Færsluflokkur: Dægurmál
10.11.2006 | 01:45
Óvissa um framtíð Íslendingabókar á netinu
Óvissa er nú uppi um framtíð Íslendingabók, ættfræðigagnagrunns Íslenskrar erfðagreiningar og Friðriks Skúlasonar ehf, en þar eru upplýsingar um ættir allra Íslendinga sem heimildir eru til um. Vefurinn var opnaður í mars 2003 af Tómasi Inga Olrich, þáv. menntamálaráðherra, og hefur verið gríðarlega vinsæll.
Skv. fréttum í Mogganum er alls óvíst hvað verður um vefinn. Deilur munu vera uppi um framtíð vefsins og hvernig hann sé rekinn og haldið á málum. Þetta er afar leitt finnst mér. Ég hef notað Íslendingabók talsvert, enda er það virkilega vandaður og notalegur vefur sem skiptir okkur máli. Ég held að ég hafi öðlast áhuga á ættfræði í gegnum vefinn, en hann er jú eini ættfræðigrunnurinn í heiminum sem nær til heillar þjóðar. Við getum því rekið tengsl okkar á milli með auðveldum hætti.
ÍE setti grunninn saman í samstarfi við Friðrik Skúlason, með það að markmiði að nýta ættfræðiupplýsingarnar við erfðafræðirannsóknir fyrirtækisins og hefur ÍE staðið straum af meginkostnaði. Íslendingabók hefur nafn sitt frá merku fornriti, Íslendingabók Ara Fróða, en þar er saga Íslands rakin allt frá landnámi og fram á 12. öld. Fallegt heiti svo sannarlega. Ég vona að vefurinn haldi áfram, enda skiptir hann miklu máli.
![]() |
Óvissa um framtíð Íslendingabókar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2006 | 18:47
Nýtt bæjarmálavefrit á Akureyri
Við, áhugafólk um stjórnmálaumræðu hér á Akureyri, höfum nú stofnað þverpólitískt bæjarmálavefrit undir heitinu Pollurinn og verður það á slóðinni pollurinn.net. Ritstjórar vefritsins verða Helgi Vilberg, skólastjóri Myndlistaskólans, og Jón Ingi Cæsarsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður skipulagsnefndar Akureyrarbæjar.
Er stefnt að virkum og lifandi skrifum um bæjarmál og pólitík frá okkar sjónarhóli. Það var mér heiður að vera boðið að vera með í þessu verkefni og ætla ég mér að skrifa líflegar og góðar greinar um bæjarmál á þessum vef.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2006 | 14:12
Brjóstmynd af Davíð í Ráðhúsinu

Á þessum árum var Reykjavík kölluð Davíðsborg, sem var til vitnis um kraft Davíðs sem borgarstjóra og vinsældir hans. Í síðustu borgarstjórnarkosningunum sínum fékk Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Davíðs yfir 60% fylgi og 10 borgarfulltrúa af 15. Það var til marks um stöðu mála, þrátt fyrir að gríðarlega hefði verið að Davíð sótt í Ráðhúsmálinu og við byggingu Perlunnar. Þetta var tímabil öflugra framkvæmda, heldur betur.
Ég vona að Davíð muni einhverntíma rita ævisögu sína og fara t.d. yfir borgarstjóraferilinn og verkin sem hann vann þar. Hann hefur oft sagst aldrei rita ævisögu sína en ég vona að Davíð snúist hugur í þeim efnum. Hann hefur nefnilega verið lykilmaður í íslenskum stjórnmálum og hefur verið í miðpunkti þeirra um árabil og hann hefur upplifað marga lykilatburði baksviðs stjórnmálabaráttunnar á okkar dögum.
Þess má að lokum geta að Davíð var bæði borgarstjóri og forsætisráðherra í maí og júní 1991. Undir lokin var þó Jón G. Tómasson, borgarritari á þeim tíma, orðinn starfandi borgarstjóri, en eftirmaður Davíðs varð Markús Örn Antonsson.
![]() |
Davíð afhjúpaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2006 | 15:59
Harkalegt rifrildi um innflytjendamál
Ekki féllu þessi orð í kramið hjá þeim stöllum og veittust þær harkalega að Magnúsi Þór og Steinunn Valdís sagði skoðanir Magnúsar Þórs jaðra við rasisma. Þórhildur komst varla að til að tala fyrir tali Magnúsar Þórs sem talaði þær báðar í kaf með frekar ósmekklegum hætti og með hreinum ólíkindum að Egill Helgason skuli ekki hafa haft betri stjórn á þætti sínum en raun bar vitni. Þær tvær höfðu varla í við Magnús Þór sem samkjaftaði svo með ólíkindum var á að horfa. Rætt var um þessi mál eftir viðtal við Jón Magnússon, lögmann, en skoðanir hans á innflytjendamálum hafa verið umdeildar eftir grein hans í Blaðinu.
Mér fannst þetta merkilegar umræður. Ég tek undir skoðanir þær sem fjórði gesturinn í þættinum, Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra og prófkjörsframbjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, talaði fyrir. Hún horfði að mestu á rifrildi Magnúsar, Steinunnar og Þórhildar, en kom með mjög gott innlegg og málefnalegt. Er ég sammála henni um það.
En það var svo sannarlega show í Silfrinu í dag. Það er greinilegt að Magnús Þór bætir ekki fyrir málstað sínum með þeirri framkomu sem hann kom fram í þættinum, sem er sami gamli yfirgangurinn gegn öllum þeim sem ekki eru sammála honum. Bendi annars öllum á að smella á tengilinn hér að neðan og sjá þessar umræður í þættinum sem urðu heldur betur hvassyrtar í meira lagi.
Silfur Egils - rætt um innflytjendamál
![]() |
Steinunn Valdís segir ummæli Magnúsar Þórs bera keim af kynþáttahatri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.11.2006 | 01:01
Kvöldgestir Jónasar í 25 ár
Það eiga allir sína sögu að baki og koma úr ólíkum áttum. Jónas hefur byggt sér upp þann merka stíl að geta kafað ofan í sál viðmælandans og opna hana fyrir landsmönnum. Með sínum takti hefur Jónasi enda tekist að fá gestina sína til að tjá sig á einlægan og skemmtilegan hátt um lífið og tilveruna. Oft er skemmtilegast að hlusta á viðtöl við fólk sem er með öllu óþekkt en Jónas hefur fengið til sín þingmenn, verkamenn og allt þar á milli í rauninni. Þeir eru mjög ólíkir en segja sína sögu í rólegheitum með manni sem kann að finna taktinn í samskiptum við þá og jafnvel sýna okkur aðra hlið á þeim.
Í vikunni var Jónas gestur í morgunþætti Gests Einars og Hrafnhildar á Rás 2 og ræddu um þáttinn og vinnuna á bakvið hann í góðu viðtali. Fyrsti gestur Jónasar í fyrsta þættinum þann 30. október 1981 var sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir, fyrsta konan í prestsembætti hérlendis. Í kvöld ræddi hann aftur við Auði Eir 25 árum síðar. Hlustaði á viðtalið sem var innihaldsríkt og gott, eins og venjulega. Vil óska Jónasi til hamingju með afmæli þáttanna og vona að hann verði lengi að enn, þó aldurinn færist vissulega yfir hann, eins og alla aðra.
Þess má að lokum geta að Jónas samdi fallegasta lagið sem Hljómsveit Ingimars Eydals flutti á öllum sínum glæsilega ferli, Vor í Vaglaskógi. Algjör perla, allavega í huga okkar norðanmanna.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2006 | 15:23
Hasar á Lækjartorgi - bjórsala stöðvuð
Hasar var á Lækjartorgi í dag þegar að bjórsala Frjálshyggjufélagsins var stöðvuð þar. Voru liðsmenn félagsins handteknir þegar þeir reyndu að selja bjórinn á svæðinu. Vildu þeir með þessu mótmæla einkasölu ríkisins á áfengi. Þeir vilja að hver sem er geti flutt inn og selt áfengi og selt í almennar verslanir, ef svo ber undir fyrir einkaaðila. Mótmælin fengu því frekar drastískan endi.
Mun Sölvi Tryggvason, fréttamaður NFS, hafa keypt fyrsta bjórinn af frjálshyggjumönnum. Var sá bjór gerður upptækur og lögregla gerði Sölva grein fyrir því að hann yrði kallaður sem vitni í málinu. Þetta eru harkaleg viðbrögð. Svosem eitthvað sem búist var við, en samt ansi drastískt. Fyrir nokkrum árum reyndu Heimdellingar að selja bjór á Ingólfstorgi og fékk það svipaðan endi en þetta virðist mun harkalegra en það var.
Ég styð málstað frjálshyggjumanna og tel rétt að stokka hlutina upp. Hvort rétt hafi verið að reyna að selja bjór með þessum hætti má eflaust deila víða um. Ég vil allavega að sala ríkisins á áfengi verði afnumin og einkaaðilar fái rétt til að selja áfengi. Þetta er partur af liðnum tímum og með ólíkindum að því hafi ekki enn verið breytt.
![]() |
Komið í veg fyrir sölu á áfengi á Lækjartorgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.11.2006 | 21:29
Gott viðtal við Grazynu Maríu
Pólski hjúkrunarfræðingurinn Grazyna María Okuniewska telst einn af táknrænu sigurvegurum prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um síðustu helgi. Hún varð vissulega ekki í efstu sætunum, en það má þó telja að margir hafi orðið nokkuð hissa að hún skyldi verða í tólfta sætinu í prófkjörinu og vera nærri því að fá bindandi kosningu. Hún verður í baráttusæti, sjötta sætinu, í öðru Reykjavíkurkjördæmanna að vori. Skv. skoðanakönnunum núna á hún möguleika á þingsæti.
Í Íslandi í dag í kvöld ræddi Sölvi Tryggvason við Grazynu Maríu í góðu viðtali og fór yfir málin með henni, t.d. úrslit prófkjörsins og verkefnin framundan. Það er ekki hægt að segja annað en að hún komi virkilega vel fyrir og það hlýtur að teljast sterkur leikur hjá sjálfstæðismönnum að velja hana í baráttusæti á framboðslista og tryggja henni góða kosningu. Ég er sannfærður um það að hún verður öflugur liðsmaður í kosningabaráttunni hjá flokknum í borginni að vori.
Grazyna María þótti ná góðum árangri, þrátt fyrir að vera ekki með standandi kaffi og kruðerí allan daginn á kosningaskrifstofu, auglýsa lítið, vera ekki með dýra vefsíðu og hringja út og suður. Hún var t.d. bara með einfalda og ósköp venjulega blogspot-kosningavefsíðu.
Fari svo að hún kæmist á þing yrði hún fyrsti innflytjandinn sem tæki sæti á Alþingi Íslendinga. Hvernig sem fer má telja öruggt að hún fari á þing á næsta kjörtímabili, í versta falli sem varaþingmaður.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2006 | 15:15
Snarpur jarðskjálfti
Það varð heldur betur snarpur jarðskjálfti í dag. Hann varð suðaustan af Flatey á Skjálfanda laust fyrir klukkan tvö. Ég fór í klippingu klukkan hálftvö og var nýlega kominn aftur við tölvuna er ég fann skjálfta. Taldi fyrst að þetta væri eitthvað sem ég hefði bara fundið en væri ekki neitt sérstakt. Hefur greinilega verið skjálftinn sjálfur, enda er ég að sjá fréttir um þetta núna á fréttavef mbl.is
![]() |
Allsnarpur jarðskjálfti suðaustur af Flatey |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.10.2006 | 18:37
Hvalveiðar Íslendinga studdar hjá UNR
Mikið gleðiefni er að Norðurlandaráðsþing æskunnar, Ungdommens Nordiske Råd (UNR), sem stendur þessa dagana í Kaupmannahöfn, hafi í atkvæðagreiðslu lýst yfir stuðningi við hvalveiðar. Ég var áðan að hringja í Pál Heimisson, fulltrúa okkar á fundinum af hálfu SUS, um þessi mál og rabba við hann um þingið. Þetta er mikill sigur fyrir okkur. Palli lagði fram tillöguna á þinginu og hún fékk samþykki fundarmanna.
Á móti kemur að finnskir græningjar lögðu fram tillögu sem gerði ráð fyrir því að banna hvalveiðar og allt að því að fordæma okkar veiðar. Hún var felld en okkar tillaga samþykkt, svo að það er ekki hægt annað en túlka stöðu mála á þinginu en sem afgerandi sigur okkar. Það er mikilvægt að Palli skyldi tala fyrir hvalveiðunum á þinginu og greinilegt að okkar afstaða hitti í mark. Ég tel að þessi atkvæðagreiðsla segi allt sem segja þarf. Sérstaklega finnst mér þetta gott veganesti fyrir okkur hér heima.
Norðurlandaráðsþing æskunnar er haldið á hverju ári í aðdraganda Norðurlandaráðsþings, en það hefst í Kaupmannahöfn á morgun. Á þessum þingum eru lagðar fram ályktanir og staða helstu mála rædd og farið yfir stjórnmálin á Norðurlandasvæðinu. Það er greinilega eitthvað í gangi milli okkar Finna, meira en þetta, enda bítast nú Halldór Ásgrímsson og Jan-Eric Enestam um framkvæmdastjórastöðu í Norrænu ráðherranefndinni. Eins og fyrr segir er nær öruggt að Halldór fær stöðuna.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.10.2006 | 15:52
Hvalveiðarnar ganga vel
Hvalveiðarnar virðast ganga vel. Nú hefur fimmta langreyðin verið veidd, en alls er kvóti upp á að veiða til manneldis níu slíkar, en hinsvegar 30 hrefnur. Það voru mikil tímamót þegar að veiðarnar hófust fyrr í þessum mánuði, en þá voru tveir áratugir liðnir frá því að hvalur var veiddur í atvinnuskyni hér við land. Langreyður var síðast veidd hér við land árið 1989, þá í vísindaskyni, en síðast í atvinnuskyni á árinu 1985.
Það vakti mikla athygli að Halldór Blöndal, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi, skyldi er fyrsti hvalurinn kom í hvalstöðina í Hvalfirði skera hann. Halldór gerði það með mjög fagmannlegum hætti, en hann vann á fimmtán vertíðum í hvalstöðinni, áður en hann varð þingmaður, á áttunda áratugnum og er því öllu vanur í þessum efnum. Mér fannst þetta vel gert hjá Halldóri og hef víða heyrt fólk tala um að þetta hafi verið vel til fundið.
Spaugstofan gerði nokkuð grín af þessu með sínum skemmtilega hætti um helgina. Þar var Pálmi Gestsson í hlutverki Halldórs og þetta sett allt í fyndið samhengi. Þar flutti Pálmi í gervi Halldórs kostulega fyndna "stöku". Alveg frábærir félagarnir í Spaugstofunni eins og venjulega.
![]() |
Fimmti hvalurinn á leið í land |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)