Færsluflokkur: Íþróttir

Eiður Smári kominn á sölulistann

Eiður Smári Guðjohnsen Eiður Smári Guðjohnsen er nú kominn á sölulistann hjá Barcelona ásamt sjö leikmönnum öðrum. Það er því hörkusala skollin á hjá Börsunum. Aðeins ár er liðið frá því að Eiður Smári samdi við Barcelona til þriggja ára og yfirgaf Chelsea, eftir sigursæla tíð þar, en hann skrifaði þar undir samninga 14. júní 2006.

Hlutirnir eru jafnan ekki mikið að breytast í þessum bransa. Það verður fróðlegt að sjá hvert að Eiður Smári muni fara gangi salan eftir. Löngum hefur verið orðrómur um að hann færi jafnvel til Manchester United og Tottenham. Ennfremur gæti auðvitað farið svo að hann endi hjá West Ham, þar sem Eggert Magnússon ræður ríkjum.

Það er erfitt að spá í hver gengur kaupum og sölum í þessum bransa. En það verður þó fróðlegt að sjá hvar Eiður Smári lendir.

mbl.is Eiður Smári til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KR skrapar botninn í úrvalsdeildinni

Úr leik KR og ÍA Það hlýtur að fara um knattspyrnuáhugamenn í vesturbænum í Reykjavík við að fylgjast með stöðu KR þessa dagana. Þeir skrapa botninn og fengu enn einn skellinn í kvöld, að þessu sinni töpuðu þeir fyrir Skagamönnum á Skipaskaga. Niðurlæging KR er orðin algjör í keppninni þetta sumarið og blasir ekkert við á þessari stundu nema varnarbarátta fyrir sætinu í deildinni.

KR-liðið er samansett af stjörnuleikmönnum á öllum póstum. Það sést þó hvorki af spilamennsku liðsins né árangrinum, sem telst varla viðunandi fyrir neitt lið með sjálfstraust, allra síst stórveldi á borð við KR. Staða Teits Þórðarsonar sem þjálfara hlýtur að teljast að verða vonlaus og hlýtur sæti hans að vera tekið að volgna allverulega og óvissa um hvort honum sé þar sætt lengur.

Þessi botnmennska KR er farin að minna á sumarið 2001 þegar að ekkert gekk hjá liðinu og þar var spilað vörn allt sumarið og naumlega tókst að tryggja sæti í úrvalsdeildinni. Það eru fáir plúsar í svona stöðu og hlýtur að fara um kjarnastuðningsmenn KR, sem eru flestu öðru vanir en botnskrapi. Þó ekki sé langt liðið á fótboltasumarið er þessi staða að verða glötuð nú þegar og fátt gott sem blasir við.

mbl.is KR enn án sigurs eftir 3:1 tap gegn ÍA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spænskur sigur á Mallorca - vondar leikaðstæður

Úr leik Spánverja og Íslendinga Horfði áðan á leik Íslands og Spánar sem fram fór á Mallorca. Þetta var bara nokkuð skemmtilegur leikur miðað við markaþurrðina í bleytunni. Leikaðstæður voru vægast sagt vondar, en það hellirigndi allan tímann og mátti vart á milli sjá hvort þetta væri mýrarbolti eða fótbolti.

Spánverjar eru komnir með 9 stig eftir fimm leiki en Ísland er með þrjú stig eftir fimm leiki. Vonandi gengur betur í næstu leikjum.

Árni Gautur var maður leiksins - hann stóð sig virkilega vel. Alveg virkilega góður dagur hjá honum. Leitt að ekki tókst að skora.

mbl.is Spánverjar sigruðu Íslendinga 1:0
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir kjörinn formaður KSÍ með yfirburðum

Geir Þorsteinsson Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri KSÍ, var í dag kjörinn eftirmaður Eggerts Magnússonar á formannsstóli Knattspyrnusambands Íslands með yfirburðum. Hlaut Geir yfir 70% atkvæða í kosningunni þar sem hann keppti við Jafet Ólafsson og Höllu Gunnarsdóttur. Sérstaklega vekur athygli mína hversu lítinn stuðning Halla hefur meðal þingfulltrúa, en þó var vel ljóst að hún hafði mikinn stuðning úti í samfélaginu.

Geir hafði lengi unnið hjá KSÍ og hafði mikinn stuðning stórra og öflugra knattspyrnufélaga og því öllum ljóst er haldið var inn í þingið að staða hans væri sterk en þó var ég að vona að það yrði meiri spenna í þessu og allavega færi fram önnur umferð. En þetta er víst svona og fer eftir bókinni ef svo má segja. Það er greinilegt að Eggert Magnússon hefur mikil ítök þarna inni og vilji hans nær algjör lög, ef svo má að orði komast.

Eggert Magnússon lætur nú af formennsku í KSÍ, en hann hefur leitt starf þess í átján ár, eða allt frá árinu 1989, en Eggert tók þá við formennsku af Ellert B. Schram, fyrrum alþingismanni, sem tveim árum síðar varð forseti Íþróttasambands Íslands, en hann gegndi þeirri stöðu í 15 ár. Eggert var á þingi KSÍ í dag kjörinn heiðursforseti sambandsins.

mbl.is Geir Þorsteinsson kjörinn formaður KSÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvílíkur skandall

Gaui Verð að segja það alveg eins og er að ég varð stórhissa á að Guðjón Valur væri ekki í úrvalsliðinu á HM. Hann var markahæsti maður mótsins og stóð sig fantavel og er ekki valinn í lið mótsins. Alveg kostulegt.... á maður ekki bara að kalla þetta hreinan skandal? Held það.

Félagi minn, Þorkell Gunnar, kom með góðar pælingar um þetta á síðunni sinni. Er meira og minna sammála því og mati hans á því hvernig lið mótsins eigi að vera skipað. Það að Gaui hafi ekki verið valinn er allavega eitthvað sem ég botna ekki í.

En svona er þetta víst. Mótið er allavega búið. Þýskir tóku þetta á heimavelli eins og ég sagði hér í kvöld og Danir fengu bronsið, fyrstu medalíu sína á HM í fjóra áratugi. Er enn alltof fúll út í Dani eftir leikinn á þriðjudag til að geta brosað yfir því í sannleika sagt. :)

Það er gott þegar að heimalið getur byggt upp stemmningu og neglt titil og kraft á heimavelli. Það tókst þeim þýsku. Okkur tókst það því miður ekki þegar að við höfðum mótið hérna heima árið 1995. Það var hreinræktuð sorgarsaga, einfalt mál.

En já, þetta mót er allavega búið. Ég er harðákveðinn á að fara á EM á næsta ári. Það er víst í Norge. Það er orðið allllltof langt síðan að ég hef farið til Noregs.....

mbl.is Guðjón Valur ekki í úrvalsliði HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðverjar heimsmeistarar á heimavelli

Henning Fritz Þjóðverjar urðu heimsmeistarar í handbolta fyrir stundu, er þeir lögðu Pólverja í úrslitaleiknum í Köln. Þeir vinna því mótið á heimavelli, sem hlýtur að teljast mjög sætt fyrir þá. Líst vel á þessa niðurstöðu, enda vildi ég frekar að Þjóðverjar fengju hnossið en Pólverjarnir. Danir hlutu bronsið svo fyrr í dag er þeir lögðu Frakka. Þetta eru fyrstu verðlaun Dana á HM í hvorki meira né minna en í 40 ár.

Stemmning Þjóðverja á heimavelli hefur skipt sköpum fyrir þennan árangur. Fyrir tólf árum var heimsmeistaramótið í handbolta haldið hér heima á Íslandi. Frammistaða okkar liðs þá var eitt af svörtu hliðum mótsins og stemmningin náði ekki að myndast með sama góða hættinum. Ég fór á nokkra leiki hér á Akureyri á sínum tíma, en riðlakeppnin var m.a. haldin hér. Stemmningin á mótinu varð aldrei góð og t.d. varð miðasalan langt undir öllum væntingum. Mótið varð ekki eins öflugt og eftirminnilegt allavega og að var stefnt.

En líst vel semsagt á Þjóðverjar hafi tekið þetta. Þó að við Íslendingar séum enn hundfúlir með að Danir hafi slegið okkur út í undanúrslitunum og við sitjum eftir er ekki annað hægt en að samfagna Dönum, þó seint verði sagt að ég hafi verið hryggur yfir því að þeir kæmust ekki í úrslitaleikinn.

mbl.is HM: Þjóðverjar heimsmeistarar í þriðja sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úff... svakaleg vonbrigði að fá áttuna

Óli Stef í baráttu við einn spænskan Það eru svakaleg vonbrigði fyrir okkur að hafa ekki náð að hafa Spánverjana og sitja eftir með logandi sárt ennið með áttuna. En svona er þetta bara... bítum á jaxlinn og í hið súra epli. Það er greinilegt að liðið hefur verið sem sprungin blaðra eftir Danaleikinn, það var mjög sárt og vont að tapa þeim leik. Alveg ömurlegt í einu orði sagt.

Það er aldrei þægilegt að sitja eftir í áttunda sætinu á svona móti, en það er okkar kaleikur að þessu sinni. Einhvernveginn óttaðist ég eftir tapið fyrir Dönum að þetta færi svona en vonaði það besta. Það hefur gerst oftar en einu sinni allt þetta mót að maður hefur vonað það besta fyrir leik en óttast það allra versta. Oft tókst okkur að landa mikilvægum sigrum. Töpin eru þó nístandi vond... þau eru það og verða alltaf þannig.

Þó að allt hafi djöfullega farið á lokaspretti mótsins verðum við að bera höfuðið hátt. Strákarnir gerðu sitt besta og það skiptir máli. Þeim tókst að komast lengra á þessu móti en mörgum óraði fyrir og topp átta er ekkert skelfilegt, en hljómar þannig þegar að við vitum af því hvaða tækifæri voru í stöðunni en náðust ekki. Þetta er bara grunnur fyrir betra starf á næstu árum. Liðið sýndi karakter á þessu móti og tókst að landa mörgum flottum sigrum og gera líf okkar notalegt þessa dimmu skammdegisdaga. Það er gott.

...það gengur bara betur næst.

mbl.is Ísland í 8. sætinu eftir tap gegn Spánverjum, 40:36
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sárt tap - leikið við Spánverja um 7. sætið

Úr leiknum við Rússa Jæja, heldur sárt var tapið fyrir Rússum áðan í leiknum um að fá að spila um fimmta sætið. Það var ýmislegt sem klikkaði í leiknum, eins og þeir sáu vel sem með fylgdust. Það er eins og það er. Nú verðum við að spila um sjöunda sætið á mótinu, spilum við Spánverja um það á laugardaginn.

Eigum við að vera fúl með þetta? Eflaust erum við flestöll hundfúl yfir að hafa ekki náð að leggja Rússana, ekki frekar en á HM hér heima. Þá lentum við heldur betur í því heilt yfir og tapið grátlegt á heimavelli. Nú töpum við en getum samt borið höfuðið hátt. Það verður að taka þessu eins og öðrum töpum á lífsleiðinni sem hverju öðru hundsbiti.

Auðvitað hefði það verið betra að vinna leikinn og leika um fimmta sætið en eiga á hættu að fá það sjötta. Nú verður spilað um sjöunda sætið við Spánverjana, sem við vorum nærri búin að fá sem keppinauta í leiknum um undanúrslitasæti. Nú verður liðið að reyna að negla sjöuna og koma brosandi frá þessu. Vonandi lendum við ekki í því að verða áttundu úr því sem komið er.

Það er mikil pressa að halda í svona leik. Tapið fyrir Dönum á þriðjudag var svo tæpt að grátlegt mátti teljast, eins og ég hef sagt hérna. Það er oft erfitt að koma með fullan damp úr slíku. En þetta er bara svona. Vonandi náum við sjöunda sætinu og getum glaðst með eitthvað í stöðunni. Áttunda sætið er aldrei gleðiefni að vinna á svona móti vissulega.

mbl.is Íslendingar leika um 7. sætið eftir tap fyrir Rússum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarlegt spennufall eftir Danaleikinn

Úr leiknum við Dani Það varð rosalegt spennufall eftir leikinn við Dani í gærkvöldi. Þvílíkur leikur - ótrúlegt moment. Þurfti á fund í gærkvöldi eftir leikinn og það var rosalegt spennufall í þessum hópi sem sat fundinn greinilega. Fólk hafði lifað sig algjörlega inn í leikinn og vonbrigðin voru svakaleg.

En nú taka næstu verkefni við. Vonandi er liðið til í þau átök. Það vill oft vera að spennufallið eftir svona leik sé lamandi og vindurinn sé í raun úr fólki. Vonandi á það ekki við um liðið. En það er auðvitað öllum ljóst að árangurinn er vel viðunandi á mótinu. Getum verið stolt.

En auðvitað hefði verið betra að fara lengra.... það er alltaf sárt að tapa með svo naumum mun, enda vorum við hársbreidd frá undanúrslitunum.

mbl.is HM: Íslenskt hugvit á bak við sigurmark Dana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háspenna í Hamborg - naumt tap fyrir Dönum

Úr leiknum við Dani Vá.... þvílík háspenna í Hamborg í kvöld. Það þarf að fara mjööög langt aftur til að finna aðra eins spennu í nokkrum handboltaleik okkar. Tap fyrir Dönum, vissulega eldsárt tap..... en við vorum sorglega nærri því að komast í undanúrslitin. Þetta var næfurþunnt og ómögulegt að segja um lengi vel á hvorn veginn færi. Var viss um þegar að okkur tókst að ná framlengingu að við næðum tökum á leiknum. Því miður varð ekki svo.

Þó að við getum svosem varla verið tilfinnanlega sár með að vera í topp átta hópi á svona öflugu móti er varla annað hægt en að vera fullur svekkelsis eftir leikinn, svekkelsið nagar okkur öll inn að beini. Þetta var svo tæpt allt að sorglegt má teljast. Annars getum við verið grobbin ofan í táberg af þessu liði. Það kom okkur lengra en væntingar margra stóðu til. Okkur tókst að sigra Frakkana og eiga ótrúlegar stundir. Það að landa sæti í fjórðungsúrslitum var meira en margir töldu gerlegt.

Við getum verið stolt af liðinu, andanum í því og öllum þáttum sem prýða það. Það tókst líka að mynda svakalega flotta stemmningu hér heima, þá mestu sem hefur vafist utan um landsliðið okkar í árafjöld, sennilega þá mestu síðan að Þorbjörn Jensson var landsliðsþjálfari og tókst að byggja liðið upp til ágæts árangurs á mótinu í Egyptalandi árið 1997 eftir fallið mikla á HM hérna heima. Botntilfinning okkar hefur aldrei farið neðar en þá enda vorum við rasskelltir hér á heimavelli í Laugardalshöll. Eins sorglegt og það var getum við ekki lýst stöðunni núna öðruvísi en sem vissum sigri þó það sé helv..... vont að hafa ekki náð meiru.

En svona er þetta... sigur í gær... tap í dag. Það eru ekki alltaf jólin, eins og sagt er. En nú eigum við að reyna að gera okkar besta í því sem eftir er og reyna að landa því allra besta sem eftir er í stöðunni. Vonandi tekst það. Þetta er ekki alvont vissulega... en sorglega nærri því. En fyrst og fremst eru grunnskilaboð mótsins þau að liðið komst þó þetta og við getum verið stolt af því. Við erum með gott lið og fínan efnivið í höndunum. Nú er bara að byggja á því.

En auðvitað var þetta sorglega tæpt og vonbrigðin voru gígantísk í leikslok að ná ekki þeirri agnarögn sem vantaði upp á sigur. En svona er þetta. En ég segi bara eins og Spaugstofan í denn.... það gengur bara betur næst! :)

mbl.is Draumurinn úti í Hamborg - Danir sigruðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband