29.1.2007 | 21:17
Skiljanleg ákvörðun Margrétar Sverrisdóttur
Ákvörðun Margrétar Sverrisdóttur um að ganga úr Frjálslynda flokknum er mjög skiljanleg. Landsþing flokksins um liðna helgi var eins og algjör sirkus og honum til skammar. Það sást strax um helgina að aldrei hefði verið mögulegt að sætta fylkingar þarna. Það hefur verið greinilegt mat Margrétar og hennar fólks að ómögulegt væri að vinna með forystu flokksins - allt traust og heilsteypt samstarf var farið þar í súginn.
Það er greinilegt að Frjálslyndi flokkurinn er ekki lengur farsæll kostur fyrir stærri stjórnarandstöðuflokkana. Í kvöld talaði Stefán Jón Hafstein í Kastljósi með þeim hætti að kaffibandalagið væri feigt og vildi ekkert af "frjálslyndum" vita. Í Íslandi í bítið í morgun talaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir með þeim hætti að illa hefði verið komið fram við Margréti og greinilegt á orðum hennar að samstarf við frjálslynda hugnaðist henni ekki vel. Það virðist því vera sem að samstaða stjórnarandstöðuflokkanna sé að bresta á innflytjendamálunum sem vissulega var fyrirsjáanlegt myndi ásýnd frjálslyndra harðna með brotthvarfi Margrétar.
Ég skil Margréti vel að vilja allt annað en vinna með forystu sem hefur niðurlægt hana og komið illa fram við hana. Enginn myndi vilja þurfa að bíta í súra eplið oftar en góðu hófi gegndi. Það var enginn annar valkostur fyrir hana en ganga þarna út. Það að Margrét horfi nú í aðrar áttir hefur talsverð áhrif á væntanlega kosningabaráttu og augljóst að stefnir í talsverð tíðindi. Enda segist hún ekki vera hætt í pólitík.
Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist innan "Frjálslynda flokksins" án Sverrisarmsins þar sem rasísk sjónarmið virðast nú allsráðandi og flokkurinn orðinn holdsveikur í stjórnarmyndunarviðræðum og bandalagsmyndunum fyrir og eftir alþingiskosningar og ekki síður hjá Margréti Sverrisdóttur sem skiljanlega hefur fengið nóg af samstarfsmönnum í gamla flokknum.
![]() |
Margrét telur sér ekki fært að starfa lengur í Frjálslynda flokknum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2007 | 20:39
Margrét gengur úr Frjálslynda flokknum
Margrét Sverrisdóttir hefur sent út fréttatilkynningu þar sem hún greinir frá ákvörðun sinni um að ganga úr Frjálslynda flokknum. Eins og ég sagði frá síðdegis í dag hafði hún tekið þessa ákvörðun fyrir fund með stuðningsmönnum síðdegis og hann breytti engu um stöðu mála. Búast má við að kjarni hennar í flokknum fylgi henni og munar þar mestu um allan borgarstjórnarflokk Frjálslynda flokksins.
Klofningur þessa smáflokks er því staðreynd. Það verður fróðlegt að sjá hvað Margrét gerir í framhaldi þessa nú þegar að hún yfirgefur þann flokk sem hún hefur unnið fyrir í áratug, sem framkvæmdastjóri þingflokksins og flokksheildarinnar allrar, ritari flokksins til fjölda ára og forystumaður í innra starfinu alla tíð. Það má allavega fullyrða að ásýnd flokksins verði harðari án hennar innanborðs.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2007 | 19:46
Spennandi leikur á morgun
Það stefnir í spennandi leik á morgun - leik um sæti í undanúrslitum á HM í handbolta í Þýskalandi. Nú eru það Danirnir. Það er ekkert útilokað í þessum leik og við eigum góða möguleika á að ná sigri, sem myndi færa okkur góða stöðu. Það yrði mjög öflugt næðum við sigri, enda bjuggust ekki allir landsmenn við svona góðum árangri hjá liðinu.
Danir vita að liðið okkar er til alls líklegt eins og staða mála sýnir okkur í gegnum mótið allt. Því er þetta mat danska handboltasérfræðingsins mjög gott og raunsætt vissulega. En leikurinn verður væntanlega mikið dúndur og greinilegt að bæði lið ætla að selja sig dýrt.
Við hér heima vonum það besta og auðvitað spáum við liðinu okkar sigri, enda er sigur eðlilegt markmið í stöðunni. Íslenska liðið hefur náð góðri stöðu á mótinu og meira hægt en komið er.
![]() |
HM: Fyrrum Framarinn Per Skaarup hrósar íslenska liðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2007 | 16:17
Margrét yfirgefur Frjálslynda flokkinn

Mikið hefur verið talað um það síðustu dagana hvort að Margrét fylki liði með Ómari Ragnarssyni og hægri grænum með Framtíðarlandinu - til sögunnar komi ný pólitísk hreyfing í umhverfismálum. Það blasir við að eitthvað slíkt er í burðarliðnum. Ennfremur hefur verið ljóst að tekin hafa verið frá sæti fyrir Margréti á listum vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Til dæmis hafa listar VG í borginni og Norðvesturkjördæmi ekki enn verið frágengnir og listar Samfylkingarinnar í Reykjavikurkjördæmunum sömuleiðis. Talið er þó ólíklegt að hún fylki liði með þeim.
Búast má við kraftmiklum fundi í herráði Margrétar Sverrisdóttur síðdegis. Hún hefur tekið ákvörðun og öllum ljóst að það er stór ákvörðun. Það verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif ákvörðun Margrétar mun hafa á kaffibandalagið, sem í raun virðist dauðadæmt endanlega eftir áhersluskerpu Frjálslyndra og formanns þeirra í innflytjendamálum á landsþingi flokksins.
Það verður ekki lognmolla í stjórnmálum á næstunni. Búast má við að pólitísk vistaskipti Margrétar Sverrisdóttur og stuðningsmanna hennar kalli á mikla umræðu og pólitískar pælingar um það sem koma skal hjá því afli, en fari Margrét mun F-listinn í borgarstjórn ekki hafa neina tengingu við Frjálslynda flokkinn. Það eru því tíðindi framundan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.1.2007 | 15:10
100.000 gestir á bloggvefnum
Fyrir stundu kom 100.000 gesturinn hingað á bloggvefinn minn. Þetta eru vissulega nokkuð ánægjuleg og góð tímamót fyrir mig og vefinn, sem verið hefur hér á Moggablogginu í rúma fjóra mánuði. Ég byrjaði að skrifa hér þann 18. september sl. og hef haft mjög gaman af þessu. Það hefur allavega verið um nóg að skrifa þessa mánuði hérna.
Ég vil þakka ykkur sem hingað lítið kærlega fyrir að líta í heimsókn á vefinn þennan tíma og þakka fyrir góð samskipti og pælingar um málin. Það eru spennandi mánuðir framundan í pólitískum pælingum og nóg sem um verður að skrifa. Það verður því engin lognmolla á næstunni.
En enn og aftur kærar þakkir fyrir að lesa vefinn!
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.1.2007 | 13:03
Valgerður snuprar Ólaf Ragnar

Mér fannst það eðlilegt að svo væri gert, en þetta er vissulega mjög merkilegt inngrip. Samskipti forseta og utanríkisráðherra hafa kerfislega verið mjög góð í gegnum tíðina og sögu lýðveldisins sem spannar yfir sex áratugi. Það vita þó vissulega allir að kuldi var í samskiptum Ólafs Ragnars og Davíðs Oddssonar, meðan að sá síðarnefndi var utanríkisráðherra í rúmt ár, frá september 2004 til september 2005. Svo var brösugt á milli Ólafs Ragnars og Halldórs Ásgrímssonar fyrst eftir forsetaskiptin 1996, en sá fyrrnefndi gerði ýmislegt þá sem var ekki í samræmi við prótókollana. Halldór kvartaði yfir því hvernig Ólafur Ragnar talaði t.d. í heimsókn hans og Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur í Hvita húsið sumarið 1997.
Valgerður allavega var ekki að hika við að óska eftir útskýringum frá Bessastöðum á þessu verklagi forsetans. Nú hefur forsetaembættið gefið út yfirlýsingu þar sem segir að seta forsetans í þróunarráði Indlands sé bundin við persónu hans sjálfs en ekki við íslenska forsetaembættið. Hvernig verður það aðskilið á meðan að þessi maður gegnir embættinu? Er nema vona að spurt sé. Mun forsetembættið væntanlega senda ráðuneytinu einhverjar skriflegar útskýringar. Varla þetta neitt mál, en þetta er fróðlegt í ljósi þess hversu jafnan hefur verið settlegt yfir samskiptum forseta og utanríkisráðherra í lýðveldissögunni.
Varla hefur þetta þó áhrif á samskipti þeirra sem gegna embættunum. Eins og sést á myndinni fór vel á með þeim við athöfn í Kárahnjúkavirkjun fyrir tæpu ári er forsetinn lagði hornstein að þessari miklu framkvæmd. Valgerður kaus forsetann í kosningunum 2004 er 20% kjósenda sem mættu á kjörstað skiluðu auðu svo ekki er átakanlega kalt á milli þeirra. En þessi tíðindi vekja þó vissulega athygli.
![]() |
Seta í indversku þróunarráði bundin við persónu Ólafs Ragnars |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.1.2007 | 01:31
Vonbrigði Jóns Baldvins
Vonbrigði flokksmanna eru að brjótast fram af krafti þessa dagana. Það er skiljanlegt, flokkurinn virðist enda heillum horfinn, með talsvert minna fylgi nú en á sama tímapunkti fyrir fjórum árum með núverandi formann flokksins sem sérstakt forsætisráðherraefni við hlið þáverandi formanns, frægt leiðtogatvíeyki sem síðar tókst á um formennskuna með snörpum hætti. Þá þótti formaðurinn sterkt leiðtogaefni en pólitísk staða hennar hefur veikst umtalsvert eftir því sem liðið hefur á kjörtímabil. Deilt er um afrek hennar sem formanns. Staða flokksins nú er erfið, sé litið á það að kosningar eru eftir aðeins 100 daga.
Það er skiljanlegt að Jón Baldvin sé innilega vonsvikinn með stöðu mála. Jón Baldvin hélt, að því er virðist, í pólitíska útlegð fyrir áratug, umfram allt til að liðka til fyrir stofnun Samfylkingarinnar. Hann varð sendiherra á erlendri grund. Talað var um þingframboð hans þrátt fyrir það í nafni flokksins í aðdraganda kosninganna 2003 og aftur nú við þingkosningarnar 2007. Það hlýtur að vera honum áfall að Samfylkingin sé ekki öflugri nú þegar að hann snýr aftur heim. Það virðist ekki þurfa minna en pólitískt kraftaverk til að skila flokknum og formanni hans heilum í höfn með vori.
Það skynjar enda Jón Baldvin og því eru vonbrigði hans skiljanlegri en ella. Hann virðist mjög ósáttur við framboðslista flokksins. Lítil endurnýjun varð; utan þess að nýjir kjördæmaleiðtogar án þingreynslu komu til sögunnar í Norðvestri og Kraganum. Ekki virðist JBH vera ánægður með liðsheildina sem að ISG heldur með til kosninganna og greinilega ósáttur með ásýnd flokksins. Vangaveltur hans um það hver sé talsmaður flokksins í efnahagsmálum voru mjög merkilegar og tók ég sérstaklega eftir því. Er það nema von að hann spyrji sig þeirrar spurningar.
Sérstaklega var merkilegt að hann viðraði möguleikann á nýjum flokki - hann var greinilega hundóánægður með Samfylkinguna og það sem þar er að gerast og eru hugmyndir hans um nýtt framboð sérstaklega athyglisverðar. Nefndi hann til sögunnar fjölda fólks sem orðað hefur verið við framboð. Svona einskonar all stars framboð á vinstrivængnum. Merkilegar pælingar.
Er kannski JBH að leggja drög að pólitískri endurkomu af versíón dr. Gunnars Thoroddsens, pólitíska leiksnillingsins sem sneri aftur úr pólitískri kyrrþey á gamals aldri og varð Nestor íslenskra stjórnmála um árabil eftir fyrri pólitísk endalok? Hann stóð á sjötugu er hann varð forsætisráðherra, elstur íslenskra stjórnmálamanna. Tja, það er ekki nema von að spurt sé.
Hann virðist allavega gefa skýr skilaboð um að hann vilji ekki sökkva til botns með pólitískum ferli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, svo mikið er víst. Skilaboðin virðast skýr - hann var hvass, reiður og innilega vonsvikinn allt í senn. Það er eitthvað mikið greinilega verið að pæla þarna úti í sveit hjá þeim mætu kratahjónum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)