Færsluflokkur: Dægurmál
11.10.2006 | 15:11
Svimandi verðmunur milli Íslands og Danmerkur

Það var sláandi að sjá verðmuninn milli verslunar í Danmörku og hér í Hagkaupsverslun heima á fróni sem fram kom í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi. Sérstaklega er með ólíkindum að sjá muninn t.d. á landbúnaðarafurðum, t.d. kjöt- og mjólkurvörum. Þeir Sölvi Tryggvason og Sighvatur Jónsson eiga hrós skilið fyrir vandaða og góða umfjöllun, sem eflaust fékk marga til að hugsa málið verulega. Þetta var vel gert hjá þeim og umfjöllunin vakti vissulega athygli þeirra sem fara í verslun á hverjum degi og kaupa nauðsynjavörur sínar sláandi hærra verði en gengur og gerist á Norðurlöndunum.
Framundan eru tímamót með lækkun matarskattsins, sem er mikið gleðiefni, en betur má þó ef duga skal. Lít á þetta sem fyrsta stóra skrefið á nokkurra þrepa vegferð til að laga matarverð til þess sem eðlilegt á að teljast. Það er þörf á að ganga lengra, en öll metum við það skref sem nú hefur verið stigið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.10.2006 | 23:39
Snjóar á Akureyri

Fyrsti snjórinn hér á Akureyri á þessu hausti féll til jarðar í dag. Það fór að snjóa um sexleytið og það var svolítið hressileg snjókoma. Er líða tók á kvöldið snjóaði meira og svo fór að þungfært varð fyrir vanbúna bíla á ferð um bæinn. Er nú kominn hér fimm til sjö cm jafnfallinn snjór. Í fyrradag var ég að skrifa hér um haustblæinn og sagði að vonandi færi nú ekki að snjóa alveg strax. Ekki varð ég sannspár þar, var betri í því að spá um prófkjörs- og framboðsmál okkar sjálfstæðismanna í kjördæminu hinsvegar. Ætla þó að vona að þetta verði skammvinnt hausthret sem yfir okkur dynur nú hérna norðan heiða.
![]() |
Þungfært innanbæjar á Akureyri vegna snjókomu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2006 | 18:24
Álver á Reyðarfirði mannað Íslendingum
Það var gleðiefni að sjá frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi um álverið á Reyðarfirði. Það er mikil ásókn í störfin í álverinu og munu rúmlega 1500 umsóknir, langflestar frá Íslendingum, hafa borist nú þegar í um rúmlega 400 störf. Er það vilji Alcoa að þar verði náð jöfnum kynjahlutföllum í starfsmannahaldinu og hafa nú þegar þriðjungur sem þegar hafa verið ráðnir verið konur. Til að undirstrika viljann á að fá konur til starfa var Alcoa í dag með kvennadag á vegum fyrirtækisins. Mikill fjöldi kvenna þáði boðið. Fóru þær í skoðanaferðir á vinnusvæðið og boðið síðan í fyrirtækjakynningu í veitingasal starfsmannaþorpsins. Flott framtak þetta.
Það er ánægjulegt að svo margir Íslendingar sæki austur til starfa í álverið. Í fréttunum í gær var rætt við fólk frá t.d. Vestmannaeyjum og Húsavík sem hafa flust austur í Fjarðabyggð til starfa við þetta verkefni. Það er gott að sjá þessa þróun og einkum það að álverið verður mannað Íslendingum. Þær fortöluraddir höfðu heyrst hjá andstæðingum álversins fyrir upphaf framkvæmda að þar yrðu útlendingar við störf, fólk fyrir austan myndi ekki vilja vinna þar og fólk myndi ekki vilja flytja austur til starfa þar. Annað er komið á daginn og þessi frétt staðfestir vel stöðu mála og það að Íslendingar vilja sækja þangað til verka í vel launuð og góð störf.
Það er gaman að sjá hversu mikill kraftur er í fólki fyrir austan og það er gott hversu mjög byggðakjarnarnir í Fjarðabyggð hafa eflst eftir upphaf þessara framkvæmda. Þetta sést auðvitað best á Reyðarfirði, sem er nú svo sannarlega orðinn miðpunktur Austurlands.
![]() |
Konur fjölmenntu á kvennadegi Alcoa Fjarðaáls |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2006 | 11:58
Gönguferð í laufvindunum

Var að koma heim úr gönguferð. Nú er haustið endanlega að taka yfir allt hér á Akureyri. Það var notalegt að skella sér út í göngu og fylgjast með veðrinu á þessum sunnudagsmorgni. Amma mín kallaði alltaf haustvindana sem eru svo áberandi á þessum tíma ársins því fallega nafni, Laufvinda. Skammt undan er veturinn, en ég ætla þó að vona að hann verði ekki áberandi mjög með sinni kuldatíð fyrr en þá bara skömmu fyrir jólin.
Nú taka við hefðbundin sunnudagsverk en fyrst af öllu ætla ég þó að horfa á Silfur Egils. Nú er Egill kominn aftur á sinn stað í hádeginu og ég ætla mér að fylgjast með þjóðmálaumræðunni hjá honum. Nú eru prófkjörin framundan og mikil spenna er í stjórnmálunum þessar vikurnar og aðalslagurinn er jú enn eftir. Því nóg um að tala. Treysti Agli til að vera með líflega og góða umfjöllun á þessum spennutíma stjórnmálanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2006 | 03:02
Umdeild gerviheimildarmynd um George W. Bush
Það leikur enginn vafi á því að George W. Bush er einn umdeildasti forsetinn í sögu Bandaríkjanna. Hann hefur þó sigrað tvær forsetakosningar með sögulegum hætti, þær fyrri með naumasta hætti í sögu kjörmannasamkundunnar í forsetakjöri í Bandaríkjunum (fékk færri atkvæði en Al Gore) og átti í sögulegum lagadeilum fyrir dómstólum við keppinaut sinn í tæpa 40 daga eftir kjördag, og í þeim seinni varð hann fyrsti forseti Bandaríkjanna frá 1988 til að hljóta meirihluta greiddra atkvæða. Nú eru þáttaskil framundan á stjórnmálaferli hans - síðustu kosningarnar sem hann tekur þátt í verða til þingdeildanna í nóvember. Hann getur ekki farið fram í forsetakjörinu 2008.
Eitt helsta umræðuefnið vestanhafs síðustu mánuðina hefur verið umdeild gerviheimildarmynd, sem ber heitið Dauði forseta, Death of a President. Er þar lýst umdeildri og fyrirfram markaðri sögulegri atburðarás á bakvið morð á forseta Bandaríkjanna. Það er vissulega ekki nýtt viðfangsefni eða nýr raunveruleiki. Fjórir forsetar Bandaríkjanna hafa verið myrtir, þeir Abraham Lincoln, 16. forseti Bandaríkjanna, árið 1865, James Garfield, 20. forseti Bandaríkjanna, árið 1881, William McKinley, 25. forseti Bandaríkjanna, árið 1901 og John F. Kennedy, 35. forseti Bandaríkjanna, árið 1963. Auk þess hefur andlát forseta oft orðið umfjöllunarefni í skáldskaparverkum og kvikmyndum.
Það sem er frábrugðið þessu öllu í tilfelli fyrrnefndrar myndar er að lýst er morði á George W. Bush sem gerast á í Chicago á árinu 2007 og framhaldinu sem við tekur eftir lát forsetans er Dick Cheney, varaforseti, á að taka við völdum sem 44. forseti Bandaríkjanna. Um er að ræða afar kalt umfjöllunarefni og verið er með frekar lágkúrulegum hætti að leika sér að sögunni. Það virðist skv. fréttum ganga erfiðlega fyrir Newmarket Films-fyrirtækið, sem sér um dreifingu á myndinni, að koma henni í ýmis stærstu kvikmyndahús í Bandaríkjunum. Myndin er gríðarlega umdeild, af skiljanlegum ástæðum, og við blasir að hún stuðar marga landsmenn.
Það telst vart annað en lágkúra að uppdiktuð sé saga um morð á forseta sem er lifandi og beitt þeim brögðum sem virðist gert í þessu tilfelli. Blandað er saman í myndinni raunverulegu fréttaefni og tilbúnu svo úr verður saga sem virðist raunveruleg en er það auðvitað ekki. Það er alveg eðlilegt að fólk hafi ólíkar skoðanir á verkum og stjórnmálaskoðunum Bush forseta, en þessi mynd gengur yfir öll eðlileg mörk og því vart undrunarefni að ekki gangi vel að sýna hana í kvikmyndahúsum vestan hafs.
![]() |
Neita að sýna mynd um morð á George W. Bush |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2006 | 14:44
Ungir framsóknarmenn minnast Alfreðs
Nú hafa ungir framsóknarmenn í Reykjavík suður skírt félagið sitt í höfuðið á Alfreð Þorsteinssyni, sem var í áraraðir borgarfulltrúi framsóknarmanna í Reykjavík. Finnst þetta svolítið fyndin persónudýrkun sem felst í því að nefna ungliða- og flokksfélög eftir mönnum innan flokksins. Hvað yrði t.d. sagt ef að ungliðafélag sjálfstæðismanna einhversstaðar úti á landi myndi skíra sig Davíð í höfuðið á Davíð Oddssyni, seðlabankastjóra og fyrrum forsætisráðherra. Ansi er ég nú hræddur um að viðkomandi ungliðar fengju það í hausinn einhversstaðar frá að um væri að ræða hlægilega persónudýrkun á einum stjórnmálamanni.
Blessunarlega erum við ungir sjálfstæðismenn þannig gerðir að við veljum sígild og góð nöfn af ýmsu tagi, utan stjórnmála, til að velja á félögin okkar. Það má alltaf heiðra fyrrum stjórnmálamenn með ýmsum hætti en að nefna félögin eftir þeim er ekki góðráð, tel ég. Ég geri mér fulla grein fyrir að Alfreð er framsóknarmönnum í Reykjavík eftirminnilegur. Hann sat þó ekki í borgarstjórn í tólf ár bara í nafni framsóknarmanna, heldur í samtryggðu umboði krata, komma og rauðsokka. Hann hafði víðtækt umboð í þessu samkrulli sem R-listinn var. Satt best að segja er Alfreð eftirminnilegur fyrir að tryggja Framsókn mikil völd og hans verður eflaust minnst þannig.
En þessi nafngift vekur vissulega athygli, enda þekkist það ekki í flokkum að þar séu félög nefnd eftir leiðtogum hvað þá borgarleiðtogum. Enda eru svo margar aðrar leiðir til að nefna félög. Mér finnst þetta frekar hallærislegt og undrast nafngiftina. En ungir framsóknarmenn ráða sínum leiðum til að ná athygli. Það verður fyndið að fylgjast með verkum "Alfreðs" á vettvangi stjórnmála í vetur meðan að fyrirmyndin vinnur við hátæknisjúkrahúsið. Allir vita hversu vel honum gekk með Orkuveituna og hallargarðurinn er "gott" dæmi um það.
![]() |
Alfreð fagnar frumvarpi um endurgreiðslur til kvikmyndagerðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.10.2006 | 13:42
Framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng hafnar
Það var mikill gleðidagur á Siglufirði á laugardaginn. Þá tendraði Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, fyrstu sprenginguna við Héðinsfjarðargöng. Það er löng barátta að baki hjá okkur Norðlendingum fyrir þessum göngum. Sú barátta var í senn mörkuð bæði af vonbrigðum og áfangasigrum, sem færðu okkur þó sífellt nær lokatakmarkinu. Nú er málið í höfn. Því miður gat ég ekki verið viðstaddur þessa athöfn á Siglufirði , en ég á að hluta ættir mínar að rekja þangað og hef því alla tíð haft taugar þangað, en það er mikil gleði hér með að þetta mál sé nú tryggt og framkvæmdir hafnar.
Göngin verða mikil og öflug samgöngubót fyrir alla hér á þessu svæði. Þau bæði styrkja og treysta mannlífið og byggðina alla hér. Allar forsendur mála hér breytast með tilkomu Héðinsfjarðarganga á næstu árum. Með þeim verður svæðið hér ein heild. Nú þegar hafa Siglufjörður og Ólafsfjörður sameinast í eitt sveitarfélag. Var ég mjög ósáttur við frestun framkvæmda við göngin árið 2003 og andmælti þeirri ákvörðun mjög. Við hér á þessu svæði vorum vonsvikin og slegin yfir þeirri meðferð strax í kjölfar kosninga, þar sem sömu ráðherrar og stöðvuðu málið höfðu lofað því í kosningunum.
Það er alkunn staðreynd að til er fjöldi fólks sem er andsnúið því að göng komi þarna til sögunnar og tengi Siglufjörð við Eyjafjarðarsvæðið og verði með því öflugur hluti af Norðausturkjördæmi og nái samgöngulegri tengingu við svæðið. Það er eitthvað sem er óþarfi að fara yfir. Það er þó gæfa málsins að fulltrúar allra flokka hafa stutt hana, sem er gleðiefni. Það er mikilvægt að við höfum nú náð þessum áfanga og með því komi góð samgöngutenging til Siglufjarðar, enda má ekki gleymast að stór þáttur þess að Siglufjörður verði afgerandi þáttur kjördæmisins sé að þeim séu tryggðar mannsæmandi samgöngur til Eyjafjarðar.
Að mínu mati eru þessi göng, þessar framkvæmdir, hagsmunamál fyrir okkur öll og mikilvægt að þau komi. Það styrkir allt svæðið hér. Því gleðjumst við öll hér að baráttunni sé lokið og framkvæmdir hafnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.9.2006 | 23:20
Hálslón verður að veruleika
Það eru tíðindamiklir dagar fyrir austan núna undir lok þessarar viku. Hálslón er orðið að veruleika - það er tekið að myndast. Nú ætti flestum að vera orðið ljóst að fátt getur breytt því að virkjun við Kárahnjúka fari af stað innan árs. Veruleikinn í þessu máli ætti allavega að vera öllum orðinn ljós núna. Hálslón nálgast núorðið stærð Elliðavatns. Stöð 2 greindi frá því í kvöld að 1,2 ferkílómetrar lands væru þegar komnir á kaf í lónið. Þetta er því mjög einfalt mál fyrir alla sem líta raunsætt á málið. Það verður ekki aftur snúið.
Það var kostulegt að sjá suma einstaklinga koma í fjölmiðla og reyna að telja öllum andstæðingum virkjunarinnar trú um að hægt væri að hætta við. Það var mótmælt á þeirri stundu sem Jökla var að líða undir lok og lónið tók að myndast. Það sem merkilegast er að sumt fólk viti ekki að allar ákvarðanir þessa máls voru teknar fyrir nokkrum árum. Það voru þrír stjórnmálaflokkar á Alþingi sem samþykktu þetta mál, þingmenn innan beggja stjórnarflokkanna og stærsta stjórnarandstöðuflokksins.
Um er að ræða löglegt ferli og framkvæmd sem mikill meirihluti þingmanna löggjafarþingsins samþykkti. Merkilegast er að sjá flótta Samfylkingarinnar frá þessu máli. Aðeins tveir þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði gegn virkjuninni á Alþingi árið 2002, 12 þeirra greiddu atkvæði með virkjuninni en þrír þeirra voru fjarstaddir. Það var öll andstaðan við málið. Það er því mjög erfitt fyrir Samfylkinguna að fara í felulitina. Ofan á allt annað studdi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir virkjunina í borgarstjórn á lokadögum sínum sem borgarstjóri í janúar 2003.
Ómar Ragnarsson er fyrir austan og berst lokabaráttunni fyrir því að aftur verði snúið. Flestir sem líta raunsætt á málið úr fjarlægðinni sem okkur býðst horfandi á sjónvarps- og tölvuskerminn við að sjá fréttir að austan sjá hvert stefnir. Ómar er að berjast fyrir sínum hugsjónum. Það er stórundarlegt að hann skyldi ekki berjast fyrir sínum skoðunum allt frá upphafi en reyndi sem fréttamaður að vera hlutlaus til fjölda ára. Þetta á eftir að verða viss blettur á hans hlið þegar að frá líður tel ég, enda á hver sá sem hefur skoðun að láta hana í ljósi.
En fyrir austan er ekki aftur snúið. Það blasir við öllum sem líta á málið og gera sér grein fyrir því að það sem er þar að gerast núna er vegna ákvarðana fyrir nokkrum árum. Þær hafa löngu verið teknar og ættu ekki að koma neinum hugsandi einstaklingi að óvörum.
![]() |
Hálslón myndast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.9.2006 | 19:36
Rudolph Giuliani á Íslandi

Var að enda við að horfa á gott viðtal félaga míns, Guðfinns Sigurvinssonar, við Rudolph Giuliani, fyrrum borgarstjóra í New York í kvöldfréttum Sjónvarpsins. Giuliani er nú staddur á landinu í boði forseta Íslands. Hann var í dag meðal ræðumanna á ráðstefnu í tilefni af 100 ára afmæli Símans, sem bar heitið Leiðtogar til framtíðar. Giuliani var borgarstjóri í New York á árunum 1994-2002. Hann var umdeildur sem borgarstjóri en öðlaðist heimshylli á örlagatímum á þriðjudeginum 11. september 2001 þegar að hryðjuverkamenn felldu tvíburaturnana með því að ræna farþegaflugvélum í innanlandsflugi.
Það var eiginlega ævintýralegt að fylgjast með Giuliani þessa septemberdaga fyrir fimm árum. Hann tók forystuna og frumkvæðið í málefnum borgarinnar með röggsemi. Hann gerði allt rétt og steig ekki feilspor á örlagatímum. Það var aðdáunarvert að fylgjast með honum þessa daga þegar að bandaríska þjóðarsálin skalf og íbúar í New York urðu fyrir mesta áfalli sinnar löngu borgarsögu. Það er varla undrunarefni að Giuliani sé nú nefndur sem forsetaefni í Repúblikanaflokknum árið 2008 þegar að George W. Bush lætur af forsetaembættinu eftir átta ára forsetaferil. Ég tel að hann yrði mjög gott forsetaefni fyrir repúblikana.
Það er gleðiefni að Giuliani útilokaði ekki forsetaframboð 2008 í viðtalinu við Guffa. Ég held að hann ætti að skella sér í framboð. Hann yrði flottur eftirmaður Bush í Hvíta húsinu. Rudolph Giuliani ritaði fyrir nokkrum árum bókina Leadership, virkilega vel skrifuð og vönduð bók. Ég hvet alla til að lesa þessa bók, sem það hafa ekki gert nú þegar.
![]() |
Giuliani útilokar ekki forsetaframboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2006 | 02:36
Ljósin slökkt í kvöldrökkrinu í Reykjavík

Heillandi að sjá myndirnar af kvöldrökkrinu í Reykjavík nú í kvöld, þegar að öll ljós voru slökkt. Þetta var góð hugmynd og mjög skemmtilegt að sjá borgina í slíku myrkri. Mjög óvenjuleg en tignarleg sjón. Það var ekkert um svona kvöldrökkur hér á Akureyri í takt við það sem var í Reykjavík, en þetta var gert út á Dalvík, að því er mér skilst, og á nokkrum stöðum fleirum. Mér skilst reyndar að stjörnuljóminn hafi ekki notið sín, en samt sem áður var þetta stórmerkileg kvöldstund og virkilega áhugavert að sjá þetta gerast í tíufréttunum í kvöld.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)