Dýrkeyptur brandari fyrir John Kerry

John Kerry Það er ekki hægt að segja annað en að öldungadeildarþingmaðurinn John Kerry hafi farið mjög illa að ráði sínu með orðavali sínu í vikunni um hermenn í Írak. Ummælin féllu í svo grýttan jarðveg að hann hefur nú neyðst til að víkja úr kosningabaráttu demókrata fyrir þingkosningarnar á þriðjudag í næstu viku og hætta við alla fyrirfram ákveðna fundi sína með frambjóðendum í kosningunum. Þetta þykir allt í besta falli neyðarlegt fyrir Kerry, sem var forsetaefni flokksins fyrir tveim árum, en í versta falli sagt skaðandi fyrir stjórnmálaferil hans.

Lét Kerry þau orð falla að það væri nú eins gott fyrir bandarísk ungmenni að standa sig vel í lífinu, svo að þau myndu nú ekki enda í Írak. Með þessu mátti skilja að Kerry teldi að það væri aðeins fólk sem hefði orðið undir í námi eða í lífinu sem færi til Íraks. Þetta voru ummæli sem hittu ekki í mark og forystumönnum flokksins var ekki skemmt og honum var snarlega gert það ljóst að nærveru hans væri ekki óskað við þessar aðstæður í þeim lykilkosningabaráttum sem við flokknum blasa þessar vikurnar. Sérstaklega munu suðurríkjademókratar hafa orðið æfir og skipað flokksforystunni að halda Kerry í Washington.

John Kerry hefur jafnan verið mjög umdeildur stjórnmálamaður. Hann var mistækur í kosningabaráttunni um Hvíta húsið fyrir tveim árum og þótti vera lausmáll og ekki alltaf vera heppilegur í orðavali. Ummæli hans um að hann hefði fyrst greitt atkvæði með máli og svo greitt atkvæði gegn því voru spiluð aftur og aftur af Bush-kosningamaskínu repúblikana og voru skaðlegar fyrir hann, enda kom með því sú ímynd á hann að þar færi vingull sem skipti um skoðanir æ ofan í æ, sem reyndar kom svo berlega í ljós þegar að rekkord hans í öldungadeildinni var kannað með smásjá.

Nú verður að ráðast hvort að ummælin skaði möguleika demókrata í kosningunum í næstu viku. Demókratar eru allavega ekki tilbúnir að taka áhættuna af að ferðast með Kerry um landið næstu dagana og loka á fundaferð hans. Bush forseti hefur tekið málið upp æ ofan í æ í dag og bent á að Kerry ætti að skammast sín og biðjast afsökunar. Um fátt hefur verið meira rætt vestanhafs í dag en klaufaskap Kerrys, sem varla sannar með þessu reynslu sína sem stjórnmálamanns, en hann hefur setið í öldungadeildinni í 22 ár. Þetta eru með ólíkindum klaufaleg og dómgreindarlaus ummæli, hreint út sagt.

Nú ræðst hvort að demókratar tapa á ummælunum. Sjálfur hefur Kerry sagst iðrast ummælanna en ekki gengið svo langt að biðja afsökunar á þeim. Á meðan að umræðan grasserar og versnar er ekki furða að demókratar velji þann kostinn að þröngva Kerry út úr sviðsljósinu með kosningarnar svo skammt undan. Þetta er mjög neyðarlegt fyrir Kerry, sem fyrir aðeins tveim árum var forsetaefni demókrata en er nú ekki treyst fyrir að fara um landið í fundaferð fyrir þingkosningar vegna þessa dýrkeypta brandara síns.


Viðbót - kl. 23:45

Kerry var að gefa út yfirlýsingu og biðjast opinberlega afsökunar á ummælum sínum vegna þrýstings innan úr flokknum

Umfjöllun CNN um afsökunarbeiðni John Kerry

mbl.is John Kerry dregur sig í hlé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott viðtal við Grazynu Maríu

Grazyna María OkuniewskaPólski hjúkrunarfræðingurinn Grazyna María Okuniewska telst einn af táknrænu sigurvegurum prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um síðustu helgi. Hún varð vissulega ekki í efstu sætunum, en það má þó telja að margir hafi orðið nokkuð hissa að hún skyldi verða í tólfta sætinu í prófkjörinu og vera nærri því að fá bindandi kosningu. Hún verður í baráttusæti, sjötta sætinu, í öðru Reykjavíkurkjördæmanna að vori. Skv. skoðanakönnunum núna á hún möguleika á þingsæti.

Í Íslandi í dag í kvöld ræddi Sölvi Tryggvason við Grazynu Maríu í góðu viðtali og fór yfir málin með henni, t.d. úrslit prófkjörsins og verkefnin framundan. Það er ekki hægt að segja annað en að hún komi virkilega vel fyrir og það hlýtur að teljast sterkur leikur hjá sjálfstæðismönnum að velja hana í baráttusæti á framboðslista og tryggja henni góða kosningu. Ég er sannfærður um það að hún verður öflugur liðsmaður í kosningabaráttunni hjá flokknum í borginni að vori.

Grazyna María þótti ná góðum árangri, þrátt fyrir að vera ekki með standandi kaffi og kruðerí allan daginn á kosningaskrifstofu, auglýsa lítið, vera ekki með dýra vefsíðu og hringja út og suður. Hún var t.d. bara með einfalda og ósköp venjulega blogspot-kosningavefsíðu.

Fari svo að hún kæmist á þing yrði hún fyrsti innflytjandinn sem tæki sæti á Alþingi Íslendinga. Hvernig sem fer má telja öruggt að hún fari á þing á næsta kjörtímabili, í versta falli sem varaþingmaður.


Samfylking og Framsókn missa fylgi

Gallup Það vekur mikla athygli að sjá nýjustu könnun Gallups á fylgi stjórnmálaflokkanna. Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst um tvö prósentustig og mælist 43% á meðan að fylgi Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar minnkar. Framsókn mælist nú með aðeins 8% fylgi, sem mun vera það minnsta sem hefur mælst hjá Gallup fram til þessa, eða mér telst svo til allavega.

Samfylkingin mælist með 25% og minnkar um tvö prósentustig milli mánaða og missir því fylgisaukninguna sem hún náði í síðustu mánaðarkönnun. Fylgi Vinstri grænna mælist nú 20% og Frjálslyndi flokkurinn er með 4%. Fylgi ríkisstjórnarinnar eykst milli mánaða, en það er nú 53% í stað 52% fyrir mánuði. Stjórnarflokkarnir mælast samanlagt með 51% fylgi og þingmeirihluta, þrátt fyrir lakt gengi Framsóknar, enda er staða Sjálfstæðisflokksins sterk.

Í greiningu Gallups á könnuninni segir orðrétt: "Eftir kjördæmum skiptist fylgið þannig að Framsóknarflokkurinn hefur minnst fylgi í Reykjavíkurkjördæmi suður, eða 3%, en mest í Norðvestur- og Norðausturkjördæmum, með 16% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist minnst með 35% fylgi í Norðvesturkjördæmi og mest fylgi í Suðvesturkjördæmi þar sem flokkurinn nýtur stuðnings helmings kjósenda.

Frjálslyndir fá minnst fylgi í Norðausturkjördæmi, eða 2%, og mest í Norðvesturkjördæmi eða 6%. Samfylkingin hefur mest fylgi í Suðurkjördæmi, 28%, en minnst í Reykjavík suður með 23%. Þar eru Vinstri grænir stærri, með 25% fylgi en minnst fylgi fær flokkurinn í Suðurkjördæmi eða 16%."

Þetta eru merkilegar vísbendingar, sérstaklega er athyglisvert hvað Vinstri grænir eru að styrkjast um allt á kostnað Framsóknar og Samfylkingar, enda er VG komið upp að Samfylkingunni um nær allt land. Svo er greinilegt á öllu að staða Framsóknarflokksins er gríðarlega erfið í öllum kjördæmum.

Hlutur sveitarfélaganna í Landsvirkjun seldur

Kristján Þór, Árni, Jón og Vilhjálmur Ríkið hefur nú formlega keypt eignarhluti Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun, eftir nokkurra ára samningaviðræður ríkis og sveitarfélaganna. Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra, Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, og Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, skrifuðu undir kaupsamninga í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Það eru viss tímamót, og það gleðileg, að loksins hafi samningar nást og verið skrifað undir samninga.

Þetta hefur lengi verið í umræðunni og margoft munað litlu að saman næðist um samkomulag sem öllum aðilum líkaði. Ekki var hægt að skrifa undir viljayfirlýsingu í lok nóvember 2004 eins og að var stefnt fyrir starfslok Þórólfs Árnasonar, þáv. borgarstjóra, vegna ólgu innan R-listans. Bakland hans, sem var brostið áður, var ekki til staðar í þessu máli þá. Í febrúar 2005 undirrituðu Geir Haarde, Valgerður Sverrisdóttir, Kristján Þór og Steinunn Valdís, þáv. borgarstjóri, svo loks viljayfirlýsinguna um kaup ríkisins. Þá ritaði ég þessa grein á vefritið íhald.is um málið og fór yfir stöðu þess.

Vinstri grænir stöðvuðu þetta alltaf innan R-listans skilst manni, en viðræður ríkisins við borgina og Akureyrarbæ hófust í valdatíð R-listans og þar var deilt um afstöðu til málsins margoft á bakvið tjöldin og Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn náðu málinu aldrei í gegn undir verkstjórn Steinunnar Valdísar og Þórólfs á síðasta kjörtímabili. Það er gott að þetta er komið á hreint, enda lengi verið í umræðunni. Nú fer þetta fyrir borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórn Akureyrar og þingið.

mbl.is Helmingshlutur í Landsvirkjun seldur á 30,25 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snarpur jarðskjálfti

Það varð heldur betur snarpur jarðskjálfti í dag. Hann varð suðaustan af Flatey á Skjálfanda laust fyrir klukkan tvö. Ég fór í klippingu klukkan hálftvö og var nýlega kominn aftur við tölvuna er ég fann skjálfta. Taldi fyrst að þetta væri eitthvað sem ég hefði bara fundið en væri ekki neitt sérstakt. Hefur greinilega verið skjálftinn sjálfur, enda er ég að sjá fréttir um þetta núna á fréttavef mbl.is


mbl.is Allsnarpur jarðskjálfti suðaustur af Flatey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarlegar ásakanir í kjölfar prófkjörs

Guðlaugur Þór Það var mjög athyglisvert að sjá viðtalið við Gísla Frey Valdórsson í gærkvöldi í Kastljósi Sjónvarpsins. Þar komu fram mjög alvarlegar ásakanir á Guðlaug Þór Þórðarson, alþingismann, sem lenti í öðru sæti prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um síðustu helgi, þess efnis að hann hefði auk eins annars frambjóðanda haft aðgang að betur uppfærðu félagatali Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í prófkjörsslagnum og haft betri númer og uppsetningu en öðrum frambjóðendum sem gáfu kost á sér var boðið upp á.

Mikið hefur verið rætt og ritað síðustu daga um nafnlaust bréf sem sent var til Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, Andra Óttarssonar, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, og Magnúsar L. Sveinssonar, formanns Varðar, þar sem sömu ásakanir komu fram. Það vekur athygli að umræðan sé nú komin á þetta stig og það gefur því meiri vigt og þunga að nafn og persóna sé þar á bakvið en var áður óneitanlega. Þetta er afleitt mál að öllu leyti í umræðunni, bæði fyrir flokksmenn um allt land og ekki síður þá sem eru í borginni.

Það er hiklaust mitt mat á þessu máli að það sé í senn gríðarlega mikilvægt og nauðsynlegt fyrir Guðlaug Þór Þórðarson að þetta mál verði leitt til lykta með þeim hætti að trúverðugleiki hans sem kjördæmaleiðtoga innan flokksins bíði ekki mikinn og varanlegan hnekki af. Það er að mínu mati ekki hægt að leiða mál til lykta með neinum öðrum hætti en þetta verði rannsakað til fulls og það af hlutlausum aðilum.

Framboð Sigurjóns

Sigurjón Benediktsson er búinn að gefa kost á sér til þingframboðs fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér í kjördæminu. Mér líst mjög vel á það og er staðráðinn í að styðja hann í prófkjörinu þann 25. nóvember nk. Vil þakka honum fyrir góð komment hér í gestabókina mína nýlega. Sigurjón er tengdasonur Herdísar Þorvaldsdóttur, leikkonu, en hún er víst nokkuð skyld mér eftir því sem Íslendingabók segir mér. Þannig að ég er víst skyldur meistara Hrafni, sem gerði eðalmyndina Hrafninn flýgur.

Sigurjón hefur aldrei verið feiminn að segja sínar skoðanir og vakti athygli þegar að hann gaf kost á sér gegn Halldóri Blöndal í fyrsta sætið á kjördæmisþingi í aðdraganda kosninganna 1999. Þá var líf og fjör svo sannarlega. Sigurjón er maður sem hefur unnið vel í kjördæmastarfinu og nauðsynlegt að hafa hann með á lista að vori. Alltaf nauðsynlegt að hafa öfluga menn með skoðanir! Ég vona að hann fái góða útkomu í prófkjörinu.


mbl.is Sækist eftir þingsæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sæunn í framboð í Norðausturkjördæmi

Sæunn Stefánsdóttir Sæunn Stefánsdóttir, alþingismaður, mun fara í þingframboð í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum að vori. Hún mun að öllum líkindum sækjast eftir að skipa þriðja sætið á lista flokksins, sætið sem Dagný Jónsdóttir skipaði í alþingiskosningunum 2003. Dagný var í þeim kosningum stjarna flokksins og kynning á henni tryggði kjör hennar og ekki síður Birkis Jóns Jónssonar á Alþingi með ævintýralegum hætti. Sagði ég í bloggfærslu minni þann 7. október sl, síðdegis sama dag og Dagný tilkynnti að hún færi ekki fram, að Sæunn færi í framboð hér og það er að ganga endanlega eftir núna.

Sæunn tók sæti á þingi í september við afsögn Halldórs Ásgrímssonar, nýs framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar og fyrrum forsætisráðherra, og situr á þingi fyrir Reykjavík norður. Þar er ekki pláss fyrir hana svo að hún lítur nú á þingsæti Dagnýjar, vinkonu sinnar. Það styrkir stöðu Sæunnar gríðarlega að vera með fullan og óskoraðan stuðning DJ, Jóns Kristjánssonar, fyrrum heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, en hún var aðstoðarmaður hans í báðum ráðuneytum, og ekki síður Valgerðar Sverrisdóttur, leiðtoga flokksins í kjördæminu, og ennfremur vera ritari Framsóknarflokksins og því yfir öllu innra starfi hans.

Höski Það stefnir reyndar í öflugan tíma hjá Framsókn hér. Höskuldur Þórhallsson hdl, sonur sr. Þórhalls Höskuldssonar heitins, sem var sóknarprestur í Akureyrarkirkju frá 1981 til dauðadags árið 1995, hefur tilkynnt um þingframboð sitt og stefnir væntanlega á 2. - 3. sætið. Það styrkir stöðu hans að vera Akureyringur og ennfremur hafa verið kosningastjóri flokksins í kosningunum 2003. Umfram allt var hann arkitektinn að öflugri kosningabaráttu flokksins sem skilaði flokknum fjórum þingsætum. Það er öflugt af honum að stefna í slaginn, en hann gerir það nú eftir að fyrir liggur að Jakob Björnsson, fyrrum bæjarstjóri, fer ekki fram.

Það verður fróðlegt að sjá hverjir fara fram að hálfu Framsóknar, en framboðsfrestur rennur út 1. desember nk. og tvöfalt kjördæmisþing verður í janúarmánuði þar sem efstu menn verða valdir. Það er ekki furða að Akureyringar vilji þingmann, enda hafa framsóknarmenn á Akureyri ekki átt þingmann síðan að Ingvar Gíslason var þingmaður, en hann var menntamálaráðherra 1980-1983. Þetta verður því spennandi og gaman að sjá hvert Sæunn ritari sækir stuðning sinn til framboðs. En hún hefur greinilega víðtækan og öflugan stuðning lykilfólks.

Sæunn er allavega komin af stað og er nú á ferð um kjördæmið að funda og framboð ljóst hér að mati okkar sem hér erum. Öll teikn eru allavega á lofti í þessum efnum. Ennfremur er spurning hvernig að Birki Jóni muni ganga og hversu harður slagurinn um annað sætið verður. Þetta verða spennandi tímar hjá framsóknarmönnum og stefnir í endurnýjun og mjög breyttan lista framsóknarmanna að vori hér í NA.

Kristján Þór og Þorvaldur opna á sama tíma

Kristján Þór Eins og fram kom á vef mínum í gær er prófkjörsbaráttan að hefjast af krafti hér í Norðausturkjördæmi. Aðeins níu hafa gefið kost á sér í prófkjörið 25. nóvember nk. en þrír berjast hinsvegar um leiðtogastöðuna, sem losnar við brotthvarf Halldórs Blöndals úr stjórnmálum. Leiðtogaslagurinn stefnir í að verða mjög líflegur, kostnaðarmikill og beittur. Þegar hafa Kristján Þór Júlíusson og Þorvaldur Ingvarsson ákveðið opnun á kosningaskrifstofum og heimasíðum.

Það vekur mikla athygli flokksmanna að þeir ætla báðir að opna kosningaskrifstofur sínar á föstudaginn og það á nákvæmlega sama tíma, kl. 17:00. Kristján Þór verður með kosningaskrifstofu í göngugötunni í miðbænum, að Hafnarstræti 108, þar sem Bókabúð Jónasar var til húsa í áratugi, en hún lokaði fyrr á árinu. Það er mjög öflugt pláss og svo sannarlega á besta stað í hjarta bæjarins og segir allt sem segja þarf um þungann sem leggja á í baráttuna af Kristjáni og stuðningsmönnum hans.

Þorvaldur Ingvarsson Þorvaldur Ingvarsson ætlar á sama tíma að opna kosningaskrifstofu í Kaupvangsstræti 21, sem er við hliðina á Café Karólínu eins og fram kom í gær. Það hefur ekki verið hefð hér að leiðtogaframbjóðendur opni kosningaskrifstofu, með standandi veitingum og opnu húsi allar síðdegisstundir í aðdraganda prófkjörs, á Reykjavíkurskala, en svo verður núna og af miklum krafti. Stefnir því í lífleg átök, þó að fáir gefi kost á sér í prófkjörinu má búast við hörðum slag um leiðtogastólinn hið minnsta. Það verður væntanlega mjög dýr slagur líka.

Eins og sagði hér í gær hafa bæði Kristján Þór og Þorvaldur opnað heimasíður á netinu. Þær fara þó varla af stað af miklum þunga fyrr en á föstudag við opnun á kosningaskrifstofum þeirra á sömu stundinni. Kristján Þór verður með vefinn stjaniblai.is og Þorvaldur mun verða með heimasíðuna á slóðinni valdi.is. Stefnir því í lífleg og hressileg átök svo sannarlega. Fögnum við flokksfólk hér svosem öflugum og beittum slag, en þunginn í slagnum stefnir í að verða meiri en áður var talið. Það er svosem ekki verra fyrir okkur öll að hafa valkosti til þingframboðs.

Enn er spáð og spekúlerað í hvað Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, ætlar að gera í baráttunni, en þegar liggur fyrir að Ólöf Nordal verður með kosningaskrifstofu í Kaupvangsstræti 1, sama húsi og Ríkisútvarpið hefur aðstöðu í hér á Akureyri. Sýnir það vel að Ólöf sækir af krafti til Akureyringa og vill kynna framboð sitt hér með öflugum hætti, sem við kvörtum ekki yfir.

En það verður fróðlegt að rýna í föstudaginn og stöðu mála við opnun kosningaskrifstofanna hjá bæjarstjóranum og svo hjá formanni Sjálfstæðisfélags Akureyrar sem báðir berjast um leiðtogastólinn í sama öfluga slagnum og opna baráttuna á sömu stund á miðbæjarsvæðinu.

Kvennapælingar Steinunnar Valdísar

Steinunn Valdís Steinunn Valdís Óskarsdóttir er aftur komin í prófkjörsslag, níu mánuðum eftir að hafa orðið undir í leiðtogaslag við Dag B. Eggertsson í borgarmálunum. Mér fannst alltaf merkilega lítið fjallað um það á vinstrivængnum að Samfylkingarfólk skyldi hafna sitjandi borgarstjóra, konu á valdastóli. Það vakti athygli mína þegar að Steinunn Valdís var sýnd í Kastljósviðtali í júní að pakka niður á borgarstjóraskrifstofunni að hún sagðist aðspurð án þess að blikna hefði náð betri úrslitum í vor en Dagur.

Steinunn Valdís er farin að blogga aftur, enda í framboði. Mér fannst þó leitt að hún notaði ekkert vefinn eftir prófkjörið í febrúar fram að þessum prófkjörsslag. Ég skil þingframboð hennar vel, enda hlýtur hún að hafa metnað til að skipta um vettvang eftir borgarmálaprófkjörið. Henni er umhugað greinilega um stöðu kvenna í prófkjörum, skiljanlega eftir úrslitin í febrúar. Þetta kemur vel fram í pistli á vef hennar um helgina, þar sem hún fer yfir úrslit prófkjörs sjálfstæðismanna í borginni þar sem að þrjár konur urðu meðal tíu efstu, allt sæti sem eiga að vera örugg að vori, altént í huga okkar sjálfstæðismanna. Vonandi verða sætin þó fleiri auðvitað, öll viljum við helst Dögg eða Grazynu á þing!

Það vekur mikla athygli mína að hún hafi eftir þessi vefskrif ekki sest við tölvuna og hamrað á lyklaborðið nokkur vel valin orð um prófkjör Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Þar var einu þingkonu kjördæmisins, samfylkingarkonunni Önnu Kristínu Gunnarsdóttur hafnað, eftir fjögurra ára þingsetu og henni boðið varamannsframboð og að vera vísað til sætis á eftir heiðursmönnunum Guðbjarti Hannessyni og Karli V. Matthíassyni. Formaður flokksins gat ekki leynt vonbrigðum sínum með hlutskipti Önnu Kristínar og hafði orð á því verandi á talningarstað á Akranesi.

Það er mjög merkilegt að Steinunn Valdís Óskarsdóttir sér enga ástæðu til að tala um þetta bakslag samfylkingarkvenna. Miðað við áhyggjur hennar af stöðu kvenna innan Sjálfstæðisflokksins þá hlýtur þessi fyrrnefnda niðurstaða í Norðvesturkjördæmi að vera henni og stallsystrum hennar það mikið áfall að vert sé að blogga um það, enda munu karlmenn verma bæði öruggu framboðssætin til Alþingis af hálfu flokksins í komandi kosningum.

Nú er bara að bíða og sjá hvort áhyggjur Steinunnar Valdísar af meintum kvennaskorti sjálfstæðismanna í Reykjavík nái bara til annarra flokka eða hvort hún sjái ástæðu til að fjalla um vanda Samfylkingarkvenna í norðvestri.

Næsta síða »

Bloggfærslur 1. nóvember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband