The Queen og Helen Mirren blómstra á Bafta

Helen Mirren í The QueenVar að enda við að horfa á afhendingu bresku Bafta-kvikmyndaverðlaunanna í London. Það kom engum að óvörum að kvikmyndin The Queen og aðalleikkonan Helen Mirren hafi verið í aðalhlutverki þar að þessu sinni. Myndin var valin sú besta þetta árið og Mirren besta leikkonan og þykir nær öruggt að hún muni hljóta óskarsverðlaunin í Los Angeles eftir hálfan mánuð. Myndin hefur hlotið mikið lof og verið í forgrunni breskra mynda síðasta árið.

Í The Queen fer Mirren algjörlega á kostum í túlkun sinni á Elísabetu II Englandsdrottningu. Sögusvið myndarinnar eru hinir örlagaríku dagar fyrir bresku konungsfjölskylduna í september 1997 í kjölfar andláts Díönu, prinsessu af Wales, í bílslysi í París þar til að drottningin varð að víkja af leið sinni og votta prinsessunni hinstu virðingu sína í sögulegu ávarpi til bresku þjóðarinnar frá Buckingham-höll tæpum sólarhring fyrir útför hennar. Þessir dagar voru áhrifaríkir fyrir drottninguna, sem mætti þá í fyrsta skipti alvöru mótspyrnu landsmanna, sem vildi að hún sýndi minningu Díönu virðingu. Þessa daga stefndi konungsfjölskyldan í sögulega glötun en náði að snúa atburðarásinni við með að mæta þjóð í sorg.

Það er ljóst að myndin er mikils metin ennfremur utan Bretlands. Hún lýsir atburðum sem mörkuðu ekki aðeins breska sögu og eina eftirminnilegustu þjóðarsorg í seinni tíma sögu heldur var dauði prinsessunnar alheimsviðburður. Það er enginn vafi á því í mínum huga að þarna er lýst einum sviplegasta atburði tíunda áratugarins í Bretlandi og víðsvegar í hinum vestræna heimi. Sigurganga myndarinnar segir enda sína sögu um hversu mikils hún er metin. The Queen er tilnefnd sem besta kvikmynd ársins 2006 á óskarsverðlaununum og er reyndar varla talin sigurstrangleg þar, en tilnefning hennar umfram mynd á borð við t.d. Dreamgirls segir sína sögu.

Hálfur mánuður er í afhendingu Óskarsverðlaunanna eins og fyrr segir. Bafta er nú orðinn einn helsti megináfanginn í áttina að Óskarnum, sem hafa í áratugi verið fremstu kvikmyndaverðlaunin á heimsvísu. Bafta skipta meira máli eftir að þau voru færð til og umbúnaður þeirra verður sífellt meiri með hverju árinu. Þessi verðlaunaafhending í kvöld marka endanlega sigurgöngu Helen Mirren í áttina að Óskarnum. Í kvöld hlaut Forest Whitaker Bafta-verðlaunin fyrir túlkun sína á Idi Amin í The Last King of Scotland og þykir orðið nær öruggt að hann muni fá óskarinn. Sama má segja um nýstirnið Jennifer Hudson sem hlaut verðlaunin fyrir Dreamgirls.

Mikla athygli mína vakti að Paul Greengrass hlaut verðskuldað leikstjóraverðlaunin fyrir United 93, þar sem lýst er með ógleymanlegum hætti sögu flugs 93, sem var rænt á leiðinni frá New York til San Fransisco 11. september 2001 og átti að verða skotmark hryðjuverkamanna. Með miklu hugrekki og krafti tókst farþegum vélarinnar að yfirbuga flugræningjana og taka yfir vélina. Það var þó of seint en flugræningjarnir stefndu vélinni í glötun er ljóst var að flugránið var farið út um þúfur og tókst farþegunum ekki að bjarga henni. Vélin fórst kl. 10:02 er hún steyptist niður á tún í Shanksville í Pennsylvaníu, eina vélin sem ekki flaug á skotmark. Eftirminnileg mynd.

Alan Arkin hlaut verðlaunin fyrir leik í aukahlutverki fyrir Little Miss Sunshine, góð leikframmistaða og svo sannarlega tilefni til að heiðra leiksnillinginn Arkin fyrir flotta túlkun á hausti leikferils hans. Auk þess hlaut Little Miss Sunshine verðlaunin fyrir besta frumsamda handritið og The Last King of Scotland fyrir besta handritið byggt á áður útgefnu efni. Það er allavega að styttast í Óskarinn og þetta gefur einhverjar vísbendingar, þó vissulega hafi Bretarnir ekki alltaf verðlaunað í takt við Óskarinn að þá er þetta innlegg í spádómana og pælingarnar um hvað gerist í LA eftir hálfan mánuð.

Bendi annars á góða samantekt BBC um Bafta-verðlaunin 2007.


Hvítþvegið einræðislýðræði í Túrkmenistan

Túrkmenabashi Eftirmaður einræðisherrans Saparamurat Niyazov á forsetastóli í Túrkmenistan var kjörinn í dag. Úrslit liggja fyrir á miðvikudag. Niyazov sem ríkti í landinu í yfir tvo áratugi lést skömmu fyrir jól en hann neyddi þjóðina til að kalla sig Túrkmenabashi (föður allra Túrkmena) en hann var forseti til lífstíðar þar og þar hafði verið fullt einræði frá endalokum Sovétríkjanna. Í ljósi þess að þetta er einræðisríki kemur varla að óvörum að æðstaráð kommúnistaflokksins þar hafi fyrirskipað hverjir máttu gefa kost á sér í forsetakjöri í dag.

Æðstaráðið valdi formlega sex frambjóðendur, sem allir koma auðvitað úr sama flokknum og eru því fylgisveinar Túrkmenabashi um að ræða. Forsetakjör hefur ekki farið fram síðan á fyrstu valdaaárum Turkmenabashi og þá var hann einn í kjöri - flokkurinn valdi forsetaefni og þjóðin hafði ekki annað val. Athyglisvert var að formaður kjörstjórnar er áberandi fylgismaður Gurbanguly Berdymukhamedov (mjög erfitt nafn í framburði), starfandi forseta, sem er einn frambjóðenda og líklegast er að hann muni verða næsti forseti.

Athyglisvert var annars í þessum kosningum að nú var frambjóðendunum sérstaklega leyft að hitta kjósendur og kynna stefnumál sín i fjölmiðlum, en það var ekkert áður sem heimilaði í lögum landsins eðlilega kosningabaráttu með kynningu á frambjóðendum með almennum hætti og það var auðvitað ekki, enda hefur ekki farið fram forsetakjör í landinu í tæpa tvo áratugi þar sem forsetinn var sjálfskipaður einræðisherra.

Niyazov ríkti í Túrkmenistan frá árinu 1985, á meðan það tilheyrði enn gömlu Sovétríkjunum. Persónudýrkun hans í nafni kommúnismans varð svo yfirþyrmandi að hann var ekki aðeins dýrkaður sem Guð væri þar og nefndur faðir allra landsmanna heldur var landið allt veggfóðrað af myndum af honum og hann var dýrkaður sem trúarleg fígúra væri.

Segja má að persónuleg dýrkun á einum dauðlegum manni hafi sjaldan verið meiri en einmitt í Túrkmenistan valdatíðar Túrkmenabasha. Það verður fróðlegt að sjá hver tekur við völdunum í svona kúguðu einræðisríki kommúnisma við þessar aðstæður sem nú eru.

mbl.is Mikil kjörsókn í forsetakosningum í Túrkmenistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýralegir heimar nútímatækninnar

Jörðin Það fer ekki á milli mála að Google Earth er mikil töframaskína. Það er ævintýralegt að kynna sér heiminn með þeim hætti sem það býður upp á. Það var alveg ótrúlegt að geta með hjálp þess zoom-að inn með gríðarlega góðum fókus á næstum því hvaða stað í heiminum sem er. Forritið byggir á kortaupplýsingum, google leitarvél og gervihnattamyndum.

Með því að mæla út þann stað sem maður vill er enda farið í nýjan tækniheim. Það er varla hægt að upplifa skemmtilegri og gagnvirkari upplifun að heimsborgunum og með þessu er hægt að kynna sér staði sem manni hefur dreymt um jafnvel um árabil að upplifa en kemst á með einum tölvusmelli. Merkilegt fannst mér t.d. að skoða pýramídana í Egyptalandi og þræða jafnvel heitustu sléttur eyðimerkanna og kuldalegar slóðir norðlægra slóða. Möguleikarnir eru endalausir.

Það er allavega ekki hægt að segja annað en fyrir þá sem dreymir um fjarlægar slóðir og upplifa nýjar hliðar heimsins sé þetta ævintýralega gaman. Þetta er enda eins og að vera kominn í rándýra og flotta Hollywood-mynd satt best að segja. Bendi öllum á að lesa fréttina hér að neðan, ein skondin saga þeirra sem upplifa nýja heima.

Ég hvet alla sem vilja skoða heiminn í nýju ljósi að upplifa þetta.

mbl.is Sá brennandi bát við Ísland á mynd á Google Earth
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartur dagur í sögu Framsóknarflokksins

Guðni og Valgerður Framsóknarflokkurinn mælist með lægsta fylgi sitt í sögu skoðanakannana hérlendis í dag. Þetta er hiklaust svartur dagur í sögu hans. Skv. könnun Fréttablaðsins er tilvera Framsóknarflokksins í raun komin í verulega hættu, það er ekki flóknara en það. Fylgi af þessu tagi og hrun af þessum skala yrði flokknum gríðarlegt áfall og sögulegt afhroð yrði það talið. Þetta er allavega söguleg mæling sem athyglisvert var að vakna upp við í dag.

Framsóknarflokkurinn mælist í þessari könnun með aðeins tvo þingmenn inni. Það er mjög freistandi að gefa sér það að það séu þau Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, sem séu að mælast inni og enn uppistandandi í þessu mikla hruni sem blasir við flokknum á þessum degi. Þetta er sláandi staða og hefði einhverntímann þótt forsíðuletursins virði með mjög dökku letri að Framsóknarflokkurinn myndi mælast með innan við 5% fylgi. Þetta er allavega nokkur frétt sé litið yfir 90 ára sögu Framsóknarflokksins, sem hefur verið flokkur valda og mikilla áhrifa í samfélaginu.

Það blasir mikið verkefni við Framsóknarflokknum næstu 90 dagana. Flokkurinn hefur mælst illa um langt skeið. Kjörtímabilið hefur nær allt verið sorgarsaga hin allra mesta fyrir flokkinn. Halldór Ásgrímsson hætti þátttöku í stjórnmálum eftir frekar dramatískan og eiginlega mun frekar sorglegan forsætisráðherraferil sem markaðist af því hvernig þessi reyndi flokksleiðtogi allt að því fjaraði út eins og lokalagið á ballinu. Halldór skilaði flokknum í hendur Jóns Sigurðssonar. Jón virðist vera með tröllvaxið verkefni fyrir framan sig og flokkurinn er í frjálsu falli. Það mun reyna mjög á pólitíska forystu Jóns næstu 90 dagana og hvernig hann siglir skipi til hafnar.

Það væri verðugt verkefni fyrir gárungana að reyna að greina hvernig að þingflokki Guðna og Valgerðar sem mælist í Fréttablaðinu gengi að vinna saman. Það yrði varla þingflokkur sem myndi dansa vangadans á rauðum rósum gleðinnar. En að öllu gamni slepptu; þetta er svartur dagur fyrir Framsókn. Ótrúlegt fylgishrun og mikill lífróður sem blasir við elsta starfandi stjórnmálaflokki þjóðarinnar og leiðtoga hans sem aðeins hefur verið á pólitíska sviðinu í níu mánuði. Nú er að duga eða drepast fyrir samvinnumanninn Jón.

Þetta verða 90 ógleymanlegir dagar í sögu Framsóknarflokksins. Kosningabaráttan er að snúast upp í pólitíska lífsbaráttu. Þvílík staða - þvílík barátta sem við flokknum blasir.


Bendi annars lesendum á skrif um Framsókn eftir nýlega Gallup-könnun sem sýndi Framsókn með sex þingsæti og mikið fall en þó mjúka fylgisdýfu miðað við stöðuna nú.

Mun Framsókn ná að rétta úr kútnum?
pistill SFS - 4. febrúar 2007

Vinstrisveifla í skoðanakönnun - Framsókn hrynur

Forsíða FréttablaðsinsSkv. skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag fengju Samfylkingin og VG þingmeirihluta, eða 33 þingsæti, og Framsóknarflokkurinn bókstaflega hrynur og mælist aðeins með tvö þingsæti, bæði á landsbyggðinni. Framsókn mælist með lægsta fylgi sitt í sögu kannana Fréttablaðsins nú og virðist stefna í sögulegt afhroð flokksins gangi hún eftir. Þetta er minnsta fylgi sem Framsóknarflokkurinn hefur nokkru sinni hlotið í skoðanakönnun.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist yfir kjörfylginu árið 2003 en hefur lækkað milli kannana. Samfylkingin bætir við sig nokkru fylgi en mælist enn undir kjörfylginu í alþingiskosningunum 2003, mælist nú með 18 þingsæti í stað 20 í síðustu kosningum. VG mælist með 15 þingsæti en fékk 5 í kosningunum fyrir fjórum árum og virðist vera að stórauka því fylgi sitt. Það mælist í öllum könnunum þessar vikurnar. Þessi könnun er sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að þessir tveir flokkar mælast með þingmeirihluta. Frjálslyndir dala nokkuð frá síðustu könnun blaðsins og mælast með fjóra þingmenn.

Könnunin var gerð í gær. Hækkandi fylgi Samfylkingarinnar kemur á þeim tíma þar sem fylgi flokksins hefur verið í frjálsu falli, en nýlega fékk flokkurinn vonda mælingu hjá Gallup og Blaðinu og síðasta Fréttablaðskönnun var flokknum vond. Ef marka má hinsvegar þessa könnun er vinstrisveifla í stöðunni en Sjálfstæðisflokkurinn er yfir kjörfylginu. Stóru tíðindin er það sem mætti kalla frjálst fall Framsóknarflokksins, allnokkur tíðindi og í raun ótrúleg staða fyrir flokk sem nýlega hefur skipt um formann en vissulega verið í ríkisstjórn í tólf ár.

Aðeins eru nokkrir dagar milli kannana Fréttablaðsins og Blaðsins. Úrtakið er svipað og svarhlutfallið er í báðum þeirra lágt. Aðeins tæp 55% tóku afstöðu til spurningarinnar um flokkana og því ljóst að margir gefa sig ekki upp. En það er allnokkur munur á mælingunni svo vægt sé til orða tekið. Enn eru tvær og hálf vika í könnun frá Gallup, en þá verður fróðlegt að sjá stöðuna, bæði eftir klofning Frjálslyndra og ekki síður nýlegar tilraunir forystu Samfylkingarinnar til að vera trúverðug.

Það stefnir svo sannarlega í spennandi þingkosningar - það eru 90 dagar í kjördag og fjörið er að hefjast á fullu. Erfitt er að spá um hvernig fer og hátt hlutfall óákveðinna sýnir það vel hversu mikil pólitísk gerjun er þessa dagana. Þetta verða líflegar og áhugaverðar kosningar, svo mikið er víst.


mbl.is Fylgi Samfylkingar eykst á ný en fylgi Framsóknarflokks í lágmarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband