Ógeðfelld aftaka Saddams

Saddam Hussein Aftakan á Saddam Hussein í blálok ársins 2006 var efst í huga allra stjórnmálaáhugamanna er árið var gert upp á gamlársdag, enda án vafa frétt ársins. Ég er einn þeirra sem horfði á upptökuna af aftökunni á Saddam sem gekk á netinu á gamlársdag. Ég fylltist óhug við að sjá það myndefni og þær aðstæður sem sjást á upptökunni, en upptakan er mjög afgerandi lýsing á síðustu mínútunni á ævi Saddams.

Það var vissulega mjög kuldalegt að sjá Saddam í þessu litla herbergi bíða örlaga sinna með böðlana sér við hlið. Ofan á allt annað var ógeðfellt að sjá og heyra orðaskipti böðlanna og Saddam áður en sá síðarnefndi fór niður gálgann og snaran hertist um háls hans. Það er óviðunandi andrúmsloft sem þar blasti við og þessi aftaka fékk á sig blæ hefndar en ekki réttlætis í kjölfar dóms. Þetta myndband er mun raunsærri útgáfa af sannleikanum eins og hann var á þessum vettvangi en opinberar myndir sem afhjúpaðar voru þann 30. desember, á dánardegi Saddams. Það leikur enginn vafi á því.

Ég hef alla tíð verið andsnúinn dauðarefsingum, eins og vel hefur komið fram. Hinsvegar sagðist ég hafa skilning með stöðu mála í Írak á þeim tíma sem dauðadómurinn féll. Saddam var dæmdur eftir lögum í Írak og því réttlæti sem þar er. Það er eins og það er bara. Ég tek undir skoðanir margra á því að það hefði verið réttara að Saddam hefði verið framseldur til Haag og mætt réttlætinu þar og málið allt hefði verið tekið jafnt fyrir og unnið betur að málum. En fortíðinni verður ekki breytt. Margir læra vonandi sína lexíu á þessu öllu saman og vonandi verður betur haldið á slíkum málum í framtíðinni hver sem á í hlut.

Saddam var tekinn af lífi og því verður ekki breytt. Það er alveg ljóst í mínum huga að Saddam varð að refsa fyrir sín skelfilegu verk á valdastóli og hann varð að fara fyrir dóm. Niðurstaðan er eins og hún er, en aftakan sem slík er mjög á gráu svæði eins og hún var framkvæmd og mjög margt við hana að athuga. Hana átti að stöðva af í því andrúmslofti sem við blasti á staðnum þessar lokamínútur ævi Saddams og í þeim hita sem var á milli hins dauðadæmda og böðlanna sem skiptust á kuldalegum kveðjum allt þar til sá fyrrnefndi gossaði niður gálgann. Þetta voru skelfilegar stundir en þó mikil lexía á þetta að horfa.

Örlögum Saddams verður ekki breytt, hann hefur verið líflátinn og jarðsettur í Tikrit. Hans saga er nú öll og hann heyrir nú fortíðinni til. Hann er ekki lengur sögupersóna í pólitískri tilveru Íraks. Spurning er þó hvaða áhrif hann hafi eftir dauða sinn, út yfir gröf og dauða. En það er algjörlega ljóst að framkvæmd aftöku hans var í senn ömurleg og sorgleg og það sem þar blasir við ber að fordæma.

mbl.is Litlu munaði að aftöku Saddams yrði frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Eiríkur guðfaðir ríkisstjórnarinnar?

Halldór Ásgrímsson Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar og fyrrum forsætisráðherra, upplýsti í viðtali á gamlársdag á Stöð 2 að Eiríkur Tómasson, lagaprófessor, hefði haft milligöngu um myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um páskana 1995, en stjórnin var mynduð á örfáum dögum eftir páskana í apríl 1995. Milliganga Eiríks hefði leitt til þess að viðræður Halldórs og Davíðs Oddssonar hefðu hafist.

Á þeim tímapunkti að ríkisstjórnin var mynduð voru í gangi stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks í kjölfar alþingiskosninga 8. apríl 1995, en stjórn flokkanna hafði setið frá árinu 1991 og haldið velli í kosningunum en með minnsta möguleika meirihluta, 32 alþingismenn af 63. Svo fór að Davíð mat það ekki öruggan meirihluta og hann hóf viðræður við Halldór. Lengi hefur verið um það rætt hvort einhver hafi haft milligöngu um þær viðræður í fyrstu.

Viðræður milli þeirra hófust um páskana 1995 meðan að viðræðum stjórnarflokkanna hafði ekki verið slitið. Stjórnin var mynduð á örfáum dögum. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson höfðu aldrei unnið saman í stjórnmálum þegar að þessi stjórn var mynduð. Þeir höfðu aldrei setið saman í ríkisstjórn og Halldór hafði verið einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar kjörtímabilið 1991-1995 þegar að Framsóknarflokkurinn sat í fyrsta skipti utan ríkisstjórnar frá því að minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir forsæti Benedikts Gröndals sat 1979-1980. Það hefur því lengi verið ljóst að einhver hefði einhver haft milligöngu um viðræðurnar.

Í viðtölum á þessum tíma var líka mikið um það rætt hvort að Davíð og Halldór gætu unnið saman í ríkisstjórn. Það reyndust óþarfa áhyggjur og sennilega má telja bandalag þeirra félaga og gott samstarf með þeim sterkari í íslenskri stjórnmálasögu. Samstarf þeirra stóð samfellt í áratug, eða þar til að Davíð Oddsson hætti í stjórnmálum árið 2005, en Halldór hætti eins og kunnugt er innan við ári síðar í stjórnmálum sjálfur. Ein mestu vatnaskilin á pólitískum ferli Halldórs Ásgrímssonar voru alþingiskosningarnar 1995, fyrstu kosningarnar sem Halldór leiddi Framsóknarflokkinn. Í þeim kosningum vann flokkurinn nokkurn sigur, hlaut 15 þingsæti og var með mjög vænlega stöðu.

Það vakti mikla athygli í kveðjuræðu Halldórs sem formanns Framsóknarflokksins í ágúst í fyrra að Framsóknarflokkurinn hefði að loknum kosningunum 1995 boðið A-flokkum Alþýðuflokks og Alþýðubandalags samstarf, sem hefði vænlega orðið undir forsæti Halldórs. Alþýðuflokkurinn afþakkaði það og hélt í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Eins og allir vita ákvað Sjálfstæðisflokkurinn hinsvegar að slíta samstarfinu og ganga til samninga við Framsóknarflokkinn við milligöngu einhverra þar um. Nafn Eiríks Tómassonar í þessari umræðu vekur mikla athygli. Úr varð sögulegt samstarf í íslenskri stjórnmálasögu sem enn er við völd.

Það er enginn vafi á því í mínum huga að í sögubókum framtíðarinnar verður stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks metið farsælt og það hafi skipt íslenskt þjóðarbú miklu. Farsæl forysta flokkanna hafði mikil áhrif til hins góða. Forysta Davíðs Oddssonar og Halldórs í því samstarfi var öflug og setti mark á íslensk stjórnmál, og verður lengi í minnum höfð. Þessir flokkar náðu saman um að mynda grunn að öflugu samstarfi, sem er orðið langlífasta stjórnarsamstarf Íslandssögunnar.

Eigum við að leggja niður áramótaskaupið?

Skaup 2006 Ég hugsaði upphátt um Áramótaskaupið í gær og sagði mínar skoðanir á því og spurði hreinlega hvort ætti að leggja það niður. Ekki stóð á viðbrögðum og ég fékk yfir 20 komment þar sem fólk sagði sitt mat á öllum hliðum mála. Fleiri voru sammála mér en ósammála, sem er gott mál. Á nýársdag ár hvert er um fátt meira rætt en Skaupið, kosti þess og galla. Þetta er frægt álitaefni. Þakka öllum þeim sem létu í sér heyra hérna á síðunni. 

Fyrst og fremst mátti ég til með að segja upphátt það sem ég var að pæla og líka opna á að heyra í öðrum. Það er nú einu sinni svo að Áramótaskaupið er þess eðlis að það er sumum að skapi og öðrum ekki. Það er vonlaust að allir verði sammála um það. Mér finnst þó mjög margir hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með það. Eftir stendur hiklaust þær pælingar hvort það sé orðið réttlætanlegt að halda úti dagskrárlið með þessum hætti áfram sem veldur vonbrigðum ár eftir ár. Það er greinilegt að sitt sýnist hverjum.

Persónulega fannst mér Skaupið átakanlega slappt í ár. Það er bara þannig. Eflaust er ekki hægt annað en vonast eftir að það verði betra að ári, en ég get samt ekki sagt annað en það sem ég sagði í gær í þessari stöðu. Kannski tek ég þó bara undir með Sigurlín Margréti og bið um Óskar Jónasson bara aftur og eða bara tek undir með öðrum sem skrifaði um að Stelpurnar eigi að fá að gera skaupið. Þær hafa verið að standa sig vel. Margar pælingar í þessu. Vonlaust að allir verði sammála.

En takk enn og aftur fyrir öll kommentin.

Forseti í háleitum skýjaborgum

Ólafur Ragnar Grímsson Ólafur Ragnar Grímsson ávarpaði í dag þjóðina frá Bessastöðum í ellefta skiptið á nýársdegi á stormasömum forsetaferli sínum. Um mitt ávarpið var ég farinn að fá það mjög sterklega á tilfinninguna að þessi forseti liti á sig sem alheimsleiðtoga og sérstakt sameiningartákn alls heimsins. Hann var farinn að minna mig á Ástþór Magnússon eins og hann varð mest innlifaðastur í að breyta forsetaembættinu í einhvern alheimsfriðarvettvang án innistæðu.

Ég tek Ólaf Ragnar ekki það hátíðlega, í sannleika sagt, að líta á hann sem mann sem markar vinda alheimsins og hefur lykiláhrif á alþjóðastjórnmál með vist sinni á Bessastöðum. Merkilegust fannst mér ummæli Ólafs Ragnars um að aðrir þjóðarleiðtogar væru farnir að gefa gaum ummælum hans í áramótaávarpi á nýársdag 1998 um loftslagsmál. Ég tek því mátulega og undrast satt best að segja þessi ummæli og það sjálfhól sem mér fannst þetta vera. Menn hafa alla tíð hugsað um loftslagsmál og ummæli Ólafs eru engin þáttaskil í þeim efnum, þó hann telji það kannski sjálfur.

Verksvið forseta Íslands á að vera hér heima á Íslandi og hann á að sinna málefnum okkar og vera sameiningartákn okkar. Forseti Íslands verður vængbrotinn þegar að hann getur ekki verið trúverðugur sem sameiningartákn allra landsmanna. Ég hef ekki litið á þennan forseta sem sameiningartákn eftir blaðamannafundinn skrautlega á Bessastöðum sumarið 2004 þegar að hann beitti 26. grein stjórnarskrár með sögulegum hætti. Átök um embættið hafa verið í forsetatíð hans og honum hefur ekki auðnast að gera það að sameiningartákni allra landsmanna eins og forverar hans. Þjóðin er sundruð í fylkingar um þennan forseta.

Ég get ekki annað sagt en að ég tel forsetann vera í skýjaborgum yfir að tala fyrir alþjóðlegu samstarfi með þeim hætti sem hann gerði í ávarpinu. Það er allt í lagi að impra á málum og ræða stöðu heimsins en forseti Íslands getur aldrei verið alheimsfriðarleiðtogi eða málsvari alþjóðastjórnmála með meira áberandi hætti en þeim að láta í veðri vaka hitt og þetta, segja álit sitt. Mér finnst það standa forseta Íslands nær að verða það sameiningartákn sem hann hefði átt að reyna að helga sig í að verða. Ég er einn þeirra sem er ekki sáttur við þennan forseta og finnst hann ekki hafa unnið með þeim hætti að efla virðingu embættisins.

Ólafur Ragnar er og hefur alla tíð verið pólitískur bardagamaður. Það sést á öllum hans orðum og gjörðum. Sjálfur hef ég alla tíð verið andvígur því að einstaklingur með fortíð úr stjórnmálum verði forseti. Það sem við þurfum er sameiningartákn sem getur verið fulltrúi okkar allra og verið óbundinn af pólitískum væringum. Þannig forsetar voru Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir. Þannig forseta þurfum við á eftir Ólafi Ragnari, sem vonandi hættir á næsta ári.

Bloggfærslur 2. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband