Bekkjarmót - fyndin gömul mynd

Við bekkjarfélagarnir í öll þessi ár, 77-árgangurinn, ætlum að fara að hittast og undirbúa bekkjarmót. Fínn hópur. Gott að kynnast aftur þeim sem maður hefur ekki hitt lengi og svo bara að spjalla við þá sem maður hefur þó haldið kontakt einhverjum við. Stína, bekkjarsystir, stýrir þessu af sinni alkunnu snilld.

Var að skoða myndasíðuna sem Nonni bekkjarbróðir setti saman og er með bekkjarmyndunum af okkur. Set hér tengil á eina myndina, en þetta er myndin af tíunda bekk árið 1993, þegar að skyldunáminu lauk með glans.

Fyrir þá sem ekki vita alveg nákvæmlega hvar ég er, er ég í endaröðinni á endanum í bláu flottu merkjapeysunni.

ahaha þetta er alveg brill mynd, segi ekki annað sko.

Bekkjarmynd 1993

Sápuópera í raunheimum

Paul og Heather

Það eru eitthvað um 40 ár síðan að bítillinn Paul McCartney samdi og söng lagið When I´m 64. Lagið var um lífið er aldrinum væri náð og hugleiðingar um tilveruna. Fyrr á þessu ári náði hann sjálfur þeim áfanga að verða 64 ára. Það verður seint sagt að þetta afmælisár sé ár gleði og ánægju fyrir bítilinn heimsfræga. Líf hans einkennist þessa dagana af harðvítugum skilnaðarátökum, forræðisdeilu, yfirráðum yfir peningum sínum og mannorðinu, sem konan ætlar að leggja í rúst. Það er oft kostulegt að lesa fréttirnar um skilnaðarmál þessa fólks. Þetta er algjör sápuópera í raunheimum, hreint út sagt.


mbl.is Fyrra hjónaband McCartneys dregið inn í skilnaðardeilu hans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

200 dagar til alþingiskosninga

Flokkarnir

Í dag eru 200 dagar í alþingiskosningar, en þær fara fram laugardaginn 12. maí nk. Spennan er orðin mikil vegna kosninganna. Prófkjör stjórnmálaflokkanna eru að hefjast af krafti. Hið fyrsta er nú um helgina, en þá munu sjálfstæðismenn í Reykjavík velja frambjóðendur sína á listana tvo í borginni. Eftir það tekur svo hvert prófkjörið við af öðrum. 11. nóvember verður hörkufínn prófkjörsdagur, en þann dag verða fjögur mjög stór prófkjör hjá Sjálfstæðisflokki og Samfylkingunni.

Mánuður er nú í prófkjör Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi. Framboðsfrestur rennur út á miðvikudaginn og verður fróðlegt að sjá hvort og þá hverjir muni bætast í hóp þeirra níu sem tilkynnt hafa um framboð sín. Það stefnir í spennandi prófkjör, en þrír gefa kost á sér í leiðtogastólinn og má búast við líflegum átökum um forystusessinn, nú þegar að Halldór Blöndal hættir í stjórnmálum eftir langt og farsælt verk á þeim vettvangi.


Spenna í prófkjöri SF í borginni

Frambjóðendur SF í borginni

Það stefnir í mjög spennandi prófkjör hjá Samfylkingunni í Reykjavík þann 11. nóvember nk. Þar verða 15 í kjöri, þar af hafa tíu þeirra tekið sæti á þingi, meðal þeirra eru þau 8 sem sitja nú á þingi fyrir Samfylkinguna í Reykjavík. Allir þingmenn flokksins þar gefa því kost á sér til endurkjörs. Flest þeirra sem við bætast í prófkjörið nú er því fólk sem er þekkt fyrir störf sín að stjórnmálum. Auk þessu eru nokkrir nýliðar í slagnum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, er ein í kjöri um fyrsta sætið. Um annað sætið, hinn leiðtogastólinn, takast þau Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson. Samstaða virðist að mestu um að þau þrjú verði í efstu sætunum.

Það verður spennandi að sjá hvort þeirra verði í öðru sætinu. Þau leiddu lista flokksins í borginni í kosningunum 2003. Þá var Össur í fyrsta sætinu, enda formaður flokksins, og Jóhanna í öðru, en hún sigraði Bryndísi Hlöðversdóttur í slag um annað sætið. Jóhanna hefur verið á þingi í nærri þrjá áratugi, frá árinu 1978, því með mikla reynslu að baki og er nú starfsaldursforseti þingsins. Jóhanna sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar árið 1999 og verið drjúg í prófkjörum. Össur hefur verið á þingi í 15 ár og var formaður Samfylkingarinnar 2000-2005 og er nú þingflokksformaður. Það blasir við að það þeirra sem verður undir tekur þá annað sætið á lista leiddum af Ingibjörgu Sólrúnu.

Um fjórða sætið verður barist af krafti. Þar eru sjö í baráttunni, þau Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar, Mörður Árnason, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir. Þarna getur allt gerst. Hver örlög þeirra verða sem undir verða verður fróðlegt að sjá. Aftur fram á pólitíska sjónarsviðið eru svo komnir þingmennirnir fyrrverandi Ellert B. Schram og Þórhildur Þorleifsdóttir. Ellert var þingmaður Sjálfstæðisflokksins 1971-1979 og 1983-1987 en Þórhildur fyrir Kvennalistann 1987-1991. Ellert fór síðast í prófkjör árið 1982 en Þórhildur hefur það aldrei gert. Fylgst verður mjög vel með hvernig þeim gengur.

Það vekur athygli að Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi og leiðtogi Samfylkingarinnar innan R-listans 2002-2006, gefur ekki kost á sér í prófkjörinu og hyggst því greinilega sinna borgarmálunum áfram. Sennilega hefur hann litið svo á að slagurinn væri orðinn of þröngur og erfitt að ná að komast ofarlega á lista, nógu ofarlega svo hann gæti unað við. Það verður fróðlegt hvað hann gerir í pólitíkinni í kjölfar þessa.

Þetta verður altént spennandi prófkjör og fróðlegt að sjá hvernig raðast upp. Meginhluti þessa fólks er allt mjög sterkt pólitískt og hefur gegnt pólitískum trúnaðarstörfum svo að það verður fróðlegt að sjá útkomuna.

mbl.is Fimmtán bjóða sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framboð Guðfinnu - töf á bíóferð

Guðfinna

Það var mikill fengur fyrir Sjálfstæðisflokkinn að Guðfinna S. Bjarnadóttir skyldi gefa kost á sér á framboðslista hans í Reykjavík og fara í prófkjörið þar. Ég fagnaði því framboði hennar mjög þegar að hún tilkynnti það formlega. Guðfinna hafði samband við mig nýlega eftir skrifin og leitaðist eftir því hvort ég vildi ljá nafn mitt í stuðningsmannaauglýsingu. Er ég ekki sunnan heiða en er ófeiminn við að ljá góðu fólki stuðning með þessu tagi. Birtist auglýsingin í Fréttablaðinu í gær og þar er nafn mitt því að finna. Ég treysti því að flokksmenn í Reykjavík tryggi að Guðfinna verði í forystusveit flokksins í höfuðborginni í væntanlegum þingkosningum.


Eins og fram hefur hér komið kom ég seint í gærkvöldi heim eftir góða helgi sunnan heiða. Ætlaði mér að fara í tíubíó, strax eftir komuna heim, og sjá Mýrina. Var orðinn frekar þreyttur eftir helgina og ákvað því að fresta bíóferðinni lítið eitt og ætla mér því að fara í kvöld. Hef ekkert heyrt nema góðar umsagnir um myndina og hlakka því mjög til að sjá hana. Þau brot úr myndinni sem ég hef séð lofa mjög góðu. Það verður því eflaust gaman í bíó í kvöld þegar að við förum á myndina.

Fyrsti hvalurinn veiddur

Halldór Blöndal

Það voru mikil tímamót þegar að fyrsti hvalurinn var veiddur um helgina, eftir að ákveðið var að leyfa veiðar til manneldis á 30 hrefnum og 9 langreyðum. Þetta er í fyrsta sinn í yfir tvo áratugi sem hvalur er veiddur í atvinnuskyni hér við land. Langreyður var síðast veidd hér við land árið 1989, þá í vísindaskyni, en síðast í atvinnuskyni á árinu 1985.

Halldór Blöndal, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi, var viðstaddur ásamt fjölda fólks er komið var með hvalinn í hvalstöðina og skar hvalinn með fagmannlegum hætti, en Halldór vann á fimmtán vertíðum í hvalstöðinni, áður en hann varð þingmaður, og því öllu vanur í þessum efnum.

mbl.is Vinnsla á fyrstu langreyðinni hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öflugur fundur í Valhöll

Geir og Björn

Ég las í flugvélinni milli Reykjavíkur og Akureyrar í kvöld ítarlega forsíðufrétt Morgunblaðsins um fund Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, og Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, sem haldinn var í Valhöll í gær. Því miður gat ég ekki setið fundinn, þó ekki væri ég langt staddur frá Reykjavík, en ég var á málefnaþingi SUS í Reykjanesbæ um helgina. Það er mikilvægt að þessir tveir forystumenn innan flokksins, kjördæmaleiðtogar í Reykjavík, fundi saman og sérstaklega mikilvægt að þar sé rætt um öryggismál Íslands, stöðu mála á þessum tímapunkti.

Það er gleðiefni að sjá hversu vel forsætisráðherra talar um pólitísk verk Björns Bjarnasonar hin síðustu ár. Tek ég undir ummæli Geirs í þessum efnum. Björn er einn traustasti og besti ráðherra sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt í sögu sinni. Yfirburðaþekking hans á utanríkis- og varnarmálum hefur skipt miklu máli og gleðiefni að formaður flokksins og forsætisráðherra fari svo vel yfir verk Björns almennt með þessum hætti.

Þetta virðist hafa verið velheppnaður og öflugur fundur í Valhöll og leitt að geta ekki setið hann. Það var fróðlegt að lesa frétt Moggans um þetta í sunnudagsblaðinu.

mbl.is Geir segir aðför að Birni Bjarnasyni sérlega ógeðfellda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband