Örvænting Framsóknarflokksins

Jón Sigurðsson Það stefnir í erfiða tíma fyrir Framsóknarflokkinn. Fylgi hans virðist að festast undir 10 prósentustigum og það jókst ekki þrátt fyrir að Halldór Ásgrímsson yfirgæfi hið pólitíska svið. Kjör Jóns Sigurðssonar í formannsstól flokksins síðsumars efldi ekki flokkinn og staðan hefur verið að versna enn frekar. Flokkinn leiða tveir menn um eða yfir sextugt. Flokkurinn virðist vera í tilvistarkreppu og verulegum vandræðum.

Í ljósi alls þessa er skiljanlegt að formaður Framsóknarflokksins segi skilið við verk forvera hans á formannsstóli sem utanríkis- og forsætisráðherra í Íraksmálinu. Þetta eru athyglisverð ummæli og þau sýna vel örvæntinguna sem er að verða innan flokksins með viðvarandi vont gengi Framsóknarflokksins og brostnar vonir og væntingar flokksmanna með forystuna. Hún hefur ekki aflað flokknum meira fylgis og formaðurinn hefur ekki mikið sýnt af öflugri stjórnmálaforystu.

Það er greinilegt að hræðsla er innan flokksins vegna komandi kosninga. Það er skiljanlegt með stöðuna svona innan við hálfu ári fyrir þingkosningar.

mbl.is Ákvarðanir stjórnvalda um Írak byggðust á röngum upplýsingum og voru því rangar eða mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi lokið

Sjálfstæðisflokkurinn Kjörfundi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi er lokið. Rúmlega 3000 manns kusu í prófkjörinu á bæði kjörfundi sem fram fór á milli kl. 9:00 og 18:00 og utan kjörfundar síðustu tvær vikur. Allan þann tíma var ég staddur á kjörstað hér á Akureyri í Oddeyrarskóla. Það var góð stemmning þar og skemmtileg vinna í gangi. Mesti þunginn í kjörsókninni var á milli kl. 13:00 og 15:00, en þá mynduðust biðraðir hér í skólanum en þetta var annars jöfn kjörsókn í gegnum þessa 9 klukkutíma sem kjörfundur stóð hér á Akureyri.

Vinna við frágang hér er nú lokið. Nú taka atkvæði um allt kjördæmið að streyma til Akureyrar. Atkvæði verða væntanlega öll komin til Akureyrar í nótt eða fyrramálið. Talning atkvæða hefst kl. 14:00 á morgun og fyrstu tölur verða lesnar upp kl. 18:00. Nú tekur því biðin langa við fyrir okkur flokksmenn. Teningunum hefur verið kastað og aðeins þess beðið sem verða vill á morgun. Þá mun dómur kjósenda í prófkjörinu liggja fyrir og ný forysta á framboðslistanum og af hálfu flokksins í kjördæminu liggja fyrir. Það verður fróðlegt að sjá skiptingu atkvæða í fyrstu tölum eftir sólarhring.

Við áttum góðan dag saman hér í Oddeyrarskóla. Gott og öflugt fólk að vinna, gaman að hitta flokksmenn að kjósa og eiga gott spjall saman um stöðu mála. Var virkilega ánægjulegt að vera í kjördeildinni með þeim Oktavíu Jóhannesdóttur, Birnu Sigurbjörnsdóttur, Ragnheiði Jakobsdóttur, Jóni Oddgeiri Guðmundssyni og Maríu H. Marinósdóttur, en við fylgdumst að í gegnum daginn þar sem við vorum. Þar sem ég sat í miðju borðsins allan daginn var það mitt að fylgjast með kjörtölum og er nú lokafrágangur minnar kjördeildar frá. Nú tekur biðin við.

Það verða kaflaskil í flokksstarfinu hér á morgun, hvernig sem fer. Þá liggur fyrir hver leiði lista flokksins að vori og taki við leiðtogahlutverkinu hér í kjördæminu af Halldóri Blöndal, sem hefur setið á þingi frá 1979 og leitt lista hér á svæðinu frá 1984. Nýr leiðtogi verður fulltrúi nýrra tíma. Flokksmenn völdu í dag þennan fulltrúa sem við viljum að sjálfsögðu að verði ráðherra að vori og leiði flokkinn til sigurs þann 12. maí hér í kjördæminu.

mbl.is 2261 hefur kosið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi hafið

Sjálfstæðisflokkurinn Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi er hafið. Kjörstaðir opnuðu hér á Akureyri nú kl. 9:00 og verða opnir þar til kl. 18:00 og á 20 öðrum stöðum um kjördæmið. Í þessu prófkjöri verður nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi kjörinn. Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og forseti Alþingis, hefur ákveðið að segja skilið við stjórnmálaþátttöku að loknu þessu kjörtímabili og nú er það í höndum sjálfstæðismanna um allt kjördæmið hver leiðir framboðslista flokksins að vori.

Ég verð á kjörstað í Oddeyrarskóla í allan dag, enda er ég í kjörstjórn og það eru því næg verkefni sem við blasa um helgina. Það er þó ekki þannig að úrslit verði ljós og nýr kjördæmaleiðtogi formlega ljós fyrir dagslok. Við lok kjörfundar kl. 18:00 um allt kjördæmið tekur við það verkefni að safna saman öllum kjörgögnum. Það mun taka þónokkurn tíma. Atkvæði í þessu prófkjöri verða formlega talin því á morgun. Við búum í gríðarlega stóru kjördæmi, sem spannar fleiri hundruðir kílómetra. Öll atkvæði verða komin í húsnæði Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir hádegi á morgun. Þar mun talning hefjast formlega kl. 14:00 og fyrstu tölur liggja fyrir kl. 18:00. Úrslit verða kunn fyrir 21:00 væntanlega.

Þeir sem hafa lesið þessa bloggsíðu hafa séð lágstemmda umfjöllun um þetta prófkjör á vef mínum. Mér fannst ekki viðeigandi að skrifa mikið um frambjóðendur og hliðar þeirra í ljósi þess að ég vann í utankjörfundaratkvæðagreiðslunni í Kaupangi. Henni lauk í gær, en gærdagurinn var auðvitað þar annasamastur og gekk á ýmsu. Þetta hefur verið lifandi og góð kosning sem hefur vel fram og góð kjörsókn verið. Nú er komið að aðaldeginum og nú ráðast örlögin. Fyrir dagslok á morgun verða úrslit kunn. Í ljósi minnar stöðu í þessu ferli hef ég ekki lýst opinberlega yfir stuðningi við neinn frambjóðanda, né verið áberandi í starfi eins né neins. Það er fyrir bestu.

Ég kaus einn með sjálfum mér í salnum upp í Kaupangi á síðdegi fimmtudags skömmu fyrir framboðsfundinn á Hótel KEA. Ég hafði myndað mér mínar skoðanir mjög vel þónokkru fyrir þá stund. Ákvað að bíða ekki eftir framboðsfundinum, en staða mála á þeim fundi breytti engu um mína afstöðu til þess hver ætti að leiða þennan framboðslista og hverjir myndu sóma sér best með því leiðtogaefni sem mér líst best á. Í mínu vali koma saman reynsla, þekking og nýtt blóð til verka. Það er öllum fyrir bestu að hafa góða samblöndu kynjanna og ég stuðlaði að því. Ég tel að mitt val hafi einnig staðið vörð um hagsmuni ólíkra svæða.

Það má búast við að mikil spenna verði meðal frambjóðenda og flokksmanna þennan sólarhring frá lokun kjörstaða til fyrstu talna síðdegis á morgun. Það verður hinsvegar gott að losa um mestu spennuna er yfir lýkur í Oddeyrarskóla í dag og við þolum öll biðina mjög vel. Framundan eru þáttaskil. Það verður fróðlegt að sjá hver mun fá umboð flokksmanna til leiðtogasetu nú við pólitíska kveðjustund Halldórs og hvernig liðsheildin skipast. Það eru spennandi tímar framundan.

Landsvirkjun sponserar Ómar Ragnarsson

Ómar og Friðrik

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, og Ómar Ragnarsson, sjónvarpsmaður, undirrituðu í dag samkomulag um að Landsvirkjun styðji Ómar um 8 milljónir króna. Er samkomulagið um að fjárhæðin renni í kvikmyndagerð Ómars af myndun Hálslóns við Kárahnjúkavirkjun. Átti stuðningurinn upphaflega að vera 4 milljónir en var hækkaður eftir upphaflegt samkomulag, gegn því að Landsvirkjun fær afnot af myndefni Ómars.

Þetta eru mikil tíðindi. Ómar hefur verið harður talsmaður gegn virkjun við Kárahnjúka og stóriðju á Austurlandi. Þegar að myndun Hálslóns hófst í september hóf Ómar að gera heimildarmynd um lónið. Við öllum blasir að ekki verður aftur snúið fyrir austan. Lónið er orðin staðreynd og innan skamms verður virkjunin gangsett á fullt. Sigling Ómars á örkinni var umdeild í samfélaginu og deildi Ómar harkalega á Landsvirkjun vikurnar áður, eftir að hann sté formlega út úr hlutleysi fréttamannsins og varð baráttumaður andstöðunnar.

Fyrir tveim mánuðum gengu nokkur þúsund manns með Ómari niður Laugaveginn. Það væri fróðlegt að heyra mat þeirra sem það gerðu á þessu samkomulagi sem Friðrik og Ómar hafa nú handsalað. Mér skilst að þessi samningur tryggi Ómari og samstarfsfólki hans húsaskjól og fæði í búðum Landsvirkjunar við Kárahnjúka á meðan á kvikmyndatökum stendur, svo að væntanlega er næturvist í jeppagörmunum liðin tíð núna upp á fjöllum. Nú er gist í boði Landsvirkjunar. Þetta er allavega athyglisvert samkomulag í ljósi margs þess sem gerst hefur í samskiptum aðila vegna Kárahnjúkavirkjunar.

En þetta verður væntanlega flott mynd um Hálslón með sponseringu Landsvirkjunar. Fróðlegt verður að líta á hana þegar að hún verður til, væntanlega þegar að virkjun við Kárahnjúka verður endanlega staðreynd með vorinu og Hálslón hefur náð sinni endanlegu mynd.


mbl.is Landsvirkjun styrkir Ómar um 8 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. nóvember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband