Burt með alla neyslustýringu

KókEf það er eitthvað sem ég gjörsamlega þoli ekki er það forræðishyggja af öllu tagi. Tal um neyslustýringu landans fer alltaf jafn mikið í pirrurnar á mér. Enn einu sinni hefur nú Lýðheilsustöð minnt á sig og úrelt hlutverk sitt við að reyna að hafa vit fyrir fólki. Nú er hún að gagnrýna að í frumvarpi um lækkun virðisaukaskatts á matvælum verði virðisaukaskattur á gosdrykkjum og sykruðum svaladrykkjum lækkaður úr 24,5% í 7% og einnig falli vörugjald á þeim niður. Athyglisvert innlegg.

Með öðrum orðum: Lýðheilsustöð kvartar yfir að þessar vörur muni lækka hlutfallslega mest allra matvara þegar lögin taka gildi. Mér finnst mat Samtaka verslunar og þjónustu miklu raunsærra. Þau lýsa yfir vonbrigðum með að enn verði lögð vörugjöld á ákveðnar fæðutegundir, þ.e. sykur og sætindi. Það er eðlilegt að menn láti svosem í sér heyra. En hvert er hlutverk Lýðheilsustöðvar? Er það hlutverk hennar að miðstýra því að allir hugsi um sig og heilsu sína? Er það hægt? Getur bákn af því toga stýrt hugsunum og gjörðum annarra?

Ég er sammála Pétri Blöndal um það sem hann sagði á þingi í dag að það á að henda út í hafsauga öllum neyslustýringum. Hvað á ríkið annars með að skipta sér af því hvað ég og aðrir borða. Okkur á að vera treyst fyrir því að vega og meta sjálf hvað við látum ofan í okkur. Það getur enginn miðstýrt því hvað ég og þú borðar til fulls. Hversvegna er það þá reynt, spyr maður kæruleysislega? Muna menn annars eftir því þegar að Samfylkingin kom inn á þing með tillögu þess efnis að banna auglýsingar á óhollum matvörum í fjölmiðlum á vissum tíma dags. Þetta var dómadagsvitleysa af áður óþekktum kalíber. Hversvegna á ríkið að rétta upp hendina til að hafa áhrif á þessi mál?

HamborgariFólk verður að standa sjálft vörð um heilsu sína, það er út í hött að ríkið geri það með lagarömmum. Hvað er annars að frétta af nefndinni sem Halldór Ásgrímsson, þáv. forsætisráðherra, skipaði í október 2005 til að vinna að neylustýringu. Muna menn annars ekki eftir henni? Um var að ræða nefnd sem (svo orðrétt sé vitnað í orðagjálfurstexta Stjórnarráðsins) "greina átti vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi og koma með tillögur að samræmdum aðgerðum til að taka á vandamálum sem tengjast þessu." Jahá, það var ekkert annað.

Hvernig átti nefnd einhverra besservissera fyrir sunnan að taka á þessu máli? Er þetta ekki bara enn ein nefndin sem sett er á fyrir fólk sem ekkert að gera nema sitja á nefndarfundum? Kannski drekka nefndarmenn kaffi og svolgra í sig sætabrauðsfóðri á þessum fundum til að meta heilsustaðal þjóðarinnar. Ég er eins og vel hefur áður komið fram algjörlega á móti því að ríkið eigi að setjast niður á básum sínum til að móta hvað sé öðru fólki hollt eður ei.

Það verður hver og einn landsmaður að vega það og meta hvað þau setja ofan í sig eða drekka, sama hvort það er hard liqueur, kaffisull eða gosdrykkir. Það er móðgun við allt hugsandi fólk að setja á stofn silkihúfunefnd til að ráða hvað ég og nágranni minn megum éta eða drekka. Burt með neyslustýringu eða aðra forræðishyggju af þessu tagi!


mbl.is Lýðheilsustöð gagnrýnir væntanlega verðlækkun á gosdrykkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SUS mótmælir frumvarpi um fjármál flokkanna

SUS

Framkvæmdastjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur nú tekið saman greinargerð, sem lögð hefur verið fyrir allsherjarnefnd Alþingis, vegna frumvarps sem nú liggur fyrir þinginu um fjármál stjórnmálaflokka. Það er skýr afstaða SUS að frumvarpið sé meingallað og varað er við þeim grundvallarsjónarmiðum sem ráðið hafa för við gerð þess.

Að mati SUS er vítavert ef Alþingi hleypir þessu vanhugsaða máli í gegn í flýtimeðferð eins og nú stendur til. Málið varðar grunnþætti í framkvæmd lýðræðisins. Að mati ungra sjálfstæðismanna á lýðræðið skilið meiri virðingu en svo að reglum um það sé gjörbylt í offorsi og án málefnalegrar umræðu þar sem aðrir en atvinnustjórnmálamenn taka þátt.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir stórauknum framlögum ríkisins til þeirra stjórnmálaflokka sem þegar eiga sæti á Alþingi, þ.e. núverandi valdhafa. Einnig sé reist hindrun við því að nýjar hugmyndir og nýtt fólk hljóti hljómgrunn með með því að takmarka framlög einstaklinga og fyrirtækja til stjórnmálaflokka.

Þetta er nauðsynlegt innlegg í umræðuna, sem verður að koma fram og þetta er góð leið til að koma henni á framfæri. Ég fjallaði nýlega um þetta frumvarp í pistli og bendi hérmeð á hann.


mbl.is SUS segir segir lagafrumvarp um fjármál stjórnmálaflokka meingallað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður gula slúðurblaðamennskan endurvakin?

DVÍ lok ársins sem slúðurblaðamennskan á DV beið algjört skipbrot og var hafnað af íslensku þjóðinni með eftirminnilegum hætti stefnir margt í að byggt verði ofan á rústir þess dagblaðs sem heitir DV, en kemur nú út aðeins í mýflugumynd þess sem áður var. Talað er um að Sigurjón M. Egilsson og fleiri nátengdir honum muni byggja aftur upp DV með einum eða öðrum hætti, nú er Sigurjón hefur sagt skilið við Blaðið. Ekki er vitað um hvert formið er eða hvað gerist. Aðeins er um að ræða sögusagnir á Netinu, en þó sögusagnir sem fylgst er með, enda innanbúðarmenn víða sem þar skrifa um stöðu mála. Tekið er auðvitað mark á þeim skrifum. Með þeim skrifum er svo sannarlega vel fylgst.

Í janúar hné sól DV til viðar í þeirri mynd sem hún hefur lengst af verið þekkt. Þá neyddust báðir ritstjórar DV, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, til að segja af sér. Með því lauk miklum umhleypingatímum í samfélaginu - byltingu fólksins gegn DV og vinnubrögðum blaðsins seinustu árin. Óhætt er að segja að samfélagið hafi skekist vegna "fréttamennsku" DV viku eina í janúar. Hafði blaðið reyndar virkað sem ein tímasprengja allt frá því að gerðar voru breytingar á blaðinu og ritstjórnarstefnu þess um leið og nýir eigendur tóku við eftir gjaldþrot gamla DV árið 2003. Slúðurblaðamennskan með breskri fyrirmynd fékk svo hægt andlát í apríl, er DV var slegið af virka daga, en umskiptin urðu ekki þá að mínu mati, enda voru atburðir í janúar þáttaskilin.

Í kjölfar sorglegrar umfjöllunar DV í janúar var ákveðið að efna til undirskriftasöfnunar gegn ritstjórnarstefnu DV. Var hún samstarfsverkefni Deiglunnar, Sambands ungra sjálfstæðismanna, ungra jafnaðarmanna, stúdentaráðs HÍ, Sambands ungra framsóknarmanna, Tíkarinnar, Múrsins, ungra frjálslyndra, ungra vinstrigrænna, Heimdallar, Vöku, Röskvu og H-listans. Söfnun undirskrifta stóð í nákvæmlega tvo sólarhringa. Alls skráðu 32.044 einstaklingar nafn sitt við áskorun þessara aðila um endurskoðun ritstjórnarstefnunnar. Þar kom fram mjög breið samstaða landsmanna. Sú samstaða var afgerandi. Samfélagið logaði og blaðið féll í hitanum sem þeim tímum fylgdu. Þessir tímar gleymast ekki.

Hvað á að gerast nú? Verður slúðurblaðamennskan nú endurvakin. Getur Sigurjón M. Egilsson strax orðið ritstjóri á öðrum vettvangi eftir að hafa sagt skilið við Blaðið? Allir vita hvernig farið hefur fyrir sjónvarpsfólki sem skiptir um skútu. Það er allt að því falið mánuðum saman meðan að samningsmörk líða undir lok. Hvað gerist í tilfelli Sigurjóns? Sé rétt að DV verði endurvakið hvernig blað verður nýtt síðdegisblað? Á að fylgja eftir slóð gamla DV? Mun það heita DV? Varla, enda er DV gjörsamlega ónýtur stimpill eftir þau þáttaskil sem fyrr er lýst. Er Gunnar Smári að koma frá Köben? Margar spurningar í stöðunni.

Eru rústir gamals slúðurblaðs að vakna við? Stórt er spurt svosem. Fróðlegt verður að sjá framvindu mála.


mbl.is Fyrrum ritstjórar DV dæmdir í sekt og Jónína fær miskabætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. desember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband