hann fór fram. Þar komu fram nemendur sem eru í fylkingum með og á móti Runólfi.

Þetta er vond staða fyrir þennan öfluga skóla og hlýtur að veikja hann. Þetta eru mjög viðkvæmar fréttir og þarna er greinileg ólga innan veggja. Andrúmsloft illinda boðar aldrei gott. Það verður varla á Bifröst frekar en öðrum stöðum. En fyrst og fremst vekja þessar hörðu deilur athygli, enda hefur Háskólinn á Bifröst haft á sér blæ krafts og sóknar í nýjar áttir. Þessi staða hlýtur að veikja allt grunnstarf þarna, sem er varla af hinu góða.

mbl.is Formaður nemendafélagsins á Bifröst lýsir óánægju með fund rektors
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlileg ákvörðun hjá Iceland Express

Akureyrarflugvöllur Iceland Express hefur nú tekið þá ákvörðun að hætta vetrarflugi frá Akureyri til útlanda. Þetta er leið ákvörðun en mjög skiljanleg að öllu tilliti. Þessar ferðir hafa verið mjög vinsælar hér en það hefur veikt stöðu þeirra verulega hvernig aðbúnaður hefur verið á Akureyrarflugvelli að vetrarlagi, en öllum er ljóst að þar er mikil nauðyn á að lengja flugbrautina og bæta skilyrði til flugs. Grunnforsenda er að lengja flugbrautina, bæta aðflugsskilyrði og grunnþætti flugs til Akureyrar.

Bæjaryfirvöld og fleiri aðilar hafa talað af krafti fyrir þessum þáttum, en fyrir daufum eyrum stjórnvalda sem draga lappirnar í málinu. Því hefur farið sem farið hefur. Mér finnst mikilvægt að þakka vel það sem vel er gert, öll metum við þetta flug milli Akureyrar og heimsborga mikils. Iceland Express hefur að mínu mati staðið sig mjög vel og fyrirtækið á heiður skilinn fyrir þá þjónustu sem það hefur veitt fólkinu á svæðinu. Þetta er því skiljanlegt að þau taki þessa ákvörðun út frá grunnforsendum mála. Það er enda mikilvægt að skrefið verði stigið til fulls og ráðist í endurbætur á vellinum.

Það er lykilatriði málsins. Beðið er eftir því að þessar endurbætur komi, enda eru þær forsendur þess að millilandaflug sé raunhæft á vetrarmánuðum í heildina litið.

mbl.is Eðlileg ákvörðun Iceland Express miðað við aðbúnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kyngir niður snjó á Akureyri

Akureyri Það er vetrarríki hér á Akureyri núna og hefur kyngt niður snjó hér í bænum í gær og í dag. Var einmitt að koma heim. Það er orðið þungfært um bæinn og nokkuð kóf. Það er því ekki hægt að segja annað en að veður séu válynd og ekki mikið ferðaveður. Ég er ekki einn þeirra sem er hrifinn af svona vetrarríki og er ekkert sérstaklega áfjáður í mikinn snjó. En þetta er ekta íslenskur vetur eins og hann verstur getur orðið, eins og maðurinn sagði. Ekkert við því að gera svosem.

Maður hugsar hinsvegar óneitanlega til jólanna í svona veðri. Ég er einmitt þessa dagana að vinna við að klára jólakortin. Ég bý þau til sjálfur þetta árið, eins og í fyrra. Ég ætla að skrifa á þau öll fyrir vikulok, svo að það sé frá. Svo tekur eitt og annað við sem eftir er af verkum fyrir jólin, en ég er langt kominn með þennan undirbúning. Ég er einn þeirra sem klárar grunnverkin í nóvember og nýt þess að eiga desember rólegan, við bókalestur og rólegheit. Þannig á desember að vera.

En hér snjóar og snjóar. Okkur mun ekki vanta áminningar um veturinn hér næstu dagana, svo mikið er nú alveg víst.

mbl.is Norðanbálviðri og ófærð norðanlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær skrif Egils Helgasonar um prófkjör

Egill Helgason Ég hef alla tíð haft lúmskt gaman af skrifum og pælingum Egils Helgasonar um stjórnmál. Í þætti sínum í gær flutti hann viðeigandi hugvekju um prófkjör. Dagarnir líða varla núna án þess að við fáum fréttir af því að þingmenn fái skell í prófkjörum og að menn eða konur komist í mjúka stóla (í öruggu sætunum) í steingráu húsi við Austurvöll.

Þetta er merkilegur tími í stjórnmálum og svolítið gaman að upplifa þetta allt. Ég hef það mikinn áhuga á stjórnmálum að mér leiðist ekki svona árstími, þrátt fyrir allt. En eru prófkjörin að stefna í rétta átt? Ég leyfi mér að efast stórlega um það. Peningahyggja prófkjöranna eru að verða ansi áberandi. Það fer enginn standandi orðið í gegnum prófkjör nema að vera þekkt andlit, hafa standandi veitingar á rándýrri kosningaskrifstofu allan daginn og vera með colgate-tannkremsbros.

Egill fjallar vel um þetta í hugvekju sinni. Þar segir m.a.

Allt hefur þetta yfirbragð lýðræðis, en er kannski ekkert sérlega lýðræðislegt. Og kemur að vissu leyti í staðinn fyrir að flokkar hafi stefnu. Prófkjörið er kannski eina alvöru lífsmarkið í flokknum. Þetta tekur líka óskaplegan tíma. Þingmaður er varla kominn í sæti sitt fyrr en hann er farinn að hugsa um prófkjör. Þar etur hann kappi við ætlaða samherja sína - fátt skapar meira hatur innan flokka en prófkjör.

Hannes Hólmsteinn sýknaður

Laxness (þriðja bindi HHG) Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, var í dag sýknaður af öllum kröfum Auðar Sveinsdóttur Laxness, ekkju Nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxness, en hún og dætur hennar hafa margoft talið að Halldór hefði brotið gegn höfundarrétti við ritun fyrsta bindis af þrem, sem kom út árið 2003, í röð ævisagna Hannesar um Laxness. Þetta er merkilegur dómur, sem vekur svo sannarlega athygli, en bækur Hannesar um Laxness hafa vakið mikla athygli, sérstaklega annað bindið sem var þeirra allra best.

Fannst mjög merkilegt að lesa dóminn í heild sinni er ég leit á mbl.is, en ég var að koma úr hressilegri fjögurra kílómetra göngu í Kjarnaskógi og gaf mér góðan tíma til að fara yfir þetta. Mér fannst bækur Hannesar um Laxness virkilega vel ritaðar og vandaðar. Mér fannst annað bindið algjört hnossgæti og las það með gríðarlegum áhuga jólin 2004. Á ég öll bindin svo að ég stefni að því að draga þær fram aftur fljótlega og lesa.

mbl.is Hannes Hólmsteinn sýknaður af bóta- og refsikröfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í jólin

Jól Það styttist óðum í jólin, notalegasta tíma ársins. Það er kominn nokkur jólafílingur í mig, eins og ávallt þegar að nóvember hefst. Hef alltaf verið mikill áhugamaður um jólin og ég byrja að plana þau snemma ávallt á hverju ári. Til dæmis er það ævinlega þannig hjá mér að ég skrifa öll jólakort í nóvember, þá kaupi ég þær jólagjafir sem ég gef, ef nokkrar eru undanskildar og ég skipulegg allt.

Desember er mánuður rólegheita hjá mér. Það hefur nær alltaf verið þannig. Ég vil nota aðventuna til að slappa af og hafa það rólegt, njóta góðra laga og stemmningarinnar sem fylgir þessari miklu hátíð. Ég nenni ekki að eyða mánuðinum í því geðveikislega stressi sem fylgir búðunum í desember, því miður. Ég nenni ekki að taka þátt í því og nota því nóvember til að klára það sem mikilvægast er. Það er langbest, trúið mér bara. Annars er ég varla einn um þetta. Ég mun skrifa á öll jólakort sem ég sendi, sem er allnokkur slatti, í næstu viku og allar gjafir nema tvær hafa þegar verið keyptar.

Ég á afmæli í desember, tveim dögum fyrir jól, svo ég kannast við stressið sem fylgir því að eiga afmæli svo til í aðdraganda jólanna. Það vandist skemmtilega vel, en ég hef alltaf vanið mig á það að geta slappað af á þessum afmælisdegi og liggja ekki í búðarrandi. Á ekki við mig. Því er svo gott að geta klárað allt í nóvember og notað desember til hugleiðingar um gildi jólanna, en ekki standandi ergelsis í verslunum Baugsfeðga.

Þessi tími er mun meira virði en það, að mínu mati. Mjög einfalt mál í mínum huga. Vonandi eigum við öll notalegan og ergelsislausan fyrripart desember framundan. Ég ætla allavega ekki að ergja mig í búðum á aðventunni og sérstaklega ekki eyða þorláksmessu hlaupandi í örvæntingu milli verslana eða morgni aðfangadags. Það á að nota nóvember í að klára svona hluti, að mestu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband