Mun Framsókn ná að rétta úr kútnum?

90 ára afmæli Framsóknar fagnaðÞað er ekki ofsögum sagt að nýjasta könnun Gallups hafi verið slæm fyrir Framsóknarflokkinn; hann mælist aðeins með sex þingsæti og hefur misst helming þingflokksins og tíu prósenta fylgi frá kosningunum 2003. Bæði Jón Sigurðsson og Siv Friðleifsdóttir mælast utan þings, en eins og flestum er kunnugt tókust þau á um formennsku Framsóknarflokksins á síðasta ári þegar að Halldór Ásgrímsson hætti í stjórnmálum.

Það eru alltaf tíðindi þegar að ráðherrar og forystumenn stjórnmálaflokka mælast utan þings þrem mánuðum fyrir alþingiskosningar. Sérstaklega ef um er að ræða formann flokksins ennfremur. Jón Sigurðsson virðist í sömu vandræðunum á þessum tímapunkti fyrir kosningar og Halldór Ásgrímsson fyrir kosningarnar 2003. Hann færði sig í borgina fyrir þær kosningar, sem urðu hans síðustu á stjórnmálaferlinum, eftir að hafa verið þingmaður Austfirðinga í þrjá áratugi. Honum tókst hægt og rólega að byggja upp fylgið þar og komst inn að lokum við annan mann, Árna Magnússon.

Á þessum tímapunkti blasir erfið kosningabarátta við Framsóknarflokknum á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, mælist þar inni nú. Eins og fyrr segir er Siv ekki inni í Kraganum, þrátt fyrir að hafa verið mjög áberandi. Það er freistandi að kenna lánleysi Jóns um pólitísku reynsluleysi hans og því að hafa aðeins stigið inn á hið pólitíska svið fyrir níu mánuðum er hann varð viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Geirs Haarde, sama daginn og Halldór yfirgaf stjórnmálin. En það eitt og sér skýrir stöðuna ekki. Ef það væri skýringin á samt enn eftir að skýra út af hverju Siv er ekki að mælast inni, hún hefur enda verið þingmaður í tólf ár og ráðherra nær samfellt frá 1999.

Það blasir við að staða Framsóknarflokksins hefur versnað mjög í öllum kjördæmum landsins frá kosningunum 2003 er litið er á mælingu flokksins á landsvísu hjá Gallup. Ef könnunin yrði raunveruleiki fengi flokkurinn tvo menn í Norðaustri og Suðri og einn í Norðvestri og Reykjavík suður. Eins og fyrr segir mælist flokkurinn ekki með mann inni í Kraganum og Reykjavík norður. Það yrðu óneitanlega athyglisverð úrslit myndi Bjarni Harðarson komast í þingflokk Framsóknarflokksins frekar en þéttbýlisparið Jón og Siv. Það yrði rosalegt högg fyrir flokk og formann næði formaðurinn ekki inn.

Ég held að þetta fari eins með Jón og Björn Inga í borgarstjórnarkosningunum. Hann skreið inn svona fyrir rest. Ég sagði í prívatspjalli við góðan vin minn (ætla að voga mér að vitna í þetta tveggja manna spjall :) að Framsókn fengi átta ef kosið yrði núna; þau sex sem nefnd eru í könnuninni og auk þeirra þau Jón og Siv. Þá er enn Herdís Sæmundar utan þings af þeim sem ég veit að Framsókn leggur grunnáherslu á að ná inn. Væntanlega vilja flestir framsóknarmenn líka ná inn Sæunni Stefáns, ritara sínum, sem skipar annað sætið í R-Suðri á eftir umhverfisráðherranum. Það verður að teljast vonlítið nú. Svo má ekki gleyma skrifstofukonunni stálheppnu frá Suðurnesjum.

Framsóknarflokkurinn er níræður flokkur - gamall en þó keikur á brá. Hann stefnir væntanlega á að reyna að standa óboginn eftir þessa kosningahrinu. Flokkurinn væri dæmdur til stjórnarandstöðu fái hann skell af því kalíberi sem Gallup kynnir okkur þessa dagana. Þar er mikil varnarbarátta framundan. Stóra spurningamerkið er og verður Jón Sigurðsson, formaður flokksins. Hann hefur aldrei verið miðpunktur í kosningabaráttu áður. Val hans sem formanns var djarft að mínu mati. Annaðhvort klúðrar hann þessu eða reddar því stórt. Það verður varla mikið millibil þar.

Þegar að Jón Sigurðsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins í ágúst á síðasta ári skrifaði ég grein sem hét einfaldlega; Hver er Jón Sigurðsson? Sú spurning á enn allvel við. Mér finnst ég ekki enn vita hver þessi stjórnmálamaður sé. Mér finnst hann vera eitt stórt spurningamerki í fjölda mála - hann þarf að tala með meira áberandi hætti og vera meira afgerandi í tali og töktum. Hann hefur þó skánað frá því sem fyrst var.

En já; betur má ef duga skal. Þessari spurningu hefur víða ekki enn verið svarað og þetta verður stóra spurning framsóknarmanna í kosningabaráttunni. Fáist henni ekki svarað betur gæti Framsókn staðið eftir með formannslausan þingflokk þann 13. maí. Verður Jón áfram fái hann ekki þingsæti? Hvað gerist fari svo; munu menn kannski þá horfa til Brúnastaða með pólitíska leiðsögn í gegnum eyðimörkina? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband