Magnús sigrar - Kristinn H. fellur í þriðja sætið

Magnús StefánssonÚrslit liggja nú fyrir í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, sigraði og Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, féll um sæti og lenti í þriðja sætinu. Herdís Sæmundardóttir, varaþingmaður, varð í öðru sæti og fellir því Kristinn H. niður í sitt gamla sæti. Magnús verður því áfram leiðtogi Framsóknarflokksins í kjördæminu, en hann varð leiðtogi flokksins þar í aðdraganda þingkosninganna 2003 eftir leiðtogarimmu við Kristinn H.

Magnús hlaut 883 atkvæði í fyrsta sætið en Kristinn H. hlaut 672. Herdís hlaut 979 atkvæði í 1. - 2. sætið en Kristinn H. fékk 779 atkvæði í 1. - 2. sætið. Kristinn varð þriðji með 879 atkvæði í 1. - 3. sætið. Fjórði varð Valdimar Sigurjónsson með 1.024 í 1. - 4. sæti. Fimmta varð Inga Ósk Jónsdóttir með 1.172 atkvæði í 1. - 5. sæti. Í næstu sætum urðu G. Valdimar Valdimarsson, Albertína Elíasdóttir og Heiðar Þór Gunnarsson. Þetta eru mjög merkileg úrslit og boða stórtíðindi, enda er Kristinn H. Gunnarsson fallinn úr öruggu sæti. Með þessu gleðjast væntanlega fulltrúar flokkseigendafélagsins sem hafa eldað grátt silfur við Kristinn H. síðustu árin.

Kristinn H.Magnús var kjörinn fyrst á þing árið 1995. Hann féll af þingi í kosningunum 1999 en tók þar sæti aftur við afsögn Ingibjargar Pálmadóttur árið 2001 og hefur átt þar sæti síðan. Kristinn H. hefur setið á þingi frá árinu 1991, eða í tæp sextán ár, fyrir Alþýðubandalagið 1991-1998 en frá þeim tíma fyrir Framsóknarflokkinn. Hann ákvað við endalok gömlu vinstriflokkanna að hafa vistaskipti í stjórnmálum. Kristinn H. leiddi lista Framsóknarflokksins í Vestfjarðakjördæmi í kosningunum árið 1999.

Kristinn H. var þingflokksformaður Framsóknarflokksins árin 1999-2003 og formaður stjórnar Byggðastofnunar í nokkur ár. Allt frá því að Kristinn H. missti þingflokksformennsku sína að kosningunum loknum hefur hann verið sólóleikari innan flokksins og andmælti t.d. mjög kröftuglega afstöðu flokksins í fjölmiðlamálinu og jafnvel enn frekar í Íraksmálinu. Deilur innan þingflokksins árið 2004 urðu til þess að hann missti allar nefndasetur sínar, en hann var ári síðar tekinn aftur í sátt. Þrátt fyrir sættir á yfirborðinu kraumuðu deilurnar áfram undir niðri og flestum varð ljóst óvildin milli forystu flokksins og Kristins, einkum á formannsferli Halldórs Ásgrímssonar.

Kristinn H. hefur jafnan rekist illa í flokki og endað úti á kanti og svo fór í Framsóknarflokknum, sem og í Alþýðubandalaginu. Fræg voru ummæli Svavars Gestssonar, fyrrum formanns Alþýðubandalagsins, er hann fregnaði um ákvörðun Kristins H. um vistaskiptin árið 1998. Hann sagði: "Jæja, þá er nú Ólafs Ragnars fullhefnt". Þóttu þetta skondin ummæli í ljósi þess að Ólafur Ragnar Grímsson, sem var eftirmaður Svavars á formannsstóli, hafði upphaflega komið úr Framsóknarflokknum. Svavari og hans stuðningsmönnum stóð alla tíð stuggur af Ólafi Ragnari og sárnaði stórsigur hans í formannskjöri árið 1987, enda álitu hann boðflennu í sósíalistaflokki.

Það eru merkileg tíðindi að Kristinn H. hafi orðið undir í þessu prófkjöri; tapað leiðtogaslagnum með rúmlega 200 atkvæða mun og hafi nú fengið varaþingmanninn Herdísi, stjórnarformann Byggðastofnunar á Króknum, yfir sig í annað sætið, sitt gamla sæti, og sitji nú eftir í varaþingsæti fyir flokkinn á næsta kjörtímabili. Það verður mjög fróðlegt að heyra með morgni viðbrögð Kristins H. við því að hafa misst öruggt sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Þetta eru nokkur pólitísk tíðindi, heldur betur.


mbl.is Magnús í 1. sæti þegar helmingur atkvæða var talinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband