Lítilfjörlegir spjallheimar barnalands

Computer geek Ég ákvað að líta í dag á spjallsíðuna Barnaland og lesa umræðuna sem þar hafði verið í gangi um sambandsslit Magna Ásgeirssonar og það sem þar hafði verið rætt, eftir að ég las fréttir í gær um umræðuna þar. Mér fannst nokkuð merkilegt að fara yfir umræðuna sem þar var í gangi. Það var orðið nokkuð um liðið frá því að ég hafði lesið skrifin og sá að lítið var breytt í þeim efnum frá því að ég gerði mér netferð þangað síðast.

Það leikur lítill vafi á því að heiti vefsins er mikið rangnefni á þeim vettvangi. Að spjallvefur með svona yfirbragð og innihald gangi undir heitinu barnaland er þónokkuð umhugsunarefni. Það þarf ekki sérfræðing í netmálum til að finnast lítið til um umræðurnar þar koma og í raun merkilegt að spjallvefurinn gangi enn eftir allan þennan tíma og umræðuna um innihald hans undir þessu nafni. Spjallvettvangur Barnalands hefur lengi verið umdeildur og breyta þessi skrif um Magna og einkalíf hans engu þar um svosem, það hefur lítið batnað yfir þar í gegnum tímans rás.

Spjallvefir af þessu tagi eru annars oft athyglisverður vettvangur umræðu á netinu. Ég hef fylgst lengi með spjallvefunum og var til nokkurs tíma virkur notandi þeirra. Ég skrifaði bæði á innherjavefinn og málefnin.com um tíma, en lít orðið einu sinni til tvisvar á dag (hámark) á málefnin. Það er oft ágæt umræða svosem þar, sumir kunna þá list að geta skrifað yfirvegað og farið yfir málin undir nafnleynd. Mun fleirum er það ekki nógu tamt og úr vill æði oft verða níð og rógur um nafngreint fólk og almennt skítkast. Það er fylgifiskur umræðu af þessu tagi því miður, og hefur sá menningarheimur ekki batnað mikið að mínu mati. Það er eins og það er bara eflaust.

Mér finnst margt á barnalandi vera frekar lítilfjörlegt. Margt af því skýrir sig sjálft þegar að spjallsvæðið þar er skoðað. Þessi umræða um einkalíf Magna er ekki stóra málið svosem sem vakið hefur þar athygli, mörg önnur dæmi eru til staðar. Það væri eflaust verðugt verkefni fyrir einhvern sérfræðinginn að rannsaka þetta umræðusamfélag. Nafnleynd er vissulega fróðlegt fyrirbæri og hvernig fólk hegðar sér undir henni er oft á tíðum með ólíkindum. Það þekkja þeir best sem lesið hafa spjallvefi hvernig fólk getur gengið of langt í umræðu með þeim hætti. Það býr oft margt í myrkrinu.

Eflaust er hægt að segja miklu meira um spjallvefi. Ég hef aldrei legið á skoðunum mínum um spjallvefi og stöðu þeirra, einkum innviði þeirra, og flestum ættu þær skoðanir að vera kunnar. Kannski maður skrifi meira um þetta síðar.

Afleitt upphaf sænskra hægrimanna við völd

Fredrik Reinfeldt Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst sænsku borgaraöflin hafa farið illa af stað við völd eftir að þau fengu hið gullna tækifæri eftir þingkosningarnar í september. Eftir tólf ára stjórnarandstöðu bjóst maður við miklu frá Reinfeldt og hans fólki, en mikil vonbrigði einkenna stöðu mála. Skandalar hafa verið áberandi og fyrsta vikan var sérstaklega vond en þá hrökkluðust tveir ráðherrar; Cecilia Stegö Chilò og Maria Borelius, úr stjórninni.

Staða Carl Bildt er ekki sterk þessa dagana. Hann virðist fastur í viðjar hneykslismáls og stefna hratt niður á við. Nýjustu fréttir um að hann hafi misst stjórn á skapi sínu í viðtali boðar ekki neitt gott, hvorki fyrir hann né sænsku ríkisstjórnina. Ég persónulega batt miklar vonir við endurkomu Bildt í sænsk stjórnmál. Hann stóð sig ágætlega sem forsætisráðherra á tíunda áratugnum og sem sáttasemjari síðar á Balkanskaganum. Hann var ídeal valkostur í embætti utanríkisráðherra. Það þurfti reyndan mann úr alþjóðastjórnmálum og mann með þekkingu í það embætti í stað Jans Eliassons.

Skv. nýjustu skoðanakönnunum hafa borgaralegu flokkarnir ekki meirihluta á bakvið sig. Það er skiljanlegt svosem eftir allan vandræðaganginn. Kosningar eru nýlega afstaðnar og enn tæp fjögur ár til kosninga. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að þau ganga fyrir sig en ég spái því að ef ekki batni verulega yfir borgaralegu flokkunum og þau fari ekki að sýna alvöru verk og sterka forystu sem þörf er á muni illa fyrir þeim fara. Byrjunin er afleit en framhaldið veltur á næstu mánuðum og hvernig þá muni ganga.

Þessi hneykslismál hafa verið gjörsamlega óverjandi og sýna mikinn siðferðisbrest, sem er ólíðandi að sé til staðar í opinberu embætti að mínu mati. Ég dreg enga dul á að þetta hefur verið vond byrjun fyrir borgaralega og stjórn þeirra, og mikið pólitískt áfall fyrir Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, sem má ekki við frekari vandræðagangi eigi ekki illa að fara fyrir honum og stjórn hans strax í upphafi.

mbl.is Bildt ógnaði sænskum fréttamanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitnar í kolunum á milli Bush og demókrata

Nancy Pelosi og George W. Bush George W. Bush hefur um þessar mundir verið við völd í Hvíta húsinu í sex ár. Á forsetaferli sínum hefur Bush forseti aðeins einu sinni beitt neitunarvaldi gegn lögum frá þinginu. Eru þónokkrir áratugir síðan að svo rólegt hefur verið á milli í samskiptum deilda Bandaríkjaþings og forseta Bandaríkjanna. Stór hluti þessa helgast af því að repúblikanar hafa ráðið báðum þingdeildum nær alla forsetatíð George W. Bush og litlar væringar því skiljanlega verið.

Nú horfir til tíðinda. Innan við vika er liðin frá því að demókratar tóku yfir völdin í báðum þingdeildum. Hin eðalrauða vinstrikona Nancy Pelosi er orðin forseti fulltrúadeildarinnar í stað hins hægláta hægrimanns Dennis Hastert og mormóninn Harry Reid frá Nevada er orðinn meirihlutaleiðtogi af hálfu demókrata í öldungadeildinni. Seint verður sagt að þau teljist til aðdáenda húsbóndans í Hvíta húsinu og nánustu pólitísku samstarfsmanna hans. Stefnir í erfiða valdasambúð stóru flokkanna næstu árin og harkaleg átök um áherslur ólíkra afla.

Eftir þingkosningarnar í nóvember töluðu Bush forseti og Pelosi mjög fagurlega um gildi náins samstarfs og þess að vinna að hag Bandaríkjanna. Fór vel á með þeim á blaðamannafundi á forsetaskrifstofunni við það tilefni. Nú þegar á reynir og valdaskiptin eru orðinn veruleiki stefnir í að lítið verði um efndir samstarfshjalsins og harkan sex verði það sem við taki. Á fyrstu viku sinni við völd í þinginu hafa demókratar rissað upp plan framkvæmda og verkefna sem lögð er lykiláhersla á. Það verður seint sagt að Bush forseti og demókratarnir verði sammála um þau verkefni og virðist aðeins tímaspursmál hvenær að upp úr muni sjóða milli þessara afla sem verða að láta sér lynda hvort annað næstu tvö árin.

Stærsti ásteitingarsteinninn verður eflaust málefni Íraks. Demókratar, undir harðskeyttri forystu Pelosi, og forsetinn tala ekki einu sinni sama tungumál í þeim efnum. Himinn og haf eru á milli áherslna. Á miðvikudag stefnir forsetinn á að kynna nýtt verkplan aðgerða og vinnulags í Írak. Stefnt er að algjörri uppstokkun. Greinilegt er að Robert Gates, nýr varnarmálaráðherra, leggur áherslu á nýja tíma þar og breyta til stöðunni. Bendir nú allt til þess að aukning herafla sé þar efst a blaði. Ekki leið á löngu frá því að þau skilaboð láku út til fjölmiðla en að Pelosi hafði sagt með hörku á brá að forsetinn fengi ekki óútfyllta ávísun til hermála í Írak.

Pelosi gerði forsetanum og repúblikönum það ljóst í viðtali á CBS í gær að vildi Bush efla herstyrk í Írak og fá meira fé til þess yrði hann að færa fyrir því gild rök og koma fyrir þingið með þau skilaboð. Má búast við að fróðlegt verði að heyra stefnuræðu forsetans, sem hann flytur senn í sameinuðum þingdeildum. Sú ræða er meginstefnuplan forseta á hverjum tíma og fylgst jafnan vel með henni. Nú verður væntanlega fylgst enn betur með áherslum hans. Á ríkisstjóraferli sínum í Texas, 1995-2000, var Bush með ríkisþingið í Texas á valdi demókrata og þurfti þá að vinna með þeim og sætta ólíkar áherslur. Það þarf hann nú að gera í Washington.

En Bush er eflaust að vakna upp við vondan draum undir lok forsetaferilsins. Tvö ár eru þar til að hann lætur af embættinu en verður allan þann tíma að sigla á milli skers og báru. Það gæti orðið mesta þolraun hans í embættinu og sú sem mest verður með fylgst. Allavega er að hitna í kolunum í Washington og ljóst að það stefnir í átakatíma. Svo gæti farið að neitunarvaldið verði senn notað í miklu mæli úr Hvíta húsinu og að kalt stríð skelli á milli valdaaflanna sem með völdin fara í þessari heimsborg valdanna.

Pólitískur lífróður Valgerðar Sverrisdóttur

Valgerður Sverrisdóttir Ef marka má nýjustu könnun Gallups á fylgi flokkanna í Norðausturkjördæmi stefnir í að kosningabaráttan hér næstu vikurnar verði pólitískur lífróður Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra. Framsókn mælist aðeins með einn þingmann inni og hefur misst tæplega 20% fylgi og þrjú þingsæti. Um helgina munu frambjóðendur í tíu efstu sæti flokksins í kjördæminu í kosningunum 12. maí verða valdir á tvöföldu kjördæmisþingi í Mývatnssveit.

Þar stefnir í miklar breytingar, enda eru tveir þingmenn; Jón Kristjánsson og Dagný Jónsdóttir að draga sig í hlé. Jón er orðinn aldursforseti þingflokks Framsóknarflokksins eftir brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar og hefur verið á þingi frá árinu 1984 en Dagný hefur aðeins setið eitt kjörtímabil á þingi og hljóta að teljast stórtíðindi að hún dragi sig í hlé eftir svo skamma þingsetu, en hún var presenteruð sem framtíðarefni flokksins hér í síðustu kosningum, eins og kunnugt er.

Valgerður Sverrisdóttir gefur ein kost á sér í fyrsta sæti framboðslistans og er örugg um sætið. Þrátt fyrir þá staðreynd vekur verulega athygli að Valgerður hefur opnað kosningaskrifstofu í göngugötunni og er þar með dagskrá alla daga og fjölda fyrirlestra um ýmis mál þessa vikuna og mikið líf og fjör. Skrifstofan er til húsa á sama stað og Kristján Þór Júlíusson, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og fráfarandi bæjarstjóri á Akureyri, var með prófkjörsskrifstofu í nóvember, í baráttu sinni við Arnbjörgu Sveinsdóttur og Þorvald Ingvarsson um það hver tæki við af Halldóri Blöndal. Ekki á Valgerður von á baráttu af því tagi.

Í síðustu kosningum vann Framsóknarflokkurinn afgerandi sigur; hlaut fjóra þingmenn og yfir 30% fylgi. Nú stefnir í afhroð, sé Gallup að mæla það sem er að gerast. Það hlýtur að valda Valgerði vonbrigðum. Hún mun veikjast mjög í sessi fái flokkurinn skell af þessu tagi. Því má líta svo á að opnun kosningaskrifstofu Valgerðar sé umfram allt leið hennar til að minna á sig á þessu svæði og reyna að peppa upp flokkinn í kjördæminu. Varla virðist veita af.

Flestir virðast hér ganga að því sem gefnu að þetta sé síðasta kosningabarátta Valgerðar og hún leggi nú allt í sölurnar fyrir gott gengi. Miklar breytingar blasa við með brotthvarfi beggja austfjarðaþingmanna Framsóknarflokksins og uppstokkun alveg augljóslega framundan á kjördæmisþinginu um helgina. En varla er verið að berjast upp á fleiri en tvö sæti nú, en væntanlega mun Birkir Jón, eini sitjandi þingmaður flokksins hér utan Valgerðar sem fer fram, hreppa það sæti.

En væntanlega telst þetta pólitískur lífróður. Valgerður hefur áður tekið slaginn og átt bæði góða og slæma daga pólitískt. Innan við ár er liðið síðan að Valgerður náði þeim sögulegum áfanga að verða utanríkisráðherra fyrst kvenna. Nú er spurning hvort að sú vegtylla verði henni sigursæl eða pólitísk bölvun sökum mikillar fjarveru erlendis.

Valgerður verður utanríkisráðherra - 10. júní 2006

Bæjarstjóraskipti - kosningabarátta að hefjast

Kristján Þór Júlíusson Kristján Þór Júlíusson lætur af embætti bæjarstjóra hér á Akureyri síðdegis á morgun á bæjarstjórnarfundi eftir níu litrík ár á þeim stóli. Hann heldur þó ekki beinlínis í sólarfrí á fjarlægum slóðum við starfslokin, heldur tekur nú við hörð kosningabarátta næstu fjóra mánuðina í Norðausturkjördæmi. Í þeirri kosningabaráttu leiðir Kristján Þór framboðslista Sjálfstæðisflokksins og tekur við leiðtogahlutverkinu af Halldóri Blöndal.

Í morgun áttust þeir nafnar Kristján Þór og Kristján L. Möller, alþingismaður, sem leiðir sem fyrr framboðslista Samfylkingarinnar hér í kjördæminu, við á Morgunvaktinni á Rás 1. Það var fróðlegt og gott spjall. Segja má að baráttan sé nú að hefjast. Meginumræðuefni þeirra við upphaf kosningabaráttunnar var nýjasta skoðanakönnun Gallups á fylgi flokkanna hér í kjördæminu og um allt land. Það var greinilegt að Kristján Möller átti þar í nokkrum vandræðum með landsfylgi Samfylkingarinnar og vildi lítið ræða þau mál.

Það er skiljanlegt að forystumenn Samfylkingarinnar vilji lítið fara yfir landsfylgi Samfylkingarinnar. Flokkurinn er minni en VG í tveim kjördæmum, jafnstór honum í einu og minnstur allra flokkanna í einu kjördæmi. Samfylkingin mælist með 15 þingsæti nú, fimm færri en í kosningunum 2003. Það er því ekki beinlínis af mörgu að státa við þessa stöðu mála fyrir þann flokk nú. Hér í Norðausturkjördæmi mælist flokkurinn minni en í síðustu kosningum en fær þó þrjá í stað tveggja þingmanna, enda mælast þeir með jöfnunarsæti kjördæmisins nú. Þó er staða Samfylkingarinnar brothætt og merkilegt að heyra í Kristjáni Möller eins og staðan er nú.

Kristján Þór var léttur í þessu viðtali og horfir greinilega bjartsýn til kosninganna. Það er ekki undarlegt við þær aðstæður að Sjálfstæðisflokkurinn mælist flokka stærstur hér og bætir miklu fylgi við sig frá kosningunum 2003, sem voru ekki góðar fyrir flokkinn hér. Að sama skapi blasir afhroð við Framsóknarflokknum, sem mælist nú aðeins með einn mann inni, ráðherrann Valgerði.

Það virðist allt benda til þess að við sjálfstæðismenn séum að stefna í góðar kosningar hér; að Ólöf Nordal sé örugg inni á þingi og menn horfi til þess að ná Þorvaldi Ingvarssyni inn á þing í þessari stöðu. Það hlýtur að vera baráttumál okkar hér á þessum fyrstu vikum baráttunnar að vinna að því að fjórir sjálfstæðismenn fari hér inn á þing. Það er lykilmál nú, tel ég.

Rannsakað hvort að Carl Bildt hafi þegið mútur

Carl Bildt Ríkissaksóknaraembættið í Svíþjóð hefur nú hafið opinbera rannsókn á viðskiptum Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, með hlutabréf í rússneska fjárfestingarfélaginu Vostok Nafta. Bildt sat í stjórn fyrirtækisins um árabil en lét af stjórnarsetu þar í október er hann varð utanríkisráðherra í stjórn borgaraflokkanna undir forsæti Fredrik Reinfeldt. Athuganir sýna að Bildt hafi fengið 50 milljónir íslenskra króna fyrir setu sína í stjórn fyrirtækisins.

Yfirvöld telja að í þeirri upphæð sé um duldar mútur að ræða, einkum þar sem þessi upphæð er ekki í samræmi við þá vinnu sem Bildt hefði væntanlega innt af hendi með venjulegri stjórnarsetu. Þetta mál hefur vofað yfir Bildt síðustu vikurnar en þessi upphæð og bakgrunnur stjórnarsetunnar almennt hefur verið umdeilt álitaefni í sænskum stjórnmálum frá því að Bildt kom aftur á vettvang sænskra stjórnmála í haust, eftir tæplega áratug utan sviðsljóss stjórnmálanna.

Carl Bildt var forsætisráðherra Svíþjóðar árin 1991-1994 í stjórn borgaraflokkanna, en hætti í stjórnmálum eftir að mistakast að fella stjórn jafnaðarmanna árið 1998 og lét öðrum eftir flokksforystuna í Moderata. Það stefnir margt í að þetta mál verði Bildt vont og eru sænskir fréttaskýrendur farnir nú að spyrja sig þeirrar spurningar hvort hann missi ráðherraembættið.

Hneykslismál hafa þjakað stjórn borgaralegu aflanna allt frá fyrsta degi, en tveir ráðherrar neyddust til að segja af sér strax í október á fyrstu valdadögunum, viðskiptaráðherrann Maria Borelius og menningarmálaráðherrann Cecilia Stegö Chilo. Báðar höfðu þær pólitíska beinagrind í skápnum sínum.

mbl.is Saksóknari rannsakar hlutabréfaviðskipti Bildts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnús Magnússon látinn

Magnús Magnússon látinnSjónvarpsmaðurinn Magnús Magnússon er látinn úr krabbameini, 77 ára að aldri. Það leikur enginn vafi á því að Magnús varð ein skærasta stjarna bresks sjónvarps fyrir þætti sína Mastermind, sem til fjölda ára voru á dagskrá BBC og nutu mikilla vinsælda. Hann fæddist í Reykjavík, en bjó nær alla ævi sína erlendis, en hann fluttist til Skotlands tæplega ársgamall.

Magnús hélt vel í íslenskrar rætur sínar og talaði íslensku vel og hélt í málið með góðum hætti. Magnús gerði fjölda þátta um Ísland og þýddi bækur, bæði Íslendingasögurnar og nokkur skáldverk Halldórs Laxness. Sérstaklega hljóta að teljast eftirminnilegir þættir hans um fornleifafræði og sögu víkinganna, en hann var mikill áhugamaður um þá tíma og sinnti vel fornri arfleifð gamalla tíma hérlendis. Hann var sannur Íslendingur.

Magnús hlaut heiðursverðlaun íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar á Edduverðlaunahátíðinni í september 2002. Áður en hann tók við verðlaununum flutti Tómas Ingi Olrich, þáv. menntamálaráðherra, langa ræðu um verk og störf Magnúsar. Það var nokkuð merkileg ræða, enda varð mér þá fyrst ljóst hversu mjög Magnús hefði haldið í ræturnar sem hann hafði hlotið í gegnum það að vera Íslendingur og verið sannur áhugamaður um málefni fortíðar og nútíðar hér heima á Íslandi.

Þakkarræða Magnúsar sem hann flutti er hann tók við þessum heiðursverðlaunum er mér í fersku minni. Hún einkenndist af hógværð hans og frásagnargleði umfram allt. Mjög skemmtileg ræða og ég á hana einhversstaðar á spólu og þarf að grafa hana upp, væri áhugavert að sjá hana aftur, svo og ræðu Tómasar Inga við þetta tilefni. Þarna talaði Magnús íslensku og fipaðist hvergi í því. Hann hélt vel í málið og aðdáunarvert hvað hann talaði fallega íslensku eftir öll þessi ár. 

Það er raunar sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur Íslendinga hversu vel hann hélt við íslenskt mál og sýndi með því vel að hann mat uppruna sinn mikils. Við lát þessa heimsfræga sjónvarpsmanns með íslensku ræturnar er okkur sennilega það fyrst og fremst efst í huga að hann var sannur Íslendingur og sýndi það alla tíð mjög vel.


mbl.is Sjónvarpsmaðurinn Magnús Magnússon látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband