Færsluflokkur: Dægurmál

Geðveiki harðstjórinn í Amstetten

Josef Fritzl Mjög undarlegur er sá málstaður geðveika harðstjórans í Amstetten, Josef Fritzl, að hann eigi að sleppa við að taka út fangelsisrefsingu vegna á ógeðslegrar meðferðar á dóttur sinni og börnum hennar vegna þess eins að hann sé geðveikur. Eru það virkilega tíðindi í málinu? Öll verk hans síðasta hálfan þriðja áratuginn sýna og sanna að maðurinn var viti sínu fjær, hreinlega djöfull í mannsmynd.

Eftir því sem meira er fjallað um málið verður óhugur almennings meiri og spurt er hvernig nokkur maður gat komið fram við afkomendur sína með svo djöfullegum hætti. Lýsingarnar á því hvernig hann gat spunnið verk sín áfram allan þennan tíma eru í senn sorglegar og ógnvekjandi. Sá maður sem getur beitt fólk af eigin holdi og blóði svo ógeðslegri meðferð og lýst er í þessari frétt er auðvitað fjarri því að vera heill á geði og væntanlega átti heldur enginn von á því.

Atriðin sem fjallað er um þessa dagana um fyrri afbrot Fritzl vekja upp spurningar um af hverju yfirvöld hafi ekki grunað hann um að loka dótturina og börn hennar af í kjallaranum. Einkum vegna þess að hann var dæmdur kynferðisafbrotamaður og þekktur ofstopamaður. Stórundarlegt er að engar viðvörunarbjöllur skyldu klingja hjá yfirvöldum öll þessi ár. Aðstæður á sjálfu heimilinu voru ekki kannaðar vel þegar að dóttirin hvarf og ekki heldur, eins undarlegt og það hljómar, þegar að barnabörnunum fjölgaði á heimilinu.

Finnst þetta mál, eftir því sem meira kemur í ljós, vera áfellisdómur yfir þeim sem rannsökuðu málið og áttu að kveikja á perunni vegna veigamikilla staðreynda um Fritzl og heimilisaðstæður hans, auk þess karaktereinkenni hans og fyrri afbrot. Þessi djöfull í mannsmynd mun vonandi hljóta makleg málagjöld að lokum.

mbl.is Segir Fritzl ósakhæfan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegt mál á Selfossi - áfall fyrir þjóðkirkjuna

Séra Gunnar BjörnssonKynferðisbrotamál séra Gunnars Björnssonar, sóknarprests á Selfossi, er mikið áfall fyrir þjóðkirkjuna og eðlilega eru sóknarbörn á hans starfssvæði sem og almenningur allur sleginn yfir þessu máli. Hvernig sem aðstæður eru í málinu er verulega sorglegt mál og mikilvægt að fá vel fram málsatvik og upplýsa málið í rannsókn.

Fólk sem ég þekki á Selfossi og hef rætt við um þetta mál eru öll sammála um að sóknarbörn þar séu mjög slegin vegna málsins og allir séu eitt spurningamerki yfir því hversu alvarlegt málið er og hversu víðtæk þessi brot séu sem slúðrað er um og hefur verið kært fyrir. Mikilvægt er að þetta mál sé opinberað og farið yfir alla þætti þess, en ekki þaggað niður og því er umræðan um þetta mál þörf og eðlilegt að fólk spyrji sig um málsatvik og hvort presturinn hafi brotið af sér.

Ætla ekki að dæma séra Gunnar áður en rannsókn hefur lokið, en hvernig sem staða mála er, er alveg ljóst að málið er skaðlegt fyrir prestinn og sérstaklega er eðlilegt að hugsa til þeirra stelpna sem hafa kært. Allt er þetta mál hið sorglegasta en ekki er rétt að fella þyngstu dómana á þessu stigi. Dómstóll götunnar getur ekki dæmt endanlega í þessu máli.

Ekki er nema tvennt í stöðunni; annaðhvort hefur presturinn gerst sekur um alvarlegan glæp og á að segja af sér embættinu eða þá að logið er upp á hann sem hefur ekki síður alvarlegar afleiðingar. Ætla ekki að fella dóm í því, en það er alveg ljóst að meðan vafinn er uppi verður þessi prestur að víkja og hann hefur gert það.

En svona mál er skaðlegt fyrir þjóðkirkjuna sem stofnun. Þar var þó tekið á málinu af ábyrgð og mikilvægt að málsatvik séu rannsökuð og þessu máli lokið með þeim hætti.


mbl.is Umkvörtun vegna sóknarprests barst kirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Presturinn á Selfossi kærður fyrir kynferðisbrot

séragunnarSéra Gunnar Björnsson, sóknarprestur á Selfossi, hefur óskað eftir lausn frá störfum í kjölfar þess að vera kærður fyrir kynferðisafbrot gegn tveimur unglingsstelpum. Munu fleiri stelpur ætla að kæra Gunnar fyrir brot, sem hafi átt sér stað á nokkuð löngu tímabili. Mun rannsókn vera rétt nýlega byrjuð á málunum, sem eru mjög alvarlegs eðlis.

Gunnar hefur verið prestur á Selfossi frá því að hann hætti störfum á Holti í Önundarfirði í byrjun áratugarins. Hann var mjög umdeildur sem prestur á Holti og voru mikil átök milli hans og sóknarbarna, sem mikið voru í fjölmiðlum. Auk þess var hann áður prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík og náðu deilur þar miklum hæðum ennfremur.

Í báðum tilfellum urðu deilurnar það hástemmdar að skipt var um skrá í báðum kirkjum svo Gunnar kæmist ekki í þær. Hefur lítið verið um slík átök á Selfossi og koma þessar sögur af kynferðisafbrotum, sem eru í rannsókn, sem visst reiðarslag fyrir þjóðkirkjuna.

Alltaf er stóralvarlegt mál þegar að prestar eru sakaðir um svo alvarleg brot og mikilvægt að fá hið sanna í ljós í málinu, rannsaka það og ljúka með þeim hætti sem réttur er í samhengi við niðurstöðurnar.

Fyrsti forsetabíllinn kominn til Bessastaða

Ólafur Ragnar og forsetabíllinn Finnst það flott að passað verði upp á fyrsta forsetabílinn, sem notaður var í tíð Sveins Björnssonar, sem mótaði forsetaembættið á fimmta áratugnum og var þar áður fyrsti og eini ríkisstjórinn á Íslandi. Kannski finnst einhverjum hallærislegt að gera upp gamlan bíl sem einu sinni tilheyrði forsetaembættinu en ég held að þetta hafi verið rétt ákvörðun.

Söguna er mikilvægt að varðveita og hugsa vel um. Kannski sjá ekki allir sögulegt mikilvægi í fyrsta forsetabílnum, en ég held að þetta verði til sóma og gott verði fyrir forsetaembættið að eiga þennan bíl uppgerðan og geta átt hann sem minningu um hina liðnu tíma á þeim árum þegar að forsetaembættið var stofnað á sögulegum tímum í sögu þjóðarinnar.

Auk þess er alltaf gaman að sjá gamla og uppgerða bíla. Fjöldi fólks hefur gaman af bílum og margir þeirra stunda það sérstaklega að kaupa gamla bíla og gera upp. Fornbílarnir taka sig alltaf vel út.

mbl.is Fyrsti forsetabíllinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klámið dýrkeypt fyrir ríkisstarfsmanninn

tölvunotandiHún er ansi skondin þessi saga sem Netmogginn gróf einhversstaðar upp af japanska ríkisstarfsmanninum sem eyddi óhóflegum tíma í netklámið í boði skattborgara á kontórnum. Var dýrkeyptur áhugi fyrir aumingja manninn, enda lækkaður í tign og launum fyrir að vilja kynna sér þessar síður.

Þessi tala í fyrirsögninni er þó ansi áhugaverð, svo ekki sé nú fastar að orði. Maðurinn fer 780 þúsund sinnum inn á síðurnar á vel innan við ári. Hann hefur heldur betur lagt tímann sinn í að skanna þessar síður á meðan að hann var að erindrekast fyrir ríkið. Ekki er mikið talað svosem um hvað fólk geri í tölvunni sinni, en þetta er ansi ríflegt áhugamál verður að segjast.

Á meðan að einhverjir vorkenna aumingja japanska ríkiskontórmanninum er gott að hrósa aðeins nettmogganum fyrir að vera naskur að finna svona fréttapunkta og gera úr því skemmtilegar umfjallanir.

mbl.is Horfði 780 þúsund sinnum á klám í vinnunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rammgirt fangavist - lífið utan vítisholunnar

Elizabeth F og Josef Fritzl Eftir því sem fjallað er meira um aðstæður í hryllingshúsinu í Amstetten í Austurríki verður málið í senn ógeðslegra og sjúkara. Varnarkerfið í vítisholuna, til að halda konunni og börnunum frá umheiminum, með fjölmörgum læstum hurðum og raflás minnir aðeins á víggirt fangelsi og einangrunin sem því hefur fylgt hlýtur að hafa drepið alla lífslöngun. Grimmdin á bakvið verknaðinn verður sífellt kuldalegri eftir því sem meira kemur í ljós.

Heyrði í gær lýsingar í fjölmiðlum af fyrstu bílferðinni sem strákarnir tveir í kjallaranum, annar um tvítugt en hinn fimm ára að mig minnir, fóru í. Þeir hoppuðu og skríktu alla leiðina frá heimilinu til sjúkrahússins, höfðu aldrei í bíl komið og voru að sjá umheiminn í fyrsta skipti, fyrir utan að þeir höfðu séð slitrur í sjónvarpi. Var svolítið sérstök lýsing á hversdagslegum aðstæðum, en fyrir þessi börn tekur við andleg uppbygging og að kynnast lífi sem við teljum sjálfsagt.

Finnst merkilegast við þetta mál að heyra ástæður þess að maðurinn kom svona fram við sitt eigið hold og blóð. Einna ógeðslegast finnst mér að maðurinn hafi farið í heimsreisur með eiginkonu sinni á meðan að dóttirin og börn hírðust í þessari vítisholu árum saman, notið lífsins á meðan að hann svipti eigin börn lífinu.

Tek eftir því að Ríkissjónvarpið hefur beinar útsendingar og fréttaumfjöllun frá Amstetten. Hefur verið fínasta umfjöllun sem þeir hafa komið með. Var áhugaverðast að sjá viðtöl við íbúa þarna og heyra meira um málið, frá þeirra sjónarhorni en ekki bara frásögn fjölmiðlanna.

mbl.is Sá mann fara í jarðhýsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegur óhugnaður

Dapurlegra er en orð fá lýst að lesa fréttir á borð við þessa að norsk kona hafi eignast þrjú börn með föður sínum. Sifjaspjöll eru einn alvarlegasti glæpur sem til er. Þetta er algjör óhugnaður, algjörlega sorglegt. Því miður er þetta ekki ný saga sem sögð er með þessu norska máli og því austurríska, sem er reyndar með því allra ógeðfelldasta sem sögur fara af, sérstaklega nú í seinni tíð.

Auðvitað eru það ekkert annað en hreinlega villidýr sem gera börnunum sínum þetta - ógeðslegir menn, hreinir djöflar í mannsmynd. Austurríska málið er sérstaklega dapurlegt þegar að litið er á allar aðstæður og hvernig konu var haldið sem fanga í kynferðislegri misnotkun. Í norska málinu er þetta óhugnaður sem er eiginlega óþægilega nærri okkur og hlýtur að vekja alla til umhugsunar.

Sorglegasta spurningin sem vaknar við að heyra af svona málum er auðvitað hversu margar konur hafi upplifað svona óhugnað. Hversu margar sögur hafa legið í þagnargildi og aldrei orðið opinberar, vegna þess að konurnar eru hræddar við að tjá sig.


mbl.is Norsk kona eignaðist þrjú börn með föður sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenski geimfarinn hættir störfum

Bjarni TryggvasonÍslenski geimfarinn Bjarni Tryggvason hefur hætt störfum. Hefur alltaf fundist mikið til hans koma og held að flestum Íslendingum hafi fundist það í senn áhugavert og skemmtilegt að eiga geimfara. Honum hefur verið sýndur sómi hér víða og ég man vel eftir því er hann kom hingað fyrir áratug í boði Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, skömmu eftir eitt geimafrekið.

Hann er ættaður úr Svarfaðardal. Faðir hans var Svarfdælingur og á Dalvík var talað um Bjarna af virðingu og áhuga fyrir því sem hann var að gera. Hann kom til Dalvíkur í Íslandsförinni fyrir áratug. Var áhugavert að fá hann í heimsókn og kynnast honum, en hann hafði aðallega verið í umfjöllun fjölmiðla hér heima og sum blöðin höfðu átt viðtöl við hann. Þó að hann hefði mjög skamman tíma búið hér heima eignuðum við Íslendingar okkur hann að sjálfsögðu og þau afrek sem hann hafði komið að.

Kom mér þó mest á óvart þegar að Bjarni kom til landsins að hann talaði ekki íslensku. Skildi kannski eitt og eitt orð, en hann talaði á ensku þegar að hann var hérlendis. Fannst það svolítið áfall að íslenski geimfarinn margfrægi talaði ekki íslensku. Ekki hafði greinilega verið lögð rækt við það að hann héldi í ræturnar með því að viðhalda íslenskukunnáttunni. Þó að hann talaði ekki íslensku held ég samt að við höfum verið stolt af honum og við megum svosem vera það. Hann hefur gert margt gott.

Veit ekki hvort að Bjarni var sæmdur fálkaorðunni af Ólafi Ragnari í Íslandsför hans. Sennilega. Ef ekki á að heiðra verk hans. Fálkaorðan hefur verið afhent af minna tilefni en því sem hann hefur afrekað.


mbl.is Bjarni sest í helgan stein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýst eftir ungu fólki

Mér finnst það eiginlega orðið sláandi hversu algengt er orðið að auglýst sé eftir ungu fólki, flestu á aldrinum 13-17 ára. Eftir nokkra klukkutíma eða einhverra daga leit finnast krakkarnir eða koma sjálf heim oftast nær. Eflaust eru margar langar sögur á bakvið hvert tilfelli. En það er ekki hægt annað en hugsa aðeins þegar að það gerist að jafnvel fjöldi ungmenna hverfi á skömmum tíma og spyrja sig að því hvað sé eiginlega að gerast í samfélaginu, hvort að þau séu í einhverri ógæfu eða vilji hreinlega fara að heiman vissan tíma.

Svosem eru það engar nýjar fréttir að fólk hverfi. Stundum hefur eitthvað gerst, slys eða aðrar aðstæður, sem valda því að ungt fólk kemur ekki heim. Þegar að óregla eða ógæfa dynur yfir hefur það gerst að ungt fólk er komið í svo mikið öngstræti að það stingur af, lætur sig hverfa. Það er ekki nema von að spurningar um hvert tilfelli vakni. En mér finnst þetta farið að gerast svo oft, jafnvel að leitað sé dögum saman að ungu fólki.

Vonandi mun ganga vel að finna þessa stelpu. Hlýtur að vera skelfilegt að vera í þeirri stöðu að eiga ættingja sem finnst ekki og ekki er hægt að ná sambandi við. Gildir þá einu hverjar aðstæðurnar eru, enda er mjög óþægilegt og dapurlegt að eiga ástvin sem finnst ekki og það hlýtur að vera skelfilegt að horfast í augu við.


mbl.is Lýst eftir stúlku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðalsteinn Jónsson látinn

Aðalsteinn Jónsson á Eskifirði (1921-2008) Aðalsteinn Jónsson, útgerðarmaður á Eskifirði, er látinn, 86 ára að aldri. Alli markaði merk spor í sögu Eskifjarðar. Hann var guðfaðir byggðarinnar, sannur baráttumaður fólksins og hafði heill og hag þeirra að leiðarljósi fyrst og fremst í sinni atvinnuuppbyggingu

Ég vil eiginlega ekki hugsa um hvernig hefði farið fyrir Eskifirði án kraftsins og forystunnar sem einkenndi verk Aðalsteins í atvinnusögu Eskifjarðar. Allir sem þekkja til mála á Eskifirði vita að án hans væri staðurinn varla svipur hjá sjón. Traust forysta hans tryggði tækifæri á Eskifirði þegar að erfiðir tímar voru.

Aðalsteinn Jónsson leit alltaf á sig sem þjón fólksins. Hann fæddist fátækur, en reis upp til metorða með eigin dugnaði. Öllum ætti að vera hollt að kynna sér lífssögu hans í bókinni Lífið er lotterí eftir Ásgeir Jakobsson. Alli barðist áfram og byggði upp fyrirtæki sem hefur verið í fararbroddi á Eskifirði.

Saga fyrirtækisins var ekki alltaf dans á rósum, enda var ekki alltaf beinn og greiður vegur í stöðu mála í sjávarútveginum. Enginn einn maður hefur gert meira fyrir Eskifjörð og verk hans munu aldrei gleymast. Alli var einfaldlega traustur maður sem fólkið gat treyst, útgerðarmaður sem hugsaði fyrst um fólkið, svo sig og sinn hag.

Alli var einn af fólkinu. Hann var í góðu sambandi við verkafólkið; var sjálfur lengi sjómaður og byggði upp þetta fyrirtæki af ótrúlegri elju. Eitt af því sem skapaði fyrirtækið voru tengsl Alla við fólkið sem vann hjá honum. Þau litu á hann sem einn þeirra sem vann þar, aldrei sem auðugan mann sem var yfir aðra hafinn.

Þar liggur farsæld Aðalsteins Jónssonar sem útgerðarmanns og föður heillar byggðar. Hans verk er ómetanlegt og allir munu minnast hans með þeim hætti. Guð blessi minningu Alla.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband