Færsluflokkur: Íþróttir

Gangi þér vel Heiðar!

Gott að heyra að Heiðar Helguson, bekkjarbróðir minn frá í grunnskóla, sé kominn á fullt aftur í boltanum. Ætla að vona að honum gangi vel og nái að yfirstíga meiðslin sem hafa verið að plaga hann að undanförnu.

mbl.is „Ég sé enga framtíð hjá Bolton“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin styður við bakið á "strákunum okkar"

Strákarnir okkarMér finnst það flott hjá ríkisstjórninni að leggja landsliðinu lið. Eftir hinn frábæra árangur "strákanna okkar" í Peking þarf að tryggja að handboltinn hafi traustari umgjörð og landsliðið þarf að fá meiri pening til að vinna í sínum málum. Því er þetta gott skref.

Landsliðið tryggði árangur eftir umbrotatíma, þegar enginn vildi fóstra liðið sem þjálfari. Fjöldi manna höfnuðu því að taka starfið að sér vegna þeirrar umgjörðar sem var um starfið. Mikilvægt er að taka á því, en það mætti svosem segja mér að þeir sem höfnuðu þjálfarastöðunni öfundi Guðmund af því að hafa tekist það enginn trúði að væri hægt.

Og svo koma hetjurnar á morgun. Það er mikilvægt að þeir finni vel hversu stolt við öllum erum af þeim.


mbl.is HSÍ fær 50 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er komið að leiðarlokum hjá Óla Stef?

Ólafur Stefánsson Ég hafði það á tilfinningunni allan tímann meðan á úrslitaleiknum á Ólympíuleikunum í Peking stóð að þetta væri kveðjuleikur Ólafs Stefánssonar í landsliðinu. Þar sem við komumst ekki á HM í janúar er ekki nema von að spurt sé hvort hann verði í formi á næsta stórmóti og gefi þá kost á sér. Auðvitað vonum við það öll en verðum samt sem áður að velta fyrir okkur staðreyndum málsins.

Ólafur Stefánsson hefur verið burðarásinn í þessu liði, verið þar mikilvægasti hlekkurinn og leikið lykilhlutverk í frábærri liðsheild sem toppaði sig í ævintýrinu í Peking þar sem flestallt gekk upp. Við eigum öll Ólafi mikið að þakka, enda hefur hann verið stolt þjóðarinnar sem mikilvægasti maður landsliðsins árum saman og fyrirliði á stórmótum. Ekkert mun toppa þessa sigurstund í Peking, ævintýrið mikla, þar sem Ólafur var arkitektinn að árangrinum.

Ekki verður auðvelt fyrir þann sem tekur við fyrirliðabandinu af Ólafi að fara í fótspor hans, einkum og sér í lagi eftir þennan frábæra árangur í Peking. En maður kemur í manns stað. Kannski er kominn tími til að það verði kynslóðaskipti í forystunni, liðið þarf ávallt að endurnýja sig.

En við munum þó öll sjá eftir Ólafi. En sess hans í íþróttasögu landsins er og verður tryggður. Hann er einn af okkar bestu handboltamönnum fyrr og síðar.

mbl.is Kveðjuleikur hjá Ólafi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska landsliðið er sigurvegari þrátt fyrir tapið

Guðmundur Guðmundsson Ég er svo innilega sammála Guðmundi Guðmundssyni, handboltaþjálfara, í því að við unnum silfur en töpuðum ekki gulli. Finnst þetta vel orðað hjá honum. Mér finnst það mikið íþróttaafrek að vinna silfrið. Auðvitað hefðum við öll viljað það besta í stöðunni, en þetta er svo stórmerkilegur nýr kafli í íþróttasögu landsins sem er skrifaður þrátt fyrir tapið. Liðið náði langt og við getum öll verið stolt með það sem liðið vann.

Hitt er svo annað mál að mér finnst íslenska landsliðið vera sigurvegari dagsins. Fáir þorðu að spá okkur neinu fyrirfram, ekki einu sinni við sjálf vorum viss um gott gengi. Liðið var í erfiðum riðli með sterkum landsliðum annarra þjóða og það var ekkert öruggt. Sigurinn á Þjóðverjum og Rússum í upphafi var þó undirstaðan undir þessu mikla ævintýri. Finnst liðið allt vera stóri sigurvegarinn. Finnst erfitt að velja einhverja fáa. Svona íþróttaafrek vinnst ekki nema allir leggjist á eitt.

Finnst Guðmundur hafa gert frábæra hluti með liðið. Hann tók við því þegar enginn vildi taka verkefnið að sér. Alli Gísla hafði hætt á erfiðum tímapunkti eftir EM, þegar staða liðsins var fjarri því góð. Margir framtíðarmenn í handboltanum höfnuðu því að fóstra liðið næstu skrefin og flestir töldu þrautagöngu framundan. Sú varð raunin með Makedóníuleikana þar sem HM-sætið tapaðist. Þvílíkur bömmer. Liðið reis upp úr þeim vandræðum með afreki sínu núna.

Landsmenn allir virða þetta afrek mikils, sem er skráð gullnu letri í íþróttasögu okkar um ókomin ár þó ekki hafi tekist að koma gullinu heim á klakann. Þetta styrkir íþróttirnar í heild sinni og styrkir alla íþróttamenn í verkum sínum. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

mbl.is Töpuðum ekki gullinu heldur unnum silfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silfurdrengirnir okkar - þjóðarævintýrið mikla

Strákarnir með silfrið Ekki var hægt annað en vera stoltur af því að vera Íslendingur þegar "strákarnir okkar" tóku við silfrinu á Ólympíuleikunum í morgun. Flott augnablik, bæði í íslenskri íþróttasögu og Íslandssögunni sjálfri. Enda hefur það bara gerst þrisvar áður að Íslendingar komist á pall.

Þetta er auðvitað bara súrrealískt augnablik fyrir okkur öll og ekki við öðru að búast en að þjóðin sé stolt og hrærð. Eiginlega er það besta af öllu þegar heil þjóð vaknar fyrir allar aldir á sunnudegi. Þá er samstaðan algjör. Sumir eru ósáttir með að þetta var silfur. Auðvitað hefði verið gaman að vinna og fara alla leið, en við gátum ekki farið fram á meira.

Strákarnir voru búnir að toppa allt sitt og gefa okkur heilt ævintýri og við eigum að sætta okkur við að ná þó þessu. Einu sinni var sagt að enginn vildi vinna silfur, aldrei væri viðunandi að tapa. Við með okkar sögu í handboltanum, þar sem oft hefur mistekist að hampa nokkru á örlagastundu en við alltaf komist nærri sælunni sjálfri hljótum að gleðjast með þetta.

Ég er svo rosalega stoltur af strákunum og þeirra stórkostlegu frammistöðu. Held að við séum það öll. Við eigum ekki að síta að gulldraumurinn rættist ekki. Vonandi fær liðið aftur sama séns síðar og tekst að ná þessu. En við með okkar sögu eigum að gleðjast með sögulegan árangur og ég held að við gerum það öll innst inni.

mbl.is Íslendingar taka við silfrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strákarnir vinna silfrið - glæsileg frammistaða

Óli Stef í baráttu við Frakka Jæja ekki tókst að ná gullinu í Peking. Frakkarnir reyndust of erfiðir fyrir okkur í úrslitaleiknum og ekki vinnandi vegur að tækla þá, þeir yfirspiluðu strákana á öllum sviðum og eiga gullið vel skilið. Ósigurinn er auðvitað sár eftir allar björtustu stundir mótsins, þar sem hægt var að komast alla leið, en við eigum bara að brosa í gegnum tárin og vera sátt með silfrið.

Fyrir nokkrum vikum hefðu landsmenn allir verið sáttir við það eitt að ná í bronsleikinn. Allt var þetta ótrúlegur plús, himnasæla sem ekki er hægt að lýsa með orðum. Þetta er mikið afrek í íslenskri íþróttasögu og ber að fagna því sem slíku, ekki með því að leggjast í bömmer með að hafa ekki náð gullmedalíunni. Strákarnir jafna hálfrar aldar afrek Vilhjálms Einarssonar á Ólympíuleikunum í Ástralíu árið 1956 og það er frábært afrek.

Landsliðið átti glæsilega frammistöðu á þessu móti. Voru þar bestir með Frökkum og geta verið stoltir af því sem þeir hafa verið að gera. Þó alltaf sé súrt að missa af gullverðlaunum er þetta enginn heimsendir, heldur aðeins stórsigur miðað við það sem búast mátti við fyrirfram. Í silfurverðlaununum felast tækifæri í framtíðaruppbyggingu sem vonandi verða nýtt. Nú þarf að styrkja landsliðið enn frekar í uppbyggingu komandi ára. Efniviðurinn er frambærilegur og traustur.

Og við hin sláum upp heilli þjóðhátíð næstu dagana. Við eigum að fagna ótæpilega þessum árangri, slá um veislu og traustri gleði. Og það verður fjör þegar strákarnir koma heim. Þeim verður fagnað sem þjóðhetjunum einu og sönnu.

mbl.is Ísland í 2. sæti á ÓL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullna stundin - Frakkar að stinga af með gullið?

Sigri á Spánverjum fagnaðÞá er komið að úrslitastundinni hjá "strákunum okkar" í Peking. Gull eða silfur undir. Svei mér þá ef Frakkarnir eru ekki að stinga af með Ólympíugullið næsta auðveldlega. Líst ekkert á byrjunina. Frakkarnir eru einfaldlega mun betri og eru að yfirkeyra íslenska liðið.

Kannski var við því að Frakkarnir væru einum of erfiðir fyrir okkur. En það er hægt að taka þá, þrátt fyrir þessa byrjun. Vona að strákarnir komi einbeittir og hressir til leiks í seinni hálfleik og reyni sitt besta að snúa þessu við. En hvað með það, mér finnst íslenska liðið sigurvegari dagsins hvort sem það tapar eða sigrar.

Óneitanlega væri það samt sætt að fá að heyra íslenska þjóðsönginn í leikslok. Vonum það besta, þrátt fyrir að Frakkarnir séu að ná góðu forskoti í fyrri hálfleik. Ef menn eru hungraðir í gullið er hægt að taka það.


mbl.is Íslendingar lýsa upp handboltann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðarmaðurinn í íslenska markinu

Björgvin Páll Björgvin Páll Gústavsson hefur heldur betur verið einn lykilmannanna í þeim ævintýralega árangri sem landsliðið er að ná í Peking. Hann er klárlega framtíðarmaður í liðinu og hefur staðið sig frábærlega. Hann fékk sitt tækifæri og hefur haldið betur staðið undir því trausti.

Mér fannst Björgvin sérstaklega brillera í leiknum á móti Pólverjum. Markvarslan var auðvitað bara alveg stórfengleg og hann átti lykilþátt í að landa þeim sigri að mínu mati. Þetta er því klárlega ein helsta þjóðhetjan í þeirri þjóðhátíð sem við eigum um helgina.

Fannst áhugavert að lesa sögu hans og hvernig hann reis upp úr sínu og varð sá frambærilegi íþróttamaður sem hann er, framtíðarmaður í marki íslenska landsliðsins.

mbl.is Handboltinn bjargaði honum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk staða "strákanna okkar" í úrvalsliðinu

Sigri fagnað Enn erum við Íslendingar að ná áttum eftir gærdaginn, þvílíkur sæludagur. Þetta var enginn draumur heldur pjúra raunveruleiki, en geðshræringin var slík í gær að við vorum að fara yfir um og eiginlega þurftum að klípa okkur í hendina til að vera virkilega viss um að þetta væri ekki einn stór draumur.

Enginn vafi á að íslenska landsliðið er stjörnulið handboltamótsins á Ólympíuleikunum. Traustasta staðfesting þess er valið á Guðjóni Val, Óla Stef og Snorra í sjö manna úrvalslið leikanna. Algjörlega ómögulegt er að velja á milli þeirra sem bestu leikmanna handboltamótsins það sem af er og auðvitað fá þeir allir sess við hæfi.

Innilega til hamingju með þetta strákar! Svo er bara að taka þetta á morgun.

mbl.is Guðjón, Snorri og Ólafur í úrvalsliði Ólympíuleikanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk þjóðhátíð - gullin gleðivíma

Sigri fagnað Þetta hefur verið algjörlega magnaður dagur. Eiginlega er maður enn að búast við því að vakna af værum blundi og allt hafi þetta verið einn allsherjar draumur, en svo verður ekki sem betur fer. Man ekki eftir ánægjulegri dögum lengi.

Þjóðhátíðarbragurinn, stoltið og krafturinn, hefur aldrei verið meiri hjá þjóðinni. Gerist ekki betra en þetta, held ég. Nema þá auðvitað ef strákunum tekst að vinna gullið. Veit satt best að segja ekki hvernig stemmningin yrði á sunnudag ef það gerist. Mun allt fara á hvolf af sæluvímu.

Hvernig er hægt að fagna eiginlega þegar þjóðhetjurnar koma heim? Er ekki málið að hafa allsherjar útihátíð með öllu sem til þarf. Við erum svo óvön að fagna alþjóðlegum sigrum og verðlaunum að reynsluna skortir allverulega. En nú er tækifærið að móta einhverja hefð í því. Enda er þetta auðvitað bara fyrsta alvöru hnossið í boltanum á alþjóðavettvangi.

Hvernig er það annars með Geir og Þorgerði. Ætla þau ekki að lýsa daginn sem strákarnir koma heim sem allsherjar frídegi landsmanna og skipuleggja samhenta þjóðargleði? Ef einhvern tímann hefur verið ástæða til að öskra af gleði og fagna af krafti er það nú.

mbl.is „Sköpunarkraftur af öðrum heimi"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband