Styttist í bæjarstjóraskipti á Akureyri

Sigrún Björk Jakobsdóttir Sigrún Björk Jakobsdóttir tekur við embætti bæjarstjóra á Akureyri á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag af Kristjáni Þór Júlíussyni, sem gegnt hefur embættinu í níu ár. Hún verður fyrsta konan sem tekur við embættinu og tíundi bæjarstjórinn í sögu Akureyrarkaupstaðar. Með þessum breytingum verður Sigrún Björk leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akureyrar, en Kristján Þór verður forseti bæjarstjórnar, en mun ekki taka sæti í nefndum hjá bænum.

Það er óhætt að segja að bæjarstjóraskiptin marki tímamót fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri. Með nýjum leiðtoga koma eflaust nýir tímar. Sigrún Björk vann annað sætið í prófkjöri flokksins í febrúar í fyrra og hlaut ein bindandi kosningu þar, utan Kristjáns Þórs. Hún hefur setið í bæjarstjórn í fimm ár og verið áberandi í nefndastarfi fyrir bæinn, sérstaklega í menningarmálanefnd, sem varð Akureyrarstofa í uppstokkun nýs meirihluta á nefndum á síðasta ári. Elín Margrét Hallgrímsdóttir tekur nú við þeirri öflugu nefnd.

Kristján Þór hefur verið áberandi sem bæjarstjóri í þau níu ár sem hann hefur gegnt embættinu og í þeim þrem kosningum sem hann hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn í hér í bænum frá árinu 1998. Bæjarstjóraferill hans hefur verið tími framkvæmda og er þar yfir margt að fara. Í síðasta nýársávarpi sínu sem bæjarstjóri fór Kristján Þór yfir þau verk sem meirihlutar undir forystu hans á þessum tíma hefur staðið fyrir og var það löng upptalning framkvæmda og verkefna. Það eru tímamót að hann yfirgefi bæjarstjóraembættið og markar umfram allt breytingar fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér.

Það er þegar vitað er Sigrún Björk tekur við embætti bæjarstjóra að hún hefur vissan tíma til verka, ef meirihlutinn situr þ.e.a.s. út kjörtímabilið. Samið var um það eftir bæjarstjórnarkosningarnar á síðasta ári í meirihlutasamningi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að Sjálfstæðisflokkurinn hefði embættið fram til sumarsins 2009 en Samfylkingin hefði síðasta árið fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 2010.

Nú tekur það verkefni við fyrir Sigrúnu Björk að gera embættið að sínu og sýna með því hver styrkur hennar sem stjórnmálamanns er í raun og veru. Hún hefur verið þekkt fyrir það í okkar hópi að vera vinnusöm og dugleg og nýtur þeirra kosta er hún heldur í þetta verkefni er Kristján Þór færir sig yfir í verkefnin á kjördæmavísu.

DV lofar góðu

DV Ég fór áðan í Nettó til að versla í helgarmatinn. Í biðröðinni áleiðis að kassanum sá ég nýtt DV, undir ritstjórn Sigurjóns M. Egilssonar. Leit ég á blaðið og fór aðeins yfir. Leist mjög vel á útkomuna lauslega séð. Þarna voru ágætis fréttaskýringar og umfjallanir og viðtalið við ríkisröddina yndislegu, Ragnheiði Ástu Pétursdóttur, lofar mjög góðu.

Ég hef heyrt að Sigurjón ætli sér að víkja af braut þeirrar "blaðamennsku" sem fékk náðarhöggið í uppreisn almennings gegn blaðinu fyrir nákvæmlega ári, sem var söguleg vika í huga allra þeirra sem með einum eða öðrum snerta dagblöð hérlendis, hvort sem það eru blaðamenn eða þeir sem lesa blöðin yfir heitum kaffibolla eða skál af mjólkurblautum kornflögum.

Er það gott að þetta blað verði endurreist sem DV fyrri tíma, eins og það var t.d. á tíunda áratugnum; heiðarleg en ábyrg pressa sem þorir að fara lengra, en ekki of langt. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig þessi endurreisn þeirrar týpu af DV muni ganga næstu vikur og mánuði. En mér finnst þessi týpa lofa góðu.

Að deyja einn og yfirgefinn

Kross Það hlýtur að vera ömurlegt hlutskipti að vera einn og yfirgefinn á dauðastundinni. Maður einhvern veginn fyllist dapurleika og máttleysi við að lesa fréttir af því að fólk finnist eftir að hafa verið látið í vikur jafnvel. Þetta er oftast nær fólk sem á enga að og lifir eitt sínu lifi, og deyr eitt skiljanlega. Mér finnst það einhvernveginn vera mikilvægt að fólk eigi einhverja að og geti lifað glatt við sitt og hafi notalegan félagsskap í gegnum lífið.

Það er skelfilegt að skynja það að til er fólk í samfélaginu okkar sem er eitt og yfirgefið og deyr án þess að eiga engan að. Sérstaklega finnst mér það dapurlegt að fólk sé látið í íbúð sinni nær alla jólahátíðina og enginn verði var við neitt. Er kærleikurinn og ástúðin í þessu samfélagi að gufa upp? Það er stórt spurt, en oft verður fátt um svör. Mér finnst þetta staðfesta breytingar á samfélaginu. Við erum orðin of upptekin af okkur sjálfum til að gefa okkur.

Ég upplifði það fyrir nokkru að maður sem var vinur fjölskyldunnar dó einn og yfirgefinn og hafði verið látinn í nokkra daga áður en hann fannst. Það er dapurlegra en orð fá lýst. En þegar að fólk býr eitt getur svona nokkuð virkilega gerst, það er það sorglega við það. En þegar að fólk hefur verið látið jafnvel í mánuð án þess að nokkur taki eftir því er ljóst að eitthvað er að. Það er svo sorglegt að maður á engin orð yfir það í raun.

Við verðum að hugsa um hvert samfélagið stefnir, enda er svona nokkuð varla eðlilegt í raun.

mbl.is Öldruð kona fannst látin í íbúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverful gæfa frægðarinnar

Magni Frægðin getur verið hverful og lýjandi til lengdar. Það eru stór tíðindi að heyra af sambandsslitum Magna Ásgeirssonar og Eyrúnar Haraldsdóttur. Fyrir nokkrum mánuðum virtist gæfan og gleðin blasa við. Það er greinilegt að frægðin sem fylgdi ævintýrinu miklu hefur verið erfið fyrir samband þeirra og þau vaxið frá hvoru öðru. Þetta var mikið ævintýri sem Magni átti í fyrra en það er sorglegt ef að það leiðir til þess að líf hans breytist með þessum hætti.

Ég hef oft litið svo á að frægðin geti verið ágæt um stundarsakir, en hún verði íþyngjandi og erfið þegar að frá líður. Þungi hennar verður mikill, ekki síst á þá sem nærri standa. Það vill oft verða svo að þunginn sligar það sem stendur næst. Þetta sjáum við á hverjum degi hjá Hollywood-stjörnum og rokkgoðum sem leggja hamingju hversdagsins undir fyrir frægðina og lifa í nafni hennar en ekki fyrir sig og sína. Þetta er þungur fylgifiskur athyglinnar sem frægðinni fylgir.

Það er leitt að strax eru komnar upp einhverjar kjaftasögur um Magna og hitt og þetta tengt þessum sambandsslitum. Það er víst segin saga með Íslendinga að Gróa á Leiti býr í hugum margra. En þetta er leiðinlegt mál. DV á heiður skilinn fyrir að hafa ekki slegið þessu upp á forsíðu og gert þetta með heiðarlegum hætti gagnvart þeim sem hlut eiga að máli miðað við aðstæður. En kannski sjáum við þarna endanlega fyrrnefnda táknmynd frægðarinnar sjást vel. Það þarf sterk bein til að þola góða daga og ekki síður hina vondu.

mbl.is Magni mætir ekki í Molann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband