Silvía Nótt snýr aftur

Silvía Nótt Jæja, þá er víst Silvía Nótt að snúa aftur, eða allavega reyna að eiga kombakk, ef marka má fréttirnar. Lítið hefur heyrst í henni eftir söngvakeppnina í Aþenu í maí í fyrra þar sem hún fékk nokkurn skell, eins og flestir muna. Þrátt fyrir þann endi á Eurovision-ævintýrinu var hún ein andlita ársins 2006 óneitanlega. Lag hennar og framkoma sló í undankeppninni hér heima fyrir nærri ári og þjóðin valdi hana áfram.

Eins og allir vita náði hún ekki að komast alla leið. Það fór eins og fór hjá henni vegna yfirlætis sem engin innistæða var fyrir úti, merkilegt fall í rauninni. Í upphafi var Silvía Nótt ágætis karakter og lagið fínt. Karakterinn hélt áfram að þróast og ekki til góða. Undir lokin var þetta orðin sorgarsaga og hún gekk endanlega frá öllu sem hét sigurmöguleikar með framkomu sinni ytra dagana sem hún dvaldi þar vegna keppninnar. Að mörgu leyti var leitt að sjá hvernig að hún eyðilagði fyrir sjálfri sér.

Það er nær einsdæmi að púað hafi verið á keppanda fyrir og eftir flutning en það henti Silvíu Nótt í keppninni fyrir ári. Það er engin furða að þetta hafi farið svona - ég varð allavega ekki hissa á gengi Silvíu eftir allt sem gengið hafði á í Aþenu. Margir áttuðu sig reyndar ekki á því að þetta var einn stór brandari að keppninni, en hvað með það. Brandarinn varð of súrrealískur. Þessi local-brandari varð einum of allavega. Það stefnir ekki í að við fetum sömu leið í Helsinki í maí, sama hver vinnur nú.

Fróðlegt verður að sjá hvort að Silvía Nótt eigi sér séns til endurkomu. Ég yrði ekki hissa þó flestir landsmenn væru búnir að fá alveg nóg af karakternum. Frábær leikkona eins og Ágústa Eva sem hefur ráðandi eignarhlut í Silvíu Nótt er fjölhæf leikkona sem sannaði sig í Mýrinni - hún er svo sannarlega betur komin í öðru.

mbl.is Silvía Nótt með nýjan umboðsmann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smölunarhátíð Frjálslynda flokksins hafin

Margrét og Magnús Þór í Kastljósi Það má búast við að smalamennska verði yfirskrift landsþings Frjálslynda flokksins sem nú er hafið. Þar fer fram á morgun athyglisvert varaformannskjör þar sem takast á tveir afgerandi armar flokksins. Smölun ræður þar úrslitum; sá sem smalar fleirum á svæðið stendur uppi sem sigurvegari. Það verður eflaust merkileg stemmning á þingi þessa örflokks, sem þrátt fyrir smæð sína berst hatrammri valdabaráttu í míkróstærð.

Í flestum alvöru flokkum er fagmennska við framkvæmd fundarins; flokksfélög kjósa sér landsfundar- eða flokksþingsfulltrúa og allir sem sitja fundinn hafa umboð sinna félaga. Af því leiðir að þeir sem sitja fundinn þurfa að hafa komið sér í einhverskonar grunnstarf í stjórnmálum, hafa þurft að leggja eitthvað af mörkum. Af því leiðir enn frekar að virkt flokksfólk tekur ákvörðun um forystu flokksins. Það er þeirra að kjósa í embætti og taka virkan þátt í fundarstörfum með málefnastarfi eða viðlíka vinnu.

Í Frjálslynda flokknum þarf engin kjörbréf til að sitja svona æðstu samkundu. Þetta verður því eins og aðalfundur í íþróttafélagi eða annarskonar þar sem minna er um reglur. Þetta getur skapað vandamál, enda virðist Jón Jónsson geta gengið inn til fundar af götunni og hefur þar jafnt vægi við að leggja flokknum línurnar og þeir sem hafa jafnvel unnið árum saman. Merkilegt. Það eru margir greinilega að velta þessu fyrir sér í bloggheimum í dag.

Lína helgarinnar verður því; sá sem smalar sem mest og grimmast stendur brosandi eftir síðdegis á morgun. Það verður fróðlegt að sjá hvor smalar meiru og brosir sínu breiðasta eftir talningu á morgun; Margrét Sverrisdóttir eða Magnús Þór Hafsteinsson. Tveir armar að berjast - talsvert í húfi fyrir bæði öflin.

mbl.is Viljum eiga aðild að ríkisstjórn eftir kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru konurnar að flýja Samfylkinguna?

Ágúst Ólafur og Ingibjörg Sólrún Það er merkilegt að sjá krísuna sem blasir við Samfylkingunni; fylgið er í frjálsu falli og frammistaða formannsins er umdeild. Ofan á allt er merkileg sú staðreynd að konur virðast vera að flýja flokkinn unnvörpum. Skoðanakannanir sýna kristalskýrt að kvennafylgi flokksins er minna en jafnan áður og þær virðast í auknu mæli horfa í aðrar áttir. Þetta gerist þó að formaður Samfylkingarinnar sé kona.

Á meðan að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var vonarstjarna vinstrimanna sem borgarstjóri í Reykjavík er horfði til landsmálaframa var það metið henni mikilvægt að vera kona á framabraut - í kosningunum 2003 var hún með eftirminnilegum hætti kynnt sérstaklega í glæsilegri litaútgáfu skælbrosandi andspænis svarthvítum karlkyns forverum á valdastóli; allt frá Hannesi Hafstein til Davíðs Oddssonar. Umdeild auglýsing, en skýr skilaboð - mjög afgerandi. Þá var stuðningur kvenna við Samfylkinguna talsverður eins og flestir muna.

Það að konurnar horfi annað er táknrænt og athyglisvert fyrir konuna sem mesta möguleika á að leiða ríkisstjórn, þó minni möguleikar séu á því nú en var árið 2003. Þá barðist hún við Davíð Oddsson, manninn sem hún dýrkaði að þola ekki. Nú er Davíð farinn..... líka mesti vindurinn úr seglum Ingibjargar Sólrúnar. Táknrænt - en athyglisvert, ekki satt?

Katsav í vanda - Peres næsti forseti Ísraels?

Shimon Peres Það er varla spurning um hvort heldur hvenær að Moshe Katsav, forseti Ísraels, segi af sér embætti, en flest bendir til að hann verði dæmdur fyrir nauðgunartilraun og tengd mál. Mikið er um það rætt nú hvort að Shimon Peres, fyrrum forsætisráðherra Ísraels, verði forseti Ísraels í kjölfar yfirvofandi afsagnar Katsav. Peres sóttist eftir forsetaembættinu árið 2000 en varð þá undir fyrir Katsav í kosningu. Peres, sem er kominn á níræðisaldur, er einn af lykilmönnum ísraelskra stjórnmála á 20. öld og var í áratugi áhrifamaður innan Verkamannaflokksins, en sagði skilið við flokkinn í ársbyrjun 2006 og gekk til liðs við Kadima, flokkinn sem Ariel Sharon stofnaði skömmu fyrir lífshættuleg veikindi sín.

Það hefur hinsvegar lengi háð Peres að honum tókst aldrei á pólitískum ferli sínum að leiða Verkamannaflokkinn til sigurs í þingkosningum. Hann hefur verið forsætisráðherra Ísraels þrisvar en alltaf tapað stólnum svo í kosningum. Hann var forsætisráðherra 1976-1977, 1984-1986 og að lokum 1995-1996. Hann tók í síðasta skiptið við embættinu eftir morðið á Yitzhak Rabin í nóvember 1995. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels með Yasser Arafat og Rabin árið 1994, í kjölfar sögulegs friðarsamkomulags, sem síðar rann út í sandinn. Hann nýtur virðingar um allan heim fyrir þau verk sín.

Árið 1993 kom Shimon Peres, þá utanríkisráðherra Ísraels, í opinbera heimsókn hingað. Í mótmælaskyni við Peres og ísraelsk stjórnvöld afþökkuðu forystumenn þáverandi stjórnarandstöðuflokka, meðal þeirra voru Ólafur Ragnar Grímsson, núv. forseti Íslands, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, núv. formaður Samfylkingarinnar, að sitja kvöldverðarboð Davíðs Oddssonar, þáv. forsætisráðherra, honum til heiðurs. Mánuði eftir heimsókn Peres tókust sögulegar sættir milli Ísraela og Palestínumanna, eftir umfangsmiklar samningaviðræður í Noregi.

Það var ógleymanlegt samkomulag, innsiglað með frægu handabandi Rabin og Arafat í Washington. Það vakti athygli fyrir nokkrum mánuðum að sami Ólafur Ragnar og vildi ekki hitta Shimon Peres árið 1993 hitti Ehud Barak, einn eftirmanna Peres sem leiðtogi Verkamannaflokksins og forsætisráðherra Ísraels. Kaldhæðnislegt þótti það miðað við söguna. Það kannski færi svo yrði Shimon Peres kjörinn forseti Ísraels að hann kæmi hingað í opinbera heimsókn til mannsins sem ekki vildi sitja til borðs með honum í veislu fyrir rúmum áratug?

mbl.is Verður Simon Peres loks forseti Ísraels?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin í frjálsu falli - veik staða ISG

ISG Enn syrtir í álinn fyrir Samfylkinguna. VG er orðin stærri en flokkurinn í nýrri könnun Frjálsrar verslunar, sem þar mælist með tæplega 20% fylgi. Um er að ræða lægsta fylgi Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð formaður flokksins í maí 2005 og eru þessir svörtu dagar sem Samfylkingin er að upplifa ískyggilega líkir því sem gerðist á árinu 2001 þegar að flokkurinn naut ekki trausts og hafði innan við 20% fylgi í könnunum.

Greinilegt er að Samfylkingin á í víðtækum vanda. Vissulega eru skoðanakannanir bara mæling á stöðu mála á tilteknum tíma. En það er óneitanlega merkilegt að fylgjast með stöðu Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum eftir formannsskiptin. Leiðin hefur sífellt legið niður á við á þessum tíma og virðist staðan nú sýna hversu veikur flokkurinn heldur til kosninganna. Þessi staða er pólitískt áfall fyrir flokk og formann, enda vandséð hvernig að formaðurinn geti setið áfram tapi flokkurinn svona gríðarlega stórt.

Spurningin er auðvitað sú hvernig Ingibjörg Sólrún mun halda á forystukeflinu hjá þessum flokki í aðdraganda kosninganna. Henni virðast vera mislagðar hendur og hún er væntanlega nú á einhverjum krísufundum við að reyna að finna taktinn sinn í þessum efnum. Klúðrið hefur falist í stefnuflakki og vandræðalegu hjali um hitamál, tel ég. Það er nefnilega oft þannig að fólk verður hlægilegt þegar að það reynir að elta allar vinsældakannanir. Þarna er væntanlega vandi Samfylkingarinnar. Nú virðist það vera svo að ISG verður að berjast upp á pólitískt líf eða dauða. Þetta er stingandi staða allavega fyrir flokk sem alla tíð hefur verið í stjórnarandstöðu.

Það er ekki furða að Steingrímur J. skrifi ekki upp á að Ingibjörg Sólrún leiði stjórnarandstöðuna og sé eitthvað forsætisráðherraefni hennar. Staða Samfylkingarinnar verður enda vængbrotin verði þetta mikla fylgistap staðreynd. Það verða stórtíðindi tapi leiðandi stjórnarandstöðuflokkur 5-8 þingsætum og getur varla flokkast undir neitt nema pólitískt afhroð fyrir flokk og formann. Það er greinilegt að kosningabaráttan gæti orðið sú síðasta fyrir konuna sem varð borgarstjóri í Reykjavík í nafni sameiginlegs fjölflokkaframboðs félagshyggjuafla og vann tvisvar endurkjör. Eftir að hún yfirgaf Ráðhúsið í Reykjavík hefur pólitískur ferill hennar orðin ein samfelld sorgarsaga.

Fari kosningar í einhverja viðlíka átt og kannanir Fréttablaðsins og Frjálsrar verslunar verður erfitt að líta á baráttukonuna Ingibjörgu Sólrúnu sem einhverja sigurstjörnu vinstrimanna, svo mikið er nú víst.

Skelfilegt ástand

Vörubíllinn Það er óhætt að segja að betur hafi farið en á horfðist þegar að vörubíl var ekið á ofsahraða um borgina í gærkvöldi. Mildi að ekki varð slys á fólki. Þetta fær fólk til að hugsa æ betur um hættuna af slíkum bílum sé keyrt á þeim með ofsahraða.

Í þessu tilviki mun hafa verið vanheill maður við stýri og þetta mál virðist allt frekar dapurt. Sorglegt bara. Þessi ofsaakstur er varla einstakur, en hann fær fólk vonandi til að hugsa málið vel, sé fólk við stýri sem kann ekki að stýra bíl af þessu tagi og hefur ekki þekkingu til þess.

mbl.is Vörubíll stöðvaður eftir ofsaakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búið mál

Hæstiréttur Það er að verða ansi langt síðan að ég hætti að botna í Baugsmálinu. Það hefur því miður fengið á sig þann blæ að verða hálfgerð lönguvitleysa. Það er vissulega táknrænt að Hæstiréttur hafi nú sýknað fjóra sakborninga í Baugsmálinu. Verður ekki betur séð en að málið sem hófst sumarið 2005 sé lokið.

Það er vandséð hvað geti tekið við. Þetta lítur út sem búið mál, það stendur ekkert eftir fyrir ákæruvaldið. Það er enginn vafi að þetta er mikið áfall fyrir ákæruvaldið, enda var mikið lagt í málið og löng vinna. Grunnur málsins í upphafi er farinn. Það er niðurstaðan.

Lítur svo sannarlega út sem búið mál. Mér finnst þessi niðurstaða svo afgerandi að vandséð er hvernig halda eigi áfram. Það er niðurstaða dagsins. Það var mikið lagt í þetta mál - niðurstaðan blasir við. Það stendur ekkert eftir. Það vekur athygli hvernig fór. Það hlýtur að vera komið mál að linni.

mbl.is Sakborningar sýknaðir í Baugsmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband