Færsluflokkur: Íþróttir

Höllu sem formann KSÍ

Halla Gunnarsdóttir Ég eignaðist enn einn góðan bloggvin í gær. Hún heitir Halla Gunnarsdóttir. Hún hefur nú gefið kost á sér til formennsku í KSÍ. Líst mjög vel á það framboð - ég styð hana heilshugar til formennsku. Ég tel að hún sé hiklaust rétti kosturinn í formannsembættið nú hjá KSÍ.

Það þarf að hugsa nýja tíma í boltanum og mér finnst Halla sá boðberi nýrra tíma sem ég vil allavega sjá. Mikilvægt að fá formannsefni úr nýrri átt og hefja nýja sókn fyrir boltann.

Valið er því einfalt - Áfram Halla!

Alli Gísla og landsliðið að gera góða hluti

Alli GíslaLeikur gegn Túnis á morgun - mikið stuð framundan. Leitt að geta ekki farið til Þýskalands - freistandi var það svo sannarlega. Alli Gísla er að gera góða hluti með liðið. Leikgleðin og krafturinn einkenndi allt fas liðsins í gær - þetta er lið sem getur farið langt. Fróðlegt væri að sjá þetta fræga myndband sem allir tala um. Merkilegar sögur af því vægast sagt.

Alfreð mun vonandi gera liðið að sannri sigursveit á HM í Þýskalandi. Hann er vissulega einn öflugasti handknattleiksmaður Íslands á 20. öld og varð íþróttamaður ársins 1989, á hátindi atvinnumannaferils síns. Alli Gísla hóf feril sinn hér heima á Akureyri með KA og spilaði þar til að hann hélt út.

Hann kom aftur heim er atvinnumannaferlinum erlendis lauk árið 1992 og varð þjálfari KA í handbolta og leiddi liðið til bikarmeistara- og Íslandsmeistaratitils áður en hann hélt til Þýskalands í þjálfun. Hann veit hvað þarf til að sigla rétta leið og þekkir sigurtilfinningu sem leikmaður og þjálfari. Hann mun vonandi gera liðið að ógleymanlegri sigursveit nú og leiða liðið í átta liða úrslitin.


mbl.is HM: Myndbandi Alfreðs og Ólafi hrósað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er sko rosalega freistandi að fara til Þýskalands!

Úr leiknum við Frakka Sigurinn gegn Frökkum í kvöld í Magdeburg verður lengi í minnum hafður. Það er eiginlega ekki hægt að segja annað en að það sé gríðarlega freistandi að skella sér til Þýskalands um helgina og finna stemmninguna. Ef ég væri ekki bundinn í vissum atburði um helgina hefði ég hiklaust skellt mér. Það er sko ekki flóknara en það.

Það var allavega stuð í kvöld þar sem ég var og maður var að upplifa gömlu dagana sem voru t.d. á B-mótinu 1989 og HM 1997. Það var svo sannarlega himinn og haf milli þess sem gerðist í leiknum í kvöld og á móti Úkraínumönnum sólarhring áður. Vonleysi var meðal landsmanna eftir leikinn og margir voru það svartsýnir að telja allt búið.

En þvílíkt stuð - liðið kom aftur af fítonskrafti og keyrði sig í magnaðan sigur. Aldrei vafi á hvoru megin sigurinn myndi falla. Leikgleðin og krafturinn skein í gegnum íslenska liðið, dagsskipunin þar hjá Alla Gísla var sigur og ekkert annað en það. Strákunum tókst að landa honum. Staða okkar breyttist í einu vetfangi. Nú eigum við og getum farið mun lengra. Sigur gegn Frökkum opnar margar dyr og nú er að nýta tækifærin. Það er allt hægt með þessa leikgleði í farteskinu og strákarnir sýndu þjóðinni í kvöld að þeir hafa allan kraft til að ná langt nú.

En ferð til Þýskalands nú er svo sannarlega freistandi, get ekki sagt annað sko.

mbl.is Alfreð: „Við höfðum engu að tapa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur íslenskur sigur í Magdeburg!

Sigri fagnað í Magdeburg Ævintýralega flottur landsleikur áðan. Við lögðum Frakkanna með glæsilegum hætti og erum komin í milliriðlana. Með flottari leikjum landsliðsins lengi, segi ég og skrifa! Eins slakt og landsliðið var í gærkvöldi var það að blómstra í kvöld í leiknum gegn Frökkum. Stórkostlegur leikur - átta marka eðalsigur sem er gott veganesti í næstu átök.

Ég var vonsvikinn með liðið og stöðuna eftir leikinn í gær - vonaði það besta og óttaðist það versta. En sigur er staðreynd. Það sjá allir sem horfðu á leikinn í kvöld að við getum komist langt og við setjum, nú sem ávallt fyrr, markið mjög hátt. Allavega er ljóst að Alli Gísla og liðið geta farið mjög langt á þeim glæsibrag sem við sáum í kvöld.

Markið er sett á átta liða úrslit, einfalt mál! Verður gaman að fylgjast með milliriðlinum. Það var bömmer í gær en gleði í kvöld.

mbl.is Íslendingar gjörsigruðu Evrópumeistaralið Frakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfall fyrir landsliðið - mikil vonbrigði

Landsleikur Mikil voru vonbrigðin eftir landsleikinn í kvöld. Tap gegn Úkraínumönnum er afleitt, það er bara ekki flóknara en það í þeirri stöðu sem við okkur blasir. Nú verðum við að vinna Frakkana, það mun ganga svona og svona spái ég að landa sigri gegn þeim.

En það er með handboltann eins og annað; you win some - lose others. Verðum bara að vona það besta fyrir hönd liðsins. Sigur gegn Frökkum er grunnatriði vilji liðið komast í millriðilinn. Það vonandi tekst. En miðað við sögu Frakka í handbolta er ekkert gefið í þeim efnum. Þetta verður erfitt.

Leikurinn í kvöld var eins og hann er. Vonandi mun landsliðið geta horft fram fyrir hann eins og við segjum og til verkefnisins sem máli skiptir nú. Það verður spennuþrunginn leikur á morgun og allir landsmenn munu vona það besta.

mbl.is Ólafur Stefánsson: „Ég brást liðinu mínu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilegur bikar fyrir íþróttamann ársins

Guðjón Valur Í gær var nýr bikar afhentur við val á íþróttamanni ársins. Gamli góði bikarinn sem afhentur var í hálfa öld er nú varðveittur á Þjóðminjasafninu. Einhvernveginn hafði farið framhjá mér útlit nýja bikarins og ég var því í fyrsta skiptið að sjá hann í gær. Ég eiginlega gapti af undrun þegar að ég sá hann og vorkenndi eiginlega Guðjóni Val er hann var með þetta skelfilega ferlíki í höndunum eftir að valið á honum hafði verið formlega tilkynnt.

Nýji bikarinn er svo skelfilegur að maður á varla nógu góð orð til að lýsa honum. Hann er samansettur úr efnum sem engan veginn eiga samleið og heildarmyndin verður stór og klunnalegur bikar sem virðist því miður ekki vera líklegur til að haldast önnur 50 ár milli þeirra sem fá titilinn. Í samanburði við hinn gamla góða bikar er þetta eiginlega ótrúlegt kúltúrsjokk, svo maður finni eitthvað almennilegt orð. Semsagt, orð dagsins til samtaka íþróttafréttamanna er: skiptið um bikar.

Eruð þið annars ekki sammála mér?

Óvænt val á íþróttamanni ársins

Guðjón Valur Það er ekki hægt að segja annað en að valið á Guðjóni Val sem íþróttamanni ársins 2006 hafi komið nokkuð á óvart. Flestir höfðu talið Eið Smára með þetta nokkuð öruggt. Eiður Smári vann titilinn síðustu tvö ár og vakti t.d. athygli þegar að hann vann fyrir tveim árum er flestir töldu Kristínu Rós með sigurinn tryggan eftir glæsileg afrek á ólympíuleikum fatlaðra.

Fagna því mjög að Guðjón Valur vinni titilinn. Hann á þennan titil svo sannarlega skilið. Ég veit sem er að Guðjón Valur er vandaður og góður íþróttamaður og persóna sem gerir ávallt sitt besta og hefur átt glæsilegan feril.

Ég kynntist honum þegar að hann bjó hér á Akureyri, er hann keppti hér með KA, en þar átti hann glæsileg ár á sínum ferli. Sendi honum innilegar hamingjuóskir.

mbl.is Guðjón Valur íþróttamaður ársins 2006
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband