Færsluflokkur: Kvikmyndir

Slumdog vinnur 8 óskara - Bretar sigursælir

Kate Winslet, Sean Penn og Penelope Cruz
Bretar voru mjög sigursælir á Óskarsverðlaunahátíðinni í nótt. Kvikmyndin Slumdog Millionaire kom, sá og sigraði og hlaut 8 óskarsverðlaun, Danny Boyle hlaut leikstjóraóskarinn og breska leikkonan Kate Winslet hlaut loksins óskarinn í sjöttu tilraun sinni, en 33 ára gömul var hún yngsti leikarinn í sögu akademíunnar sem hafði tapað fimm sinnum. Sean Penn hlaut leikaraóskarinn fyrir túlkun sína á Harvey Milk, samkynhneigðum stjórnmálamanni í San Francisco sem var myrtur árið 1978, Heath Ledger, sem lést fyrir þrettán mánuðum, vann fyrir Dark Knight og spænska leikkonan Penelope Cruz fyrir leik í Woody Allen-mynd.



Með því að vinna átta óskarsverðlaun fer Slumdog Millionaire í flokk með kvikmyndunum Gone With the Wind, From Here to Eternity, Gandhi, On The Waterfront, Amadeus, My Fair Lady og Cabaret, sem náðu allar sama árangri. Aðeins sjö kvikmyndir hafa hlotið fleiri óskarsverðlaun í sögu akademíunnar en Slumdog; Ben-Hur, Titanic og The Lord of the Rings: The Return of the King sem hlutu ellefu óskarsverðlaun, West Side Story sem hlaut tíu óskarsverðlaun og The English Patient, Gigi og The Last Emperor sem hlutu níu óskarsverðlaun.



Loksins hlaut Kate Winslet óskarinn. Löngu kominn tími til. Hún hafði áður verið tilnefnd fyrir Sense and Sensibility, Titanic, Iris, Eternal Sunshine of the Spotless Mind og Little Children. Flutti trausta ræðu. Sagðist hafa beðið eftir þessu augnabliki síðan hún var átta ára. Pabbi hennar blístraði til hennar utan úr sal. Einlæg og traust ræða, tilfinningar og ekta bresk fágun sem einkenndu hana. Engin tár í tilfinningunum. Breskara verður það varla.



Sean Penn vann mörgum að óvörum fyrir stórfenglega túlkun sína á Milk. Mickey Rourke sat eftir með sárt ennið, en margir höfðu spáð honum hnossinu. Tap hans á SAG-verðlaununum var einkennandi um hvert stramurinn lá. Penn er orðinn eftirlæti akademíunnar, vann síðast óskarinn fyrir fimm árum fyrir leik sinn í Mystic River, og Hollywood gaf út sterka yfirlýsingu um andstöðu við samþykkt fylkisbanns á hjónaband samkynhneigðra í leiðinni.

Penn flutti frábæra ræðu, eins og hans er von og vísa. Talaði um pólitísku áherslurnar í valinu, sem eru augljósar, og um leið talaði hann vinalega til Rourke, kallaði hann bróður sinn. Penn hefur alltaf verið mjög pólitískur og ekki við öðru að búast en hann talaði vel um nýjar áherslur með Obama í Hvíta húsinu. Augljóst er að Penn lék Milk til að vekja athygli á pólitískum málstað sínum og vinnur á þeim grunni auk auðvitað sannkallaðrar stjörnutúlkunar.



Heath Ledger markaði söguleg skref með því að vinna óskarinn, eins og fyrr segir hér á vefnum, enda aðeins annar leikarinn í 81 ára sögu akademíunnar sem fær óskarinn eftir andlát sitt. Mjög tilfinningarík stund þegar foreldrar Heaths og systir hans fóru upp á svið til að taka við verðlaununum. Margir grétu og sýndu tilfinningar meðan Heath var minnst. Sigurinn er táknrænn að öllu leyti en er fyrst og fremst verðskuldaður heiður.



Penelope Cruz vann aukaleikkonuóskarinn, aðeins annar spænski leikarinn í sögu akademíunnar sem hreppir það hnoss. Javier Bardem var sá fyrsti er hann vann í aukaleikaraflokknum í fyrra fyrir stórleik sinn á Anton í No Country for Old Men. Cruz fer í fríðan hóp leikkvenna sem fær óskarinn eftir að hafa unnið með Woody Allen. Cruz er í sérflokki meðal evrópskra leikkvenna. Gott að Hollywood heldur áfram að heiðra evrópska leikara.



Handritsverðlaunin voru nokkuð fyrirsjáanleg, enda Slumdog og Milk sem báru þar af. Homminn Dustin Lance Black, sem skrifaði óskarshandritið að Milk, átti að mínu mati bestu ræðu kvöldsins þegar hann talaði um sigur samkynhneigðra á hátíðinni og hvaða merkingu niðurstaðan hefði fyrir sig og baráttuna sem Harvey Milk hóf í raun og gerði opinbera á áttunda áratugnum. Frábær ræða og mjög tilfinningarík. Wall-E vann svo verðskuldað sín verðlaun.

Verðlaunaathöfnin var í heildina mjög vel heppnuð. Í fyrsta skipti frá árinu 1985 stjórnaði grínisti ekki hátíðinni. Hugh Jackman fetaði nýjar slóðir sem kynnir og átti góða spretti, þó ekki hafi hann nú jafnast á við Billy Crystal, sérstaklega ekki í misjafnlega ágætu söngatriði í upphafi. Sumir hlutar þess voru lala og aðrir rétt rúmlega ágætir. Sviðinu var breytt, var hringlaga og skapaði það nálægð við fólk í sal og áhorfendur heima - tók smátíma samt að venjast því.

Óskarinn er kominn á níræðisaldur og ber aldurinn vel. Stjórnendur hátíðarinnar gerðu gott í að ferska aðeins upp á pakkann, breyta umgjörðinni verulega á sumum sviðum. Leitað var til fortíðar og yfirbragðið meira gamaldags en verið hefur. Þetta var vægast sagt notaleg andlitslyfting á gamalgrónum verðlaunapakka. Best af öllu fannst mér að fá fimm leikara til að afhenda leikverðlaunin, þar af þann sem vann í leikflokknum árið áður og auk þess fræg nöfn fyrri tíðar.

Gaman að sjá Evu Marie Saint, Goldie Hawn, Whoopi Goldberg, Christopher Walken, Robert DeNiro, Anthony Hopkins, Sophiu Loren, Kevin Kline, Ben Kingsley, Shirley MacLaine og Alan Arkin afhenda verðlaun. Saknaði samt myndaklippunnar með leikframmistöðu tilnefndra en góð viðbót var að talað var beint til þeirra um þá sjálfa og eiginleika persónanna sem þeir léku.



Allavega, þetta var gott show og gekk vel fyrir sig. Snarpt og vel gert. Stóra rúsínan í pylsuendanum fannst mér reyndar þegar Queen Latifah fór upp á svið og söng I´ll be seeing you á meðan minnst var látinna leikara og annarra sem tengst hafa kvikmyndum.

Frábær stemmning á meðan myndir af leikurunum Charlton Heston, Roy Scheider, Cyd Charisse, Richard Widmark, Paul Scofield, Paul Newman og fleirum runnu yfir á skjánum. Yndislegt og hugljúft. Viðeigandi að goðsögnin Newman ætti lokaorðið.

Í heildina frábært óskarskvöld og notaleg kvikmyndastemmning í Hollywood, sú besta í mörg ár. Skemmtilega bresk stemmning og svolítið hugljúft innst inni að sjá Slumdog-hópinn taka yfir Hollywood einu sinni.


mbl.is Viltu vinna milljarð? sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heath Ledger vinnur óskarinn fyrir Dark Knight

Heath Ledger sem Jókerinn í The Dark Knight
Heath Ledger varð fyrir stundu annar leikarinn í sögu Óskarsverðlaunanna til að hljóta Óskarinn eftir andlát sitt fyrir túlkun sína sem Jókerinn í The Dark Knight. Sir Peter Finch fékk óskarinn fyrir túlkun sína í Network árið 1977, tveimur mánuðum eftir andlát sitt. Ledger lést eins og kunnugt er í New York í janúar á síðasta ári, þegar hann var að ná hápunkti síns ferils og átti svo margt enn eftir.

Ledger var leiftrandi og yndislega illkvittinn sem Jókerinn - lagði allt í þessa túlkun og færði okkur enn dýpri og kuldalegri karakter en Jack Nicholson gerði í fyrstu Batman-kvikmyndinni fyrir tveim áratugum. Þetta er að mínu mati ein besta leikframmistaða áratugarins og ég er sannfærður um að hún hefði verið verðlaunuð þó hann hefði ekki dáið, hún er svo traust.

Í raun tel ég að hún verði ekki síður eftirminnileg í sögubókum framtíðarinnar en leiksigrar James Dean á sjötta áratugnum í East of Eden, Giant og Rebel Without a Cause, ógleymanlegum meistaraverkum sem halda minningu hans á lofti um eilífð. Dean dó ungur en afrek hans voru verðskuldaðir leiklistarsigrar sem eru í minnum hafðir.

Þrátt fyrir allt lofið hlaut Dean þó aldrei óskarinn, þó hann væri tilnefndur tvisvar eftir andlát sitt. Ekki hefur verið hefð fyrir því í Hollywood að leikarar fái óskarinn eftir andlát sitt, t.d. vann Spencer Tracy ekki fyrir stórleik sinn í Guess Who´s Coming to Dinner svo annað dæmi sé nefnt.

Ég fagna því að Hollywood hafi heiðrað minningu þessa hæfileikaríka og frábæra leikara með óskarsstyttu, ekki aðeins til minningar um ógleymanlega leiktúlkun merks leikara heldur sem minnisvarða um hvað hefði getað orðið.

Umfjöllun SFS um Heath Ledger í janúar 2008

Spádómar um Óskarsverðlaunin 2009

ÓskarÓskarsverðlaunin verða afhent í 81. skiptið í Los Angeles í nótt. Óskarinn er án nokkurs vafa helsta kvikmyndahátíð sögunnar, ein mesta uppskeruveisla kvikmyndabransans og þar koma helstu leikarar og kvikmyndagerðarmenn samtímans saman.

Ég ætla hér og nú að pæla í verðlaununum og spá í úrslitin í nokkrum af helstu flokkunum, svona mér mest til gamans. Mikil vonbrigði eru þó að engin íslensk sjónvarpsstöð sýni frá hátíðinni. Önnur úrræði verða því að verða til að horfa á en stóla á Stöð 2.


Kvikmynd ársins
The Curious Case of Benjamin Button
Frost/Nixon
Milk
The Reader
Slumdog Millionaire

Pælingar: Allt frábærar kvikmyndir í algjörum sérflokki og mjög sigurstranglegar. The Curious Case of Benjamin Button er langdregin en heilsteypt og vönduð kvikmyndaútfærsla á ævi með öfugum formerkjum. Frost/Nixon færir okkur bakvið tjöldin í besta pólitíska viðtal sögunnar, þar sem Nixon reyndi að verja heiður sinn eftir niðurlægjandi valdamissi. Milk er heillandi saga af hinum samkynhneigða stjórnmálamanni Harvey Milk sem féll fyrir morðingjahendi árið 1978. The Reader er sannkölluð eðalmynd og Slumdog Millionaire einlæg og kjarnmikil.

Spá: Veðja á að Slumdog Millionaire fái óskarinn. Var sú mynd sem mér fannst pottþéttust sem kvikmyndaáhugamaður. Hafði einfaldlega allt, traustur heildarpakki. Sem pólitískur áhugamaður heillaðist ég samt að Frost/Nixon alveg frá upphafi til enda, traust kvikmynd að öllu leyti en þetta verður samt ekki árið hennar. Slumdog er blæbrigðarík og pottþétt, mannbætandi og traust. Mæli hiklaust með henni.


Leikstjóri ársins
David Fincher
- The Curious Case of Benjamin Button
Ron Howard - Frost/Nixon
Gus Van Sant - Milk
Stephen Daldry - The Reader
Danny Boyle - Slumdog Millionaire

Er ekki í vafa um að Boyle vinnur óskarinn. Slumdog Millionaire er traust að öllu leyti og leikstjórann sem setti hana saman og gerði hana svo yndislega á að heiðra. Einfalt mál.


Leikari í aðalhlutverki
Richard Jenkins - The Visitor
Frank Langella - Frost/Nixon
Sean Penn - Milk
Brad Pitt - The Curious Case of Benjamin Button
Mickey Rourke - The Wrestler

Sean Penn og Mickey Rourke berjast um sigurinn í þessum flokki. Endurkoma Rourke er stórmerkileg og hann á sannkallaðan leiksigur í sinni rullu. Penn túlkar Harvey Milk af mikilli innlifun og snilld og á besta leik sinn síðan í Mystic River. Frank Langella er stórfenglegur í hlutverki Nixons forseta - túlkar hann bæði sem skúrk og fórnarlamb innri flækja. Brad Pitt á túlkun ferilsins í frábærri rullu. Vonast eftir því að Rourke vinni en hallast að því að Penn taki þetta.


Leikkona í aðalhlutverki
Anne Hathaway - Rachel Getting Married
Angelina Jolie - Changeling
Melissa Leo - Frozen River
Meryl Streep - Doubt
Kate Winslet - The Reader

Mér finnst blasa við að Kate Winslet vinni óskarinn. Fimm sinnum hefur hún tapað á óskarshátíð og oftast nær verðskuldað að sigra. Hennar tími er kominn. Ef hún tapar er ein ástæðan sú að myndin er mjög umdeild. Væri vissulega gaman að sjá Hathaway vinna, enda átti hún stórleik, og Meryl Streep, sem hefur ekki unnið óskar í 26 ár og hefur verið tilnefnd oftast allra leikara. En þetta er árið hennar Winslet.


Leikari í aukahlutverki
Josh Brolin - Milk
Robert Downey Jr. - Tropic Thunder
Philip Seymour Hoffman - Doubt
Heath Ledger - The Dark Knight
Michael Shannon - Revolutionary Road

Engin spurning. Heath Ledger vinnur óskarinn. Hann átti stórleik í hlutverki Jókersins í The Dark Knight og verðskuldar að sigra, enda að mínu mati ein besta leikframmistaða áratugarins.


Leikkona í aukahlutverki
Amy Adams - Doubt
Penélope Cruz - Vicky Cristina Barcelona
Viola Davis - Doubt
Taraji P. Henson - The Curious Case of Benjamin Button
Marisa Tomei - The Wrestler

Erfiðast að spá um úrslit í þessum flokki. Mér finnst Penelope Cruz verðskulda mest sigur, enda stórglæsileg í sinni mynd og var sigurstrangleg fyrir nokkrum árum fyrir túlkun sína í Volver. Viola Davis var hinsvegar frábær í Doubt og Amy Adams átti stórleik í sömu mynd ennfremur. Henson var yndisleg í BB. Held að þetta verði árið hennar Cruz.


Þrátt fyrir að engin sé sjónvarpsútsendingin vona ég að þeir sem geta horft og eins sem skanna netið í staðinn skemmti sér vel. Sendi hinsvegar skammarkveðjur til Stöðvar 2 fyrir að úthýsa keppninni!

Fróðleikur um Óskarsverðlaunin - samantekt SFS 2008


mbl.is Óskarinn afhentur í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bollywood nær í gullhnött - tvenna hjá Kate

Kate Winslet
Mikið var um óvænt úrslit við afhendingu Gullhnattarins í nótt. Kate Winslet kom öllum á óvart, mest þó sjálfri sér, með því að endurtaka afrek Helen Mirren fyrir tveim árum og hljóta tvenn verðlaun fyrir leik, bæði fyrir aðalhlutverk í Revolutionary Road og aukahlutverk í The Reader. Löngu var kominn tími til að Kate myndi vinna verðlaunin, en hún hafði aldrei unnið gullhnött og ekki enn fengið óskarinn þrátt fyrir fimm tilnefningar í báðum verðlaunum. Nokkuð öruggt er að hún fær óskarinn í næsta mánuði og það tímabært.

Velgengni Slumdog Millionaire var verðskulduð. Myndin hefur hlotið mjög góða dóma og ég hlakka mjög til að sjá hana. Hef séð nokkrar klippur úr henni og tel langlíklegast að hún verði sigursæl á óskarnum. Auðvitað eru stórtíðindi að leikarar úr Bollywood séu aðalstjörnurnar í einni heitustu mynd ársins 2008 og er til marks um breytta tíma. Í fyrra heiðraði bandaríska kvikmyndaakademían evrópska leikara í öllum leikflokkunum og má alveg búast við að sigurstund Bollywood verði ekki síður merkileg.

En talandi um óvænt úrslit. Átti ekki von á að Mickey Rourke fengi gullhnöttinn fyrir The Wrestler. Straumurinn var klárlega með Sean Penn sem á stórleik í Milk, magnþrungri sögu um Harvey Milk, hinn umdeilda samkynhneigða stjórnmálamann í San Francisco, sem myrtur var ásamt Moscone borgarstjóra af Dan White í skotárás í ráðhúsinu árið 1978. Klárlega ein af bestu myndum ársins. En Penn vann ekki, gæti verið að það minnki möguleika hans að hafa unnið fyrir ekki svo löngu fyrir Mystic River.

Heath Ledger hlaut verðskuldað gullhnöttinn fyrir stórleik sinn í The Dark Knight. Held að það þurfi ekki mikla spámenn til að sjá að hann fær óskarinn fyrir hlutverkið ennfremur. Þetta er ein besta leikframmistaða síðustu ára og fær verðskuldað hrós og verður margverðlaunuð á þessu verðlaunatímabili. Svo kom ekki á óvart að sjónvarpsmyndin um John Adams sópaði að sér verðlaunum. Hlakka til að sjá hana í íslensku sjónvarpi vonandi sem fyrst á nýju ári.

mbl.is Slumdog vann á Golden Globe
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glysið og stjörnuljóminn umlykur Gullhnöttinn

gg1
Samkvæmt hefð ætla ég að horfa á afhendingu Gullhnattarins, Golden Globe-verðlaunin, á eftir. Þar verður verðlaunað bæði fyrir kvikmyndir og leikið efni í sjónvarpi og Steven Spielberg fær heiðursverðlaunin, kennd við Cesil B. DeMille. Hann átti að fá þau fyrir ári en þau var verðlaunaafhending felld niður með glys og stjörnuljóma vegna verkfalls handritshöfunda. Þá var bara haldinn blaðamannafundur í tæpan hálftíma og tilkynnt um sigurvegara.

Erfitt að spá um sigurvegara að þessu sinni. Margar myndir eiga alvöru séns. Ætla bara að segja hverjir ég vona að vinni. Vona að Heath Ledger fái Gullhnöttinn fyrir hina stórfenglegu leikframmistöðu sína í The Dark Knight. Þetta er einn mesti leiksigur síðustu áratuga og ber að verðlauna hann fyrir það leikafrek, nú tæpu ári eftir lát hans. Þetta er svo traust frammistaða að hana verður að heiðra með leikverðlaunum á næstu vikum, auðvitað með óskar.

Vil líka að Sean Penn vinni fyrir stórleik sinn í kvikmyndinni Milk og Meryl Streep fyrir Doubt. Annars eru allar leikkonurnar í dramaflokknum með glæsilega leikframmistöðu og eiga allar skilið að vinna. Tími Kate Winslet er auðvitað fyrir löngu kominn. Nú hlýtur hún að vinna óskarinn og ég er viss um að hún fær annað hvort verðlaunin í aðal- eða aukaleikaraflokknum.

Vil helst að Slumdog Millionaire vinni kvikmyndaverðlaunin, enda eðalmynd, eða The Reader. Verður vonandi fín og góð nótt.

mbl.is Golden globe-verðlaunin veitt í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Paul Newman látinn

Paul Newman
Ég var að heyra rétt í þessu að leikarinn Paul Newman væri látinn, 83 ára að aldri, úr krabbameini. Newman var goðsögn í lifanda lífi, dáður fyrir leik sinn og var einn mesti töffari kvikmyndabransans. Bláu augun hans voru leiftrandi og hann var jafnvígur á að túlka drama og grín.  



Uppáhaldsmyndin mín með Newman var Cool Hand Luke. Mér fannst hún algjörlega frábær þegar ég sá hana fyrst og ég hef fyrir löngu misst töluna á hversu oft ég hef séð hana. Eggjasenan er algjörlega ógleymanleg.

mbl.is Paul Newman látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svanasöngur Ledgers - framtíð Matildu

Matilda og Heath LedgerEnginn vafi leikur á því að leikarinn Heath Ledger er stjarna kvikmyndanna á þessu sumri, hálfu ári eftir lát sitt. Hann sló í gegn sem Jókerinn í The Dark Knight og lifir í huga fólks, út fyrir dauða og gröf. Talað er um að hann fái tilnefningu til óskarsverðlaunanna fyrir. Þrátt fyrir að Ledger hafi dáið ungur og ekki enn náð hátindi sinnar frægðar virðist stjörnusess hans bæði óumdeildur og tryggur á komandi árum. Hann er orðinn goðsögn.

Þó að hlutverk Jókersins sé síðasta stjörnurulla Ledgers eigum við enn eftir að sjá hann einu sinni enn á hvíta tjaldinu, í hlutverki Tony í The Imaginarium of Dr. Parnassus. Mikið verk var eftir við gerð myndarinnar þegar Ledger lést í janúarmánuði og hún í raun aðeins hálfköruð. Mér finnst það virðingarvert að myndin verði kláruð með því að breyta handritinu og söguþræðinum með því að persóna Heath persónugerist í öðrum leikurum, þeim Johnny Depp, Colin Farrell og Jude Law.

Með þessu er hægt að heiðra minningu Ledgers og um leið færa okkur eina mynd í viðbót með honum, þó hún verði auðvitað aldrei eins öflug og traust eins og hún hefði orðið fullkláruð með Heath Ledger, jafn dýnamísk og traust og t.d. The Dark Knight. En það sem mér finnst merkilegast af öllu er að leikararnir ætli að færa einkadóttur Ledgers laun sín við gerð myndarinnar og með því í raun ánafna honum bæði verk sitt og afrakstur þess, enda verður myndin augljóslega kynnt sem svanasöngur Ledgers.

Mikið hefur að undanförnu verið rætt um framtíð Matildu Ledger, í kjölfar þess að erfðaskrá föður hans var opinberuð. Erfðaskráin var gerð fyrir fimm árum, áður en hann tók saman við Michelle Williams og eignaðist einkadótturina. Dóttirin er því arflaus og fær ekkert eftir föður sinn nema þá að afi hennar og amma, sem erfa allar eigur leikarans, ákveði að veita henni einhverja peninga. Reyndar hefur komið í ljós að hann lét ekki eftir sig digra sjóði fjár og eigna.

Ledger dó ungur og áður en hann náði hátindi frægðar sinnar, sem var reyndar í sjónmáli þegar að hann dó með tækifærum sem fylgja stjörnurullum í góðum kvikmyndum. Eftir að hann var tilnefndur til óskarsverðlaunanna fyrir Brokeback Mountain tveim árum virtust honum allir vegir færir og þá fyrst öðlaðist hann virkilega stöðu í bransanum.

Enn virðist deilt bakvið tjöldin um peningana eftir Ledger. Hann hafði ekki ákveðið að breyta erfðaskrá sinni eftir að eignast barn - hefur væntanlega talið að nógur yrði tíminn til að ákveða þau mál. Hann var ungur og greinilega taldi ekki þörf á að lista upp hlutina að nýju. Eftir stendur því dóttirin arflaus í erfðaskrá sem er eldri en hún.

Efast varla um að Matilda Rose Ledger muni njóta ástúðar og frægðar þrátt fyrir að faðir hennar sé fallinn í valinn. Með rausnarskap hafa leikararnir þrír fært henni undirstöðu í lífið, peninga sem nýtast henni síðar meir, ég held líka að þessir peningar verði í raun föðurarfurinn sem hún aldrei fékk.


mbl.is Dóttir Heath Ledgers fær laun þriggja leikara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bernie Mac látinn

Bernie Mac Leikarinn Bernie Mac er látinn, langt um aldur fram. Mér brá nokkuð þegar ég heyrði síðdegis að hann væri dáinn, enda höfðu fréttir síðustu dagana verið þannig að hann væri að ná sér af veikindum sínum. Mikil eftirsjá er af Bernie, enda var hann einn af bestu grínistunum í Bandaríkjunum og var einn sá besti úr hópi þeldökkra fyrr og síðar.

Held að aðeins Eddie Murphy, Bill Cosby og Richard Pryor komist nálægt stöðu hans meðal þeldökkra grínista, hafi verið á pari við hann eða betri. Hann hóf feril sinn ungur sem grínisti og sló í gegn allt frá byrjun, var fæddur í grínistahlutverki. Andlitstaktar hans og tjáning, alveg brilljant. Hann var langbestur í uppistandsgríninu. Ég hafði mjög gaman af sjónvarpsþáttunum hans og fannst þeir virkilega góðir.

Síðla ferilsins lék hann í nokkrum myndum. Bestu myndirnar hljóta þó að teljast Bad Santa, Charlie´s Angels, Transformers, Ocean´s myndirnar, Head of State og Guess Who, sem var skemmtileg og nýstárleg útgáfa af hinni sígildu sögu Guess Who´s Coming to Dinner sem var kvikmynduð árið 1967 með Spencer Tracy og Katharine Hepburn, síðustu myndinni hans Spencers og endalokin á mögnuðu ástar- og vinnusambandi þeirra.

Í veruleika sjöunda áratugarins var þeldökkur tengdasonur í hvítri fjölskyldu mikið vandamál en í upphafi nýrrar aldar var þessu snúið við - tengdasonurinn hvítur í þeldökkri fjölskyldu og tengdafaðirinn úrillur Bernie Mac. Frábær mynd, sem kemur með annað sjónarhorn á fræga sögu og gerir það vel.

Minning magnaðs grínista, eins þeirra bestu fyrr og síðar, mun lifa, þó hann hafi kvatt alltof snemma.

mbl.is Bernie Mac látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgan Freeman á batavegi

Morgan Freeman Ánægjulegt er að heyra að óskarsverðlaunaleikarinn Morgan Freeman sé á batavegi og muni ná sér að fullu eftir bílslysið sem hann lenti í um helgina. Fyrstu fréttir gáfu til kynna að hann væri í lífshættu og ástandið væri ekki gott og sem betur fer reyndist það ekki rétt.

Staða Morgan Freeman sem eins vinsælasta núlifandi leikarans í Hollywood hefur reyndar komið mjög vel fram í kjölfar umferðarslyssins, enda flestir ritað um hann og leiktúlkanir hans af mikilli virðingu. Hef verið að skoða fréttavefina núna um miðnættið og sé undantekningarlítið vel skrifað um hann.

Held að þeir séu mjög fáir leikararnir í dag sem njóta meiri virðingar en Morgan Freeman. Sá reyndar fyrir nokkrum mánuðum vitnað í könnun þar sem Morgan Freeman er sá þeldökki leikari í dag sem nýtur mestrar virðingar og er mjög ofarlega á lista yfir bestu leikarana í Hollywood almennt.

Horfði í kvöld á kvikmyndina Glory með Freeman og Denzel Washington frá árinu 1989, bæði vegna þess að langt er um liðið síðan ég sá hana og ég vildi rifja hana upp aftur. Mæli eindregið með henni. Traust úrvalsmynd þar sem vinsælustu þeldökku leikarar síðustu áratuga; Freeman og Washington fara á kostum - Washington fékk óskarinn fyrir hana.

mbl.is Gerði að gamni sínu við björgunarmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgan Freeman slasast alvarlega í bílslysi

Morgan Freeman Óskarsverðlaunaleikarinn Morgan Freeman slasaðist alvarlega í bílslysi í Mississippi í gær. Vonandi mun hann ná sér og eiga afturkvæmt í leikbransann mjög fljótlega. Freeman er einn þeirra bestu í bransanum og hefur á rúmum tveimur áratugum tryggt sér sess sem einn fremsti leikari sinnar kynslóðar og er heimsþekktur fyrir frábærar leikframmistöður.

Aðeins er um hálfur mánuður síðan ég sá nýjustu mynd hans, Batman-myndina The Dark Knight, í bíó, þar sem hann stóð sig mjög vel í hlutverki Lucius Fox, rétt eins og í Batman Begins. The Dark Knight er orðin ein sú vinsælasta í kvikmyndasögunni og slegið öll met sem hægt er að státa sig af og þegar komin á spjöld sögunnar á nokkrum vikum.

Ráðgert hafði verið að Freeman myndi leika Nelson Mandela, fyrrum forseta Suður-Afríku, í nýrri kvikmynd The Human Factor á næsta ári og var stutt í að tökur myndu hefjast á henni. Vonandi mun Freeman ná heilsu og geta tekið þátt í því verkefni, enda enginn betri í það verkefni að leika Mandela í mynd um litríka ævi hans.

Morgan Freeman hefur alltaf verið meðal minna uppáhaldsleikara. Stærstu leiksigrar hans í The Shawshank Redemption og Driving Miss Daisy verða lengi í minnum hafðir þó að uppáhalds leikframmistöður mínar með honum séu reyndar Rawlins í Glory og Somerset í Se7en.

Svo er túlkun hans á boxþjálfaranum í Million Dollar Baby fyrir nokkrum árum mjög eftirminnileg, en hann fékk loksins óskarinn fyrir hana, seint og um síðir. Hann hafði beðið of lengi eftir verðlaununum.

Annars eru allar myndir Freeman eftirminnilegar hver á sinn hátt, enda hefur Freeman góða framsögn og er jafnvígur á drama og kómík.

mbl.is Morgan Freeman alvarlega slasaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband