Er Herbalife hættulegt?

Herbalife Það eru sláandi fréttir sem berast af afleiðingum neyslu á Herbalife-fæðubótarefninu. Þetta er stóralvarlegt mál. Margir hafa leitað á náðir Herbalife með að grenna sig og telja það einhverja töfralausn á vanda sínum. Það er eiginlega með ólíkindum, enda er eina töfralausnin í þeim efnum að fara einfaldlega út og hreyfa sig, taka góða göngutúra og skipta um matarræði heilt yfir; t.d. hætta að borða sykur.

Frænka mín ein hefur sérhæft sig í að selja Herbalife og hefur eflaust haft eitthvað út úr því, þó ég hafi ekki og vilji ekki kynna mér það. Í þessu hefur verið einhver svakalegur bissness eflaust. Þetta er eitthvað sem er allt með ólíkindum, enda eru ótrúlega margir sem taka þetta sem eitthvað fullkomið töfradæmi að lausn á sínum málum. Finnst það vera fjarri lagi. Fyrir nokkru tók ég mitt líf í gegn; minnkaði að borða sykur og fór að hugsa um hvað ég borðaði, og ég fór einfaldlega að hreyfa mig. Mér finnst það grunnatriði að labba helst tíu kílómetra á viku.

Leið vel með það og taldi það töfralausn. Þetta Herbalife er eitthvað jukk sem enginn veit hvað samanstendur af í raun og hvað felst í því að hrúga því í sig. Þessar fréttir fá vonandi einhverja til að hugsa sitt ráð um þetta.

mbl.is Sex lifrarbólgutilfelli eftir neyslu á Herbalife
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfall fyrir Sarkozy - hvað mun Chirac gera?

Nicolas Sarkozy Það er ekki hægt að segja annað en að það sé áfall fyrir Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra Frakklands, að hafa aðeins hlotið 70% atkvæða í eins manns kjöri innan UMP-hægriblokkarinnar um það hver eigi að vera forsetaefni þeirra. Forseti Frakklands verður kjörinn í tveim umferðum, ef með þarf, 22. apríl og 6. maí nk. Stefnir flest í að mesta baráttan um forsetaembættið verði milli hans og Segolene Royal, sem útnefnd hefur verið forsetaefni sósíalista, og er fyrsta konan sem á raunhæfa möguleika á embættinu. Er talað um Sarko-Sego tíma í frönskum stjórnmálum.

Það að Sarkozy hafi ekki hlotið meira afgerandi umboð sýnir vel hversu klofinn hægriarmurinn er í afstöðunni til hans. Þetta er eiginlega mjög alvarlegt mál, enda gæti klofin afstaða til kjörsins komið þjóðernisöfgamanninum Jean-Marie Le Pen mjög til góða og gert að verkum að hann gæti jafnvel komist í aðra umferðina gegn Royal, en flestum er eflaust enn í fersku minni að Le Pen tókst að komast í seinni umferðina gegn Jacques Chirac í forsetakosningunum árið 2002 og felldi sósíalíska forsætisráðherrann Lionel Jospin úr kjörinu og batt enda á stjórnmálaferil hans.

Klofningur hægriblokkarinnar er öllum ljós nú. Hvorki Jacques Chirac, forseti, né Dominique de Villepin, forsætisráðherra, hafa lýst yfir stuðningi við Sarkozy og enn er öllum hulið hvort Chirac forseti muni fara fram, en hann hefur setið við völd í Elysée-höll á forsetastóli allt frá vorinu 1995 og var endurkjörinn í forsetakosningunum 2002 í fyrrnefndum sögulegum slag við Le Pen og hlaut þá stuðning sósíalista til að koma í veg fyrir sigur þjóðernisöfgamannsins. Það þótti kaldhæðnislegt og markaði í raun sætasta pólitíska sigur hins umdeilda Chirac. Flestir spyrja sig um fyrirætlanir Chiracs. Hann hefur ekki enn útilokað forsetaframboð, þó 75 ára gamall verði á árinu.

UMP var byggð upp sem pólitískur heimavöllur Jacques Chirac. Á nokkrum árum hefur Sarkozy tekist að gera hana að sinni með einkar athyglisverðum hætti. Það bauð sig enginn fram gegn honum innan flokksins sem forsetaefni hans er framboðsfrestur rann út um jólin. Þar þarf þó kosning að fara fram. Sarkozy varð felmtri sleginn á svip, ef marka má franska vefmiðla, er úrslitin voru lesin upp. Hann hlaut aðeins 70% atkvæða gildra flokksmanna í netkosningu. Það er mikið áfall, enda segir það með afgerandi hætti að hann er ekki óumdeildur frambjóðandi hægriblokkarinnar. Royal tókst t.d. að ná yfir 60% í baráttu við tvo þekkta baráttuhunda innan flokksins; Fabius og Strauss-Kahn.

Fjarvera Jacques Chirac, forseta Frakklands, á baráttufundi UMP-hægriblokkarinnar í dag, þar sem úrslit kosningarinnar voru tilkynnt, var svo sannarlega hrópandi áberandi að öllu leyti. Hann ætlar sér greinilega ekki að leggja Sarkozy lið. Hann hefur ekki útilokað að fara fram í vor, þó óháður frambjóðandi yrði í slíkri stöðu. Villepin forsætisráðherra hefur ekkert sagt heldur sem flokkast sem stuðningsyfirlýsing við Sarkozy og segist bíða ákvörðunar forsetans. Villepin mætti á fund UMP í dag en kaus ekki. Afgerandi skilaboð það. Það vakti reyndar gríðarlega athygli að Sarkozy gaf kost á sér án þess að fyrirætlanir forsetans væru ljósar.

Það er greinilega kalt stríð þarna milli aðila og fer sífellt versnandi eftir því sem styttist í örlagastund. Jacques Chirac hefur aldrei fyrirgefið Sarkozy að hafa ekki stutt sig í forsetakosningunum 1995 og það verið dökkur blettur í hans huga. Það var til marks um það pólitíska minni Chiracs að hann skyldi ekki velja Sarkozy sem forsætisráðherra í júní 2005 er hann sparkaði Jean-Pierre Raffarin og skyldi velja Villepin. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer. Menn bíða enn einu sinni eftir Chirac, sem er og hefur alla tíð verið pólitískt ólíkindatól. Tekur hann slaginn?

mbl.is Sarkozy formlega útnefndur forsetaframbjóðandi hægrimanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað mun Ágúst Einarsson gera?

Ágúst Einarsson Það eru nokkuð merkileg tíðindi að Ágúst Einarsson, prófessor við Háskóla Íslands, fái ekki launalaust leyfi frá HÍ til að halda til starfa sem rektor Háskólans á Bifröst, en hann á að taka við embættinu formlega á morgun. Hvað mun Ágúst gera? Ágúst virtist vera svo sleginn í gær að hann gat ekki sagt hvorn kostinn hann muni velja, enda liggur augljóslega fyrir að hann verður mjög fljótlega annaðhvort að halda á Bifröst og segja upp störfum við HÍ eða halda við fyrri stöðu og afþakka Bifröst. Afarkostir það.

Skipan Ágústs í rektorsstöðu á Bifröst gerðist innan við tveim árum eftir að hann tapaði fyrir Kristínu Ingólfsdóttur í rektorskjöri í Háskóla Íslands. Kaldhæðnislegt var annars að heyra í Kristínu um málefni Ágústs í fréttatímum í gær. Barátta þessara tveggja var mjög harkaleg og einbeitt, eiginlega fyrsta fjölmiðla- og netbaráttan um rektorsstöðuna. Flestir muna enda eflaust eftir því að Ágúst var sérstaklega með öfluga baráttu á sínum tíma og opnaði vefsíðu þar sem hann kynnti áherslur sínar og verk með áberandi hætti. Tap Ágústs í kjörinu var honum eflaust mikið áfall.

Ágúst hefur verið prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskólans frá árinu 2000. Hann var virkur stjórnmálamaður til fjölda ára áður en hann hélt til starfa í Háskólanum. Hann var tvívegis alþingismaður; 1978-1979 fyrir Alþýðuflokkinn og 1995-1999 fyrir Þjóðvaka, flokk Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann gaf kost á sér fyrir Samfylkinguna í Reykjaneskjördæmi í kosningunum 1999 en náði ekki öruggu þingsæti í prófkjöri og féll af þingi í kosningunum. Ágúst var fyrsti formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar 1999-2001 en hætti sem slíkur til að helga sig verkum í Háskólanum. Ágúst er faðir Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar.

Hann situr nú í stjórn Landsvirkjunar fyrir Samfylkinguna og var eitt sinn formaður bankastjórnar Seðlabankans, en sagði af sér sem slíkur árið 1994 í kjölfar þess að flokksbróðir hans, Sighvatur Björgvinsson, þáv. viðskiptaráðherra, skipaði Steingrím Hermannsson þáv. formann Framsóknarflokksins og fyrrum forsætisráðherra, sem seðlabankastjóra. Var hann á móti pólitískri skipan í embætti bankastjóra. Ennfremur var Ágúst um tíma formaður samninganefndar ríkisins, af hálfu Alþýðuflokksins, sem hann vann fyrir þar til hann gekk til liðs við Jóhönnu.

Ágúst Einarsson mun að mér skilst taka við rektorsstarfinu á Bifröst á morgun en Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor, hefur verið starfandi rektor skólans frá því að Runólfur Ágústsson hætti störfum þann 1. desember sl. Bryndís og Ágúst kannast vel hvort við annað. Þau sátu saman á Alþingi kjörtímabilið 1995-1999 og voru saman í fyrsta þingflokki Samfylkingarinnar í aðdraganda þingkosninganna 1999. Bryndís sat á þingi í áratug, 1995-2005, og var þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2001-2004. Það má því segja að reynsluboltar frá Samfylkingunni stýri skólanum til verka. Þau þekkjast allavega mjög vel.

Mér finnst líklegra en ekki að Ágúst fari í Bifröst og segi skilið við HÍ. Eða hvað? Erfitt svosem um að segja. Þetta er væntanlega mikið val fyrir Ágúst. Það verður fróðlegt hvort hann velur rektorsstöðu í Borgarfirðinum eða prófessorsstöðu í höfuðstaðnum.

mbl.is Fær ekki launalaust leyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Austfirskir framsóknarmenn missa tvo þingmenn

Valgerður, Birkir Jón, Höskuldur, Huld og Jón Björn Það er óhætt að segja að söguleg tímamót felist í lista framsóknarmanna hér í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum. Þar er enginn Austfirðingur í vænlegu sæti. Flokksmenn að austan missa tvö þingsæti með vali þessa framboðslista. Síðast fengu Akureyringar í flokksstarfinu nokkurn skell en nú er sá kaleikurinn Austfirðinga. Það eru athyglisverð tíðindi.

Alla tíð frá stofnun Framsóknarflokksins hefur flokkurinn haft afgerandi og sterka leiðtoga fyrir austan. Allir þekkja Halldór Ásgrímsson eldri, Eystein, Vilhjálm frá Brekku, Tómas Árnason, Halldór Ásgrímsson yngri og Jón Kristjánsson. Dagný Jónsdóttir varð svo síðasta vonarstjarna þeirra og hún var mest allra kynnt í kosningunum 2003. Jafnskjótt og hún kom hvarf hún. Þessir menn mörkuðu sögu Framsóknarflokksins að fornu og nýju. Gleymum því ekki. Þeirra hlutur í sögu flokksins er og hefur alla tíð verið talinn afgerandi.

Það eru merkilegustu tíðindi þessa vals að enginn kemur í staðinn. Austfirðingar áttu engan til að fylla skörð Jóns og Dagnýjar, sem bæði hætta í pólitík, þó stjórnmálamenn tveggja ólíkra kynslóða séu. Það var fyrirsjáanlegt að svona myndi fara, en þó taldi ég ólíklegt að Austfirðingar færu neðar en í fjórða sætið. En svo fór sem fór. Það vantaði einhvern einn forystumann til að fara fyrir svæðinu. Hann var ekki fyrir hendi að þessu sinni. Þetta er rothögg fyrir þetta gamalgróna vígi framsóknarmanna sem Austfirðirnir voru.

Eysteinn Jónsson var pólitískur lærifaðir Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Hann mótaði hann manna mest. Sömu áhrif hafði hann á Tómas og Halldór Ásgrímsson hinn yngri. Eysteinn mótaði heila kynslóð framsóknarmanna fyrir austan. Hann hafði mikil áhrif. Það er bjargföst trú mín að þessi gamli baráttumaður og forni forystumaður austfirskra framsóknarmanna snúi sér við í gröfinni vitandi að enginn framsóknarmaður verður á þingi að austan kjörtímabilið 2007-2011.

En framsóknarmenn nyrðra geta glaðst. Framsóknarmenn á Akureyri eygja nú von á sínum fyrsta þingmanni síðan að Ingvar Gíslason sat á þingi. Hvort að Höska tekst að komast á þing skal ósagt látið, en í versta falli verður hann varaþingmaður og áberandi í þingsölum. Ég má til með að samfagna framsóknarmönnum hér í bænum við fjörðinn fagra með árangurinn sem þeir hafa beðið eftir í tvo áratugi, eða síðan að Ingvar fór.

En austur sendi ég samúðarkveðjur. Þær eiga vel við, enda tel ég að margir séu hryggir fyrir austan með þetta. Fyrir fjórum árum var fögnuður með árangur Dagnýjar. Nú er enginn til að gleðjast yfir. Merkileg örlög í þessu forna vígi sem er ekki fagurt á að líta nú.

Bloggfærslur 14. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband