Breytingar á nefndum bæjarins

Hermann Jón og Kristján Þór

Eins og flestir bæjarbúar vita var það eitt fyrsta verkefni nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í bæjarstjórn Akureyrar kjörtímabilið 2006-2010 að stokka upp í nefndakerfi bæjarins. Með því var nefndum fækkað og nokkrum þeirra skeytt saman. Jafnréttis- og fjölskyldunefnd og áfengis- og vímuvarnarnefnd átti að skeyta saman í fjölskylduráð og menningarmálanefnd vera lögð niður. Verksvið menningarmálanefndar átti að færa undir önnur verkefni tengd atvinnumálum og fleiru og ný nefnd að hljóta nafnið Akureyrarstofa. Þetta voru að mörgu leyti athyglisverðar breytingar sem voru kynntar í vor.

Nú á haustdögum áttu breytingarnar að taka gildi og nú hafa lokatillögur bæjarstjórnarmeirihlutans verið samþykktar. Lengra mun verða gengið en fyrst átti að gera. Ætlað er að endurvekja embætti bæjarritara og skipa hann ásamt fjármálastjóra og starfsmannastjóra í framkvæmdastjórn bæjarins í kjölfar þess að störf sviðsstjóra verða lögð niður. Bæjarritari verður í fullu starfi í framkvæmdastjórn en fjármálastjóra og starfsmannastjóra gert kleift að verja meiri tíma til framkvæmdastjórnar með því að ráða sér aðstoðarfólk. Auk nefndabreytinga er ákveðið að áætlað fjölskylduráð hljóti annað heiti og verði nefnt samfélags- og mannréttindaráð.

Ég er einn þeirra sem er svolítið efins um þessar breytingar. Ég sé ekki þörfina á að sameina þessar nefndir og þaðan af síður að leggja niður menningarmálanefnd í þeirri mynd sem hún hefur verið. Hún hefur verið að vinna mjög gott verk og mér finnst það nokkuð ankanalegt að breyta henni með þeim hætti sem blasir við. Ég tók að hluta þátt í störfum jafnréttis- og fjölskyldunefndar á liðnu kjörtímabili og komst að því að sú nefnd tók á mörgum mikilvægum þáttum og vann gott verk. Það var sérstaklega ánægjulegt að vinna með Katrínu jafnréttisfulltrúa bæjarins í jafnréttismálunum en hún hefur þar unnið gott verk.

Margir hafa spurt sig að því seinustu vikur hver sé þörfin á því að færa jafnréttismálin inn í aðra flokka og t.d. skeyta saman áfengis- og vímuvarnarmálum við það. Ég verð að viðurkenna að ég tel þetta umhugsunarverða ákvörðun. Í raun má segja að öll verkefni nýja ráðsins heyri undir ólík svið. Að mínu mati hefði verið réttast að efla þær nefndir sem fyrir væru með því að láta þær starfa áfram með sama hætti. Mest undrast ég örlög menningarmálanefndarinnar, enda tel ég að hún eigi að vera áfram undir sömu formerkjum.

En það verður fróðlegt að sjá hvernig gengur eftir að breytingarnar taka formlega gildi. Fyrst og fremst finnst mér heitið samfélags- og mannréttindaráð afleitt og fannst þó fjölskylduráð skömminni skárra.


Hvalveiðar hefjast í atvinnuskyni að nýju

Hvalur

Það eru gleðileg tíðindi að á miðnætti hefjist að nýju hvalveiðar Íslendinga í atvinnuskyni. Þetta eru viss tímamót sem Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, boðaði í dag og þeim ber að fagna. Hvalur 9 hefur nú haldið úr höfn og veiðarnar hefjast því brátt. Fyrst í stað er veitt leyfi til veiða á níu langreyðum og 30 hrefnum.

mbl.is Heimilað að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfi Arnbjörnsson hættir við þingframboð

Gylfi Arnbjörnsson

Það eru allnokkur tíðindi að Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, hafi ákveðið að draga til baka framboð sitt í væntanlegu prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík þann 11. nóvember nk. Gylfi sendi síðdegis út yfirlýsingu þar sem hann fór yfir ákvörðun sína og ástæður þess að hann hætti við þingframboðið.

Umræður höfðu verið um hvort það færi saman að framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands færi í framboð og greinilegt af þessu að hann telur svo ekki vera. Þetta kristallaðist best í umræðunni um lækkun matarskatts en þá skrifaði Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður, góða grein um þessi mál sem bar nafnið "Tvö andlit Gylfa".

Hvað gerir Ágúst Ólafur?

Ágúst Ólafur og Ingibjörg Sólrún

Framboðsfrestur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík rennur út um helgina. Það hefur vakið mikla athygli að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, hefur ekki enn tilkynnt um á hvaða sæti hann muni þar stefna. Mikið er rætt um fyrirætlanir hans í framboðsmálunum. Þær sögur hafa gengið nú um nokkurt skeið að lítið sem ekkert samstarf sé á milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, og Ágústs Ólafs og þau varla tali við hvort annað. Um fátt hefur enda verið meira rætt seinustu vikurnar hvernig sambandið innan forystu Samfylkingarinnar sé.

Þær sögur hafa verið lífseigar að hún vilji losna við varaformanninn og hefur heyrst að hún vilji aðra og þekkta frambjóðendur í staðinn. Þetta hefur sést vel af framboði fjölda fólks í væntanlegu prófkjöri Samfylkingarinnar sem hefur raðað sér í neðri sætin á eftir formanninum og þingflokksformanninum Össuri Skarphéðinssyni. Allir þessir aðilar ætla sér greinilega ekki að hliðra til fyrir Ágúst Ólafi, sem varð varaformaður flokksins á landsfundinum vorið 2005. Mesta athygli vekur að ekki liggur enn fyrir á hvaða sæti hann stefnir í Reykjavík, en það eitt liggur fyrir að hann verði í framboði þar.

Það hefur reyndar margoft verið sagt, sem rétt er, að Ingibjörg Sólrún hafi ekki stutt Ágúst Ólaf til varaformennsku heldur stutt andstæðing hans í kjörinu, Lúðvík Bergvinsson, alþingismann flokksins í Suðurkjördæmi. Á landsfundi Samfylkingarinnar í maí 2005 brostu Ingibjörg Sólrún og Ágúst Ólafur sínu breiðasta og reyndu að sýna samstöðu með því að koma fram saman við lok fundarins. Ef marka má það sem heyrist nú er kalt á milli æðstu forystumanna Samfylkingarinnar og barist þar af krafti. Framundan eru þingkosningar og orðrómurinn um að formaðurinn vilji losna við varaformann sinn fer sífellt vaxandi.

Ágúst Ólafur er ungur maður, jafngamall mér reyndar, og hefur náð miklum frama innan Samfylkingarinnar á tiltölulega skömmum tíma. Það verður fróðlegt að sjá hvort að honum tekst að verjast áhlaupi formanns flokksins og stuðningsmanna hennar sem bráðlega munu reyna allt með sýnilegum hætti að henda honum út úr pólitík. Það yrði verulegt áfall ef hann næði ekki öruggu þingsæti í þessu prófkjöri allavega, og hvergi nærri tryggt að hann nái því í væntanlegum átökum.

mbl.is Framboðsfrestur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík rennur út á laugardag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ellert B. Schram í framboð

Ellert B. Schram

Ellert B. Schram, fyrrum alþingismaður og forseti ÍSÍ, hefur nú gefið kost á sér í prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík sem fram fer 11. nóvember. Ellert er nú fyrsti varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, var í sjötta framboðslistans þar, sætinu á eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Það er vissulega nokkuð merkilegt að hann fari í prófkjör. Það er orðið ansi langt síðan að Ellert fór síðast í prófkjör. Þá var hann í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í nóvember 1982. Það varð sögulegt prófkjör. Geir Hallgrímsson, þáv. formaður Sjálfstæðisflokksins, hrapaði þá niður í sjöunda sætið og varð Ellert fyrir ofan formanninn.

Ellert átti sér langa og vissulega nokkuð merka pólitíska sögu innan Sjálfstæðisflokksins. Hann varð kornungur forystumaður í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins og sat sem formaður SUS á árunum sem að hann var einn efnilegasti knattspyrnumaður landsins. Hann varð þingmaður Sjálfstæðisflokksins strax árið 1971, þá 31 árs gamall og var á þingi samfellt til ársins 1979 og svo 1983-1987. Ellert var það sem margir kalla fulltrúi ungliðanna inn á lista og í framboð árið 1971 og var þá með mikið bakland innan flokksins. Hann var ritstjóri dagblaða með þingmennsku en tók þá ákvörðun árið 1987 að sinna því alfarið en pólitíkin hefur þó alltaf blundað mikið í honum.

Nú er hann að fara í prófkjör tveim áratugum síðar, orðinn 67 ára gamall og fulltrúi eldri borgara í Samfylkingunni, enda formaður eldri flokksmanna, félagsskapar sem ber víst heitið 60+. Það voru margir hissa er Ellert tók sjötta sætið í uppstillingu eftir prófkjör fyrir kosningarnar 2003 og varð þá stjórnmálamaður á þessum væng stjórnmálanna. Mjög umdeilt var það að mér skildist í vesturbænum, en KR-hverfið er auðvitað fyrst og fremst hans heimavöllur. Ellert er auðvitað mágur Jóns Baldvins Hannibalssonar svo að taugar hefur hann í þessa átt, þó að hann hafi lengi verið vonarstjarna ungra sjálfstæðismanna og þingmaður flokksins um árabil.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig honum gangi í prófkjörsslag við sitjandi þingmenn og aðrar vonarstjörnur nýrra og gamalla tíma sem að berjast þar um sess ofarlega á framboðslistum.

mbl.is Gefur kost á sér í prófkjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Shimon Peres næsti forseti Ísraels?

Shimon Peres

Það er varla spurning um hvort heldur hvenær að Moshe Katsav, forseti Ísraels, segi af sér embætti, en flest bendir til að hann verði ákærður fyrir nauðgunartilraun og tengd mál. Mikið er um það rætt nú hvort að Shimon Peres, fyrrum forsætisráðherra Ísraels, verði forseti Ísraels í kjölfar yfirvofandi afsagnar Katsav. Peres sóttist eftir forsetaembættinu árið 2000 en varð þá undir í kosningu. Peres, sem er kominn á níræðisaldur, er einn af lykilmönnum ísraelskra stjórnmála á 20. öld og var í áratugi áhrifamaður innan ísraelska Verkamannaflokksins, en sagði skilið við flokkinn í ársbyrjun og gekk til liðs við Kadima, flokkinn sem Ariel Sharon stofnaði skömmu fyrir lífshættuleg veikindi sín.

Það hefur hinsvegar lengi háð Peres að honum hefur tókst aldrei að leiða Verkamannaflokkinn til sigurs í kosningum. Hann hefur verið forsætisráðherra Ísraels þrisvar en alltaf tapað stólnum svo í kosningum. Hann var forsætisráðherra 1976-1977, 1984-1986 og að lokum 1995-1996. Hann tók í síðasta skiptið við embættinu eftir morðið á Yitzhak Rabin í nóvember 1995. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels með Yasser Arafat og Rabin árið 1994, í kjölfar sögulegs friðarsamkomulags, sem síðar rann út í sandinn. Hann nýtur virðingar um allan heim fyrir þau verk sín.

Árið 1993 kom Shimon Peres, þá utanríkisráðherra Ísraels, í opinbera heimsókn hingað. Í mótmælaskyni við Peres og ísraelsk stjórnvöld afþökkuðu forystumenn þáverandi stjórnarandstöðuflokka, meðal þeirra voru Ólafur Ragnar Grímsson, núv. forseti Íslands, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, núv. formaður Samfylkingarinnar, að sitja kvöldverðarboð Davíðs Oddssonar, þáv. forsætisráðherra, honum til heiðurs. Mánuði eftir heimsókn Peres tókust sögulegar sættir milli Ísraela og Palestínumanna, eftir umfangsmiklar samningaviðræður í Noregi.

Það var ógleymanlegt samkomulag, innsiglað með frægu handabandi Rabin og Arafat í Washington. Það vakti athygli fyrir nokkrum vikum að sami Ólafur Ragnar og vildi ekki hitta Shimon Peres árið 1993 hitti Ehud Barak, einn eftirmanna Peres sem leiðtogi Verkamannaflokksins og forsætisráðherra Ísraels. Kaldhæðnislegt þótti það miðað við söguna. Það kannski færi svo yrði Shimon Peres kjörinn forseti Ísraels að hann kæmi hingað í opinbera heimsókn til mannsins sem ekki vildi sitja til borðs með honum í veislu fyrir rúmum áratug?

mbl.is Peres orðaður við forsetaembættið enn á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi bloggheimar - Bretar duglegir í bloggi

Fartölva

Í þessari viku eru fjögur ár síðan að ég opnaði bloggsíðu. Hef þó verið með heimasíðu lengur en það, en það er tvennt ólíkt að hafa vef og svo vera að blogga. Bloggið verður að vera lifandi og ferskt til að það standi undir væntingum og fólk hafi gaman af því. Ég er einn þeirra sem hef gaman af þessum bransa. Það er mjög skemmtilegt að geta tjáð skoðanir sínar á mönnum og málefnum með svona lifandi hætti. Ég er blessunarlega þannig að þetta er áhugamál mitt, enda alltaf gaman að fara yfir stjórnmálin og önnur þjóðmál sem eru í umræðunni, kryfja þau og fjalla um. Það er allavega gott að fólk hefur áhuga á að lesa það sem maður hefur til málanna að leggja.

Ég sé að Bretar eru rosalega duglegir að blogga. Skv. fréttum er fjórðungur allra netnotenda í Bretlandi með blogg eða vefsíðu af öðrum toga. Þetta er hátt hlutfall og eru vissulega tíðindi. Reyndar eru Íslendingar að verða ótrúlega öflugir í bloggheimum. Sífellt fleiri, á öllum aldri eiginlega, leggja eitthvað til málanna og t.d. er bloggsamfélagið hér á blog.is gríðarlega fjölbreytt og spennandi. Hér er allt frá pólitískum fréttaskýringum og analíseringum í fjölskyldublogg, þar sem fólk fer yfir líf sitt og sinna og daglega tilveru. Öll flóra bloggheimanna er hér og þetta er orðið notalegt og spennandi samfélag sem hér er, það fer sífellt stækkandi.

Í fjögur ár bloggaði ég hjá blogger.com. Það var mjög áhugaverður og spennandi tími. Nú er um mánuður síðan að ég yfirgaf það samfélag og kom hingað. Þetta er að mínu mati miklu meira lifandi vettvangur, nálægðin við lesendurna er miklu meiri og maður fær beint í æð það sem lesandanum finnst um skrifin og ég hef fengið pósta og ábendingar um skrifin, allt mjög gott mál. Það er alltaf gaman að kynnast öðru fólki og ræða málin beint við það.

Ég verð líka að viðurkenna að ég hef orðið miklu meiri áhuga á þessari tilveru og tala hreint út um menn og málefni heldur en að taka beinan þátt í stjórnmálastörfum með framboði, enda hef ég engan áhuga á því nú. En fyrst og fremst þakka ég þeim sem lesa fyrir að líta í heimsókn og þakka góð kynni við þá sem ég hef kynnst eftir að ég færði mig hingað fyrir tæpum mánuði. Þetta verður spennandi vetur hjá okkur - mikið af lifandi pælingum.

mbl.is Bretar blogga af miklum móð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband