28.1.2007 | 23:48
Orð dagsins
Jón Baldvin Hannibalsson telur Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur ekki fiska nóg fyrir Samfylkinguna. Í stað þess að skipta nú um kaptein í brúnni, vill hann frekar stofna nýjan flokk! Ég minni á tillögu mína um, að Ingibjörg Sólrún fari að dæmi Össurar fyrir fjórum árum og finni forsætisráðherraefni fyrir Samfylkinguna - Össur?
Vel orðað svo sannarlega.
28.1.2007 | 22:55
Det er dejligt

Vonum það besta í leiknum á þriðjudag - vona að við vinnum Danina en sigur þar færir okkur farseðil í fyrirheitna landið - undanúrslitin sem væri auðvitað góð staða fyrir okkur. Það yrði ekki svo galið ef okkur tækist að komast í leik um medalíu. En næst eru það Danirnir - við getum alveg unnið gömlu herraþjóðina.
Jamms, mér líst bara mjög vel á þetta allt saman.
![]() |
Danir verða mótherjar Íslands í 8-liða úrslitum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2007 | 19:02
Tap gegn Þjóðverjum - Danir eða Spánverjar?

Ég hafði alltaf góða tilfinningu fyrir landsliðinu. Alli Gísla er sterkur þjálfari með mikla leikreynslu og hefur verið farsæll þjálfari, ég held að innkoma hans sem þjálfara hafi gert liðinu gott og svo eru markmenn og nokkrir leikmenn að blómstra mjög vel. Meiðslin hafa verið visst vandamál en vonandi hefst þetta allt fyrir rest. Skal reyndar viðurkenna að ég var skeptískur á stöðuna eftir tapið gegn Úkraínumönnum en þetta hafðist með ævintýralegum sigri við Frakkana.
En hvernig sem fer... stærsti plúsinn að ná að komast í fjórðungsúrslitin, allt annað er plús. Vona að við fáum Dani í þeim pakka, en þetta ræðst allt.
![]() |
Ólafur: Mætum brjálaðir til leiks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.1.2007 | 16:44
Viðtal og viðbrögð - pólitísk iðrun Árna

Ég sé ekki eftir einu né neinu - hreint út sagt. Það sem ég tjáði í þessu viðtali eru skoðanir sem birst hafa hér á þessum bloggvef mjög oft. Þær eru afgerandi í huga mér og ég mun ekki hylja þær. Ég gekk ekki í Sjálfstæðisflokkinn til að afsala mér málfrelsi mínu og ég er ekki persóna sem gleypi einhverjar standard-skoðanir sem ég get ekki varið út í frá. Ég hef fyrir löngu sagt mínar skoðanir í þessu máli. Það er alveg ljóst að ég er ekki þannig gerður að ég leyni mínum hug og þessi vefsíða er vettvangur skrifa útfrá mínum pælingum.
Ég get ekki stutt það sem mér er á móti skapi og ekki heldur varið eitthvað sem er í hjarta mér rangt. Þetta mál er eitt þeirra sem gerast innan Sjálfstæðisflokksins sem ég get með engu móti varið og ég tjáði mig og endurtók þær skoðanir. Hafi einhver talið þetta harkaleg viðbrögð finnst mér svo ekki vera. Mér fannst þetta vera frekar væg útgáfa alls sem ég hef skrifað. Heilt yfir fylgi ég hjartanu. Þó að ég hafi verið nokkurn tíma í virkum störfum innan Sjálfstæðisflokksins og lengi unnið honum gagn í innra starfinu get ég ekki skrifað upp á allt sem gerist þar innanborðs.
Heilt yfir er ég sáttur við þetta viðtal. Mér fannst reyndar áherslan um orðið athyglisvert hvað varðar uppreist æru merkilega mikið. Það orð var valið til að lýsa því að handhafarnir tóku þetta verkefni að sér. Það fannst mér óheppilegt í ljósi þess að Árni var þingmaður Sjálfstæðisflokksins og þetta hefði átt að vera sett í verkahring forsetans. En það er ekki stóra málið. Endurkoma Árna í þingflokkinn var ekki verk handhafanna. Það voru flokksmenn á Suðurlandi og Reykjanesi sem unnu að því. Það er ég ósáttur við.
Árni er í viðtali í Blaðinu í gær. Hann segist iðrast. Ég veit ekki orðið hvað skal segja um þetta mál. Árni átti að hugsa út í iðrun og eftirsjá afbrota sinna, sem voru stóralvarlegs eðlis, áður en hann valdi orðin tæknileg mistök til að lýsa því af hverju hann hrökklaðist af þingi fyrir sex árum. Eftir stóðu orð sem eru og verða alltaf óviðunandi. Ég hef allavega gert hreint fyrir mínum dyrum og komið vel fram skoðun minni - talað hreint út. Mér líður mun betur núna hafandi komið þvi vel á framfæri!
28.1.2007 | 15:02
Jón Baldvin segir Ingibjörgu Sólrúnu hafa mistekist

Ég man ekki eftir Jóni Baldvini svona kraftmiklum og lifandi síðan að hann var utanríkisráðherra á tímum GATT og tollapælinganna. Þegar að ég byrjaði eitthvað að spá í pólitík var Jón Baldvin utanríkisráðherra í stjórn Davíðs Oddssonar. Hann talaði þá af krafti. Ég var ekki alltaf sammála honum, en ég virti að hann hafði afgerandi skoðanir og pælingar hans voru lifandi. Það met ég í fari stjórnmálamanna, hreint út sagt. Það er þetta sem hefur vantað í fari Ingibjargar Sólrúnar og greinilegt að Jón Baldvin telur fullreynt að hún nái þeim stalli í vor. Þetta eru gríðarleg pólitísk tíðindi að mínu mati - hreint út sagt.
Það að eðalkrati og afgerandi vitringur á vinstrivængnum tali svona er mjög merkilegt - þetta eru mikil tímamót á vinstrivængnum. Þetta má túlka sem lokaviðvörun til formanns Samfylkingarinnar um að hysja upp um sig buxurnar og reyna að bjarga því sem bjarga verður. Jón Baldvin virðist ekki ánægður með stöðu Samfylkingarinnar, sem skiljanlegt er. Honum var þungt í huga yfir Samfylkingunni og virðist til í allt ef marka má þetta. Greinilegt er að hann vill þungavigtarfólk til framboðs og lýsir yfir frati á nær óbreytta framboðslista Samfylkingarinnar um allt land.
Fyrir nokkrum árum var Jón Baldvin einn öflugasti stuðningsmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og baráttumaður þess að hún leiddi Samfylkinguna. Í dag gagnrýnir hann hana og lýsir Samfylkingunni sem tilraun mistaka við að stofna ráðandi flokk í pólitíska litrófinu. Merkileg tímamót eru þetta! Er annars Ingibjörg Sólrún ekki búin að vera? Það verður varla sagt annað í stöðunni eftir eldmessu Jóns á Stöð 2 eftir hádegið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.1.2007 | 13:51
Skrípaleikur Frjálslyndra

Talað er um viðveru formanns við kjörkassa, ringulreið, greiðslu á flokksgjöldum, talningu og birtingu talna. Sérkennilegast í þessu varaformannskjöri hlýtur að teljast að eftir að úrslit í varaformannskosningunni höfðu verið tilkynnt opinberlega á fundinum þá kom í ljós að ekki höfðu öll atkvæði í kosningunni verið talin. Úrslitin sem eru t.d. í bloggfærslu hér neðar á síðunni sem opinber úrslit voru það ekki, því enn átti eftir að telja atkvæði. Það eitt og sér segir mikið um framkvæmd kosningarinnar, sem hefur verið mjög bogin og vægast sagt sérkennileg að mörgu leyti.

Þetta ber allt einkenni undarlegs ástands í flokki. Reyndir fjölmiðlamenn hafa eflaust fallið í stafi við að sjá framkvæmdina. Margrét Sverrisdóttir ætlar að kæra framkvæmd kosningarinnar - hún segir liðsmenn Nýs afls hafa keypt atkvæði inn á landsþingið fyrir hundruð þúsunda króna. Margrét ætlar að hitta nánustu stuðningsmenn sína á fundi á morgun og þá mun staða hennar verða metin. Ekki virðast margir kostir fyrir hana aðrir en að yfirgefa flokkinn, sem faðir hennar stofnaði fyrir áratug.
Það er enginn vafi að Frjálslyndi flokkurinn sé klofinn, Nýtt afl, sem gárungar kalla Hvítt afl, virðast hafa tekið flokkinn yfir. Margrét hefur sagt að á nafnalistum sem stuðningsmenn Magnúsar Þórs hafi dreift áður en kjör í helstu embætti fór fram hafi helmingur nafnanna verið fólk úr Nýju afli. Sem eitt dæmi um þessi vinnubrögð hefur Margrét nefnt að kona sem verið hafi í flokknum í viku hafi verið kjörin ritari flokksins á meðan að kona sem lengi hafi starfað fyrir Frjálslynda flokkinn hafi verið hafnað í ritarakjörinu. Flokkurinn virðist margklofinn og skaddaður - vandséð hvernig geti í raun gróið um heilt.
Smalamennska, ringulreið og glundroði virðast ætla að verða eftirmæli átakaþings Frjálslynda flokksins. Það verður fróðlegt að sjá hvað tekur við. Ekki virðist fagmannlega hafa verið haldið á skipulagningu. Störf þingsins minntu illilega á öngþveiti á brunaútsölu frekar en pólitískt starf. Kostulegt með að fylgjast eiginlega í sannleika sagt. En nú velta allir vöngum yfir stöðu Margrétar og framtíð hennar í stjórnmálum.
![]() |
Kolbrún Stefánsdóttir kjörin ritari Frjálslynda flokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |