18.12.2006 | 21:04
Stjórn Byrgisins finnst ekki - leynd aflétt af skýrslu

Það er stóralvarlegt mál að ekkert finnist sem heitir stjórn Byrgisins. Það er með hreinum ólíkindum að mínu mati að ekki hefði verið gert neitt af viti eftir þessa kolsvörtu skýrslu um fjármál og rekstur Byrgisins sem unnin var fyrir utanríkisráðuneytið árið 2001. Til dæmis hefur verið upplýst nú að hún hefur aldrei komið formlega fyrir sjónir fjárlaganefndar Alþingis. Meðal þeirra sem komu að skýrslugerðinni þá var Birkir Jón Jónsson, þáv. aðstoðarmaður Páls Péturssonar, sem var félagsmálaráðherra 1995-2003. Birkir Jón er nú alþingismaður og formaður fjárlaganefndar.
Merkilegt viðtal var við Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, í kvöldfréttum Stöðvar 2. Það er í raun raunalegt hið mesta að ráðast að Magnúsi vegna þessa máls. Hann hefur tiltölulega skamman tíma setið sem félagsmálaráðherra. Nær væri að ganga að Páli Péturssyni sem var félagsmálaráðherra á tímum skýrslunnar og Árna Magnússyni, sem var félagsmálaráðherra í tæp þrjú ár, frá vorinu 2003 til marsmánaðar á þessu ári. Mér finnst Magnús hafa gert rétt í því að krefjast rannsóknar á stöðu mála í Byrginu.
Leynd var aflétt af skýrslunni í dag og til hennar vitnað í kvöldfréttum Stöðvar 2, auk þess sem hún var tilvitnuð í margfrægum Kompásþætti. Byrgið hefur skv. fréttum fengið samtals yfir 200 milljónir króna frá árinu 1999 og í nýlegu fjárlagafrumvarpi er að finna fjárframlag til Byrgisins. Mér finnst ekki réttlætanlegt að meira ríkisfé fari í Byrgið fyrr en þessi athugun hefur farið fram og undrast mjög sofandagang síðustu félagsmálaráðherra í þessu máli.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.12.2006 | 18:49
Meirihluti Norðlendinga vill álver við Húsavík

Hvað varðar álver í Reyðarfirði sem senn fer á fullt er 51% aðspurðra hlynnt því en 29% andvíg. Þetta eru merkilegar tölur í báðu tilfelli að mínu mati og mikilvægt að benda vel á þetta. Það kemur ekki að óvörum að stóriðjuandstæðingar hafi lítið rætt þessa könnun, enda þjónar hún ekki málstað þeirra og er í raun skýr skilaboð eftir alla umræðu sem verið hefur gegn stóriðju á landsbyggðinni, bæði á Norður- og Austurlandi, sérstaklega síðustu mánuðina.
Fróðlegt verður að sjá hvernig VG muni ganga í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum. Ætlar Steingrímur J. Sigfússon að heimsækja Þingeyinga með þeim skilaboðum sínum að hann berjist gegn álveri í heimabyggð þeirra? Hann vann leynt og ljóst gegn álveri og virkjun á Austurlandi á sínum tíma og hlaut varla mikið fylgi á þeim slóðum í kosningunum 2003.
Það verður fróðlegt að sjá mælingu VG hér í kjördæminu útfrá afstöðu þeirra, sérstaklega hvað varðar stóriðju við Húsavík. Ekki á þessi afstaða við um Samfylkinguna, en mikill stuðningur er innan þess flokks í kjördæminu við þetta álver.
![]() |
Meirihluti íbúa á Norðurlandi hlynntur álveri á Bakka við Húsavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.12.2006 | 16:14
Eðlileg yfirlýsing frá Götusmiðjunni

Í dag hef ég fengið nokkra tölvupósta sem eru með og á móti skrifum mínum. Ég sé ekki eftir neinu í þeim skrifum sem hér hafa komið fram. Mér finnst það algjörlega óásættanlegt að forstöðumaðurinn komi fram með þeim hætti sem augljóslega er til staðar og staðfestist í þessum þætti í ljósi þess að ríkisfé hefur farið til Byrgisins. Það er algjörlega óverjandi, að mínu mati, að segja annað um stöðu mála.
Ég endurtek að mér finnst með öllu óeðlilegt að ríkið haldi áfram að styrkja Byrgið með fjárframlögum í ljósi stöðunnar sem upp er komin.
![]() |
Segir ekki mega rugla saman Götusmiðjunni og Byrginu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.12.2006 | 15:15
Robert Gates tekur við völdum í Pentagon

Gates vann stuðning ólíkra afla við tilnefningu sína og hlaut aðdáun landsmanna með afdráttarlausri framkomu og hiklausum svörum í fimm tíma yfirheyrslu fyrir hermálanefndinni öldungadeildarinnar. Þar sagði Gates að árás á Íran eða Sýrland kæmi ekki til greina, nema sem algjört neyðarúrræði. Þá sagðist hann ekki telja að Bandaríkin séu á sigurbraut í Írak og þar sé mikið verk óunnið eigi sigur að vinnast í bráð. Sagðist hann vera opinn fyrir nýjum hugmyndum varðandi málefni Íraks. Athygli vakti að hann tók undir staðhæfingar demókrata í nefndinni um að ástandið í Írak væri óásættanlegt og lagði áherslu á uppstokkun á stöðu mála.
Val Bush forseta á Robert Gates í stað Donalds Rumsfelds var til marks um uppstokkun mála og upphaf nýrra tíma, enda er Gates allt annarrar tegundar en Rumsfeld. Brotthvarf Rumsfelds veikir t.d. Dick Cheney í sessi innan ríkisstjórnarinnar, en Cheney, sem varnarmálaráðherra í forsetatíð Bush eldri 1989-1993, og Rumsfeld voru menn sömu áherslna og beittari en t.d. forsetinn sjálfur í raun. Gates hefur mikla reynslu að baki og annan bakgrunn en Rumsfeld. Hann vann innan CIA í þrjá áratugi undir stjórn sex forseta úr báðum flokkum (hann var forstjóri CIA í forsetatíð George H. W. Bush, föður núverandi forseta) og verður nú ráðherra í ríkisstjórn þess sjöunda.

Herská stefna hans hefur verið gríðarlega umdeild og hann er án nokkurs vafa umdeildasti ráðherrann í forsetatíð Bush og í raun síðustu áratugina í stjórnmálasögu Bandaríkjanna. Hefur staða hans sífellt veikst síðustu tvö árin, í aðdraganda forsetakosninganna 2004 og eftir þær, vegna Abu-Ghraib málsins og stöðunnar í Írak. Honum var ekki sætt lengur eftir þingkosningarnar í nóvember og hefði í raun átt að fara frá eftir kosningarnar 2004.
Brotthvarf hans úr ráðherraembætti og húsbóndaskipti í Pentagon breyta hiklaust mjög svipmóti ríkisstjórnar Bush forseta og tryggir að líklegra sé að repúblikanar og demókratar getið unnið saman með heilsteyptum hætti þann tíma sem þeir verða að deila völdum hið minnsta, eða fram að forsetakosningunum eftir tæp tvö ár, þar sem eftirmaður George W. Bush verður kjörinn.
18.12.2006 | 14:26
Ennio Morricone fær heiðursóskarinn
Morricone á að baki mikinn fjölda ógleymanlegra tónverka sem sett hafa svip sinn á kvikmyndasöguna. Nýlega keypti ég heildarsafn (það allra besta af glæsilegum ferli) bestu verka hans sem er á geislaplötunni: Very Best of Ennio Morricone. Hann hóf feril sinn með því að semja hina ódauðlegu tónlist í Spagettívestrum Sergio Leone.
Allir þeir sem horft hafa á The Untouchables, A Fistful of Dollars, The Good, The Bad & The Ugly, The Mission, Cinema Paradiso, Love Affair, My Names is Nobody, Unforgiven, The Bridges of Madison County, Malena, Il Postino, Bugsy, In the Line of Fire og Frantic (svo aðeins örfá dæmi eru nefnd) muna eftir ógleymanlegri tónlist þessa mikla meistara, sem setti órjúfanlegan svip sinn á þær.
Í huga mínum standa þrenn verk eftir sem það besta sem hann hefur gert: það eru Gabriel´s Oboe úr The Mission, The Death Theme úr The Untouchables, og síðast en ekki síst Love Theme úr Cinema Paradiso (sem er að mínu mati fallegasta kvikmyndastef seinustu aldar). Öll síðastnefndu stefin snerta hjartað, svo falleg eru þau.
Morricone er sannkallaður meistari kvikmyndatónlistarinnar. Hann er maður tilfinninga í tónlist kvikmyndanna. Þessi geisladiskur er fyrir þá sem elska kvikmyndirnar og stefin í þeim. Það er gleðilegt að loksins fái hann óskarinn. Hann á hann fyrir lifandis löngu skilið fyrir að setja ódauðlegt mark á kvikmyndasöguna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2006 | 12:29
Deilt á Netinu um Byrgið og forstöðumanninn
Það er heldur betur lífleg umræða á Netinu um umfjöllun fréttastofu Stöðvar 2 um Byrgið og forstöðumanninn Guðmund Jónsson. Sitt sýnist hverjum. Ég hef sagt mína skoðun. Sumir deila á fréttaskýringaþáttinn Kompás á Stöð 2. Mér finnst það undarlegt, enda þótti mér nauðsynlegt að fjallað væri um þessi mál. Umfjöllunin var ekki einhliða, enda fékk sá sem deilt var um og málið snýst um tækifæri til að verja sig og svara þessum ásökunum. Mér fannst sú vörn ekki trúverðug, þó eflaust eigi hann eftir að fá betri færi á að svara fyrir sig. Það er enn mörgum spurningum ósvarað.
Það er merkilegt að sjá suma segja að okkur komi einkalíf Guðmundar ekki við og að þetta mál sé þess eðlis að um það eigi ekki að fjalla. Mér finnst það fullkomlega eðlilegt að um það sé fjallað í ljósi þess að ríkisfé hefur farið til Byrgisins. Þeim spurningum er ósvarað hvað var gert við þessa peninga. Á meðan að sú óvissa er uppi skil ég vel að landsmenn efist í þessum efnum og það verður að fjalla um það. Samlíkingar við umfjöllun DV í janúar finnast mér ekki eðlilegar. Það var einhliða umfjöllun án þess að viðkomandi gæti borið hönd fyrir höfuð sér. Það var ekki í þessu tilfelli.
Auk þess er mjög ámælisvert að sjá það sem virðist staðreynd, ef marka má öll gögn, þ.á.m. athyglisvert myndskilaboð, að viðkomandi maður nýti sér skjólstæðinga sína til kynferðislegra athafna í ljósi þess trausts sem hann hefur til þess að "lækna fólk". Allavega verður seint sagt að myndskilaboðin séu fölsuð. Í mínum huga eru þetta afgerandi og áberandi gögn um hver staða málsins sé. Það var enda mjög erfitt fyrir Guðmund að svara fyrir þessi gögn.
Til dæmis féll hann í sömu gildru og barnaperranir í umfjöllun á NFS, þegar hann sagðist þurfa að kynna sér ýmis málefni. Þá var einmitt tekið fram að um væri að ræða algengustu afsökunina sem menn nýttu sér að þeir væru í sjálfskipaðri könnun á stöðu mála. Það er allavega ljóst að þetta mál verður að kanna frá grunni. Ekki virðist málið fagurt ef marka má gögn. Reyndar má deila harkalega á félagsmálaráðherra fyrri ára að hafa ekki fyrirskipað athugun á Byrginu.
Byrgið var stofnað af Guðmundi Jónssyni og er hans hugarfóstur. Það er vandséð hvernig það geti starfað áfram séu þessar ásakanir allar réttar. Í ljósi stöðu mála finnst mér útilokað að ríkisfé renni þar áfram til starfseminnar. Það blasir við.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)