Stefnir í hörð átök milli Magnúsar og Kristins H.

Magnús StefánssonKristinn H. Gunnarsson

Það stefnir í mjög spennandi uppgjör milli Magnúsar Stefánssonar, félagsmálaráðherra, og Kristins H. Gunnarssonar, alþingismanns, um leiðtogastól Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í póstkosningu meðal allra flokksmanna í kjördæminu. Í dag var felld tillaga stjórnar kjördæmisráðs flokksins í kjördæminu um að velja frambjóðendur í efstu sæti listans að vori með tvöföldu kjördæmisþingi í nóvember. Hörð átök urðu á fundinum milli stuðningsmanna Magnúsar og Kristins og átakakosningu um tillögu stjórnarinnar lauk með sex atkvæða sigri andstæðinganna. Ofan á varð tillaga um póstkosninguna, sem augljóslega var úr herbúðum Kristins, en hún var borin upp af þingfulltrúum frá Dalasýslu og Bolungarvík, heimabæ hans.

Það er því ljóst að ekki verður valið á listann með sama hætti og á kjördæmisþinginu sögulega á Laugum í Sælingsdal um miðjan nóvember 2002. Á því kjördæmisþingi var útsláttarleiðtogakosning milli Páls Péturssonar, þáv. félagsmálaráðherra, Magnúsar og Kristins. Á þinginu lauk í reynd rúmlega þriggja áratuga stjórnmálaferli Páls er hann féll í leiðtogakjörinu og dró hann sig til baka í kjölfarið. Magnús sigraði Kristin H. í tveggja manna slag um leiðtogastöðuna og Kristinn H. varð í öðru sætinu. Herdís Sæmundardóttir á Sauðárkróki, var kjörin í þriðja sætið. Úrslitin voru mikið áfall fyrir Kristinn H. sem var þingflokksformaður Framsóknar fram yfir þingkosningarnar 2003.

Greinilegt er að Kristinn H. og hans stuðningsfólk vann merkilegan sigur á þessu kjördæmisþingi. Þeirra leið verður farin og við tekur póstkosning þar sem allir flokksmenn hafa jöfn áhrif. Með því verður ekki tryggður neinn fléttulisti vissra svæða og jafnt kynjahlutfall í efstu sæti eins og varð í aðdraganda þingkosninganna 2003. Engum hefur dulist samskiptaleysi þingmannanna tveggja í kjördæminu og milli þeirra hefur allt að því ríkt kalt stríð. Það hefur verið metið svo að Magnús Stefánsson hafi svo verið gerður að félagsmálaráðherra við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum gagngert til að treysta stöðu hans í kjördæminu í pólitískum átökum við Kristinn.

Herdís Sæmundardóttir

Framundan er hörð barátta. Fyrir kjördæmisþingið hafði Herdís Sæmundardóttir tilkynnt um framboð sitt í 2. sæti, greinilega gagngert gegn Kristni H. og talað var um bandalag hennar og Magnúsar. Nú hefur hinsvegar Herdís ákveðið að gefa kost á sér í 1. - 2. sæti í kosningu. Stefnt er að því að kosningu verði lokið fyrir lok októbermánaðar og verður framboðsfrestur ákveðinn fljótlega og talið verði í byrjun nóvembermánaðar. Það stefnir því í hörð átök um forystuna í Norðvesturkjördæmi hjá Framsóknarflokknum, enn harðskeyttari og óvægnari átök milli félagsmálaráðherrans Magnúsar og þingmannsins baldna Kristins H. sem löngum hefur verið ráðandi öflum í flokknum óþægur ljár í þúfu.

Enginn vafi leikur á því að sá sem hagnast mest á þessari tilhögun mála er Kristinn H. Gunnarsson. En hvort að þetta form á kosningu tryggir það mjög stöðu Kristins að hann verði leiðtogi Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í kosningunum að vori verður að ráðast. Altént má fullyrða að félagsmálaráðherrann verði að berjast fimlega og af krafti til að halda sínu. Þetta verður mjög beitt og hressileg prófkjörsbarátta sem þarna verður háð.

Fyrst og fremst vekur mikla athygli gríðarlega hörð, allt að því óvægin, barátta fylkinga framsóknarmanna í kjördæminu og greinilegt að samstaðan þar er lítil sem engin og kristallast mjög vel í að stjórn kjördæmisráðs verður algjörlega undir með sína afstöðu til þess hvernig velja skuli efstu frambjóðendur.


mbl.is Listi Framsóknarflokksins valinn með póstkosningu í Norðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slökknar á lífi fréttastöðvarinnar NFS

NFS

Sem 110% fréttafíkill verð ég að viðurkenna það fúslega að ég sé verulega eftir NFS, fréttastöð 365-miðla. Fjölmiðlalitrófið missir vissan glampa núna þegar að slökknar yfir tilveru hennar. Það var vissulega nokkuð merkilegt að sjá það þegar að Sigmundur Ernir Rúnarsson og Edda Andrésdóttir kvöddu í gærkvöldi NFS. Það var greinilega erfið stund fyrir þau, sérstaklega auðvitað Sigmund Erni sem fréttastjórnanda stöðvarinnar alla þá tíu mánuði sem hún var í loftinu. Það var þungt yfir fréttaþulunum og það sást vel á bakgrunninum þar sem ljósin á fréttastofunni í Skaftahlíðinni höfðu verið dempuð. Andrúmsloftið var lævi þrungið og engin gleði á andlitum fréttaþulanna.

Á skjánum hjá mér er svart þar sem áður var NFS. Lífið hefur slökknað þar yfir í orðsins fyllstu merkingu. Það verður að segjast alveg eins og er að skaði er af missi þessarar stöðvar. En þetta er tilraun sem var reynd og hún mistókst í þessari mynd. Það er hin kalda niðurstaða. Við sem erum fréttafíklar og njótum ítarlegra fréttaskýringa og diskúteringa um stjórnmál, þjóðmál í öllum myndum, söknum þessa góða kosts í fréttaumfjöllun. Það er bara þannig. En kannski var það alla tíð óhófleg bjartsýni að halda það að fréttastöð geti lifað á Íslandi í baráttu við allt hitt afþreyingarefnið, snöggsoðnu tónlistarmyndböndin og annað af þeim kalíber.

Ég vorkenni öllum þeim fjölda eðalfólks sem fengu uppsagnarbréf í gær og misstu starf sitt. Ég vil þó segja við þetta fólk að ég var einn þeirra sem hafði gaman af NFS og ég mun sakna stöðvarinnar. Ég mun sakna þess sem þau gerðu á NFS. Við sem dýrkum fréttir og kjarnann í fréttaumfjöllun söknum þess að geta ekki stillt á hana til að sjá eitthvað merkilegt gerast í beinni. Það verður reyndar merkilegt að sjá hvað tekur við. Greinilegt er að fréttir verða bara sagðar á Stöð 2 hér eftir inni í Íslandi í bítið, á hádegi og svo á slaginu 18:30 í slottinu þar sem kvöldfréttatími NFS var áður þar sem fréttapakki dagsins var áður zoom-eraður saman.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég dáðist að Lóu Aldísardóttur og félögum hennar sem stóðu vaktina síðustu klukkutíma NFS. Þau stóðu sig ótrúlega vel miðað við aðstæður. Það hefði verið hreinlegast að loka stöðinni strax kl. 17:00. Sérstaklega fannst mér átakanlegast að sjá fimmfréttatímann. Þar var alvaran yfir öllu og í bakgrunninum voru fréttamennirnir og tilvera þeirra á þessum svarta föstudegi þeirra. Allt var þetta í beinni - þetta var frétt dagsins og hún gerðist á fréttastofunni. Svona getur oft tilveran verið hörð og það er svosem engin ný frétt að fjölmiðlaheimurinn er ekki tryggasta atvinnugrein sögunnar.

En já þessi tilraun mistókst. Verður hún reynd aftur? Tæplega, og þó, maður skyldi svosem aldrei segja aldrei. Reyndar verður fróðlegt að fylgjast nú með því sem við tekur. En já, ég mun sakna NFS. Ég væri varla heiðarlegur við sjálfan mig og fréttanefinu mínu ef ég segði þetta ekki. Þeim sem voru á NFS óska ég góðs og vona að þau eflist við þennan mikla mótvind. En já það er svo sannarlega svart á NFS núna. Over and out!

mbl.is Tuttugu sagt upp hjá NFS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sögupistill - formannskjörið 1991

Davíð Oddsson

Í ítarlegum sögupistli á vef SUS í dag fjalla ég um formannskjörið örlagaríka á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1991 og aðdraganda þess. Davíð Oddsson, þáv. borgarstjóri í Reykjavík og varaformaður flokksins, gaf þá kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum gegn Þorsteini Pálssyni, sitjandi formanni og fyrrum forsætisráðherra. Óhætt er að segja að útkoma formannskjörsins hafi orðið söguleg fyrir flokkinn.

Það er hinsvegar hiklaust þannig að það er eitt mesta lán Sjálfstæðisflokksins að þar hafa verið sterkir forystumenn. Jafnan hafa flokksmenn getað treyst því að forystumenn flokksins séu stjórnmálamenn sem þjóðin treysti til forystu. Aðeins hafa átta menn gegnt formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn hefur verið í forystusveit ríkisstjórnar á Íslandi nú nær samfellt frá árinu 1991.

Það urðu táknræn þáttaskil innan Sjálfstæðisflokksins á þessum landsfundi í marsmánuði 1991 í aðdraganda þingkosninga það ár þegar að Davíð var kjörinn formaður og Þorsteini Pálssyni var hafnað sem formanni flokksins. Reyndar er það nú svo að þó að Þorsteinn hafi verið formaður í tæp átta ár leiddi hann flokkinn aðeins í einum kosningum, árið 1987, en þá var flokkurinn klofinn í fylkingar eftir að Albert Guðmundsson stofnaði Borgaraflokkinn.

Eftir viku mun ég fjalla um atburðarásina sem leiddi til stjórnarmyndunar dr. Gunnars Thoroddsens, þáv. varaformanns Sjálfstæðisflokksins, árið 1980. Aðdragandinn fólst í stjórnleysi eftir myndun vinstristjórnar árið 1978 og merkilegri atburðarás í tengslum við það. Merkileg saga sem ég skrifa um eftir viku á vef SUS.


Unnur Brá sækist eftir fimmta sætinu

Unnur Brá Konráðsdóttir

Það er ánægjulegt að vakna nú í morgunsárið og sjá þá tilkynningu að góðvinkona mín úr ungliðastarfinu í SUS, Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, hafi ákveðið að gefa kost á sér í fimmta sætið í væntanlegu prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Unnur Brá hefur alla tíð verið góður félagi, traust og öflug, og það er því mikið gleðiefni að hún sýni áhuga á þingframboði og taki stefnuna á sæti sem ætti í raun og sann að vera sannkallað baráttusæti okkar sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, enda fara sjálfstæðismenn með nær öll völd á sveitarstjórnarstiginu í kjördæminu. Með hana í fimmta sætinu bjóðum við sterka og öfluga konu í baráttusæti í Suðrinu að vori. Það er engin spurning.

mbl.is Unnur Brá Konráðsdóttir sækist eftir 5. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. september 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband