Sjálfstæðiskonur álykta gegn Árna Johnsen

Árni Johnsen Ég vil lýsa yfir fullum stuðningi mínum við ályktun stjórnar Landssambands sjálfstæðiskvenna um Árna Johnsen, sem send var til forystu Sjálfstæðisflokksins nú síðdegis. Það er hið eina rétta að flokksmenn tali hreint út um afleita endurkomu Árna í stjórnmálin í ljósi alls sem gerst hefur. Ég persónulega sé mér ekki fært að tala máli þessa manns sem fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þingframboði eftir afleitt klúður hans í orðavali í síðustu viku.

Það er mitt mat að Árni Johnsen hafi orðið sjálfum sér til skammar með þeim ummælum sínum um að afbrot hans á árinu 2001 hefði verið tæknileg mistök. Þar klúðraði Árni hinu gullna tækifæri til að sýna marktæka iðrun á afbrotum sínum og sýna að hann hefði bætt rétt í hugsun, sem og gjörðum. Greinilegt var að Árni sér ekki eftir því sem hann gerði. Það er engin iðrun að mínu mati að kalla fjárdrátt og tengd brot tæknileg mistök. Aumingjalegt yfirklór Árna í Fréttablaðinu í dag er máttlaust og breytir engu. Það er greinilegt að Árni getur ekki beðið flokksmenn afsökunar á klúðri sínu.

Það er alveg greinilegt að þetta klúður í Árna Johnsen er ekki gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn og innkoma hans aftur í stjórnmálin mun ekki efla flokkinn. Í síðustu viku ályktaði SUS með afgerandi hætti um málefni Árna Johnsen eftir þessi heimskulegu ummæli sem hann lét falla. Það var nauðsynlegt að senda þá ályktun frá sér og hún hefði orðið harðari hefði ég einn samið hana. Mér fannst Árni gjörsamlega klúðra góðu tækifæri til að endurheimta virðingu flokksmanna og stuðning þeirra eftir þetta prófkjör.

Það er greinilega engin iðrun frá syndaranum í þessu máli og það er engin eftirsjá eða neitt sem þar stendur eftir. Það er ekki bara óheppilegt fyrir Árna Johnsen heldur líka Sjálfstæðisflokkinn, sem þarf að sætta sig við endurkomu Árna eftir að sunnlenskir sjálfstæðismenn kusu hann þar aftur inn. Nú er orðið ljóst að borið hefur á úrsögnum úr flokknum vegna kosningar Árna í annað sætið í Suðurkjördæmi. Þetta hefur Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, staðfest í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum dögum.

Það var kannski varla við öðru að búast en að almennum flokksmönnum myndi blöskra framganga Árna Johnsen og sérstaklega hin dæmalausu ummæli hans, sem voru algjörlega afleit og ekki viðunandi. Þau ein og sér gera manninn ekki tækan fyrir Sjálfstæðisflokkinn til framboðs. Ég styð því ályktun sjálfstæðiskvenna heilshugar og vonast til þess að yfirstjórn Sjálfstæðisflokksins grípi til sinna ráða við að koma í veg fyrir að Árni verði í framboði fyrir flokkinn að vori. Ég tel framboð hans afleitt fyrir flokkinn úr því sem komið er.

mbl.is Óttast að framboð Árna dragi úr fylgi Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott rektorsval fyrir Háskólann í Reykjavík

Svafa Grönfeldt Það er gleðiefni að heyra af því að Svafa Grönfeldt hafi verið ráðin sem rektor Háskólans í Reykjavík. Hún tekur við rektorsembættinu þann 1. febrúar 2007 af Guðfinnu S. Bjarnadóttur, verðandi alþingismanni Sjálfstæðisflokksins, sem hlaut örugga kosningu í öruggt þingsæti á framboðslista flokksins í Reykjavík í prófkjöri í síðasta mánuði. Guðfinna hefur verið rektor HR frá stofnun árið 1998 og byggt skólann upp sem eina kraftmestu menningarstofnun í landinu.

Svafa er aðstoðarforstjóri Actavis en var þar áður framkvæmdastjóri IMG Deloitte. Hún lauk Ph.D. gráðu í Industrial Relations frá London School of Economics and Political Science árið 2000. Þar áður lagði hún stund á Technical and Professional Communication í Florida Institute of Technology og lauk M.Sc. prófi þaðan árið 1995. Svafa er einnig með BA-gráðu í stjórnmála- og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands. Svafa hefur verið lektor í stjórnun og markaðsfræðum við Viðskipta og hagfræðideild HÍ frá 1997.

Ég tel að þarna komi öflug kona til verka í stað kjarnakonu sem hefur byggt HR upp með undraverðum hraða og byggt upp kraftmikla menntastofnun sem kveðið hefur að með áberandi hætti.

mbl.is Nýráðinn rektor HR: „Í senn mjög erfið ákvörðun og mjög auðveld.“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afhending Gullkindarinnar

Gullkindin Í gærkvöldi var Gullkindin afhend, en það eru verðlaun sem eru sérstaklega veitt þeim sem taldir eru hafa staðið sig sérlega illa á árinu. Skemmtilegur húmor í þessum verðlaunum, finnst mér. Þetta kemur einmitt mátulega í kjölfar Edduverðlaunanna og öllu því glamúr og glysi sem einkenndi hana. Erlendis er það einna helst Razzie-verðlaunin sem vekja athygli af þessu tagi.

Silvía Nótt hlaut verðlaunin fyrir klúður ársins, en það var að sjálfsögðu Eurovision-ævintýrið, allt frá sigrinum hér heima í febrúar til skellsins mikla í þráðbeinni útsendingu frá Aþenu í maí er hún púuð niður, sem er einsdæmi í sögu keppninnar. Mikið ævintýri en líka mikill skellur er yfir lauk. Ekki furða að menn ætli að gera kvikmynd úr þessari ótrúlegu sögu. Það kom engum á óvart, held ég, að ég var sannspár í minni spá á mánudag um að Búbbarnir yrði valinn versti sjónvarpsþátturinn, enda átakanlega slappur. Plata Snorra úr Idol var valin versta plata ársins.

Verstu sjónvarpsmennirnir voru stjórnendur Innlits-Útlits á Skjá einum og fall Unnar Birnu Vilhjálmsdóttur, ungfrú Heims 2005, við krýningu ungfrú Íslands 2006 þótti uppákoma ársins. Engum kemur á óvart að vafasamasti heiðurinn, sjálf heiðursverðlaunin, féllu Árna Johnsen í skaut. Engin tæknileg mistök þar.

Þetta er bara flottur húmor held ég, líst vel á þetta hjá X-inu FM. Gott mál.


mbl.is Silvía Nótt klúður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Courtney Love dömpar endanlega Kurt Cobain

Kurt Cobain Þegar að ég var unglingur var Kurt Cobain og Nirvana málið. Það var uppáhaldstónlistin mín á þeim árum. Ekkert sló við Nirvana. Það var rosaleg upplifun þegar að Nevermind var gefin út árið 1991 - rosalega góð plata og flottur toppur á glæsilegum ferli. Dúndur. Ein þeirra platna sem ég met mest. Er alltaf eðall á að hlusta. Þegar að hún kom út var það toppurinn - er það eiginlega enn að svo mörgu leyti. Cobain hafði mikil áhrif á heila kynslóð.

Þau áhrif náðu út fyrir gröf og dauða. Cobain fyrirfór sér árið 1994 og eftir stóðu lögin. Tólf árum eftir endalokin lifir minning hans og tónlistarinnar góðu lífi. Margar kjaftasögur ganga enn um samband Cobain og Courtney Love. Bæði lifðu þau hátt á sínum tíma, fallið varð mikið en Love lifir enn hærra en flestir. Er þekkt fyrir það. Flestir hafa alltaf talið að Cobain væri ást lífsins hennar, þrátt fyrir allt og allt. Sterkt samband en rosalega beitt og afgerandi. Lifandi var allavega lifað, hátt yfir öllum mörkum.

Finnst mjög merkilegt að Love telji leikarann Edward Norton ást ævinnar. Annars er Love ekki alveg normal á því, eins og flestir vita. Merkilegt að Cobain sé talinn besti vinur ævi hennar, þrátt fyrir allt sem gekk á. Ég hélt að þetta væri einmitt alveg hið gagnstæða. Mjög merkilegt bara, finnst mér. Fannst alveg skemmtilega villt að sjá myndina um þau skötuhjú fyrir nokkrum árum og ég hef reyndar lesið mikið um ævi Cobain. Stjörnuheimurinn er oft ansi feik og þar er lifað hátt.

En þetta eru merkilegar persónulegar uppljóstranir sem koma fram. Það má kannski segja að Courtney hafi endanlega dömpað Kurt Cobain. Kaldhæðnislegt alveg, merkilegt alveg.

En Nirvana-fíklar - hvert er uppáhaldslag ykkar með bandinu. Má til með að spyrja ykkur. Endilega kommentið. Mitt er Lithium. Smells Like Teen Spirit er líka eðall.

mbl.is Courtney Love segir Kurt Cobain ekki stóru ástina í lífi sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í prófkjör - góður framboðsfundur

Sjálfstæðisflokkurinn Það var notaleg og góð stemmning á Hótel KEA í kvöld á fundi frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn var af okkur í stjórn málfundafélagsins Sleipnis. Mjög vel var mætt á fundinn, en bæta þurfti við stólum í fundasalnum vegna fjöldans sem þar var saman kominn. Það var virkilega ánægjulegt að sjá þennan mikla og lifandi áhuga flokksmanna koma svo vel fram í þessari góðu fundarsókn, en það er varla furða að svo sé, enda er þetta prófkjör mikilvægt okkur öllum sjálfstæðismönnum hér.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, heiðraði fundinn með nærveru sinni. Hófst framboðsfundurinn með þriggja mínútna framsögum frambjóðendanna níu og að því loknu drógu þau spurningu sem samdar voru af okkur í stjórninni. Höfðu frambjóðendurnir ekki séð spurningarnar fyrirfram og var því áhugavert að sjá viðbrögð þeirra við spurningunni og heyra svo auðvitað svarið. Sumir frambjóðendurnir voru heppnir með spurningar, aðrir ekki eins og gengur. Flestir komu þó vel frá aðstæðum, en flestir þurftu að sýna á sér nýja hlið.

Flestir frambjóðendur tjáðu sig um mál sem þeir hafa lítið fjallað um og það tryggði líflegt fundaform og fjarri því hefðbundið. Þessi fundur var því vel heppnaður og hressilegur. Það var einmitt markmið okkar stjórnarmanna í Sleipni að tryggja lifandi og léttan fund. Fengum við fréttamanninn Sigrúnu Vésteinsdóttur á bæjarsjónvarpsstöðinni N4 einmitt til að verða fundarstjóra til að tryggja lifandi og ferska fundarstjórn. Hún spurði beinskeytt meira út í málið sem frambjóðandinn var spurður um eftir svarið og því var haldið áfram og gengið eftir betri svörum kæmu þau ekki hjá frambjóðandanum á tilsettum tíma. Kom nokkrum sinnum til þess.

Fundurinn var tveir tímar að lengd. Greinilegt var að fundargestum leist vel á fundinn og snarpt og létt form hans. Engin dauð stund og við kynntumst öll bestu hliðum frambjóðendanna held ég, hreint út sagt. Við erum með virkilega góðan hóp fólks í boði og fróðlegt að sjá hvernig raðast. Voru fundarmenn ánægðir og heyrðum við góða umsögn um allar hliðar kvöldsins hjá þeim sem sátu fundinn og frambjóðendum leist vel á. Það var því góð stemmning á Hótel KEA.

Spennan magnast vegna prófkjörsins. Lokadagur baráttunnar er á morgun og á laugardagsmorgun opna kjörstaðir um allt kjördæmið. Á sunnudagskvöldið liggja úrslitin fyrir og þá hefur nýr kjördæmaleiðtogi verið formlega valinn af flokksmönnum. Það eru spennandi tímar framundan hér hjá okkur sjálfstæðismönnum í Norðausturkjördæmi. Þetta verður spennandi helgi.

Bloggfærslur 24. nóvember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband