Vopn og fíkniefni finnast hjá Fáfnismönnum

Sérsveitarmenn að störfum Það er óhætt að segja að lögreglan hafi komist í feitt við húsleit í félagsheimili bifhjólafélagsins Fáfnis í dag. Þar hefur verið lagt hald á vopn og fíkniefni. Verklag lögreglu er til fyrirmyndar að mínu mati. Ef vaki lék á málum þurfti að fá stöðuna fram í dagsljósið og kanna það betur. Það eru skuggahliðar á þessum bransa og greinilega margt annað gert í svona félagsskap en að þeysa á bifhjólum.

Mikið er talað um mögulega yfirvofandi komu meðlima Hells Angels hingað til lands í ellefu ára afmælishóf Fáfnis. Það eru nokkur ár síðan, sennilega fimm til sex, síðan að mikið var fjallað þá um komu fulltrúa danskra bifhjólamanna, sem hafa verið mjög umdeildir og var þeim vísað úr landi með hraði.

Mér finnst Hells Angels lítið hafa hingað að gera og fagna því að lögreglan taki á þessu máli fljótt og vel. Árangur húsleitarinnar segir allt sem segja þarf um stöðuna í þessum geira.

mbl.is Lögreglan lagði hald á vopn í félagsheimili Fáfnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörð átök borgar og bissnessmanna framundan?

OR Ef marka má yfirlýsingu stjórnar Geysis Green Energy síðdegis er von á hörðum átökum fyrirtækisins við Reykjavíkurborg vegna ákvarðana stjórnmálamanna í borgarráði Reykjavíkurborgar í dag. Þeir telja bæði tuttugu ára einkaréttarsamninginn og samrunann sem slíkan enn í fullu gildi þó pólitískt munaðarlaus ákvörðun fyrrverandi borgarstjórnarmeirihluta hafi verið felld úr gildi. Aldrei var meirihluti í borgarstjórn fyrir samrunanum.

Það gæti verið mjög stórt og mikið mál framundan. Tíðindi dagsins hafa verið óvænt fyrir suma en aðrir fagna. Í heildina held ég allir fagni að tekið var á þessum málum af hálfu hinna kjörnu fulltrúa, að þeirra skoðun á málinu kæmi fram loksins. Það var ljóst frá fyrsta degi að engin sátt var við samrunann innan Sjálfstæðisflokksins og fyrri meirihluti sprakk á málinu, öllum hliðum þess. Aldrei var séð að sátt yrði heldur innan nýs meirihluta með verklagið og ákvarðanirnar.

Það er ljóst að þessu máli er fjarri því lokið. Línur hafa þó skýrst. Hið pólitíska vald í Reykjavík hefur talað. Það virðist vera nær algjör samstaða kjörinna fulltrúa að þessi samruni sé út úr kortinu við allar aðstæður sem uppi eru. Er með ólíkindum að farið var af stað í málið með svo lélegum hætti sem fyrri meirihluti gerði og áhugavert að sjá hvaða áhrif það verklag hafi er yfir lýkur.

mbl.is Geysir Green segir samninga vera fullgilda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Ingi barinn til hlýðni í nýja meirihlutanum

Björn Ingi Hrafnsson Svo virðist vera sem að Björn Ingi Hrafnsson hafi verið tuskaður til í nýja vinstrimeirihlutanum og hafi orðið undir fyrir vilja Svandísar Svavarsdóttur. Fyrst varð hann að víkja úr starfshópnum margumtalaða og nú er samruni REI og GGE úr sögunni með ákvörðun borgarráðs. Málið er komið á byrjunarreit og þær ákvarðanir sem Björn Ingi barðist fyrir að haldið yrði til streitu hafa verið ómerktar. Eftir stendur hreint borð og vonandi nýr grunnur í öllu málinu.

Eftir stendur að Svandís hefur sigur í málinu og Framsóknarflokkurinn hefur orðið að lúffa. Það er athyglisverður sigur fyrir þessa vonarstjörnu vinstri grænna. Það er svosem ekki óeðlilegt að litið sé á niðurstöðuna sem ósigur Björns Inga. Hann barðist mjög fyrir sinni hlið málsins og valdi frekar að sprengja meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks en að beygja sig undir breytta stefnu í REI-málinu. Nú á að taka Orkuveituna fyrir í stjórnsýsluúttekt og samruninn heyrir sögunni til.

Björn Ingi er í þeirri stöðu að vera innilokaður pólitískt. Nýr vinstrimeirihluti er endastöð hans í því pólitíska tafli sem er í borgarstjórn. Það færir Degi B. Eggertssyni, Margréti Sverrisdóttur og Svandísi Svavarsdóttur öflug tromp. Öllum er enda ljóst að aldrei framar verður talað um samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borginni meðan að Björn Ingi leiðir Framsókn. Þarna er óbrúanleg gjá milli aðila.

Þessi gjá gerir það að verkum að vinstrileiðtogarnir geta tuskað Björn Inga til, jafnáberandi og raun ber vitni í dag. Þetta gefur vonandi fyrirheit um framhaldið og valdaminni Framsókn í borginni, þar sem hún þarf að éta ofan í sig sín fyrri stóru orð við slit fyrri meirihluta.

mbl.is Björn Ingi: Alls ekkert skipbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samruna hafnað - skynsamlega tekið á málunum

ORÞað er jákvæð niðurstaða að samruna REI og GGE hafi verið hafnað af borgarráði og þar með sé málið sett á byrjunarreit. Þetta er hið eina rétta fyrsta skref til að vinna úr þeim erfiðu flækjum sem mynduðust í REI-málinu síðustu vikurnar. Nauðsynlegt er að fara ofan í saumana á öllum þáttum málsins, jákvætt er að stjórnsýsluúttekt verði gerð á Orkuveitu Reykjavíkur, enda ljóst að margt hefur þar farið úrskeiðis og samstarf embættismanna og stjórnmálamanna verið mjög ábótavant á þeim vettvangi.

REI-málið var eitt klúður frá upphafi til enda. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hélt illa á málum og úr varð risavaxið pólitískt klúður sem lyktaði af mikilli spillingu. Í því áttu sér stað ákvarðanir sem ekki var hægt að una við og því er það auðvitað mjög ánægjulegt að bakkað verði með samrunann, einkaréttarsamningarnir blásnir af með áberandi hætti og farið ofan í saumana á vinnuferlum í Orkuveitu Reykjavíkur. Það virkar á fólk sem svo að þar vinni menn eins og fyrirtækið sé ríki í ríkinu, sem lúti ekki ákvörðunum borgaryfirvalda. Það þarf að taka af skarið og bæta úr því.

Heilt yfir er ég ánægður með fyrstu skref þessa starfshóps. Margir voru í heildina mjög efins um að þar yrði þorað að taka á erfiðum málum og reyna að þoka málum fram á við, leiðrétta ruglið og reyna að laga það sem aflaga fór í þessu REI-máli á vakt fyrri meirihluta. Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi, hefur með þessu sýnt að hún ætlar ekki að éta ofan í sig þetta mál og ætlar að taka á því. Eða ég vona það. Þessi fyrstu verk gefa manni von um að tekið verði á hinu ranga og unnið úr vandanum.

Stjórnmálamenn verða að vera með það öflugt bein í nefinu að þora að taka svona stórar ákvarðanir. Heilt yfir er vonandi að tekið verði á þeim vanda sem til staðar er, horfast í augu við mistökin sem gerð voru og laga þau til þess sem eðlilegt á að vera. Þetta skref borgaryfirvalda hlýtur að teljast jákvætt fyrsta skref á þeirri vegferð.


mbl.is Borgarráð samþykkir að hafna samruna REI og Geysis Green
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nektin selur

Það er ekki hægt að segja annað en að nektin selji í nútímasamfélaginu sem við lifum í. Það þarf ekki að horfa lengi í kringum sig í blöðum, á netinu og sjónvarpi... eða mörgum öðrum þáttum til að sjá það. Tímarnir eru afgerandi og boðskapurinn er það líka. Hilmir Snær Guðnason er orðinn þekktur fyrir nektina og hann hefur því ekki beint fetað í fótspor Egils Ólafssonar, í laginu Slá í gegn, sem söng um að hann myndi gera allt fyrir frægðina nema að koma nakinn fram. Hann hefur þorað að sýna allt í kvikmyndum og á sviði og hikar ekki beint.

Nekt er líka orðin meira áberandi í kvikmyndum og leikhúsi. Öll höfum við sennilega upplifað það að með einhverjum hætti er haldið á þær brautir. Ekki er langt síðan að við sáum alþjóðakynningu á leikriti, bresku leikriti meira að segja. Þar var nekt grunnþema í kynningu. Aðalleikarinn gerði Harry Potter ljóslifandi á hvíta tjaldinu fyrir tæpum áratug. Það þarf sennilega varla að taka það fram að með kynningarmyndunum einum var tryggð metaðsókn á verkið. Það blasti bara við öllum, þurfti ekkert að ræða það neitt meira.

Fyrir áratug var leikritið Blue Room kynnt með nektinni. Í verkinu sem sýnt var í London var nekt grunnurinn og aðalleikkonan var Nicole Kidman, sem síðar hlaut óskarsverðlaunin fyrir The Hours og er ein vinsælasta leikkona sinnar kynslóðar. Leikritið sem slíkt féll í skuggann. Þið megið geta þrisvar hvað stóð mest eftir sýninguna. Fyrir nokkrum árum var svo The Graduate sýnt í London líka. Vita nú allir um hvað það snýst eftir myndina guðdómlegu frá 1967 með Dustin Hoffman og Anne Bancroft. Allir vita líka hvað vakti mesta athygli í sviðsuppfærslunni.

En er þetta kannski bara tákn tímans? Það hefur sjálfsagt hver og einn sína skoðun, sína sýn á það. En þetta vekur athygli.

mbl.is Hilmir Snær nakinn í kvikmyndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andrea Bocelli á Íslandi - frábær listamaður

Andrea Bocelli Ítalski tenórsöngvarinn Andrea Bocelli er einn besti söngvari sinnar kynslóðar og hefur sannað með undurljúfum söng sínum síðustu árin að hann er einna bestur í sínum flokki á tónleikum með aðdáendum sínum. Hann söng í kvöld í Egilshöll og sló þar enn og aftur í gegn. Allt frá því að ég heyrði fyrst í Bocelli fyrst fyrir rúmum áratug hef ég dáðst af sviðsframkomu hans og karakternum. Sem söngvari er hann yndislega góður.

Það var leiðinlegt að geta ekki farið á tónleikana hans, en það stendur þannig á að það er ekki hægt. Ef hefði verið helgi hefði ég hiklaust skellt mér. Verð því að láta mér nægja tónlistardiskana með honum á cd og dvd. Það er efni sem klikkar aldrei. Þetta hefur eflaust verið tónlistarupplifun af yndislegum toga í kvöld og þeir sem þar fóru hafa eflaust farið syngjandi sælir úr Egilshöll. Hann hefur notalega nærveru sem persóna og heillar fólk með söng sínum.

Andrea Bocelli hefur sömu náðargjöfina og meistari Luciano Pavarotti. Báðir snerta þeir streng í brjósti þeirra sem hlusta á tónlist - syngja frá hjartanu og eru einlægir í túlkun sinni. Báðir eru þeir alþjóðlegir söngvarar sem hrífa fólk með sér. Hann er að mínu mati einn allra besti tenórsöngvari í heiminum eftir að Pavarotti skildi við, hefur sömu stöðu fyrir nútímann og Pavarotti hafði áður að mjög mörgu leyti.

Eitt besta lag tónlistarferils Bocelli, Time to Say Goodbye, dúett með Söruh Brightman, er í tónlistarspilaranum hér á síðunni. Eitt af allra fallegustu lögum síðustu áratuga að mínu mati.

mbl.is Bocelli í Egilshöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband