Mýrin sigursæl á Eddunni - Ingvar besti leikarinn

Mýrin Mýrin, stórfengleg kvikmynd Baltasars Kormáks eftir þekktri sögu Arnaldar Indriðasonar, var sigursæl á Edduverðlaununum í kvöld og var valin besta kvikmynd ársins. Ingvar E. Sigurðsson og Atli Rafn Sigurðarson hlutu leikaraverðlaunin fyrir hlutverk sín í myndinni og Baltasar var valinn leikstjóri ársins. Mugison fékk auk þess verðlaun fyrir tónlist í myndum Baltasars; Mýrinni og A Little Trip to Heaven. Karlakórsstemmningin í Mýrinni er einn af hápunktum myndarinnar. Það leikur því enginn vafi á því að Mýrin var sigurvegari kvöldsins.

Leikstjórinn Ragnar Bragason hlaut handritsverðlaunin fyrir kvikmyndina Börn, Óttar Guðnason hlaut verðlaun fyrir útlit myndar með kvikmyndatökunni í A Little Trip to Heaven, Anna og skapsveiflurnar var valin stuttmynd ársins, Skuggabörn var heimildarmynd ársins, hinn vandaði fréttaskýringarþáttur Stöðvar 2, Kompás, var valinn sjónvarpsþáttur ársins og Jón Ólafs, nýr skemmtiþáttur Sjónvarpsins, hlaut Edduna sem skemmtiþáttur ársins. Stelpurnar hlutu verðlaunin sem leikið sjónvarpsefni ársins annað árið í röð og vakti mikla athygli að sjónvarpsmyndin Allir litir hafsins eru kaldir, skyldi ekki hljóta þau.

Ómar Ragnarsson var hylltur er hann hlaut verðlaunin sem sjónvarpsmaður ársins.  Á 40 árum Sjónvarpsins hefur Ómar verið í hlutverki íþróttafréttamanns, skemmtikrafts, íhuguls spyrils í mannlegum og heillandi viðtölum og fréttamanns sem kannað hefur landið og mannsálina í víðri merkingu þess orðs. Eftir stendur merk starfsævi sem allir virða. Ómar á sennilega heiðurinn af einni stærstu stund íslenskrar sjónvarpssögu. Það var þegar að hann kynnti okkur fyrir Vestfirðingnum Gísla á Uppsölum, alþýðumanni sem lifði er á 19. öld væri en í raun var uppi á tækniáratugum 20. aldar. Ég virði framlag Ómars mikils - hann á skilið allt hið besta fyrir sitt ævistarf.

Kvikmyndin Mýrin var sigurvegari kvöldsins. Í heildina séð er Mýrin algjört meistaraverk. Ég hreifst mjög af henni er ég sá hana fyrir mánuði. Glæsileg kvikmynd í alla staði. Það hefur sannast af viðtökum landsmanna að hún er sátt og dómar um hana hafa verið nær allir á einn veg. Það var mikið gleðiefni að Ingvar E. skyldi hljóta Edduna fyrir stórleik sinn í hlutverki Erlendar Sveinssonar. Hér eftir sjáum við Erlend í hans túlkun og sjáum engan annan fyrir okkur er bækurnar eru dregnar fram á dimmu vetrarkvöldi eða fögru heiðbjörtu sumarkvöldi. Hann túlkaði einmanalegt og innantómt líf hins hugula rannsóknarlögreglumanns af mikilli snilld. Glæsilega gert.

Þjóðin hefur með því að fjölmenna í bíó sýnt það með skýrum hætti að hún vill framhald á. Öll viljum við sjá bækurnar lifna við. Þetta eru stórfenglega skrifaðar bækur og það er greinilegt að þjóðin hefur áhuga á því að þær verði kvikmyndaðar. Þjóðin vill sjá fleiri myndir og Ingvar E. aftur í hlutverki Erlendar. Sigurför Mýrinnar segir allt sem segja þarf. Það hlýtur að verða framhald á. Það er allavega nóg af eftirminnilegum sögum eftir Arnald til að kvikmynda.

Í heildina var þetta skemmtilegt sjónvarpskvöld. Fannst þó kynnarnir missa nokkuð marks, húmorinn var ekki upp á marga fiska og betra væri að láta fagmenn sjá um þessa hlið gríns, ef á að hafa grín yfir höfuð. Þetta var vandræðalegt í besta falli. Svo er það hreinn skandall að ekki sé verðlaunað í flokkum karla og kvenna fyrir leik. En samt sem áður; skemmilegt kvöld.


mbl.is Mýrin fékk flest Edduverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdimar Leó horfir til Frjálslyndra

Valdimar Leó FriðrikssonValdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, kvaddi Samfylkinguna formlega í Skaftahlíðinni í beinni útsendingu hjá Agli í Silfrinu laust eftir hádegið. Það var kómískt þegar að hann tók niður Samfylkingardoppuna sína í barminum og gaf Agli hana. Merkileg sögulok það. Það er greinilegt að Samfylkingarfólk vill sem minnst fjalla um þessi leiðarlok Valdimar Leós í flokknum og gerir lítið úr því. Þetta er skiljanlega ekki umræða sem Samfylkingin og fólk þar innbyrðis vill gera mikið úr.

Það er alltaf tíðindi þegar að sitjandi þingmaður segir skilið við flokkinn sinn og fer þingsæti frá flokknum. Nú hefur þingstyrkur Samfylkingarinnar minnkað og sitja 19 þingmenn nú fyrir flokkinn. Það eru tíðindi, það er nú bara þannig. Ég veit ekkert hvaða styrk þessi maður hefur. Er svosem alveg sama um það. Það er alltaf áfall fyrir flokka þegar að verður klofningur. Það var áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi í aðdraganda kosninganna 2003 er þingmaðurinn Kristján Pálsson sagði sig úr flokknum, varð óháður og fór í framboð á eigin vegum. Það framboð kostaði flokkinn þingsæti í kjördæminu og forystu þar. En Valdimar Leó er vissulega ekki kjörinn þingmaður í kosningum.

Heyrst hefur mjög hátt síðustu dagana að Valdimar Leó færi úr Samfylkingunni og gengi til liðs við Frjálslynda flokkinn. Ég skrifaði fyrst um það hér á vefnum laust fyrir hádegið á fimmtudaginn. Það yrðu svo sannarlega tíðindi ef að Frjálslyndir myndu munstra þennan mann og Jón Magnússon til framboðs á höfuðborgarsvæðinu. Gleymum því ekki að Frjálslyndir mældust með sjö menn í síðustu könnun Fréttablaðsins. Þeir gætu því náð jöfnunarsætum í þeirri stöðu. Vonandi kemur hún þó ekki upp. Gleymum annars ekki því að Frjálslyndir náðu þingsæti í Kraganum síðast út á jöfnunarsæti. Greinilegt er að Valdimar Leó hugsar til Frjálslynda flokksins þessa dagana.

Þeim vantar sárlega leiðtoga í Kragann í komandi kosningum og sjá sér væntanlega leik á borði að fá til sín Valdimar Leó, sem kemur úr Mosfellsbæ. Í þingkosningunum 2003 leiddi Gunnar Örlygsson Frjálslynda flokkinn í Suðvesturkjördæmi. Á miðju kjörtímabili gekk hann til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Þá vændu Frjálslyndir Gunnar Örn um svik og reyndu að beita sér fyrir því að Gunnar afsalaði sér þingmennsku sinni þar sem staða mála væri breytt frá kosningunum og hann ætti að hleypa varaþingmanninum Sigurlín Margréti Sigurðardóttur inn á þing. Frá flokkaskiptum hefur Gunnar ekki hleypt frjálslynda varaþingmanninum sínum inn á þing.

En leiðtogastóll Frjálslyndra í Kraganum er svo sannarlega laus. Það er spurning hvort að Frjálslyndir leiði óháðan alþingismann Samfylkingarinnar til þess sætis í kosningum að vori. Svo segir kjaftasagan. Það er greinilegt að þetta tal um að vera óháður er til málamynda en það líður að kosningum og augljóst eftir þessar tilfærslur að Valdimar stefnir að framboði og að verja þingsætið. Það gerir hann varla með sérframboði. Það sjá allir sem rýna í stöðuna.

Enda hví ætti annars maður í hans stöðu að mæta á bæjarmálafundi hjá Frjálslyndum í Mosó? Dæmið er augljóst fyrir alla með pólitískt nef.


mbl.is Þingmaður Samfylkingar segir sig úr flokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klofnar Frjálslyndi flokkurinn?

Magnús Þór og Guðjón ArnarMikil innri átök um stefnumótun Frjálslynda flokksins í innflytjendamálum virðast vera undir yfirborðinu meðal forystumanna þar. Deilt er um áherslur vegna skoðana þingmanna flokksins í kjölfar skrifa Jóns Magnússonar í Blaðinu um þessi mál. Greinilegt er að ekki eru allir sáttir við þá stefnu sem kennd er nú við flokkinn og virðist fremst í andstöðunni við það fara Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri flokksins og dóttir Sverris Hermannssonar, stofnanda flokksins.

Margrét hefur ekki tjáð sig víða um þessi mál en hún var mjög ákveðin í tjáningu í Fréttablaðinu á föstudag hvað þessi mál varðar og einkum varðandi skoðanir sínar á Jóni Magnússyni og sagðist hún ekki vilja vera í flokki sem markaðist af skoðunum Jóns og jafnaði þeim við þjóðernishyggju. Jón hefur víða farið í stjórnmálum. Hann vildi einu sinni áður ganga til liðs við forystu flokksins við litla hrifningu Sverris, eins og fram kemur í ævisögu hans. Jón stofnaði Nýtt afl með fleirum. Fer fáum frægðarsögum af því sem þar gerðist, en flokkurinn mældist varla í kosningunum 2003.

Sverrir hefur fram til þessa vart sparað Jóni stóru orðin og hefur það ekki breyst. Varla hefur Sverrir glaðst yfir því að sjá nú Jón með merki Frjálslynda flokksins í barmi talandi eins og fulltrúi flokksins væri í spjallþáttum og á víðum opinberum vettvangi. Sverrir segir orðrétt um Jón í Fréttablaðinu: "Ég held nú að þetta verði afgreitt í sátt og samlyndi. Um hvað er deilt? Það er deilt um það að Margrét heldur sig nákvæmlega við málefnaskrá flokksins. Og að halda það að einhver utanveltubesefi eins og Jón Magnússon, sem er ekki einu sinni löglegur félagi í Frjálslynda flokknum, hafi eitthvað um það að segja, kemur ekki til nokkurra greina".

Margrét hefur löngum verið talin einn öflugasti forystumaður Frjálslynda flokksins og verið framkvæmdastjóri flokkins frá stofnun árið 1998, eftir að faðir hennar hrökklaðist úr bankastjórastól í Landsbankanum. Hún skipaði þriðja sæti flokksins í Reykjavík í kosningunum 1999, er faðir hennar náði kjöri, og leiddi lista flokksins í Reykjavík suður í þingkosningunum 2003. Litlu munaði að hún næði kjöri á þing, en svo fór ekki. Hún beið lægri hlut í baráttu við Birgi Ármannsson í kjördæminu er yfir lauk og varð að sætta sig við að ná ekki að komast á þing. Hún hefur verið varaborgarfulltrúi Frjálslyndra frá árinu 2002 og býst nú til að halda aftur í þingframboð.

Mikla athygli vakti að heyra í Margréti Sverrisdóttur í Silfri Egils í dag. Hún var ekki ánægð með umræðuna, en gat mjög lítið gert til að kveða niður orðróminn um ósætti og deilur milli arma í flokknum. Þær sögur ganga fjöllum hærra þessa dagana og hafa magnast frekar en annað. Yfirlýsingar Margrétar breyta engu um að greinilega er talað í tvær áttir og ólíkar grunnskoðanir í innflytjendamálum eru þar uppi.  Það er greinileg ólga undir niðri í herbúðum þarna.

Það sanna yfirlýsingar feðginanna mjög vel, enda virðast þau tala með öðrum hætti en þingmenn Frjálslynda flokksins hvað málin varðar. Við hefur enda blasað hversu samhent varaformaðurinn og Jón tala um innflytjendamál. Nú reynir á stöðu mála væntanlega. Það verður fróðlegt að sjá hvaða afstöðu Frjálslyndir taka er yfir lýkur til innflytjendamála, en þar getur aðeins ein skoðun orðið ofan á sem opinber afstaða flokksins. Deilur virðast uppi um hvert skuli stefna.


Stórtíðindi að sunnan

Snjór á íslenskum vetri Stórtíðindi hafa borist að sunnan, sem setja stórt mark á fréttaumfjöllun fjölmiðlanna á hvíldardeginum sjálfum. Íslenskur vetur er hafinn í Reykjavík. Þar snjóar og fólk þarf víst að moka út bílana sína og á í erfiðleikum með að komast milli áfangastaða sinna. Athyglisvert að fylgjast með þessari umfjöllun.

Það er engu líkara en að snjór hafi aldrei fallið í Reykjavík í nóvember áður. Merkilegt að heyra af þessu. Hér á Akureyri höfum við kynnst íslenskum vetri vel síðustu dagana. Snjóað hefur heil ósköp og í gær var hér um 20 stiga frost. Algjör gaddur og ekta íslenskur vetur er það sem við okkur blasir hér þessa dagana. Einfaldara getur það varla orðið.

Fyrir mig sem hef mokað stéttina mína á hverjum degi síðustu viku og hef þurft að komast um í blindbyl og kalsatíð síðustu vikuna er merkilegt að fylgjast með stórtíðindunum að sunnan. Þær verða enn meira áberandi fyrir vikið. En svona er nú einu sinni ekta íslenskur vetur. Við vitum hvar við búum og við hverju er hægt að búast. Svo einfalt er það nú bara.

mbl.is Snjóþekja á Reykjavíkursvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magga Frímanns kveður með stæl

Margrét Frímannsdóttir Það líður að lokum á litríkum stjórnmálaferli Margrétar Frímannsdóttur. Í tvo áratugi hefur hún verið í forystusveit vinstriafla í landinu og leitt framboðslista á Suðurlandi. Hún hefur verið á sínum ferli baráttukona sinna hugsjóna, alþýðukona úr litlu sunnlensku sjávarplássi sem braust fram til ábyrgðarstarfa í stjórnmálum og komst mjög langt, en varð þó aldrei ráðherra í ríkisstjórn landsins. Þrátt fyrir það er hún eftirminnileg.

Nú hefur stelpan frá Stokkseyri ritað ævisögu sína undir því nafni, það er pólitísk ævisaga, eins og gefur að skilja. Ekkert heiti er meira viðeigandi á bókina en þetta. Hún hefur verið virk í stjórnmálum síðan að hún var ung og hún hefur verið lengi áberandi í pólitískri baráttu. Í bloggfærslu minni hér þann 19. september, skömmu eftir að ég færði mig hingað á moggabloggið skrifaði ég um þessa væntanlegu ævisögu Möggu Frímanns og lét þess getið að ég myndi lesa bókina, enda hefur hún merkilega sögu að segja lesendum. Það er enda ljóst á öllu að þarna er ekki töluð nein tæpitunga, þetta er áhugaverð bók þar sem allt er látið flakka.

Nú er bókin komin út. Hún var varla orðin volg í prentsmiðjunni er hún hafði þegar vakið athygli væntanlegra lesenda og farið var að vitna í bókarskrifin. Um er að ræða pólitískt uppgjör Margrétar Frímannsdóttur að pólitískum leiðarlokum. Stjórnmálasaga Margrétar er samofin sögu vinstriflokkanna síðustu tvo áratugina, bæði hvað varðar vonbrigði við langa stjórnarandstöðusetu og ennfremur merka sögu við að koma vinstriöflum, sundruðum sem standandi öflum, saman í eina sæng. Þarna er sameiningarsaga vinstriflokkanna á tíunda áratugnum rakin ítarlega, farið yfir formannsslaginn í Alþýðubandalaginu árið 1995 og baráttu lífsins fyrir Margréti, við illvígt mein.

Margrét og Steingrímur J. háðu eftirminnilega baráttu um formannsstólinn í Alþýðubandalaginu, þegar að Ólafur Ragnar Grímsson neyddist til að hætta eftir átta ára formennsku. Sigur Margrétar var sögulegur, ekki aðeins varð Margrét með því fyrsta konan á formannsstóli gömlu fjórflokkanna heldur þótti merkilegt að hún gæti sigrað Steingrím J. í þessari baráttu aflanna innan flokksins. Það var hennar pólitíski hápunktur. Sigurinn varð þó súrsætur fyrir hana og hún varð síðar að horfa upp á flokkinn brotna hægt og rólega og lauk væringum þeirra tveggja síðar með því að Steingrímur og armur hans í flokknum yfirgáfu hann með miklu þjósti árið 1998.

Það situr greinilega eftir í Margréti að ekki tókst að mynda vinstriblokk allra afla í aðdraganda kosninganna 1999. Greinilegt er að hún kennir Steingrími J. um að það tókst ekki og vandar honum ekki kveðjurnar í þeim efnum. Biturleikinn og vonbrigðin vegna þess sem mistókst birtist vel í lýsingum Margrétar í þessu öfluga uppgjöri við kommana í Alþýðubandalaginu sem yfirgáfu flokkinn og skildu eftir Ólafsarminn í Alþýðubandalaginu sem síðar sameinaðist öðrum vinstriöflum í Samfylkingunni. Eftir stóðu tveir flokkar og Samfylkingunni mistókst að stimpla sig inn af krafti í kosningunum 1999, tækifæri Margrétar til að landa sameinuðum flokki mistókust.

Margrét markaði sér þó spor. Án hennar framlags hefði Samfylkingin aldrei verið stofnuð. Hún var móðir Samfylkingarinnar, ekki aðeins ljósmóðir verkanna heldur sú sem tryggði tilveru þessarar fylkingar sem þó leiddi ekki saman alla vinstrimenn með afgerandi hætti. Sú sameining mistókst. En Samfylkingin varð til vegna framlags Margrétar og varð hún talsmaður kosningabandalagsins árið 1999. Það var merkileg saga sem átti sér stað í kosningunum 1999 og mér telst til að Margrét hafi verið fyrsta konan sem leiddi alvöruafl, stórt afl, í þingkosningum. Sú saga hefur ekki enn verið rituð og væntanlega segir Margrét hana með þeim þunga sem hún telur rétt nú.

Fyrst og fremst verður áhugavert að lesa um formannskjörið 1995. Það var mikill átakapunktur á vinstrivængnum. Það var líka í fyrsta skipti sem póstkosning var meðal allra flokksmanna um forystu stjórnmálaflokks hér á Íslandi. Ólafur Ragnar barðist fyrir því að arfleifð hans myndi halda sér og beitti sér mjög fyrir Margréti, sem var alla tíð einn nánasti samherji hans í stjórnmálum. Sigur Margrétar varð um leið pólitískur sigur Ólafs Ragnars og hans afla innan Alþýðubandalagsins.

Margt má reyndar segja um Margréti, en hún er fyrst og fremst kjarnakona í stjórnmálum og hefur frá mörgu að segja, sérstaklega nú þegar að hún er að hætta í stjórnmálunum. Hún á að baki langan feril, sem verður áhugavert að lesa um í frásögn hennar. Ég ætla að fá mér þessa bók og lesa eftir helgina, það er mjög einfalt mál. Þetta er merkileg saga baráttukonu.

Brot úr ævisögu Margrétar

Valdimar Leó yfirgefur Samfylkinguna

Valdimar Leó Friðriksson Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, lýsti því formlega yfir í þættinum Silfri Egils á Stöð 2 nú á öðrum tímanum að hann myndi segja sig úr Samfylkingunni og verða óháður þingmaður, fyrst til að byrja með. Valdimar Leó fékk skell í prófkjöri flokksins í kjördæminu í byrjun mánaðarins og varð fjórtándi í nítján manna prófkjöri. Valdimar Leó varð alþingismaður fyrir rúmu ári er kratahöfðinginn Guðmundur Árni Stefánsson varð sendiherra.

Valdimar Leó viðurkenndi í þættinum að hann hefði setið stofnfund bæjarmálafélags Frjálslynda flokksins í Mosfellsbæ, en vildi ekki staðfesta að hann ætlaði í framboð fyrir flokkinn í væntanlegum þingkosningum að vori. Þrálátur orðrómur hefur verið uppi um það í vikunni að Valdimar Leó ætli í framboð fyrir Frjálslynda. En hann yfirgefur nú þingflokk Samfylkingarinnar og verður óháður alþingismaður. Við það minnkar þingflokkur Samfylkingarinnar og sitja þar 19 alþingismenn eftir úrsögn Valdimars Leós úr flokknum.

Það verður fróðlegt að sjá hvenær að Valdimar Leó gengur formlega í Frjálslynda flokkinn. Kjaftasagan segir að hann muni fara í þá átt, en hann verði nú óháður einhvern örlítinn tíma til aðlögunar fyrir sig og sína, eins og menn segja. En já, hverjum hefði órað fyrir því að þingsæti Guðmundar Árna Stefánssonar, kratahöfðingjans úr Hafnarfirðinum, yrði þingsæti óháðs stjórnmálamanns sem horfir til Frjálslynda flokksins. Já, hlutirnir eru oft ekki lengi að gerast í henni pólitíkinni.

mbl.is Þykknar upp og dregur úr frosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akureyri fallegasti bærinn á landinu

Akureyri Það var ánægjulegt að sjá í Fréttablaðinu í gær að Akureyri hefði verið valinn fallegasti bær landsins í skoðanakönnun blaðsins. Akureyri hlaut 22,4% atkvæða þeirra sem þátt tóku í könnuninni og hlaut því mjög góða kosningu í efsta sætið. Hafnarfjörður, vinabær Akureyrar, varð svo í öðru sætinu. 

Við Akureyringar erum nú svo hrifnir af bænum okkar að þetta kemur okkur nú ekki á óvart, en þetta er fínn heiður auðvitað. Mér finnst ánægjulegt að sjá hversu miklu munar á Akureyri og Hafnarfirði miðað við allt. Skemmtilegast fannst mér að lesa rýni álitsgjafa blaðsins um könnunina, en sumir áttu erfitt með að leyna vonbrigðum sínum með að Akureyri hefði orðið fyrir valinu.

Farið yfir ævi Vilmundar

Vilmundur Gylfason Síðustu dagana hef ég verið að lesa ævisögu Vilmundar Gylfasonar, fyrrum dómsmálaráðherra, sem ber heitið Löglegt en siðlaust og var skráð af vini hans, Jóni Ormi Halldórssyni. Þetta er mjög merkileg saga svo sannarlega en Vilmundur var einn af litríkustu stjórnmálaleiðtogum sinnar kynslóðar. Bókin var skráð tveim árum eftir andlát Vilmundar, en hann lést sumarið 1983. Það verður seint sagt að stjórnmálamaðurinn Vilmundur og ég höfum aðhyllst sömu hugsjónir í stjórnmálum. Hann var mjög harður krati og barðist fyrir jafnaðarstefnu sinni, stundum með mjög áberandi hætti, en hann var alla tíð stjórnmálamaður skoðana og þótti mjög beittur í sinni pólitík.

Bókin er vissulega mikill minnisvarði um Vilmund. Hann kom sem stormsveipur í íslenska pólitík á áttunda áratugnum. Hann var hinsvegar alinn upp í stjórnmálum. Faðir hans, Gylfi Þ. Gíslason, var lengi formaður Alþýðuflokksins og gegndi embætti menntamálaráðherra samfellt í 15 ár, fyrir viðreisnartímann og á meðan hann stóð og þótti einn svipmesti stjórnmálamaður 20. aldarinnar. Afi hans, Vilmundur Jónsson, landlæknir, var maður skoðana og stjórnmálabaráttu og sjálfur sagði Vilmundur oft að hann væri eins og hann hvað baráttuandann snerti. Pólitík var því í lífi Vilmundar alla tíð og hann fór ósjálfrátt í þá baráttu sem faðir hans hafði helgað sig áður.

Samhliða lestri bókarinnar rifjaði ég upp þáttinn Einu sinni var, sem var sýndur á Stöð 2 í febrúar 2005, en þar fór Eva María Jónsdóttir yfir skammlífa sögu Bandalags jafnaðarmanna. Flokkurinn var stofnaður af Vilmundi haustið 1982 og átti fjóra þingmenn á Alþingi kjörtímabilið 1983-1987. Tilkoma flokksins varð að veruleika eftir að Vilmundur sneri baki við Alþýðuflokknum, þar sem hann hafði verið eiginlega verið fæddur og uppalinn til stjórnmálaþátttöku í. Vilmundur var kjörinn á þing fyrir Alþýðuflokkinn í þingkosningunum 1978 (er A-flokkarnir unnu mjög sögulegan sigur) og sat sem dóms- kirkjumála- og menntamálaráðherra í skammlífri minnihlutastjórn Alþýðuflokksins 1979-1980.

Vilmundur hafði gefið kost á sér sem varaformaður flokksins á flokksþingi hans 1980 og 1982, en í bæði skiptin beðið lægri hlut fyrir Magnúsi H. Magnússyni. Ennfremur höfðu verið innbyrðis deilur um störf Vilmundar sem ritstjóra Alþýðublaðsins sumarið 1981. Flokknum var spáð góðu gengi í skoðanakönnunum og stefndi framan af í góðan sigur hans. Það breyttist þegar líða tók á árið 1983 og að kvöldi kjördags kom í ljós að flokkurinn hafði ekki unnið þann sigur sem að var stefnt. Niðurstaðan varð fjórir þingmenn. Vilmundur tók úrslitunum sem miklum ósigri fyrir sig og pólitískar hugsjónir sínar og ekki síður baráttumál. Hann svipti sig lífi í júnímánuði 1983.

Í þættinum er eiginlega mun frekar sögð saga Stefáns Benediktssonar, arkitekts og fyrrum alþingismanns BJ. Hann fer þar yfir sögu flokksins, vandræði hans og erfiðleika við lok sögu hans. Stefán tók mikinn þátt í uppbyggingu flokksins með Vilmundi og eiginkonu hans, Valgerði Bjarnadóttur (dóttur Bjarna Benediktssonar), og fleiri stuðningsmönnum. Stefán skipaði þriðja sætið á lista flokksins í Reykjavík. Flokkurinn hlaut eins og fyrr segir fjóra þingmenn kjörna: tvo í Reykjavík og einn á Reykjanesi og Norðurlandi eystra. Við andlát Vilmundar tók Stefán sæti á þingi sem varamaður hans.

Var áhugavert að heyra lýsingar hans á stöðu mála og því sem tók við eftir andlát Vilmundar. Flokkurinn, sem byggður hafði verið utan um persónu Vilmundar og stefnumál hans, varð forystulaus og allt logaði í deilum þegar kom að því að hluti flokksins sameinaðist á ný Alþýðuflokknum. Eitt það merkilegasta sem kom fram í þættinum var að sjóðir flokksins væru frystir í Landsbankanum og enginn gæti gert tilkall til þeirra. Það er reyndar merkilegt að sjóðirnir, sem byggjast af skattfé sem flokkurinn fékk vegna stöðu sinnar á þingi, gangi ekki aftur til ríkisins. Það væri eðlilegast að peningarnir færu þangað.

Með þessum þætti og mun frekar lestri bókarinnar kynntist ég betur Vilmundi Gylfasyni sem stjórnmálamanni. Ég hafði reyndar lesið bókina áður, en það er verulega langt síðan. Segja má að saga BJ sé átakasaga umfram allt, saga flokks sem stóð og féll með stofnanda sínum og dó í raun með honum. Ég hvet eiginlega alla stjórnmálaáhugamenn til að lesa pólitíska ævisögu Vilmundar, Löglegt en siðlaust. Það er nokkuð merkileg lesning og lýsir honum sem stjórnmálamanni langbest. Það má fullyrða að íslenskir kratar hafi misst mikið þegar að Vilmundur hvarf af sjónarsviðinu.

Bloggfærslur 19. nóvember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband