18.11.2006 | 22:00
Pólitískt áfall Kristins H. Gunnarssonar

Hvernig sem það var annars er alveg ljóst að Kristinn tapaði leiðtogaslagnum og því fór sem fór. Það má því segja að góð ráð séu orðin dýr fyrir Vestfirðinginn Kristinn H. sem hefur á skrautlegum stjórnmálaferli marga hildina háð. Hann tryggði sér pólitískt framhaldslíf með því að ganga í Framsóknarflokkinn á sínum tíma. Innan við áratug eftir þær flokkahrókeringar sínar stendur hann eftir í varaþingsæti á lista flokksins í komandi kosningum, hafandi verið treyst fyrir leiðtogastól á Vestfjörðum í kosningunum 1999 og fjölda ábyrgðarfullra embætta af hálfu flokksins, t.d. þingflokksformennsku fyrir nokkrum árum.
Hann stendur því eftir snupraður. Dómur grasrótar flokksins í Norðvesturkjördæmi er hinsvegar nokkuð afgerandi. Það er varla við því að búast að hann taki þriðja sætið við þessar aðstæður og væntanlega horfir hann til sérframboðs. Það yrði eina leiðin fyrir hann til að koma standandi frá þessari stöðu. Nema að hann skipti einfaldlega um vettvang. Varla vill þessi pólitíski bragðarefur standa eftir í varaþingsæti á framboðslista undir pólitískri leiðsögn Magnúsar Stefánssonar og með Byggðastofnunarformanninn Herdísi á Króknum yfir sér í öðru sætinu. Þvílík pólitísk örlög fyrir einn mann með pólitískt stolt, segir maður bara. Kostirnir virka mjög einfaldir fyrir Kristinn H.
Hannibal Valdimarsson, faðir Jóns Baldvins Hannibalssonar, var annar pólitískur bragðarefur í stjórnmálasögu Vestfjarða. Í pólitískri örvæntingu eftir höfnun á pólitískum heimavelli sínum fór hann í sérframboð, stofnaði reyndar eigin flokk og hélt þingsæti sínu með ævintýralegum hætti. Hann reyndar klauf endanlega kratafylgið á Ísafirði eftir þann tíma og þau öfl hafa aldrei eftir þær sögulegu kosningar náð vopnum sínum, en það er önnur saga. Kristinn H. er eitt ólíkindatólanna í stjórnmálum. Ógæfa hans er væntanlega gleðiefni fyrir andstæðinga hans innan flokksins, sem hafa lengi beðið eftir því að hann missti fótanna innan flokksins. Það hefur nú gerst.
Það er virkilega gaman að lesa skrif pólitískra skríbenta, sem annaðhvort hafa unnið fyrir Framsóknarflokkinn, eða Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formann flokksins, með áberandi hætti, eftir þetta prófkjör. Kristinn H. var lengi óþægur ljár í þúfu Halldórs. Hann hlýtur að gleðjast með tíðindi gærkvöldsins á Borðeyri þar sem að örlög Kristins H. innan Framsóknarflokksins réðust væntanlega. Sama má væntanlega segja um Jón Sigurðsson, nýjan formann Framsóknarflokksins, sem tók við stjórnarformennsku í Byggðastofnun af Kristni H. eftir að allt var komið í óefni þar. Gleðibylgja er víða innan Framsóknarflokksins nú.
Það verður fróðlegt að sjá í hvaða átt Kristinn H. fer, enda varla hægt að segja annað en að öll vötn liggi fyrir Vestfirðinginn í aðrar áttir. Vistin hjá Framsókn lauk með dómi grasrótar Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Eftir stendur þessi stjórnarandstæðingur í stjórnarmeirihlutanum með klofinn skjöld og bogið sverð eftir töpuð átök. Það verður fróðlegt að sjá hver áhrif þessarar niðurstöðu verða í pólitíkinni í Norðvesturkjördæmi.
![]() |
Kristinn H. hefur ekki ákveðið hvort hann tekur þriðja sætið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2006 | 17:58
Listi Sjálfstæðisflokksins í Norðvestri samþykktur

Í kosningunum 2003 hlaut flokkurinn þrjá menn kjörna í Norðvesturkjördæmi og er stærstur flokka þar og því er Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, fyrsti þingmaður kjördæmisins. Í komandi kosningum fækkar þingmönnum kjördæmisins um einn, úr tíu í níu og því skipa 18 einstaklingar framboðslista flokksins.
Listann skipa:
1. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, Stykkishólmi
2. Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, Bolungarvík
3. Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður, Flateyri
4. Herdís Þórðardóttir, fiskverkandi, Akranesi
5. Guðný Helga Björnsdóttir, bóndi, Húnaþingi vestra
6. Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar, Ísafirði
7. Magnea Guðmundsdóttir, húsfreyja, Skagafirði
8. Bergþór Ólason, aðstoðamaður samgönguráðherra, Akranesi
9. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nemi, Akranesi
10. Örvar Már Marteinsson, skipstjóri, Snæfellsbæ
11. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, oddviti, Tálknafirði
12. Hjörtur Árnason, hótelstjóri, Borgarbyggð
13. Sigríður Svavarsdóttir, framhaldsskólakennari, Skagafirði.
14. Sunna Gestsdóttir, frjálsíþróttakona, Blönduósi
15. Guðmundur Skúli Halldórsson, formaður Egils FUS, Borgarbyggð
16. Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri, Suðureyri
17. Jóhanna Pálmadóttir, bóndi, Akri
18. Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri, Akranesi
![]() |
Sturla efstur á lista Sjálfstæðisflokks í NV-kjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.11.2006 | 12:29
Klúðrið í Árna Johnsen

Það er alveg greinilegt að þetta klúður í Árna Johnsen er ekki gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn og innkoma hans aftur í stjórnmálin mun ekki efla flokkinn. Í vikunni ályktaði SUS með afgerandi hætti um málefni Árna Johnsen eftir þessi heimskulegu ummæli sem hann lét falla á þriðjudag. Það var nauðsynlegt að senda þá ályktun frá sér og hún hefði orðið harðari hefði ég einn samið hana. Mér fannst Árni gjörsamlega klúðra góðu tækifæri til að endurheimta virðingu flokksmanna og stuðning þeirra eftir þetta prófkjör.
Það er greinilega engin iðrun frá syndaranum í þessu máli og það er engin eftirsjá eða neitt sem þar stendur eftir. Það er ekki bara óheppilegt fyrir Árna Johnsen heldur líka Sjálfstæðisflokkinn, sem þarf að sætta sig við endurkomu Árna eftir að sunnlenskir sjálfstæðismenn kusu hann þar aftur inn. Nú er orðið ljóst að borið hefur á úrsögnum úr flokknum vegna kosningar Árna í annað sætið í Suðurkjördæmi. Þetta hefur Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, staðfest í viðtali við Morgunblaðið.
Það var kannski varla við öðru að búast en að almennum flokksmönnum myndi blöskra framganga Árna Johnsen og sérstaklega hin dæmalausu ummæli hans á þriðjudag, sem mér fannst skelfileg í einu orði sagt. Allt tal um að fyrirgefa þessum manni fannst mér algjörlega út úr hött eftir þetta viðtal. Þar sem engin er iðrunin verður engin fyrirgefningin. Það er alveg deginum ljósara í mínum huga.
![]() |
Borið hefur á úrsögnum úr Sjálfstæðisflokknum vegna ummæla Árna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.11.2006 | 02:24
Magnús sigrar - Kristinn H. fellur í þriðja sætið
Úrslit liggja nú fyrir í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, sigraði og Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, féll um sæti og lenti í þriðja sætinu. Herdís Sæmundardóttir, varaþingmaður, varð í öðru sæti og fellir því Kristinn H. niður í sitt gamla sæti. Magnús verður því áfram leiðtogi Framsóknarflokksins í kjördæminu, en hann varð leiðtogi flokksins þar í aðdraganda þingkosninganna 2003 eftir leiðtogarimmu við Kristinn H.
Magnús hlaut 883 atkvæði í fyrsta sætið en Kristinn H. hlaut 672. Herdís hlaut 979 atkvæði í 1. - 2. sætið en Kristinn H. fékk 779 atkvæði í 1. - 2. sætið. Kristinn varð þriðji með 879 atkvæði í 1. - 3. sætið. Fjórði varð Valdimar Sigurjónsson með 1.024 í 1. - 4. sæti. Fimmta varð Inga Ósk Jónsdóttir með 1.172 atkvæði í 1. - 5. sæti. Í næstu sætum urðu G. Valdimar Valdimarsson, Albertína Elíasdóttir og Heiðar Þór Gunnarsson. Þetta eru mjög merkileg úrslit og boða stórtíðindi, enda er Kristinn H. Gunnarsson fallinn úr öruggu sæti. Með þessu gleðjast væntanlega fulltrúar flokkseigendafélagsins sem hafa eldað grátt silfur við Kristinn H. síðustu árin.Magnús var kjörinn fyrst á þing árið 1995. Hann féll af þingi í kosningunum 1999 en tók þar sæti aftur við afsögn Ingibjargar Pálmadóttur árið 2001 og hefur átt þar sæti síðan. Kristinn H. hefur setið á þingi frá árinu 1991, eða í tæp sextán ár, fyrir Alþýðubandalagið 1991-1998 en frá þeim tíma fyrir Framsóknarflokkinn. Hann ákvað við endalok gömlu vinstriflokkanna að hafa vistaskipti í stjórnmálum. Kristinn H. leiddi lista Framsóknarflokksins í Vestfjarðakjördæmi í kosningunum árið 1999.
Kristinn H. var þingflokksformaður Framsóknarflokksins árin 1999-2003 og formaður stjórnar Byggðastofnunar í nokkur ár. Allt frá því að Kristinn H. missti þingflokksformennsku sína að kosningunum loknum hefur hann verið sólóleikari innan flokksins og andmælti t.d. mjög kröftuglega afstöðu flokksins í fjölmiðlamálinu og jafnvel enn frekar í Íraksmálinu. Deilur innan þingflokksins árið 2004 urðu til þess að hann missti allar nefndasetur sínar, en hann var ári síðar tekinn aftur í sátt. Þrátt fyrir sættir á yfirborðinu kraumuðu deilurnar áfram undir niðri og flestum varð ljóst óvildin milli forystu flokksins og Kristins, einkum á formannsferli Halldórs Ásgrímssonar.
Kristinn H. hefur jafnan rekist illa í flokki og endað úti á kanti og svo fór í Framsóknarflokknum, sem og í Alþýðubandalaginu. Fræg voru ummæli Svavars Gestssonar, fyrrum formanns Alþýðubandalagsins, er hann fregnaði um ákvörðun Kristins H. um vistaskiptin árið 1998. Hann sagði: "Jæja, þá er nú Ólafs Ragnars fullhefnt". Þóttu þetta skondin ummæli í ljósi þess að Ólafur Ragnar Grímsson, sem var eftirmaður Svavars á formannsstóli, hafði upphaflega komið úr Framsóknarflokknum. Svavari og hans stuðningsmönnum stóð alla tíð stuggur af Ólafi Ragnari og sárnaði stórsigur hans í formannskjöri árið 1987, enda álitu hann boðflennu í sósíalistaflokki.
Það eru merkileg tíðindi að Kristinn H. hafi orðið undir í þessu prófkjöri; tapað leiðtogaslagnum með rúmlega 200 atkvæða mun og hafi nú fengið varaþingmanninn Herdísi, stjórnarformann Byggðastofnunar á Króknum, yfir sig í annað sætið, sitt gamla sæti, og sitji nú eftir í varaþingsæti fyir flokkinn á næsta kjörtímabili. Það verður mjög fróðlegt að heyra með morgni viðbrögð Kristins H. við því að hafa misst öruggt sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Þetta eru nokkur pólitísk tíðindi, heldur betur.
![]() |
Magnús í 1. sæti þegar helmingur atkvæða var talinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)