21.1.2007 | 23:32
Reyknesingar missa enn einn þingmanninn

Eins og flestir muna gekk Reyknesingum ekkert sérstaklega vel í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í nóvember. Jón Gunnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, féll í prófkjörinu og auk þess vakti athygli að frambjóðendum frá Reykjanesi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins gekk ekki vel, ef undan er skilin Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, sem virðist eiga bestan séns Reyknesinga á þingsæti nú.
Hjálmar Árnason virtist fara í leiðtogaframboð hjá Framsóknarflokknum til að reyna að bæta hlut Reyknesinga á framboðslistum. Sú var ein helsta ástæðan sem hann nefndi er hann ákvað framboð fyrir jólin gegn Guðna Ágústssyni. Kannski má telja að það hafi alltaf verið ótrúleg bjartsýni að halda að hann gæti fellt Guðna, sem er sitjandi varaformaður og sá ráðherra framsóknarmanna sem lengst hefur nú setið eftir brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar. En hann tók áhættuna án þess að hika.
Hjálmar kvaddi stjórnmálin í kastljósi fjölmiðla í kvöld. Merkileg endalok á stjórnmálaferli hans að mínu mati. Dramatísk endalok umfram allt. Hann kvaddi með þá Guðna og Bjarna sér til beggja hliða. Svipur Guðna vakti sennilega meiri athygli en svipur Hjálmars sem var að kveðja. Táknrænn kuldi á mögnuðu fjölmiðlamómenti.
![]() |
Hjálmar Árnason hættir í stjórnmálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2007 | 19:52
Valdimar Leó kominn í Frjálslynda flokkinn
Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, sem sagði sig úr Samfylkingunni í nóvember og verið þingmaður utanflokka, hefur nú gengið til liðs við þingflokk Frjálslynda flokksins. Öllum er nú ljóst að hann verður kjördæmaleiðtogi af hálfu flokksins; væntanlega í Suðvesturkjördæmi. Valdimar Leó tók sæti á Alþingi þann 1. september 2005 við afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar, sendiherra, og var annar varaþingmaður Samfylkingarinnar í Kraganum eftir kosningarnar 2003. Það eru mikil tíðindi að þingsæti Guðmundar Árna sé nú komið á yfirráðasvæði Frjálslyndra.
Það eru engin tíðindi svosem í mínum augum að þetta hafi nú endanlega gerst að Valdimar Leó gangi til liðs við frjálslynda, enda skrifaði ég pistil hér að morgni 16. nóvember sl, eða áður en hann sagði sig úr Samfylkingunni og orðrómur fór af stað á fullu skriði, að hann myndi segja skilið við flokkinn innan tíðar og horfði mjög afgerandi til frjálslyndra. Hann lagði þó er á hólminn kom ekki í að ganga í Frjálslynda flokkinn samhliða úrsögn úr Samfylkingunni. Hann telur tímann vera nú væntanlega kominn, enda styttist í kosningar auðvitað.
Ég ítrekaði fyrri skrif í öðrum pistli að kvöldi 16. nóvember og gekk eiginlega lengra í fullyrðingum, eftir að Steingrímur Sævarr Ólafsson hafði staðfest þessar kjaftasögur og líka skrifað um málið. Nokkrir aðilar véfengdu þær heimildir sem ég hafði í fyrri skrifunum, sem bæði voru fengnar frá stjórnmálaáhugamönnum í kraganum og viðtali við Valdimar Leó á Útvarpi Sögu þar sem hann neitaði engu. Þær efasemdarraddir urðu rólegri í seinni skrifunum og gufuðu hægt og rólega algjörlega upp. Það vill að ég tel enginn afhjúpa sömu efasemdarraddir nú. Þeir sem vilja lesa efasemdarraddirnar geta litið á fyrri tengilinn hér og lesið. Athyglisvert að lesa kommentin nú.
Nú hefur Valdimar Leó opinberlega opinberað tilfærslu sína til frjálslyndra, svo að öll voru þessi skrif rétt af minni hálfu. Þar voru nákvæmlega engar fullyrðingar rangar eða eitt né neitt ýkt. Einfalt mál það. Væntanlega horfir Valdimar Leó til þess að reyna að fá umboð til að leiða lista frjálslyndra í kraganum, sínu gamla kjördæmi. Það er óvíst hver leiðir listann þar nú, enda engin prófkjör hjá frjálslyndum nú frekar en nokkru sinni áður. En þar eru nokkrir aðrir fyrir sem vilja leiða lista, en við öllum blasir að einhverskonar samkomulag hefur forysta Frjálslyndra gert við Valdimar Leó.
Í þingkosningunum 2003 leiddi Gunnar Örn Örlygsson Frjálslynda flokkinn í Suðvesturkjördæmi. Á miðju kjörtímabili gekk hann til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Þá vændu Frjálslyndir Gunnar Örn um svik og reyndu að beita sér fyrir því að Gunnar afsalaði sér þingmennsku sinni þar sem staða mála væri breytt frá kosningunum og hann ætti að hleypa varaþingmanninum Sigurlín Margréti Sigurðardóttur inn á þing í hans stað. Frá flokkaskiptunum hefur Gunnar Örn ekki hleypt frjálslynda varaþingmanninum sínum í Kraganum inn í sinn stað.
En leiðtogastóll Frjálslyndra í Kraganum er svo sannarlega laus. Það er spurning hvort að Frjálslyndir leiði kjörinn alþingismann Samfylkingarinnar til þess sætis í kosningum að vori. Það yrði kostulegt eftir sem eftir gekk meðal frjálslyndra með Gunnar Örn að leiða kjörinn þingmann annars flokks í sæti á sínum vegum. Pólitíkin er vissulega mjög skrítin tík. En nú eru semsagt þingmenn Frjálslynda flokksins aftur orðnir fjórir eins og eftir kosningarnar 2003 með inngöngu Valdimars Leós, fyrrum samfylkingarmanns, í hann.
![]() |
Valdimar gengur til liðs við Frjálslynda flokkinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2007 | 19:22
Hjálmar Árnason hættir í stjórnmálum

Það var greinilegt að Guðni Ágústsson var mjög þungur yfir mótframboði Hjálmars og því hefur verið svarað með þeim hætti að styðja Bjarna Harðarson í annað sætið. Mér fannst nokkuð merkilegt að sjá mómentið á Hótel Selfossi áðan þar sem að Hjálmar sté út. Það er mikil spenna milli hans og Guðna og greinilegt að þar hefur kólnað yfir samskiptum. Það þurfti ekki annað en sjá svipbrigði Guðna.
Það er erfitt um að spá hvort að þetta prófkjör veikji eða styrki flokkinn á svæðinu. Það hefur hiklaust styrkt mjög varaformanninn Guðna Ágústsson sem er nú enn sterkari leiðtogi flokksins á svæðinu en hann var áður. Mjög sterk kosning og afgerandi umboð sem hann fær á meðan að stjórnmálaferli Hjálmars Árnasonar lýkur með dramatískum hætti í kastljósi fjölmiðla.
21.1.2007 | 18:45
Guðni sigrar með yfirburðum - Hjálmar fallinn

Guðni leiddi flokkinn í kjördæminu í síðustu kosningum og sóttist eftir því áfram, enda verið þingmaður í tvo áratugi, ráðherra í átta ár (lengst allra núverandi framsóknarmanna í ríkisstjórn) og varaformaður Framsóknarflokksins í sex ár. Það virðist hafa verið mjög misráðið hjá Hjálmari að sækjast eftir leiðtogasætinu og hann fær nokkuð þungan skell, enda hefur hann verið þingmaður flokksins í tólf ár og áberandi í innra starfi flokksins. Hann virðist standa í sömu sporum og Kristinn H. Gunnarsson eftir þetta prófkjör. Heldur verður það að teljast ólíklegt að hann taki þriðja sætinu og annaðhvort horfi í aðrar áttir eða hætti þátttöku í stjórnmálum.

Guðni hefur verið sem óskoraður héraðshöfðingi Framsóknarflokksins á Suðurlandi síðan að Jón Helgason, fyrrum dómsmála- og landbúnaðarráðherra, hætti í stjórnmálum árið 1995. Varla voru sunnlenskir bændahöfðingjar ánægðir með mótframboðið við Guðna og þeir hafa greinilega passað vel upp á "sinn mann" enda er Guðni vinsæll til sveita fyrir verk sín. Það mátti eiga von á spennandi rimmu en munurinn virðist afgerandi og enginn vafi að umboð Guðna sé afgerand sterkt til forystu.
Eins og ég benti á hér á föstudag voru allmiklar miklar líkur á að sá sem myndi tapa slagnum gæti fallið niður í þriðja sætið, enda er greinilegt að stuðningsmenn Guðna hafa stutt Bjarna í annað sætið. Þetta eru allavega stórtíðindi. Báðum þingflokksformönnum stjórnarflokkanna hefur nú verið hafnað í leiðtogakjöri í prófkjöri. Arnbjörg Sveinsdóttir tapaði fyrir Kristjáni Þór Júlíussyni í prófkjöri sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi eins og flestir muna. En allra augu verða nú á því hvað verður um Hjálmar í Suðrinu.
21.1.2007 | 16:41
Árni Johnsen fær annað sætið í Suðrinu

Þetta er athyglisverð niðurstaða. Ég tel að hún muni veikja Sjálfstæðisflokkinn á viðkvæmum tímapunkti í byrjun kosningabaráttunnar. Árni fær greinilega enn annan séns á heimaslóðum. Það má svo sannarlega deila um það hvort að hann eigi það skilið eftir allar sínar bommertur. Þetta mál á eftir að fylgja Sjálfstæðisflokknum að óbreyttu um allt land í baráttu næstu mánaða.
Ég hef persónulega verið mjög andvígur því upp á síðkastið að Árni verði á listanum og tel það skaða flokkinn gríðarlega í tvísýnum kosningum. Ég er enn sömu skoðunar og finnst þetta vera mjög vond tíðindi fyrir flokksmenn í öðrum kjördæmum sem þurfa að óbreyttu að verja endurkomu þessa manns í framboð fyrir flokkinn.
21.1.2007 | 03:24
Gjafmildi og heimsfrægur afmælisgestur
Sumir láta sér duga að fá Bó Hall eða Ragga Bjarna, en ónei hér er hringt bara í aðlaða margverðlauna og múltífrægan söngvara. Merkileg tímamót í umræðunni. Mér fannst það flott hjá Ólafi og frú að stofna þennan sjóð en tíðindin af komu Eltons voru svona súrrealísk viðbót á sama deginum. Ég er ekki einn þeirra sem hokraðist á Laugardalsvelli á tónleikunum hans Eltons fyrir nokkrum árum og voru hundóánægð með umgjörð tónleikanna. Það væri fróðlegt að vita hvað fólkið sem þar var statt hugsar nú.
Sumum dreymir eflaust alla ævi eftir því að fara á tónleika með átrúnaðargoðinu sínu. Aðrir hringja bara í umboðsmennina þeirra og panta þá í afmælið sitt. Þetta er nýr skali í þessu hérna heima. Þetta er reyndar ekki á færi allra. Heldur einhver að Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, myndi geta fengið Rolling Stones í næsta stórafmæli sitt? Veit ekki svosem, en efast allverulega um það. Efast líka allnokkuð um það að ég gæti fengið minn uppáhaldstónlistarmann til að mæta í afmælið mitt í desember. Nema maður slái sér bara lán, eða hvað?
Ólafur Samskipsmógúll er hiklaust maður dagsins. Þarf engan rökstuðning á þann pakkann.
![]() |
Gefa einn milljarð króna í velgerðarsjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)