Færsluflokkur: Kvikmyndir

RIP meistari Hopper

Dennis Hopper var leiftandi og traustur leikari, ekki feiminn við að stuða og setti mark sitt á kvikmyndasöguna með afrekum sínum í fjölda kvikmynda. Myndin hans Easy Rider markaði viss þáttaskil í sögu kvikmyndanna, var í senn ferskt og nýtt upphaf þar sem kvikmyndabransinn breyttist umtalsvert.



En hans besta stund á hvíta tjaldinu var í Speed - leiftandi mynd og Hopper algjörlega í essinu sínu. Ein besta hasarmynd sögunnar og er alltaf jafn fersk og er á gríðarlegri siglingu.

En hann byrjaði sinn feril í Rebel Without a Cause og Giant með læriföður sínum í bransanum, James Dean. Hans stjarna reis eftir að Dean féll frá í blóma lífsins.

Og Easy Rider tær snilld, mikið meistaraverk sem mun ávallt vera stóra rósin í hnappagati Hoppers, sem leikara og leikstjóra.

mbl.is Dennis Hopper látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ódýra myndin fellir tekjuhæstu mynd sögunnar

Sigur stríðsmyndarinnar The Hurt Locker og leikstjórans Kathryn Bigelow á stórmynd James Cameron, vísindaskáldsögunni Avatar, er táknrænn og sögulegur í senn: þar fellir ódýra myndin, sem komin er út á DVD og vakti mun minni athygli kvikmyndaáhugamanna, tekjuhæstu mynd sögunnar, sem var talin örugg um sigur á hátíðinni fyrir nokkrum vikum, einkum eftir að hún vann Golden Globe-verðlaunin.

Kathryn Bigelow kemst í sögubækurnar með því að vera fyrsta konan til að vinna leikstjóraóskarinn í 82 ára sögu akademíunnar. Löngu tímabært að akademían heiðraði kvenkyns leikstjóra. Aðeins þrjár konur höfðu fengið tilnefningu í leikstjóraflokknum á undan Bigelow; Lina Wertmüller, árið 1976, Jane Campion, árið 1993, og Sofia Coppola, árið 2003.

Ljóst varð þegar Hurt Locker tók óskarinn fyrir handritið að hún myndi sópa til sín stærstu verðlaunum og vakti raunar mesta athygli þegar Hurt Locker vann hljóðverðlaunin í baráttunni við Avatar. Raunar hafði barátta Cameron og Bigelow um óskarinn verið í sviðsljósinu, einkum vegna þess að þau voru gift 1989-1991.

Jeff Bridges vann loksins óskarinn, seint og um síðir, tæpum fjórum áratugum eftir að hann sló í gegn í Last Picture Show og varð þekktur fyrir eitthvað annað en vera sonur Lloyd Bridges. Túlkun hans á drykkfellda sveitasöngvaranum í Crazy Heart hefur verið rómuð mjög. Bridges hefur átt glæsilegan leikferil og átt margar flottar leiktúlkanir - löngu búinn að vinna fyrir gullnu styttunni. Ræðan hans var traust og flott - sæt minning um mömmu og pabba.

Sandra Bullock náði að vinna hið merkilega afrek að vinna bæði Óskar og Razzie sömu helgina. Sandra hefur verið umdeild leikkona alla tíð, bæði fyrir að geta ekki leikið og vera lítt fjölbreytt í leiktúlkun. Hún átti góða takta í Speed og Crash, en ég hef ekki verið meðal hennar mestu aðdáenda í gegnum tíðina.

Hefði frekar viljað að Meryl Streep, besta leikkonan í Hollywood, fengi óskarinn. Það eru orðin 27 ár síðan Meryl hlaut óskarinn fyrir Sophie´s Choice, en hún vann fyrri óskarinn þrem árum áður fyrir Kramer vs. Kramer. Enginn leikari í sögu akademíunnar hefur hlotið fleiri tilnefningar, sextán talsins. Meryl hefði átt að fá styttuna.

Mo'Nique og Christoph Waltz voru með gullnu styttuna trygga. Öruggustu veðmál kvöldsins að þau myndu sigra, bæði tvö mjög verðskuldað fyrir flotta túlkun. Þegar ég sá Waltz í Inglourious Basterds var ég viss um að hann tæki óskarinn, glæsileg frammistaða.

Útsendingin var frekar þurr og þreytt. Það þarf að stokka uppsetninguna á hátíðinni eitthvað verulega upp. Baldwin og Martin voru ekkert spes sem kynnar, góðir brandarar voru mjög fáir. Langhundurinn í upptalningu þegar kom að aðalleikflokkunum var einum of og seinkaði dagskránni og bætti litlu við. Svo vantaði fleiri lífleg tónlistaratriði. Slappt að tilnefnd lög væru ekki spiluð.

Svo fannst mér snubbótt og leitt að heiðursverðlaunin voru ekki afhent á sviðinu á hátíðinni. Lauren Bacall átti þau skilið og gott betur en það: ein af síðustu leikkonum gullna tímans í Hollywood sem enn lifir, er ekkja Humphrey Bogart, og hefur verið traust leikkona alla tíð.

Akademían átti að veita henni leikverðlaunin fyrir Mirror Has Two Faces á sínum tíma. Fannst það frekar leitt að Bacall væri ekki sýndur meiri sómi þegar hún hlaut heiðursverðlaunin. Þetta var of snubbótt.



Hugljúfasta augnablikið á hátíðinni var þegar minnst var látinna listamanna. James Taylor söng Lennon/McCartney-lagið In My Life... sætt og vel gert. En hvar var Farrah Fawcett? Alveg til skammar að hún var ekki í klippunni!



Toppar samt ekki minningarklippuna á síðasta ári þegar Queen Latifah söng I´ll Be Seeing You... það var sko stæll yfir því. Fagmennska yfir þeirri klippu.

mbl.is Bigelow stjarna kvöldsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þokkagyðjan Liz

Ekki verður um það deilt að Elizabeth Taylor er ein af skærustu stjörnum kvikmyndabransans. Hún lifði hátt, en hún átti sínar sorgir og sigra, skilnaðirnir eru fyrir löngu orðnir sögufrægir og umdeildir. Þessi forna barnastjarna og þokkadís hefur þó helst verið í fréttum fyrir veikindi sín og heilsuleysi síðustu ár. Hún hefur ekki leikið í mörg ár, en leiksigrar hafa þó fjarri því gleymst, þó margir muni eftir henni sem umdeildri stjörnu í sviðsljósinu.



Enda hver getur nokkru sinni gleymt senunni flottu í Ketti á heitu blikkþaki, hinni yndislegu mynd byggðri á sögu Tennessee Williams, þar sem hún fór á kostum með Paul Newman, en hún lék í myndinni á tímamótum í lífi sínu, rétt eftir að eiginmaðurinn Mike Todd fórst í flugslysi. Stóra umfjöllunarefnið var þar í senn ástin og dauðinn.



Risinn var eitt hinna ógleymanlegu meistaraverka undir lok gullaldartíðar Hollywood, sem lýsti hinum geysilegu þjóðfélagsbreytingum sem áttu sér stað í Texas, er það breyttist úr mikilvægu nautgriparæktarhéraði í stærsta olíuiðnarfylki Bandaríkjanna á fjórða og fimmta áratug 20. aldarinnar. Samleikur Liz með Rock Hudson og James Dean er rómaður, öll áttu þau stjörnuleik. Þetta var síðasta myndin hans Dean. Alveg yndisleg... og Liz túlkaði kjarnakonu í gegnum aldarfjórðung ævi hennar með bravúr.



Stóra perlan hennar er þó auðvitað Martha í Who´s Afraid of Virginia Woolf... leiftrandi og öflug í sjóðandi heitri mynd. Hrein snilld... og hver getur nokkru sinni gleymt þessari senu? Taylor og Burton, dýnamíska dúóið í stuði.

mbl.is Elizabeth Taylor í hjartaaðgerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Roman Polanski á leið heim til Bandaríkjanna

Eftir þrjá áratugi fjarri Bandaríkjunum og á flótta undan réttvísinni er óskarsverðlaunaleikstjórinn Roman Polanski á leið heim... sem fangi framseldur frá Sviss. Nú verður að ráðast hvort gamli perrastimpillinn situr í Bandaríkjamönnum og hann þurfi að dúsa í fangelsi í mörg ár. Auðvitað hefur Polanski gert mörg meistaraverk og notið mikillar virðingar þrátt fyrir þessa fortíð á heimaslóðum. En þetta hefur samt alltaf vofað yfir honum, hann hefur ekki losnað við þennan stimpil.

Polanski vann samt sinn mesta sigur í Bandaríkjunum á þessum áratug í skugga þessarar fortíðar. Það var sögulegt þegar kvikmyndaakademían ákvað að verðlauna hann með leikstjóraóskarnum fyrir The Pianist. Umdeilt val... en samt sem áður traust. Myndin var stórfengleg og átti að mínu mati að vinna verðlaunin sem besta kvikmynd.... akademían var ekki tilbúin að ganga það langt. En Polanski hlaut uppreisn æru í kvikmyndaborginni og klapp á bakið þá.

Sumir voru eilítið hikandi þegar hann vann óskarinn... margir höfðu þá veðjað á að akademían myndi ekki þora að taka skrefið. Harrison Ford (sem lék í Frantic, mynd leikstjórans) afhenti verðlaunin en Martin Scorsese fékk marga í salnum þó til að rísa á fætur, eftir smáhik, og hylla leikstjórann, sem var heima hjá sér í París. Steve Martin átti einn besta brandara kvöldsins þegar hann sagði mjög afslappaður... Roman Polanski is here og öskraði svo grimmilega Geeeeet him... :)

Ekki er um það deilt að Roman Polanski er einn meistara nútíma kvikmyndagerðar... en hann er umdeildur meistari. Nú verður fróðlegt að fá svarið við hinni áleitnu spurningu undanfarinna ára... verður hann úthrópaður eða hylltur við heimkomuna sem perri eða meistari....

mbl.is Polanski verður framseldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karl Malden látinn



Karl Malden er látinn, tæplega tíræður að aldri. Malden var einn af síðustu öldnu höfðingjum gullaldartímabils kvikmyndabransans í Hollywood og verður ávallt minnst fyrir forystu sína í kvikmyndaakademíunni og trausta og mannlega túlkun í stórmyndum Elia Kazan; A Streetcar Named Desire og On the Waterfront.

Senan í Sporvagninum Girnd þar sem Vivien Leigh og Malden tala um dauða eiginmanns hennar er algjörlega ógleymanleg og ein sú besta í myndinni. Vivien Leigh átti mikinn stórleik í hlutverki Blanche, sem mér finnst miklu meira leiklistarafrek en túlkun hennar á Scarlett, þó frábær sé.

Malden á mjög lágstemmda en trausta túlkun í hlutverki Mitch, mágs Blanche. Bæði fengu óskarsverðlaunin auk Kim Hunter, en stóra stjarna myndarinnar, Marlon Brando tapaði fyrir Humphrey Bogart í Afríkudrottningunni. 



Í On the Waterfront átti Malden trausta frammistöðu í hlutverki prestsins. Þar átti Brando túlkun ferilsins í hlutverki boxarans og uppreisnarmannsins. Yndisleg og svo innilega sterk mynd. Þessi tvö atriði eru alltaf jafn traust.

mbl.is Karl Malden látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drungalegur dauðdagi í Bangkok

Eftir því sem meira er vitað um dauðdaga David Carradine í Bangkok verður þetta drungalegra og óhuggulegra. Þetta virðist ekki vera einfalt sjálfsvíg og líklegt að þetta hafi verið dramatískt í meira lagi. Eiginlega eins og atriði í kvikmynd.



En David Carradine var flottur leikari. Ég sagði í gær að Kill Bill væri það sem hefði verið í mestu uppáhaldi hjá mér af verkum hans. Ekki svo vitlaust að rifja upp aðra flotta senu með David og Umu Thurman úr Kill Bill.


mbl.is Grunur leikur á að kynlífsathöfn hafi dregið Carradine til dauða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

David Carradine sviptir sig lífi í Bangkok

David Carradine, sem svipti sig lífi í Bangkok, var litríkur karakter og mjög traustur leikari. Gaf allt í leikframmistöðuna, var sannur töffari líka.



Mér fannst hann alltaf bestur í Kill Bill tvennunni - þetta var endurkoman hans í fremstu víglínu í leikbransanum.

Kallinn var flottur í þessari rullu. Þetta atriði með Umu Thurman er t.d. tær snilld.

mbl.is David Carradine látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikari á krossgötum

Samúð allra kvikmyndaáhugamanna er með leikaranum Liam Neeson. Ég ætla að vona að hann muni snúa aftur á hvíta tjaldið þegar hann hefur náð sér eftir sinn mikla missi. Augljóst er að Neeson er á miklum krossgötum í einkalífi og störfum sínum nú. Hann mun taka sér þann tíma sem hann þarf til að ná áttum.



Hann er einn besti leikari sinnar kynslóðar og hefur átt margar ógleymanlegar leikframmistöður í gegnum árin en samt aldrei unnið óskarsverðlaun. Mér fannst það algjör skandall að hann skyldi ekki hljóta óskarinn forðum daga fyrir stórleik sinn í Schindler´s List. Þvílík frammistaða, ein af þeim bestu.



Held líka að frammistaða Neesons í Love Actually, þar sem hann túlkaði syrgjandi eiginmann, sem þarf að halda áfram lífsströgglinu ásamt stjúpsyni sínum, öðlist nýja merkingu núna. Sérstaklega þetta frábæra atriði úr myndinni.

mbl.is Liam Neeson gerir hlé á leikferlinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgarsaga Natöshu

Fregnin um andlát leikkonunnar Natöshu Richardson hefur snert viðkvæmar taugar áhugamanna um kvikmyndir og fræga fólkið um allan heim. Þetta er mikil sorgarsaga, enda sýnir vel að minnstu meiðsl geta verið lífshættuleg og lítið höfuðhögg getur haft gríðarleg áhrif og verið banvænt. Allt við þessa sögu er dramatískt en þetta er fyrst og fremst afskaplega tragísk endalok. Ég held að allir finni mjög til með ættingjum hennar.

Væntanlega verður mikið velt fyrir sér hvað hafi verið hægt að gera og hvort hægt hafi verið að bjarga henni. Allt fór á versta veg. Fyrstu viðbrögð hafa alltaf úrslitaáhrif þegar fólk slasast. Ég vona að þetta hafi fyrst og fremst þau áhrif til góðs að fólk fari ekki á skíði nema vera með hjálm á höfðinu.

mbl.is Hefði getað bjargað Richardson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Natasha Richardson látin - Redgrave-ógæfan

Natasha Richardson (1963-2009)
Þá er breska leikkonan Natasha Richardson, eiginkona leikarans Liam Neeson, látin, aðeins 45 ára að aldri. Þetta eru afar sorgleg endalok, en haldið var um stund í þá veiku von að hún myndi ná sér. Natasha Richardson var ekki aðeins heimsþekkt leikkona og gift frægum leikara, einum af þeim bestu í kvikmyndabransanum, heldur afkomandi þekktra leikara.

NR og Neeson
Móðir hennar er óskarsverðlaunaleikkonan Vanessa Redgrave, sem þekktust er fyrir óskarstúlkun sína í Juliu árið 1977, auk Agöthu og Howards End, og pólitíska þátttöku og umdeildar skoðanir, og faðir hennar var leikstjórinn Tony Richardson, sem hlaut leikstjóraóskarinn fyrir kvikmyndina Tom Jones árið 1963 og gerði t.d. ennfremur Blue Sky í upphafi tíunda áratugarins.

Vanessa Redgrave
Vanessa var eitt sinn í sambúð með Bond-leikaranum Timothy Dalton, og er auðvitað dóttir hins fræga breska leikpars Michael Redgrave (sem var einn besti leikari Bretlands fyrr og síðar) og Rachel Kempson. Natasha lék sjálf talsvert og átti ágætis feril, lék t.d. í myndinni um Patty Hearst og Nell (hún kynntist Neeson við gerð hennar) og Parent Trap.


Hún var samt alltaf í skugga systur sinnar, Joely, sem þekkt er fyrir leik sinn í Nip/Tuck og fjölda kvikmynda. Redgrave-ógæfan er orðin margfræg. Þó fjölskyldan hafi verið mjög fræg og verið ein sú traustasta í breskri leiksögu og orðið heimsfræg hefur hún orðið fræg fyrir persónulega erfiðleika og ólán í einkalífinu. 

Sjálf neitaði Natasha þessu oft og sagði þetta þjóðsögu. Sorgleg örlög hennar fær eflaust marga til að hugsa um Redgrave-ógæfuna.

mbl.is Natasha Richardson látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband