Gengur Valdimar Leó til liðs við Frjálslynda?

Valdimar Leó Friðriksson Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, liggur nú undir feldi og íhugar pólitíska framtíð sína. Laust fyrir hádegið í dag skrifaði ég hér á vefinn um þær sögusagnir að hann gengi til liðs við Frjálslynda flokkinn og segði skilið við Samfylkinguna. Nú hefur Steingrímur Sævarr Ólafsson skrifað um þessar hugleiðingar ennfremur á bloggvef sinn. Hann bætir um betur og bendir á að Valdimar Leó hafi verið viðstaddur stofnfund Frjálslyndra í Mosfellsbæ nýlega.

Valdimar Leó hefur setið á þingi fyrir Samfylkinguna frá haustinu 2005 er Guðmundur Árni Stefánsson varð sendiherra. Í þættinum Morgunhaninn á Útvarpi Sögu í gærmorgun sagðist Valdimar Leó íhuga sína pólitísku stöðu og velta fyrir sér næstu skrefum sínum eftir prófkjör flokksins í Kraganum fyrr í þessum mánuði. Sagði hann þó aðspurður að ekki kæmi til greina að hætta þátttöku í stjórnmálum. Greinilegt er að hann hugsar til Frjálslynda flokksins þessa dagana. Þeim vantar sárlega leiðtoga í Kragann í komandi kosningum og sjá sér væntanlega leik á borði að fá til sín Valdimar Leó, sem kemur úr Mosfellsbæ.

Í þingkosningunum 2003 leiddi Gunnar Örn Örlygsson Frjálslynda flokkinn í Suðvesturkjördæmi. Á miðju kjörtímabili gekk hann til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Þá vændu Frjálslyndir Gunnar Örn um svik og reyndu að beita sér fyrir því að Gunnar afsalaði sér þingmennsku sinni þar sem staða mála væri breytt frá kosningunum og hann ætti að hleypa varaþingmanninum Sigurlín Margréti Sigurðardóttur inn á þing í hans stað. Frá flokkaskiptunum hefur Gunnar Örn ekki hleypt frjálslynda varaþingmanninum sínum í Kraganum inn í sinn stað.

En leiðtogastóll Frjálslyndra í Kraganum er svo sannarlega laus. Það er spurning hvort að Frjálslyndir leiði núverandi alþingismann Samfylkingarinnar til þess sætis í kosningum að vori. Svo segir kjaftasagan. En tilkynning um ákvörðun Valdimars Leós mun liggja fyrir á sunnudag eftir því sem hann sjálfur hefur sagt og kjaftasagan segir líka. Það verður fróðlegt að sjá hvort þingmenn Frjálslynda flokksins verði aftur orðnir fjórir innan viku.

Dagur íslenskrar tungu

Jónas Hallgrímsson Dagur íslenskrar tungu er haldinn í dag í ellefta skipti. Það var fyrir áratug, árið 1996, sem ákveðið var að tileinka fæðingardag þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar frá Hrauni í Öxnadal, sem var fæddur 16. nóvember 1807, íslenskri tungu. Óhætt er að fullyrða að það hafi í senn verið bæði gott val og skynsamlegt. Jónas er í hugum flestra táknmynd fallegs íslensks máls og meistaralegrar túlkunar í kveðskap. Jónas er einn fárra manna sem hafa náð hæstum hæðum í túlkun íslensks máls í skáldskap sínum. Hann er að mínu mati einn af mestu meisturum íslenskrar bókmenntasögu.

Val dagsins staðfesti því stöðu Jónasar í hugum bókmenntasögu okkar í sögu landsins. Björn Bjarnason ákvað sem menntamálaráðherra að dagur íslenskrar tungu skyldi koma til sögunnar og dagurinn var valinn af kostgæfni. Í þann áratug sem dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hefur menntamálaráðuneytið beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það og veitt verðlaun í nafni Jónasar til að verðlauna þá sem hafa unnið að málrækt og gildi þess. Hefur það verið unnið í góðu samstarfi við stofnanir, fyrirtæki, skóla, einstaklinga og félagasamtök um allt land.

Í dag var deginum fagnað sérstaklega með hátíðarathöfn síðdegis í Hjallaskóla í Kópavogi. Þá afhenti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, Nirði P. Njarðvík, rithöfundi, verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2006. Fær Njörður verðlaunin m.a. fyrir að hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu og riti, með skáldskap, fræðistörfum og kennslu, og þar með stuðlað að eflingu hennar, framgangi og miðlun til nýrrar kynslóðar. Njörður er vel að verðlaununum kominn. Fyrr í dag opnaði menntamálaráðherra formlega Íslenska réttritunarvefinn, sem kennir stafsetningu og vélritun með gagnvirkum æfingum. Vandaður og góður svo sannarlega.

Nú sem fyrr á að vera lykilverkefni Íslendinga að standa vörð um mál sitt. Íslenskan á að vera okkar helsta stolt og helsti fjársjóður. Ef við glötum virðingunni fyrir málinu okkar glötum við sjálfsvirðingunni að mínu mati. Málrækt og varðveisla tungumálsins er mjög mikilvæg.

Eitt fallegasta ljóð Jónasar Hallgrímssonar er Íslands minni:

Þið þekkið fold með blíðri brá,
og bláum tindi fjalla,
og svanahljómi, silungsá
og sælu blómi valla,
og bröttum fossi, björtum sjá
og breiðum jökulskalla.
Drjúpi hana blessun drottins á
um daga heimsins alla.

mbl.is Njörður P. Njarðvík fær verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sögulegt kjör Pelosi - pólitískt áfall í leiðtogakjöri

Nancy Pelosi Nancy Pelosi var í dag formlega kjörin sem forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings af þingflokki demókrata í deildinni, en flokkurinn vann þar kosningasigur í fyrsta skipti í tólf ár í síðustu viku. Pelosi verður fyrsta konan sem stýrir fulltrúadeildinni og mun taka við embættinu af repúblikanum Dennis Hastert, sem verið hefur forseti fulltrúadeildarinnar allt frá árinu 1999. Hastert hefur verið hefur einn þaulsetnasti forseti deildarinnar.

Kjör Pelosi markar því nokkur þáttaskil. Hún hefur setið í þingdeildinni fyrir Kaliforníu allt frá árinu 1987 og verið leiðtogi demókrata þar frá 2003, er Dick Gephardt steig til hliðar. Pelosi, sem kjörin var einróma þingforseti, varð þó síðar í dag fyrir nokkru pólitísku áfalli er valkostur hennar til að taka við af henni sem þingleiðtogi, John Murtha, sem hefur verið mikill og áberandi andstæðingur Íraksstríðsins, varð undir í leiðtogakjöri innan þinghópsins.

Þess í stað var Steny Hoyer, fulltrúadeildarþingmaður frá Maryland, kjörinn leiðtogi demókrata í þingdeildinni. Verður hann þar með næst valdamesti fulltrúi demókrata í fulltrúadeildinni. Hann hefur setið á þingi frá árinu 1981 og verið þar framarlega, t.d. var hann næstvaldamestur á eftir Pelosi innan þingsins. Það kom mörgum á óvart er Pelosi studdi Murtha opinberlega sem þingleiðtogaefni og lagði honum afgerandi lið. Stuðningur hennar hafði mjög lítið að segja, enda tapaði Murtha með 86 atkvæðum gegn 149 atkvæðum Hoyer.

Munurinn er því mjög svo afgerandi og er pólitískt áfall fyrir hinn nýkjörna þingforseta. Það varpar óneitanlega skugga á sögulegt kjör hennar að hafa tilnefnt sjálf Murtha innan þinghópsins og geta ekki tryggt honum kjör, heldur bíða verulegan ósigur. Það voru reyndar margir hissa á að Hoyer skyldi ekki verða þingleiðtogi án kosninga, enda hefur hann verið varaskeifa Pelosi og talsmaður demókrata innan þingsins með áberandi hætti. Svo fór ekki, en sigur hans er alveg afgerandi og umboð hans öruggt.

Það veikir stöðu Nancy Pelosi að hafa lagt sig eftir því að John Murtha yrði þingleiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni en ná kjöri hans ekki í gegn. Hún tók vissa áhættu með afgerandi stuðningi við Murtha. Hún kom t.d. með Murtha til fundarins í þinghúsinu í Washington og fylkti liði með honum með afgerandi hætti. Þessi ósigur er því ekki aðeins áfall fyrir Murtha, heldur hinn nýja þingforseta.

Spennandi tvö ár eru annars framundan í bandaríska þinginu. Formleg valdaskipti verða á fyrstu dögum nýs árs. Munu stjórnmálaáhugamenn um allan heim fylgjast vel með valdasambúð demókrata og repúblikana, fram að næstu forsetakosningum.

mbl.is Fyrsta konan í embætti forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Runólfur segir upp á Bifröst - Bryndís rektor

Runólfur Ágústsson Runólfur Ágústsson, rektor Háskólans á Bifröst, hefur beðist lausnar frá störfum frá 1. desember nk. Vindar hafa blásið um skólann síðustu daga vegna persónu Runólfs og fylkingar nemenda með og á móti rektor myndast með áberandi hætti í kastljósi fjölmiðla. Staðan var orðin óviðunandi og gat varla endað með öðruvísi hætti. En Runólfur hefur unnið þessum skóla mikið gagn og flestir virða þau verk, þó á móti hafi blásið og starfsferli hans sem rektors hafi lokið með frekar leiðinlegum hætti.

mynd Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor og fyrrum alþingismaður, hefur verið sett tímabundið sem rektor Háskólans á Bifröst frá 1. desember að telja. Mjög líklegt verður að teljast að Bryndís verði rektor og verði ráðin formlega til starfa síðar.

Bryndís var á síðasta ári ráðin til starfa að Bifröst sem forseti lagadeildarinnar þar. Þá lauk þingmannsferli hennar, en hún var alþingismaður Alþýðubandalagsins og Samfylkingarinnar á árunum 1995-2005 og var þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2001-2004.


mbl.is Bryndís Hlöðversdóttir tekur við sem rektor tímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdimar Leó á leið úr Samfylkingunni?

Valdimar Leó FriðrikssonValdimar Leó Friðriksson, alþingismaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, íhugar nú pólitíska framtíð sína í kjölfar prófkjörs flokksins í kjördæminu þar sem hann varð undir. Miklar líkur virðast benda til að hann yfirgefi flokkinn og fari í framboð fyrir Frjálslynda flokkinn. Færi svo að Valdimar Leó segði sig úr Samfylkingunni myndi þingmannatala flokksins verða 19, en Valdimar Leó er fjórði þingmaður flokksins í Kraganum.

Hann tók sæti á Alþingi við afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar, sendiherra, af þingi í september 2005. Það yrðu nokkur tíðindi ef að Valdimar Leó yfirgæfi Samfylkinguna og færi í framboð fyrir Frjálslynda flokkinn eftir allt sem á undan er gengið. Það yrði áfall fyrir Samfylkinguna að missa þingsæti í aðdraganda kosninganna og rýrna með þessum hætti.

Það yrði reyndar athyglisvert ef að Valdimar Leó yrði frjálslyndur eftir alla þá gagnrýni sem að forystumenn Frjálslyndra beindu til Gunnars Örlygssonar fyrir einu og hálfu ári er hann sagði skilið við Frjálslynda og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.


mbl.is Valdimar undir feldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. nóvember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband