20.11.2006 | 22:51
Kristinn H. ekki í framboð fyrir Framsókn

Það má segja að góð ráð séu orðin dýr fyrir Vestfirðinginn Kristinn H. sem hefur á skrautlegum stjórnmálaferli marga hildina háð. Hann tryggði sér pólitískt framhaldslíf með því að ganga í Framsóknarflokkinn á sínum tíma. Innan við áratug eftir þær flokkahrókeringar sínar stóð hann eftir í varaþingsæti á lista flokksins í komandi kosningum, hafandi verið treyst fyrir leiðtogastól á Vestfjörðum í kosningunum 1999 og fjölda ábyrgðarfullra embætta af hálfu flokksins, t.d. þingflokksformennsku fyrir nokkrum árum. Pólitískt áfall er réttnefni fyrir útkomu Kristins H.
Flest stefnir væntanlega í sérframboð hans. Það yrði eina leiðin fyrir hann til að koma standandi frá þessari stöðu. Nema að hann skipti einfaldlega um vettvang. Þessi ákvörðun um að fara ekki fram fyrir Framsókn eru engin tíðindi eins og staðan var. Það á ekki við pólitískan baráttumann eins og Kristinn H. að daga uppi í þriðja sætinu. Varla vildi þessi pólitíski bragðarefur standa eftir í varaþingsæti á framboðslista undir pólitískri leiðsögn Magnúsar Stefánssonar og með Byggðastofnunarformanninn Herdísi á Króknum yfir sér í öðru sætinu. Þvílík pólitísk örlög fyrir einn mann með pólitískt stolt, segir maður bara. Kostirnir gátu varla verið einfaldari.
Hannibal Valdimarsson, faðir Jóns Baldvins Hannibalssonar, var annar pólitískur bragðarefur í stjórnmálasögu Vestfjarða. Í pólitískri örvæntingu eftir höfnun á pólitískum heimavelli sínum fór hann í sérframboð, stofnaði reyndar eigin flokk og hélt þingsæti sínu með ævintýralegum hætti. Hann reyndar klauf endanlega kratafylgið á Ísafirði eftir þann tíma og þau öfl hafa aldrei eftir þær sögulegu kosningar náð vopnum sínum, en það er önnur saga. Kristinn H. er eitt ólíkindatólanna í stjórnmálum. Ógæfa hans er væntanlega gleðiefni fyrir andstæðinga hans innan flokksins, sem hafa lengi beðið eftir því að hann missti fótanna innan flokksins. Það hefur nú gerst.
Það er virkilega gaman að lesa skrif pólitískra skríbenta, sem annaðhvort hafa unnið fyrir Framsóknarflokkinn, eða Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formann flokksins, með áberandi hætti, eftir þetta prófkjör. Kristinn H. var lengi óþægur ljár í þúfu Halldórs. Halldór hlýtur að gleðjast með þessi tíðindi, nú rétt áður en hann heldur til kommisarvistar í Köben. Sama má væntanlega segja um Jón Sigurðsson, nýjan formann Framsóknarflokksins, sem tók við stjórnarformennsku í Byggðastofnun af Kristni H. eftir að allt var komið í óefni þar. Gleðibylgja er víða innan Framsóknarflokksins nú. Hægriarmur flokksins er enda laus við Kristinn H.
Eftir stendur þessi stjórnarandstæðingur í stjórnarmeirihlutanum með klofinn skjöld og bogið sverð eftir töpuð átök. Það verður fróðlegt að sjá hver áhrif þessarar niðurstöðu verða í pólitíkinni í Norðvesturkjördæmi. Kristinn H. var reiður og fúll í pistli á vef sínum í dag. Hann er sár og beiskur eftir þessa útkomu. Það væru mikil tíðindi ef þetta yrði hans svanasöngur og síðasta pólitíska snerra. Sýnist allir búast við sérframboði þessa baráttumanns sem varla fer sneyptur af sviðinu. Hann mun væntanlega láta fyrrum samherja finna fyrir sér.
Menn eru auk þessa auðvitað mikið að spá í Valdimar Leó, óháða krataþingmanninn í Kraganum, sem tók hatt sinn og staf í Samfylkingunni í gær live on TV og gekk á dyr. Óánægja flokksmanna þar er greinileg og lítil eftirsjá þó sárindin með missi þingsætis sé greinileg. En hvenær ætli Valdimar Leó stígi skrefið til fulls og banki á dyr Guðjóns Arnars?
![]() |
Harma ákvörðun Valdimars um úrsögn úr Samfylkingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.11.2006 | 22:31
Litið á prófkjörsskrifstofurnar á Akureyri

Mismikið líf var á þessum kosningaskrifstofum greinilega þegar að Björn leit þar við. Lokað var á kosningaskrifstofu Þorvaldar, Kristján Þór var staddur á sinni skrifstofu og nokkrir stuðningsmenn, hjá Ólöfu voru tveir starfsmenn við verkin og hjá Arnbjörgu var nokkur hópur, aðallega að hringja greinilega. Ég verð að viðurkenna að ég hef mjög lítið farið á þessari skrifstofur, hef hreinlega ekki fundist það við hæfi þar sem ég hef verið í utankjörfundarkosningunni upp í Kaupangi og fylgist því með þessu úr smáfjarlægð, enda hvorki auðvitað í framboði né virkur í störfum fyrir frambjóðanda að þessu sinni.
En við sem höfum gaman af stjórnmálum höfum vissulega áhuga á stúdera í þessu og því var umfjöllun Björns áhugaverð. Það er fínt hjá N4 að kanna kosningaskrifstofurnar og kynna okkur þá stemmningu sem þar er. En kannski er bara rólegt yfir þessu öllu þannig séð, nema maskínuvinnu hreinlega bara bakvið tjöldin, úthringingar og þess háttar vélavinna framboðsins sem ávallt fylgir. Áhugavert að sjá allavega. Fróðlegt. En það er mjög gott mál að frambjóðendur opna kosningaskrifstofu. Það sýnir bara að kraftur er í þessum frambjóðendum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2006 | 17:21
Líður að lokum prófkjörsbaráttunnar

Mér finnst lítið bera á málefnum í þessari prófkjörsbaráttu. Enda er þetta fólk svipaðra áherslna sem takast á. Flokksmenn eru fyrst og fremst að velja forystumann, hvernig týpu þeir vilji sjá við stjórnvölinn í kjördæmastarfinu í þessum kosningum og næstu árin. Það bíður mikið verkefni nýs leiðtoga. Flokkurinn hlaut aðeins tvo þingmenn kjörna í síðustu þingkosningum og verkefni nýs leiðtoga verður að sækja að meira fylgi og efla stöðu flokksins á svæðinu. Kannanir hafa verið að gefa okkur sóknarfæri upp á mikla fylgisaukningu. Eftir sunnudaginn hefst verkefnið fyrir nýjan leiðtoga að sækja þetta fylgi - sækja fram í kosningunum.
Mér finnst eftirsjá af Halldóri Blöndal. Ég verð fúslega að viðurkenna það. Halldór hefur unnið vel fyrir flokkinn hér og fært okkur forystu sem hefur verið gagnleg og góð fyrir okkur öll. Hann hefur á þeim 23 árum sem hann hefur verið kjördæmaleiðtogi hér stýrt af krafti. Það verður ekki auðvelt fyrir nýjan leiðtoga að taka við keflinu. Við höfum notið þess að eiga traustan og öflugan forystumann. Halldór stóð sig vel um daginn er hann skammaði samgönguráðherrann vegna málefna Akureyrarflugvallar. En nú er komið að leiðarlokum. Við munum þó auðvitað njóta reynslu og þekkingar Halldórs í baráttu næstu mánaða. Hann er öflugur liðsmaður.
Það verður mikið um að vera um helgina. Við höfum kjörfund í Oddeyrarskóla á laugardaginn milli kl. 9:00 og 18:00 og á 20 öðrum stöðum í kjördæminu á sama tíma. Talning atkvæða hefst eftir hádegið á sunnudeginum, en það tekur sinn tíma í svo víðfeðmu kjördæmi að safna öllum atkvæðum saman. Fyrstu tölur ættu að liggja fyrir kl. 18:00 á sunnudag, sólarhring eftir að kjörstaðir loka á Akureyri. Það verður spennandi að sjá fyrstu tölur og stöðu mála. Heilt yfir finnst mér þessi prófkjörsslagur vera flokknum til sóma. Veðrið hefur sett sinn strik í reikninginn varðandi fundi frambjóðenda, en nú hefur batnað yfir í því og vonandi mun kosningin ganga vel.
Ég bendi hérmeð á heimasíður þeirra frambjóðenda sem hafa opnað vefgátt
Arnbjörg Sveinsdóttir
Kristinn Pétursson
Kristján Þór Júlíusson
Ólöf Nordal
Sigríður Ingvarsdóttir
Sigurjón Benediktsson
Þorvaldur Ingvarsson
20.11.2006 | 14:52
Skemmtilegur húmor í Gullkindinni

Erlendis er það einna helst Razzie-verðlaunin sem vekja athygli af þessu tagi. Væntanlega er það fyrirmyndin en þar er það versta í kvikmyndageiranum verðlaunað. Jafnan er sú verðlaunaafhending höfð kvöldið fyrir Óskarsverðlaunin og því í sviðsljósinu samhliða því. Þetta virðist vera sami húmorinn. Ekkert nema gott mál svosem. Það verður fróðlegt að sjá hverjir fá Gullkindina síðar í vikunni. Veðja á að Búbbarnir taki verðlaunin sem versti sjónvarpsþáttur ársins.
![]() |
Kosið um hverjir skuli hljóta Gullkindina fyrir slæma frammistöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2006 | 12:04
Pólitísk fýla Kristins H. Gunnarssonar

Það er mjög stór spurning hvað Kristinn H. Gunnarsson sé að gera í Framsóknarflokknum ef hann er andvígur því stjórnarsamstarfi sem setið hefur við völd síðastliðin ellefu ár, lengur en Kristinn H. hefur sjálfur verið þingmaður Framsóknarflokksins. Andstaða hans við Sjálfstæðisflokkinn er svosem engin ný tíðindi, enda var hann þingmaður Alþýðubandalagsins sáluga 1991-1998 en flúði þaðan með Steingrími J, Hjörleifi, Svavari, Ögmundi og fleiri görpum en þeir fylgdu þó ekki með í kaupbæti yfir í Framsóknarflokkinn reyndar, enda flúðu sumir þeirra yfir í Samfylkinguna áður en þeir enduðu hraktir og kaldir á vinstrivanga í vinstri grænum hjá Steingrími J.
Ég man satt best að segja ekki betur en að Kristinn H. hafi verið þingflokksformaður Framsóknarflokksins 1999-2003, en Davíð Oddsson var forsætisráðherra Íslands allan þann tíma og þá var hann í nánu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, enda leiddi hann þingflokk Framsóknar inni í þinginu. Kristinn H. var reyndar pólitískt ólíkindatól þá rétt eins og núna, en eitthvað bar þá minna á andstöðunni við stjórnarsetu með Sjálfstæðisflokknum. Það má reyndar segja um þetta samstarf að Framsóknarflokkurinn hefur fengið völd langt umfram stærðargetu og ég efast um það að Framsókn hefði þessi umfang valda eða meiri áhrif á stjórnarforystu landsins í vinstristjórn fleiri en tveggja stjórnmálaafla.
En Kristinn H. er vonsvikinn núna, það eru sárindi fyrir vestan núna hjá honum. Hver væri það annars ekki, hafandi misst öruggt þingsæti og verandi algjörlega í pólitískri óvissu. Varla fer hann á þing bara á stuðningi Vestfirðinga úr sérframboði. Erfið barátta er framundan fyrir Sleggjuna hvernig sem fer. Það er reyndar með ólíkindum að hann sé enn að barma sér eftir að grasrótin hafnaði honum og telur að fyrst hann gat ekki snúið norðvesturframsóknarmönnum til fylgilags við sig geti hann haft áhrif á þá á landsvísu. Dream on, segir maður eins og hver annar vitiborinn einstaklingur.
![]() |
Kristinn: Áfram valin hægri Framsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2006 | 07:40
Afleitt upphaf sænskra hægrimanna við völd

Skv. nýjustu skoðanakönnunum hafa borgaralegu flokkarnir ekki meirihluta á bakvið sig. Það er skiljanlegt svosem eftir allan vandræðaganginn. Kosningar eru nýlega afstaðnar og enn tæp fjögur ár til kosninga. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að þau ganga fyrir sig en ég spái því að ef ekki batni verulega yfir borgaralegu flokkunu og þau fari ekki að sýna alvöru verk og sterka forystu sem þörf er á muni illa fyrir þeim. Byrjunin er afleit en framhaldið veltur á næstu mánuðum og hvernig þá muni ganga.
Það er mjög ömurlegt að sjá hversu veikluleg byrjun borgaralegu flokkanna er við stjórnvölinn. Þessi hneykslismál hafa verið gjörsamlega óverjandi og sýna mikinn siðferðisbrest, sem er ólíðandi að sé til staðar í opinberu embætti að mínu mati. Það er óskiljanlegt hvernig ráðherrarnir sem hrökkluðust frá embættu komust í gegnum smásjá í ráðherrastólinn og þær virðast hafa verið auðveld bráð bloggara, en eins og vel hefur komið fram var það bloggari sem gekk frá ráðherradómi Borelius með einfaldri rannsóknablaðamennsku og þefaði upp vandræðagang hennar með næsta einföldum hætti, sem hefur vissulega vakið athygli.
Ekki virðast skandalarnir aðeins bundnir við hægrimennina. Nú hefur verið ljóstrað upp um að Göran Persson, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins og fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, smeygði sér fremst á tuttugu ára biðlista eftir leiguíbúð í miðborg Stokkhólms með einu símtali nýlega. Persson og eiginkona hans, Anitra Steen, muni fá leiguíbúðina afhenta í byrjun næsta árs, en þurfi ekki að bíða lengi. Dæmi eru um allt að tveggja áratuga bið eftir leiguíbúðum í miðborginni. Mjög merkilegt mál.
En ég dreg enga dul á að þetta hefur verið vond byrjun fyrir borgaralegu flokkana og stjórn þeirra, og mikið pólitískt áfall fyrir Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, sem má ekki við frekari vandræðagangi eigi ekki illa að fara fyrir honum og stjórn hans strax í upphafi.
![]() |
Sænska ríkisstjórnin orðin óvinsælli en stjórnarandstaðan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2006 | 00:49
Mörgæsir skáka James Bond
Ég verð að viðurkenna að ég fékk vænt hláturskast þegar að ég sá að mörgæsateiknimyndin Happy Feet hafi hlotið meiri aðsókn vestanhafs en Casino Royale, nýjasta James Bond myndin, um helgina. Mörgæsirnar höluðu inn tæpum tveim milljónum dala meira en hágæðanjósnarinn sjálfur. Heldur betur frétt það. Sýnist þó að Bond sé allavega að hala meira inn nú vestra en var þegar að síðasta mynd, Die Another Day, var frumsýnd fyrir fjórum árum.
Fór annars á föstudaginn og sá Casino Royale og hafði virkilega gaman af. Þetta er flott spennumynd, gamaldags Bond-mynd með öllum þeim fléttum sem nauðsynlegar eru. Finnst þetta besta Bond-myndin til fjölda ára. Fólk var orðið svolítið leitt á niðursoðna ýkta hasarnum sem var alltof feik ýktur. Nú fáum við gamaldags versíón af Bond, kærkomin útgáfa það. Finnst Daniel Craig fara vel af stað í þessu hlutverki og marka sér gott upphaf þar. Mjög gott mál. Skrifa meira um þessa mynd hér á morgun, þegar ég hef meiri tíma.
Var að horfa á Spaugstofuna á netinu. Missti af henni í gær. Þar fóru þeir heldur betur á kostum og gerðu góðlátlegt grín af Árna Johnsen og þar var allt fært í Bond-búning. Vel gert grín og ég hafði mjög gaman af þessu. Skemmtilegt hugmyndaflugið í Spaugstofumönnum eins og venjulega. Flottur þáttur. Hápunkturinn var þegar að heitum Bondmyndanna var breytt og lögin voru mjög flott með þessum breytta hætti.
![]() |
Teiknimynd um mörgæsir skákaði Bond |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 00:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)