Færsluflokkur: Íþróttir

Spennandi leikur í dag - kostuleg einkunnagjöf

Úr leiknum við ÞjóðverjaHugur þjóðarinnar á þessum þriðjudegi er hjá íslenska landsliðinu í Hamborg. Í kvöld mætir liðið Dönum í leik um sæti í undanúrslitum HM í Þýskalandi. Búast má við spennandi leik og áhugaverðum. Christian Fitzek segir að við séum með lakasta liðið en það skemmtilegasta. Kostuleg einkunnagjöf - það vonandi tekst að sýna honum að við höfum möguleika til að fara lengra.

Dagsskipunin úti hjá okkar mönnum hlýtur að vera sigur og ekkert annað. Við getum alveg unnið Danina fyrst að við unnum Frakkana. Annars sýnist mér Fitzek spá Króötum heimsmeistaratitlinum í slag við Pólverjana. Má vel vera að það verði úrslitaleikurinn en ég held að við getum unnið leikinn í dag og fari það svo erum við komnir í mjög góða stöðu.

Það má segja að þetta lið sé komið mun lengra en mörgum hafði órað fyrir að það myndi gera. Það hefur ekkert annað en komið á óvart, bæði fólki hér heima og ekki síður handboltaáhugamönnum annarra þjóða. Svo að það er margt hægt í dag og vonandi tekst að sýna að þetta lið er ekki það slakasta af þeim sem enn eru í pottinum.


mbl.is Íslendingar með lakasta en skemmtilegasta liðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi leikur á morgun

GauiÞað stefnir í spennandi leik á morgun - leik um sæti í undanúrslitum á HM í handbolta í Þýskalandi. Nú eru það Danirnir. Það er ekkert útilokað í þessum leik og við eigum góða möguleika á að ná sigri, sem myndi færa okkur góða stöðu. Það yrði mjög öflugt næðum við sigri, enda bjuggust ekki allir landsmenn við svona góðum árangri hjá liðinu.

Danir vita að liðið okkar er til alls líklegt eins og staða mála sýnir okkur í gegnum mótið allt. Því er þetta mat danska handboltasérfræðingsins mjög gott og raunsætt vissulega. En leikurinn verður væntanlega mikið dúndur og greinilegt að bæði lið ætla að selja sig dýrt.

Við hér heima vonum það besta og auðvitað spáum við liðinu okkar sigri, enda er sigur eðlilegt markmið í stöðunni. Íslenska liðið hefur náð góðri stöðu á mótinu og meira hægt en komið er.


mbl.is HM: Fyrrum Framarinn Per Skaarup hrósar íslenska liðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Det er dejligt

Íslenska liðið fagnar sigri Líst vel á að von mín og heitbundin ósk hér í kvöld um að við myndum mæta Dönum í fjórðungsúrslitum á HM í Þýskalandi rættist. Ja, det er dejligt sko held ég bara. Skárra fyrir okkur að fá Danina en Spánverja. Tek þó undir það sem Snorri Steinn segir í viðtali við mbl.is og finna má hér á þessum veraldarvana fréttavef að Danirnir eru sýnd veiði en ekki gefin svo sannarlega.

Vonum það besta í leiknum á þriðjudag - vona að við vinnum Danina en sigur þar færir okkur farseðil í fyrirheitna landið - undanúrslitin sem væri auðvitað góð staða fyrir okkur. Það yrði ekki svo galið ef okkur tækist að komast í leik um medalíu. En næst eru það Danirnir - við getum alveg unnið gömlu herraþjóðina.

Jamms, mér líst bara mjög vel á þetta allt saman.

mbl.is Danir verða mótherjar Íslands í 8-liða úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tap gegn Þjóðverjum - Danir eða Spánverjar?

Úr leiknum við Þjóðverja Ekki minnkar spennan á HM í Þýskalandi. Töpuðum fyrir Þjóðverjum í dag. Það var nú viðbúið, enda Þjóðverjar á heimavelli og þeim hungrar í árangur á mótinu auðvitað. En við vorum komnir í átta liða úrslitin og pressan því ekki eins gígantísk og hefðum við tapað fyrir Slóvenum í gær. Það ræðst senn hvort við mætum Spáni eða Danmörku í fjórðungsúrslitum.

Ég hafði alltaf góða tilfinningu fyrir landsliðinu. Alli Gísla er sterkur þjálfari með mikla leikreynslu og hefur verið farsæll þjálfari, ég held að innkoma hans sem þjálfara hafi gert liðinu gott og svo eru markmenn og nokkrir leikmenn að blómstra mjög vel. Meiðslin hafa verið visst vandamál en vonandi hefst þetta allt fyrir rest. Skal reyndar viðurkenna að ég var skeptískur á stöðuna eftir tapið gegn Úkraínumönnum en þetta hafðist með ævintýralegum sigri við Frakkana.

En hvernig sem fer... stærsti plúsinn að ná að komast í fjórðungsúrslitin, allt annað er plús. Vona að við fáum Dani í þeim pakka, en þetta ræðst allt.

mbl.is Ólafur: „Mætum brjálaðir til leiks“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögnuð markvarsla í Halle

Birkir Ívar fagnar sigri Enn í skýjunum eftir leikinn. Mikil spenna. Markvarslan tryggði okkur farseðil í átta liða úrslitin. Vel gert hjá markvörðunum sem voru sómi landsins á þessum laugardegi, alveg hiklaust.

Virkilega góð frétt og skrif hjá Víði í Þýskalandi. Nú eru það Þjóðverjarnir. Það er ánægjulegt að geta haldið til þess vitandi að farseðillinn áfram er kominn. Það hefði verið svakaleg pressa að halda í þann leik undir og án þess að hafa tryggt bakland áfram.

Þetta verður bara gaman á morgun.

mbl.is Frábær markvarsla tryggði Íslandi sigur á Slóveníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland í átta liða úrslitin - sigur gegn Slóvenum!

Íslenska liðið fagnar sigri Æsispennandi leikur í Halle áðan - enn ein spennustundin fyrir okkur Íslendinga á þessu heimsmeistaramóti í Þýskalandi. Sigur gegn Slóvenum er staðreynd - glæsilegur sigur. Með þessu erum við Íslendingar búnir að tryggja okkur sæti í átta liða úrslitunum.

Var að fylgjast með leiknum meðfram því að fylgjast með stöðu mála í Frjálslynda flokknum. Spennustund á báðum leikvöllum, með merkilega ólíkum hætti þó. En þetta er ánægjulegur sigur og við hljótum að reyna að gera okkar besta í átta liða úrslitunum.

En þetta var grunnkrafan fyrir okkur í þessari stöðu. Allt eftir þetta er og verður plús. En við eigum og getum farið lengra en í áttunda sætið, tel ég. Vonandi náum við að spila um bronsið hið minnsta. Það eru enn meira spennandi leikir framundan, svo mikið er víst. Og á morgun leikur gegn Þjóðverjum sjálfum. Mikil spenna þar.

mbl.is Ísland í 8-liða úrslit eftir sigur á Slóveníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægur leikur á morgun!

Gaui Heldur betur mikilvægur leikur á morgun - leikum gegn Slóvenum. Sigur verður að vinnast á morgun, enda reikna flestir með erfiðum leik við Þýskaland á heimavelli á sunnudaginn. Tveir öflugir leikir sem blasa allavega við öllum handboltaáhugamönnum hér heima. Það má búast við allavega að þorri landsmanna sitji við skjáinn áhugasöm um leikinn frá upphafi til enda.

Leikirnir og staða þeirra taka á; bæði fyrir þjálfara og leikmenn. Það er eðlilegt, þetta er ekta spennusport. Alli Gísla var mjög ósáttur við tapið gegn Pólverjum, sem eðlilegt er. Mikil spenna og taugarnar þandar til hins allra ítrasta, eins og sést á þessari frétt. Þjóðin er öll spennt og við getum margfaldað spennu okkar MeðalJónanna í handboltapælingunum með 1000 og komist þannig nærri spennunni hjá okkar mönnum úti.

En spenna á morgun - allir horfa: mikið fjör! Vonum það besta. Sigur á morgun hlýtur að nást. Enn meira spennandi verður leikurinn gegn gestgjöfunum Þjóðverjum. Þetta verður spennuþrungin helgi á heimilum íslenskra handboltaáhugamanna, svo mikið er víst.

mbl.is HM: Alfreð ósáttur við Bogdan Wenta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úff..... tap fyrir Pólverjum

Alli Gísla Jahá, þvílíkur leikur áðan gegn Pólverjum. Þrususpenna.... en þetta endaði með tapi. Þvílíkur bömmer - en jæja það verður bara að líta til næsta leiks og hugsa um sigur þar. Staðan verður enn að teljast vænleg en mér líst ekkert á ef að þetta mun ráðast allt af leiknum við Þjóðverjana á sunnudag.

En þetta er hæðóttur bissness þetta sport. Það þýðir ekkert að sýta tapið en þess þá heldur að horfa bara til næsta verkefnis.

mbl.is HM: Tveggja marka tap gegn Pólverjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spenna yfir handboltanum - hvernig fer leikurinn?

Íslenska liðið fagnar sigri Handboltinn er mál málanna þessa dagana hérna heima. Liðinu okkar hefur verið að ganga vel og með hverjum sigri aukast væntingar okkar landsmanna - eðlilega vissulega. Næsti leikur hefst núna á sjötta tímanum. Nú eru það Pólverjarnir - við megum eiga von á enn einum spennuleiknum. Sigur í dag tryggir sæti í undanúrslitum.

Spennan hefur verið gríðarleg á öllum leikjunum - eins og við á. Góður árangur endurspegla mjög vel gríðarlegan áhuga allra landsmanna. Öll viljum við styðja við bakið á okkar mönnum. Spái að sjálfsögðu sigri okkar manna, en þetta verði jafn og öflugur leikur - jafnvel enn jafnari en leikurinn við Túnis.

Væri gaman að heyra í ykkur og fá spá um hvernig að þetta fari, svona til gamans, áður en leikurinn hefst, hafi lesendur skoðun á því. Efast reyndar ekki að allir landsmenn, eða langflestir allavega, hafi skoðun á handboltanum.

mbl.is Alfreð: „Pólverjar gætu brotnað saman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær sigur íslenska liðsins á Túnis

Íslenska liðið fagnar sigri Heldur betur æsispennandi leikur gegn Túnis í handboltanum áðan - niðurstaðan var flottur sigur hjá okkar mönnum. Fór í afmælisboð út í bæ núna síðdegis og þar sátum við sem þar vorum og spekúleruðum yfir leiknum. Mikil spenna og stuð - háspenna hreint út sagt.

Fer ekki ofan af þeirri skoðun minni að þetta lið virki á mig ferskt og gott. Vonbrigðin eftir tap í leiknum við Úkraínumenn eru fjarri þessa stundina og sigurandinn eftir að við burstuðum Frakkana er enn ofarlega í huga. Held að þessi gleðiandi fylgi okkur langt fram í skammdegið sem er þessar vikurnar, en er hægt og rólega að gefa eftir.

Einn sem ég ræddi við sagði að Alli væri í stuði og þetta væri svona gleðiandi stemmningar líkt og var allsráðandi árin hans með KA-liðið þar sem gleði og kraftur voru algjört aðalsmerki. Er ekki fjarri því að svo sé. Alli er allavega að gera góða hluti og liðið er að fá á sig blæ sigursveitar. Öll gleðjumst við yfir því. Nú er það bara næsti leikur - næstu verkefnin.

Sigurvíman mun vonandi sveima áfram yfir liðinu og berast hingað heim í janúarstemmninguna. Ekki veitir af. :)

mbl.is Alfreð: „Gríðarlega mikilvægur sigur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband