Færsluflokkur: Dægurmál

Ógeðslegt fólskuverk á Seltjarnarnesi

Maður er eiginlega alveg orðlaus við að heyra fréttir af árásinni á aldraða manninn á Seltjarnarnesi á hans eigin heimili. Ógeðslegt fólskuverk og nöpur staðreynd að fólk sé ekki óhult á heimili sínu. Heimili fólks er jú friðhelgur staður, griðastaður og skjól hvers einstaklings.

Árás á fólk á heimilum sínum er grafalvarlegt mál og ber að fara með málið í samræmi við alvarleika brotsins. Þeir sem standa að slíkri aðför að fólki og það sérstaklega eldri borgurum eiga sér engar málsbætur.

mbl.is Rændur og bundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Subbulegt sjálfsmorð



Hann hlýtur að hafa verið mjög lífsleiður maðurinn sem valdi að fara í búr bengal-tígranna og binda þannig enda á líf. Subbulegt sjálfsmorð. Grimmdin í bengal tígrum er algjör og þeir eru með miskunnarlausustu dýrum á jarðríki, bæði spretthraðir og fimir. Þessi klippa segir meira en mörg orð um kraftinn í þeim og grimmdina.

mbl.is Framdi sjálfsvíg í tígrisdýrabúri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýralegt bankarán í Reykjavík

Sagan af bankaráninu í Austurstræti hljómaði svo ævintýraleg þegar ég heyrði hana fyrst að ég tvítékkaði fréttina hvort þetta væri örugglega að gerast á Íslandi. Þetta var eins og handrit að einhverri bíómynd, frekar lélegri sennilega, í henni Ameríku. Ekki nóg með bankaránið heldur hjartastopp og endurlífgun eftir hasarinn.

En þetta er víst íslenskur veruleiki. Vantar ekki hasarinn á kvöldvaktinni hjá lögreglumönnum í Reykjavík.

mbl.is Braust inn í banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er rétt að verðlauna fegurð?

gdr
Mjög lengi hefur verið deilt um hvort keppa eigi í fegurð. Femínistar hafa reyndar sérstaklega haft dálæti á að traðka niður þetta form á keppni og sagt hana niðurlægjandi fyrir konur og skaði ímynd kvenna að flestu leyti. Samt sem áður þrátt fyrir þessa umræðu tekur fjöldi kvenna þátt í slíkum keppnum og hefur áhuga á þeim tækifærum sem opnast með því.

Lengi vel voru femínistar mjög á móti þessum keppnum hérlendis meðan að eingöngu var keppt í fegurð kvenna en raddirnar hafa minnkað eftir að karlar kepptu í fegurð sinni líka. Persónulega hef ég aldrei haft neitt á móti fegurðarsamkeppnum. Mér finnst að þetta sé val einstaklinganna sem taka þátt hvort þeir gera það eður ei.

Þeir sem vilja keppa gegn öðrum með fegurð sinni eiga að hafa frelsi til þess. Í mínum huga er þetta einfalt mál.

Ég óska nýrri ungfrú Ísland til hamingju með sigurinn í keppninni.

mbl.is Guðrún Dögg valin Ungfrú Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkalýðsfélag greiðir niður Detoxið

Eflaust eru það nokkur tíðindi þegar verkalýðsfélag er farið að niðurgreiða Detox-lækningameðferðina í lækningaskyni fyrir alþýðuna í Þingeyjarsýslum. Í þessu felst líka mikil viðurkenning á meðferðinni, sem framkvæmd hefur verið í Mývatnssveit undir forystu Jónínu Benediktsdóttur, og kannski ekki undarlegt að Þingeyingar vilji fara í þetta í sinni heimabyggð.

Sumir deila reyndar um hvort það sé skottumeðferð eða lækning. Burtséð frá því á Jónína Ben á hrós skilið fyrir að hafa startað þessu verkefni og gert úr því bissness bæði fyrir hótelið þarna og aðra þætti, bætt heilsu og líðan fólksins sem hefur farið til hennar.

mbl.is Niðurgreiðir Detox meðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er siðferðislega rétt að eignast börn um sjötugt?

Enginn vafi er á því að Elizabeth Adeney muni hljóta heimsfrægð fyrir að verða ein elsta móðir heims. Ákvörðun hennar að eignast barn vekur siðferðislegar spurningar, um margt sígildar í seinni tíð. Mér finnst það varla siðferðislega rétt að konur eignist börn um sjötugt, með aðstoð læknisvísinda, og ætli að helga sig barnauppeldi komið á ellilífeyrisaldur.

Fyrst og fremst er réttast að vorkenna börnunum sem á táningsaldri eiga þá foreldra um eða yfir áttrætt. Eðlilega er spurt hver tilgangurinn sé með því að eignast börn svo seint á æviskeiðinu. Hvort hugsar foreldrið frekar um barnið eða sjálft sig?

Er ekki viss sjálfselska sem felst í þeirri ákvörðun að vera á sjötugsaldri og vilja eignast barn? Er þetta ekki gott dæmi um hugsunarhátt neyslusamfélagsins? Ég tel svo vera. En kannski vilja sumir einfaldlega komast í fréttirnar og í metabækurnar.

Hver er ástúðin í því að gefa börnum sínum þá vöggugjöf að vera við fermingaraldur með foreldra á níræðisaldri?

mbl.is 66 ára og verðandi móðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Manndrápsakstur á Reykjanesbraut

Enn og aftur berast fregnir af ökumönnum sem keyra um á manndrápshraða, keyra langt yfir hraðamörk og jafnvel í vímuástandi. Nú er ökumaðurinn 17 ára, nýbúinn að fá prófið og leggur í áhættuna, væntanlega án þess að hugsa nokkuð. Akstur á þessum hraða og við þessar aðstæður flokkast ekki undir neitt annað en hreinan háska, enda eru í senn bæði ökumaðurinn og þeir sem hann mætir í lífshættu vegna þess.

Hvað er fólk að hugsa þegar að það keyrir á slíkum hraða eða hvað fer í gegnum huga þess á meðan? Eða sennilega hugsar það auðvitað ekki neitt, þeysir bara áfram hugsunarlaust. Þeir sem keyra svona bera ekki einu sinni virðingu fyrir sjálfu sér og hvað þá þeim sem það mætir á leið sinni.

Í sjálfu sér tel ég þetta orðið eitt mesta vandamálið í umferðinni í dag. Engin trygging er fyrir því þegar fólk sest undir stýri og heldur út í umferðina að það mæti ekki fólki undir áhrifum vímugjafa - út úr heiminum í sínu annarlega ástandi. Skuggalegt alveg.

Er alveg sama hvað predikað er fram og aftur um ofsaakstur? Er ungt fólk tilbúið að taka áhættuna og fórna lífi sínu og annarra fyrir?

mbl.is Tekinn á 177 km hraða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagmannleg vinnubrögð hjá Jóhönnu



Jóhanna Guðrún er að standa sig vel í Moskvu við að kynna íslenska lagið í Eurovision. Lagið fær góða umfjöllun og hálfur sigur unninn með eins góðri pr-kynningu og mögulegt má vera. Snilldarleikur var hjá íslenska hópnum að láta hana syngja lagið á fleiri tungumálum en ensku í kynningarferlinu. Sérstaklega að búa til rússneska útgáfu, auk þess frönsku, þýsku og spænsku. Þetta telur allt.

Eins og venjulega er aðalbaráttumálið að komast upp úr undankeppninni. Allt annað er sigur fyrir íslenska hópinn, þó gera megi sér svosem hæfilegar vonir um að komast jafnvel í topp tíu á úrslitakvöldi. Baráttan í undankeppninni er orðin hörð og við höfum oftast verið mjög ósátt við okkar hlutskipti. Aðeins einu sinni hefur tekist að komast áfram úr henni; í fyrra þegar Eurobandið var með This is My Life.

Helsta deilumálið er víst hvort Jóhanna Guðrún sé í boðlegum kjól. Mér finnst atriðið látlaust og vandað. Þetta er sem betur fer söngatriði. Showið er frekar lítið, enda er lagið og söngkonan það traust að ekki er þörf á sirkusatriði. Þetta er jú söngvakeppni.

Þetta verður skemmtileg vika. Þrjú Eurovision-partý og nóg af gleði. Það er spáð heitu og góðu veðri í næstu viku og eflaust mikið um góð grillpartý.

mbl.is Urðu ekki vör við neitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftleiðaævintýrið og hugsjónasaga Alfreðs

Ég fór í bíó áðan og sá heimildarmyndina um ævintýralega sögu Loftleiða og hugsjónamanninn Alfreð Elíasson, sem var drifkrafturinn í einu mesta viðskiptaveldi Íslandssögunnar. Myndin er gríðarlega vel gerð og leiftrandi af frásagnargleði og þeim krafti sem einkenndi fyrirtækið. Alfreð Elíasson var hugsjónamaður í sínum verkum, byggði upp fyrirtækið af hugviti, áræðni og næmri einbeitingu.

Sagan af Loftleiðum er eitt besta dæmið hérlendis um traust vinnubrögð, hugsjónir og einbeitingu þeirra sem leiða uppbyggingu. Með því að virkja krafta allra starfsmanna með einlægri jákvæði tókst Alfreð að gera Loftleiðir að risa á alþjóðavettvangi, fyrirtæki sem naut virðingar um allan heim og byggði upp velvild meðal viðskiptavina. Sá jákvæði andi sem einkenndi starfið innan Loftleiða er einn stærsti þáttur velgengninnar í tæplega þrjátíu ára sögu fyrirtækisins. Þar skipti leiðsögn leiðtogans öllu máli.

Endalok Loftleiðasögunnar eru mjög sorgleg, eins og allir vita sem kynnt hafa sér sameiningu Loftleiða og Flugfélags Íslands árið 1973. Alfreð Elíasson missti heilsuna árið 1971 og náði aldrei eftir það fyrra afli og einbeitingu. Þegar Alfreðs naut ekki við var ekki haldið á málum af sömu einbeitingu og áður var og fyrirtækið missti sitt leiðarljós og leiðtogann sem var á vaktinni. Fyrirtækið var étið upp í veikindum Alfreðs étið upp af kerfiskörlum hjá ríkinu.

Sorglegast af öllu var hvernig unnið var í matinu á eignum Loftleiða og Flugfélags Íslands sem leiddi til þess að fyrirtækin voru metin svo til jafnstór í stað þess að Loftleiðir væri metið 70-75% af andvirði nýja fyrirtækisins, Flugleiða. Með rangindum voru eignir Loftleiða í raun teknar af stofnendunum, þeim frumkvöðlum sem af hugsjón og elju höfðu byggt upp stórveldi á heimsvísu. Þetta er ljót og óhugguleg saga sem þurfti að segja. Það tekst vel upp í þessari mynd.

Í hreinsunum sem einkenndu stjórnunartíð Sigurðar Helgasonar eldri á áttunda áratugnum var öllum hugsjónamönnum Loftleiðatímabilsins bolað út og beitt ógeðfelldum hreinsunum af algjörri skítmennsku. Alfreð Elíassyni, frumkvöðlinum og hugsjónamanninum var bolað út af skrifstofu sinni í húsnæði Loftleiða, sem fyrirtækið átti skuldlaust með hóteli, stöndugu millilandaflugfélagi og auk þess Air Bahama og hótel í Lúxemborg, svo fátt eitt sé nefnt.

Frægt var að Alfreð sagði þegar hann var rekinn á dyr úr eigin skrifstofuhúsnæði af þeim sem véluðu með Flugleiði "Hvað hefur gerst. Hvar er félagið mitt?". Gögn Alfreðs voru einfaldlega sett í pappakassa og hann síðan settur í horn úti á gangi í fyrirtækinu sínu. Þvílíkt níðingsverk! Þessi eignaupptaka og svívirðilega framkoma var fjarstýrð af samgönguráðherranum Hannibal Valdimarssyni sem vegna þrýstings stjórnmálamanna sá ofsjónum af sterkri stöðu Loftleiða og hirtu eignir þeirra af frumkvöðlunum sem höfðu unnið af harðfylgi fyrir sínu.

Ég hvet alla til að fara í bíó og skoða heimildarmyndina um Alfreð Elíasson og Loftleiðir. Þetta er saga hugsjónamanns sem lét ekkert stöðva sig og byggði stórveldi á alþjóðavísu. Endirinn er sorglegur. Mjög gott er þó að þau dapurlegu endalok eru sögð hreint út og ákveðið. Sigurður Helgason fær það óþvegið, verðskuldað og heiðarlega, í uppgjöri Loftleiðamanna. Ýjað er að því að hann hafi verið keyptur til sinna óheilinda við Alfreð. 

Þetta er traust mynd, sem er í sérflokki. Sigurgeir Orri Sigurgeirsson á heiður skilinn fyrir vandaða og heilsteypta mynd, sem er vel klippt og gerð. Myndefnið er mjög gott, viðmælendur segja heiðarlega frá velgengni og sorglegum endalokunum og umgjörðin mjög traust. Þetta er traustur og einlægur minnisvarði um hugsjónamanninn Alfreð Elíasson og segir söguna alla, bæði björtu punktana og endalokin, sem hljóta að teljast eitt mesta rán  Íslandssögunnar.


Afrek læknisvísindanna

Fréttin af konunni með nýja andlitið er litla stórfrétt dagsins að mínu mati. Mikið afrek og eitt af undrum læknisvísindanna. Ég sá umfjöllun í sjónvarpsþætti um þessa konu fyrir nokkrum árum, þá algjörlega afmynduð og var þá að vonast eftir kraftaverki og hún gæti átt sér eitthvað líf með nýtt andlit. Svolítið sérstakt að sjá konu með nýtt andlit. Fannst reyndar undarlegast af öllu að konan hefur fyrirgefið manninum sínum, sem afmyndaði hana, og ætlar að bíða eftir honum þegar hann kemur úr fangelsi. Mikill er máttur fyrirgefningarinnar, segir maður bara.

Fyrir og eftir aðgerðina

mbl.is Fékk 80% af andliti annarrar konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband