24.1.2007 | 20:58
Frábær sigur íslenska liðsins á Túnis

Fer ekki ofan af þeirri skoðun minni að þetta lið virki á mig ferskt og gott. Vonbrigðin eftir tap í leiknum við Úkraínumenn eru fjarri þessa stundina og sigurandinn eftir að við burstuðum Frakkana er enn ofarlega í huga. Held að þessi gleðiandi fylgi okkur langt fram í skammdegið sem er þessar vikurnar, en er hægt og rólega að gefa eftir.
Einn sem ég ræddi við sagði að Alli væri í stuði og þetta væri svona gleðiandi stemmningar líkt og var allsráðandi árin hans með KA-liðið þar sem gleði og kraftur voru algjört aðalsmerki. Er ekki fjarri því að svo sé. Alli er allavega að gera góða hluti og liðið er að fá á sig blæ sigursveitar. Öll gleðjumst við yfir því. Nú er það bara næsti leikur - næstu verkefnin.
Sigurvíman mun vonandi sveima áfram yfir liðinu og berast hingað heim í janúarstemmninguna. Ekki veitir af. :)
![]() |
Alfreð: Gríðarlega mikilvægur sigur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2007 | 20:31
Sigurjóni Ben hafnað á kjördæmisþingi

Sigurjón fjallar um þessa höfnun á kjördæmisþinginu í bloggfærslu á heimasíðu sinni og segir þar orðrétt: "Sjálfstæðisfélag Húsavíkur og nágrennis hafði samþykkt einróma að styðja mig til þess sætis svo ég taldi skyldu mína að láta á það reyna. Ekki veit ég hvaða horn Akureyringar hafa í síðu minni en ekki finn ég mikið fyir því í daglegu amstri en þeir eru afskapleg illa hyrndir og erfitt að átta sig á hvert hornin stefna. Friðrik Sigurðsson bóksali á Húasvík verður fulltrúi svæðisins (17% landsins) í 8. sæti og mega Þingeyingar muna sinn fífil fegurri á lista flokksins í kjördæminu. En svona er það bara. Ég óska listanum góðs gengis í kosningunum." Þetta eru vissulega nokkuð athyglisverð skrif og kennir hann greinilega liðsmönnum Kristjáns Þórs Júlíussonar, fyrrum bæjarstjóra, um að hafa hafnað sér.
Ég hef starfað talsvert lengi í flokknum hér á svæðinu. Ég kannast við hvorugt þeirra; Ingibjörgu Ösp og Friðrik, en þau eru væntanlega nýliðar í flokknum. Mikla athygli vekur að enginn þeirra þriggja sem urðu neðar en í sjötta sæti í prófkjörinu er á framboðslistanum. Ég hef reyndar heyrt raddir um það eftir þingið að Björn Jónasson frá Siglufirði hafi íhugað að bjóða sig fram á listann á þinginu en hætt við það eftir að hann las í stöðuna. Sigurjón tjáir sig með þeim hætti að óánægja sé meðal Þingeyinga. Eflaust eru ekki allir sáttir. Halldór Blöndal var löngum fulltrúi Þingeyinganna, þeir litu á hann sem sinn kandidat, enda ræktaði hann baklandið þar vel. Skil vel að Þingeyingar séu ósáttir við sinn hlut, en svona er víst staða mála.
Það hefði verið fróðlegt að heyra orðaskipti á kjördæmisþinginu en mér skilst að nokkuð hvasst hafi verið þar á milli Sigurjóns og annarra sem tóku til máls. Það verður reyndar fróðlegt að sjá hvað Kristinn Pétursson gerir. Ef marka má kjaftasögurnar horfir hann til framboðs með Frjálslyndum. Veit ekki hvort svo verður er á hólminn kemur. En það hefur greinilega verið líf og fjör í Mývatnssveit á þessu kjördæmisþingi ef marka má þá sem ég hef heyrt í.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.1.2007 | 17:10
Útlit fyrir spennandi álverskosningu í Firðinum

Þetta er allavega minni munur en ég átti von á, en það hefur verið beðið eftir þessari könnun í nokkurn tíma. Ég tel að það verði mikil spenna vegna þessarar kosningar og greinilegt að útlit er fyrir minni mun en áður var talið, altént ef marka má þessa könnun. Mikla athygli mína vekur reyndar að kosið verði ekki um stækkunina samhliða alþingiskosningunum þann 12. maí, en þess í stað kosið rétt rúmum mánuði áður, viku fyrir páskahátíðina.
Það er greinilega mat meirihluta Samfylkingarinnar í Hafnarfirði að þetta mál þurfi að klárast fyrir lokasprett kosningabaráttunnar til Alþingis, sem hefst strax eftir páskana. VG í Kraganum ætlar greinilega að setja þetta mál vel á dagskrá og er komin með Ögmund Jónasson, þingmann Reykvíkinga í tólf ár, sem leiðtoga sinn og málsvara í kosningabaráttunni. Það blasir við að þetta verður meginumræðuefnið í kjördæminu næstu vikurnar - mikil spenna vofir yfir málinu.
Ef marka má þessa könnun verður þetta lífleg barátta og munurinn milli fylkinga minni, altént en ég átti von á. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að þetta fer er á hólminn kemur.
![]() |
51% andvíg stækkun álvers samkvæmt könnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2007 | 16:37
...að vera næstum því étinn af hákarli

Hvíthákarlinn varð sennilega frægastur í víðfrægri kvikmynd meistara Stevens Spielbergs fyrir rúmum þrem áratugum, Jaws. Þar sjáum við hvernig ógnin af hvíthákarli vofir yfir íbúum strandbæjar sem stendur og fellur með ferðamannaparadis við sjóinn. Ógnin af hákarlinum eykst stig af stigi alla myndina.
Það er sennilega rétt að horfa á Jaws í kvöld.... og rifja upp stemmninguna. Held að það muni líða á löngu þar til að ástralski kafarinn setur Jaws í DVD-spilarann sinn.
![]() |
Telja að hákarlinum hafi þótt kafarinn vondur á bragðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2007 | 16:23
Höllu sem formann KSÍ

Það þarf að hugsa nýja tíma í boltanum og mér finnst Halla sá boðberi nýrra tíma sem ég vil allavega sjá. Mikilvægt að fá formannsefni úr nýrri átt og hefja nýja sókn fyrir boltann.
Valið er því einfalt - Áfram Halla!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2007 | 14:32
Óvinsæll forseti á pólitískum hættuslóðum

Daginn áður en ræðan var flutt birtist skoðanakönnun sem sýndi að forsetinn er einn sá óvinsælasti í sögu landsins. 2/3 hlutar landsmanna hafa misst traust og trú á forystu hans og telja honum hafa orðið á. Það er greinilegt að lokasprettur forsetaferilsins verður honum erfiður og viðbúið að brátt syrti í álinn milli demókrata og repúblikana. Aðeins einu sinni hefur Bush beitt neitunarvaldi gegn lögum frá þinginu á forsetaferlinum - viðbúið er að brátt verði sá réttur meira notaður og baráttan milli þings og forseta beitt.
Greinilegt er að forsetinn leggur sérstaka áherslu á að þingið gefi hinni nýju hernaðaráætlun sinni og Bob Gates, varnarmálaráðherra, færi á að sanna sig og verða sett í framkvæmd af krafti. Viðbúið er að demókratar sætti sig ekki við fjölgun hermanna í Írak og auka stríðsreksturinn þar eins og staðan er orðin. Greinilegt var að forsetinn talaði einmitt sérstaklega til demókrata í ræðunni - einkum er vikið var að Írak, en ekki síður í innanríkismálum. Kaflinn um utanríkismálin var þó meira áberandi og greinilegt að forsetinn hvikar hvergi frá stefnu sinni. Hann leggur þó áherslu á gott samstarf milli aðila.
Hætt er við að valdasambúðin verði erfið, tekist verði á um öll meginmál stefnuáætlunar forsetans, enda er engin heil brú þar milli demókrata og repúblikana. Greinilegt var að Bush talaði vel til Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar, sem varð fyrst kvenna forseti fyrir tuttugu dögum, þann 4. janúar sl, og reynir að lægja öldur. Það sást enda vel að þónokkuð var klappað fyrir forsetanum meðan að hann hélt sig við innanríkismálin og Pelosi (sem sat ásamt Cheney varaforseta aftan við forsetann) þótti vera glaðleg og hress að sjá fyrri hluta ræðunnar en þegar að leið á þyngdist brúnin á Pelosi talsvert og klappið minnkaði umtalsvert í salnum.
Ég horfði á ræðuna í heild sinni á Sky. Fannst hún athyglisverð. Bush stóð sig ágætlega við að flytja hana. Stóri vandi hans nú er tvíþættur; hann hefur misst tiltrú landsmanna og hann hefur ekki þingið á bakvið sig lengur. Hann er því mun einangraðri sem forseti en margir forvera sinna. Sumir forsetar hafa getað sætt sig við að hafa þingið ekki með sér en eiga mun erfiðar með að segja sína skoðun vitandi að þjóðin fylgir honum ekki eftir. Það er þung byrði að bera - þá byrði ber Bush nú, jafnvel allt til loka forsetaferilsins, hver veit? Allavega hefur mjög þyngst yfir honum sem forseta, það hefur mjög margt breyst.
Bush forseti veit vel að pólitísk arfleifð hans ræðst mikið af því hvernig fer á næstu 23 mánuðum, það sem eftir lifir valdaferilsins. Hann veit að demókratar ráða þinginu og virðast hafa almenningsálitið með sér. Merki þess að hann hefur veikst verulega sést í því hversu snemma kosningabaráttan um val á eftirmanni forsetans hefst. Það er jafnan sterkt merki þess hvort forseti sé sterkur eða veikur. Öll vitum við hvað er að gerast núna. Baráttan um Hvíta húsið er þegar hafin með afgerandi hætti.
Nú veltur allt á hvernig að Bush gengur að vinna með demókrötum. Hann vann með þingi undir yfirráðum demókrata í Texas meðan að hann var ríkisstjóri þar. En nú er þolraunin erfiðari - jafnframt um meira að tefla. Hann mun eiga erfitt í þessari stöðu. Það að vera stríðsforseti í vonlausu stríði er ekki fallið til vinsælda. Öll munum við eftir Lyndon B. Johnson, ekki satt?
![]() |
Bush kallar eftir samstöðu varðandi hernaðarátökin í Írak |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2007 | 12:17
Kosið um umdeilda álversstækkun í mars
Það er nú ljóst að kosið verður um stækkun álversins í Straumsvík þann 31. mars, rétt fyrir páskana og rúmum mánuði fyrir alþingiskosningar. Þetta er merkileg tímasetning og greinilega valin til að þetta mál verði ekki grunnmál stjórnmálanna á svæðinu á lokaspretti kosningabaráttunnar. Það má búast við áherslumun og átökum um stækkunina. Hún er nú þegar orðin umdeild í huga fólks á svæðinu og sitt sýnist hverjum.
Það er öllum ljóst að stækkunin og kosningin verða einn af meginpunktum kosningabaráttunnar í vor í Suðvesturkjördæmi. Þess má sjá greinilega stað með vali vinstri grænna á Ögmundi Jónassyni sem leiðtoga sínum í kjördæminu, en lista Samfylkingarinnar leiðir hinsvegar Gunnar Svavarsson, forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði og einn af arkitektum veldis Samfylkingarinnar í bænum. Það má því búast við einhverjum núningi um þetta mál.
Tímasetning kosningarinnar gerir það að verkum að meginþungi umræðunnar verði búinn fyrr en ella. Sitt sýnist hverjum. Þarna virðast áherslur ekki fara eftir flokkslínum. Fannst mjög athyglisvert að sjá Vilborgu Gunnarsdóttur, fyrrum bæjarfulltrúa okkar sjálfstæðismanna á Akureyri, skrifa greinar og tjá sig um mál álversins á svæðinu nýlega eftir fræga gjöf á disk Bo Hall til bæjarbúa í Hafnarfirði. Þar tjáði hún með beittum hætti skeptíska sýn á stækkunina.
En þetta verður áhugaverð kosning - vissulega merkilegt að bæjarbúar fái að ráða því sjálfir hvað gerist með deiliskipulagstillöguna. Heldur verður að teljast að vindar blási gegn henni og að óbreyttu spái ég þeirri niðurstöðu þann 31. mars.
![]() |
Íbúakosning í Hafnarfirði 31. mars |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2007 | 00:29
Margrét Sverris heldur sínu striki

Meginátök í flokknum eru orðin mjög djúpstæð - það blasir við öllum. Fylkingarnar eru afgerandi til staðar. Þetta er vissulega mjög athyglisverð rimma sem blasir við. Þetta er fylkingabarátta um áhrifasess, mjög mikilvægan, innan flokksins. Það sem tapar verður verulega snuprað, hitt styrkist auðvitað. Formaðurinn mun auðvitað verða mjög vandræðalegur tapi frambjóðandi hans svo að þetta er undarleg staða. Falli varaformaðurinn situr formaðurinn enda uppi með næstráðanda í flokknum sem hann kærir sig ekkert um. Átökin verða sífellt greinilegri.
Í kvöld mættust Margrét og Magnús Þór í Kastljósinu. Merkileg rimma. Var óvenju settleg vissulega en undir niðri kraumaði ólga. Það er merkilegt hvernig að Magnús Þór er að vega að Margréti með ómaklegum hætti, dragandi upp stöðu mála í borginni eftir kosningarnar síðasta vor og lætur að því liggja að Margrét hafi svona fengið að vera með og fengið áhrif vegna þess að hún hafi verið þeim góð, svona að þeir hafi hugsað til hennar. Þetta er merkilegt attitude í manni sem greinilega er ekki of viss um sitt gengi. Reyndar er það fyrir löngu alþekkt vörumerki Magnúsar Þórs að níða sem mest skóinn af andstæðingum sínum með því að tala illa um það og vega að því með ýmsum hætti.
Það er greinilegt að Margrét ætlar að reyna að haldast á siðlegu plani, en hefur fengið nóg. Skil það vel. Datt inn á Útvarp Sögu um daginn og þvílíkur orðaflaumur sem þar gengur um Margréti og föður hennar. Blöskraði þetta alveg. Er þetta orðið að Útvarpi Nýtt afl? Merkilegt vissulega. Fannst mjög athyglisvert að hlusta á þessa stuttu stund. Hafði reyndar lítinn áhuga á þættinum sem ég datt inn í og ekki get ég sagt að boðskapurinn hafi heillað mig. Mér finnst Margrét hafa unnið þessum flokk gagn og verið öflug í hans garð og lagt sig alla fram. Metnaður hennar er mjög skiljanlegur eftir allt sem hún hefur lagt fram. Það kemur engum að óvörum að hún vilji nú sækja fram til forystu.
Það er athyglisvert að lesa skrif Sigurlínar Margrétar varaþingmanns. Það er greinilegt að hún spáir á vef sínum í innkomu fyrrum óháða þingmannsins sem áður kom inn á þing sem annar varamaður Guðmundar Árna Stefánssonar er hann varð sendiherra í Svíaríki. Eins og ég sagði í nóvember fór hann til frjálslyndra. Hann vill leiðtogastól. Skil vel pælingar Sigurlínar Margrétar ef að hún sér á eftir leiðtogastól að henni sárni fari hann til þessa manns sem greinilega er kominn inn til frjálslyndra á einhverjum díl um leiðtogastól. Það blasir við öllum sem fylgjast með pólitík. Sigurlín Margrét er heiðarleg og öflug er hún skrifar um þetta mál.
En spennandi rimma framundan fyrir Frjálslynda. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að rimman um varaformennskuna fer og hvort þeirra standi eftir sem sigurvegari og hvort muni tapa kosningunni. Það mun verða erfitt fyrir þann sem tapar og viðbúið að sviptingar verði þarna innbyrðis sama hvernig fer er á hólminn kemur.
![]() |
Margrét Sverrisdóttir býður sig ekki fram til formanns Frjálslyndra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |