Anna Nicole og fjölmiðlakapphlaupið

Anna Nicole Smith Það er að verða vika síðan að Anna Nicole Smith dó, rétt eins og hún lifði, í kastljósi fjölmiðla. Kapphlaup fjölmiðla við að kortleggja síðustu stundir og augnablik stjörnunnar þekja forsíður fjölmiðla og dekka umfjöllun fréttastöðvanna um allan heim. Um fátt meira er talað. Framboðstilkynning Barack Obama um helgina varð eiginlega í skugganum um umræðunni um ævi og örlög Önnu Nicole Smith, eins kostulegt og það hljómar.

Fréttir ganga nú um hvað hefur orðið stjörnunni að bana, ef ekki ofnotkun lyfja, og kjaftasögurnar grassera og fyllt er hiklaust í þær lausu eyður sem við blasa. Málið blæs jafnhratt út eins og 17. júní -helíumblaðra.... sem kannski flýgur út í buskann álíka hratt. Hver veit. Þetta er allt einn lærdómur um það hversu frægðin er grimmur kaleikur að öllu leyti. Það verður allavega seint sagt að frægðin hafi verið hamingjusöm í ævi þessarar ógæfusömu stjörnu.

Fréttin um að hún hefði átt í ástarsambandi við innflytjendamálaráðherrann á Bahama-eyjum og myndir af þeim dekka stórblöðin vestanhafs á þessum degi. Mikil frétt það og boðar varla gott fyrir pólitískan feril þess ráðherra og ráðandi öfl á eyjunum. Svo er barist um húsið hennar Önnu Nicole.... faðerni barnsins hennar var í vafa og allavega þrír menn, hvur veit nema þeir verði fleiri sem vilji bita af vænni köku, sem vilja kannast við barnið.

Þvílíkt mál.... hljómar alveg eins og ein af þessum dramatísku Hollywood-myndum sem sjá má í bíóhúsunum. En þetta er víst algjör alvara... með þeim allra svæsnustu líka.

mbl.is Anna Nicole í faðmlögum við ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tónlistarspilari á blogginu

Hef virkjað þann fítus að vera með tónlistarspilara hér, fínn möguleiki og gott að nýta sér hann. Hef sett inn nokkur... en mjög ólík lög. Allt lög sem mér finnst góð, hver á sinn máta. Rammstein, Botnleðja, Nirvana, Metallica, Queen, Red Hot Chili Peppers, Keane, U2, Frank Sinatra og feðginin Nat King og Natalie Cole. Fleiri bætast við síðar.

Dramatík í réttarsal

Jón Gerald og Jón Ásgeir Það hefur heldur betur gengið á ýmsu í réttarsal í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Mikil dramatík - Jóni Gerald vísað úr salnum af dómaranum, Arngrími Ísberg, á þeim forsendum að ákærðir væru ekki viðstaddir vitnaleiðslu yfir öðrum sakborningum. Jón Gerald mun eiga að koma fyrir dóminn eftir um tíu daga, en hann varð sjálfur sakborningur málsins á seinni stigum en hefur verið í miðpunkti þess frá upphafi.

Held að það sé rétt hjá mér að Baugsmálið sé fimm ára á þessu ári, þetta er orðið langvinnt mál; löng rannsókn og það hefur farið sem jójó á milli Hæstaréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur, sem eru til húsa nærri á sömu torfunni í höfuðstaðnum. Flestir fylgjast með hvernig málinu lýkur. Þessi hluti málsins stefnir í að vera harður og fróðlegt að sjá hvernig umræðan verður á meðan.

Jón Ásgeir og Ingibjörg Pálmadóttir brugðu á leik í gær og mættu til dómshúss með Bónus- og Hagkaups-innkaupapoka upp á arminn - vissulega nokkuð snjallt PR. Þó að þetta mál sé orðið langdregið í huga margra Íslendinga og mjög teygt er fylgst vel með því svo sannarlega.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist í Héraðsdómi og síðar fyrir Hæstarétti enda fer málið væntanlega þangað er á hólminn kemur.... og hvernig sem fer.

mbl.is Jóni Gerald vísað úr réttarsal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menningarhúsið á Akureyri mun fá heitið Hof

Kaka í lagi MenningarhússinsStjórn Akureyrarstofu hefur ákveðið að Menningarhúsið við Strandgötu hér á Akureyri, sem nú rís, muni hljóta heitið Hof. Það voru Aðalbjörg Sigmarsdóttir og Heimir Kristinsson sem skiluðu inn tillögu að nafninu og hafa hlotið verðlaun í tilefni þess. Þetta er virkilega fallegt og viðeigandi heiti og mjög notalegt að loks sé komið nafn við nýju menningarmiðstöðina okkar hér - sem loksins rís og löngu var orðið tímabært að kæmi til sögunnar.

Menningarhúsið verður í hjarta Akureyrarbæjar við Strandgötuna og mun verða eitt af kennileitum Akureyrar í framtíðinni. Það mun ekki fara framhjá neinum sem til bæjarins koma. Tilkoma menningarhúss verður mikill lyftistöng fyrir alla menningarstarfsemi hér á svæðinu. Markmiðið með því er auðvitað að efla til mikilla muna alla menningarstarfsemi hér. Í húsinu er ráðgert að hvers konar tónlistarflutningur verði í öndvegi en þar verði jafnframt aðstaða til annarrar fjölþættrar starfsemi svo sem fyrir ráðstefnuhald, fundi, listdans, dans, leiklist, sýningarhald og margt fleira.

Gunnur Ringsted, eiginkona Heimis Kristinssonar, annars þeirra sem áttu tillögu að nafninu Hof orti í tilefni nafngiftarinnar fallegt ljóð sem vert er að benda á hér;

Hof
Að heiman ég horfi
á húsið rísa.
Eigum þar auðgun
andans vísa,
ólgar þar eldhugans
öflug bylgja.
Hof skal það heita,
heill því fylgja.


mbl.is Menningarhús á Akureyri mun heita Hof
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ásthildur Cesil fjarlægir kjaftasöguþráðinn sinn

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, vefstjóri og ábyrgðarmaður spjallvefsins málefnin.com, hefur nú eytt kjaftasögu- og ósannindaþræði sínum þar sem hún gaf í skyn þau ósannindi að ég hefði gengið í Frjálslynda flokkinn til að vinna í haginn fyrir Margréti Sverrisdóttur. Með þessu verklagi sínu braut vefstjórinn eigin málverjaboðorð, boðorð sem virðast ekki vera fimmeyringsins virði. Það er kostulegt að fylgjast með þessu öllu saman.

Reyndar hefur viðkomandi vefstjóri ekki enn sýnt sóma sinn í að biðjast afsökunar á þessu klúðri sínu - væri hún merkilegri en þessi ómynd sem hún sýndi af sér í gærkvöldi með þessu kjaftasögublaðri myndi hún gera það. En lengi má manneskjuna reyna. Þvílík ómerkilegheit og ógeð sem tíðkast á þessum guðsvolaða spjallvef.

Ómerkileg umræða vefstjórans á málefnum

Í gærkvöldi bendi athugull lesandi mér í tölvupósti á það að í gangi væri umræða á spjallvefnum málefnin.com þar sem Ásthildur Cesil Þórðardóttir, vefstjóri og ábyrgðarmaður vefsins, kemur með kjaftasögu þess efnis að ég hefði átt að hafa gengið í Frjálslynda flokkinn til að styðja Margréti Sverrisdóttur í varaformannskjöri flokksins. Þessi saga er uppspuni með rótum, enda hef ég aldrei hitt Margréti eða talað við hana. Einu kynni mín af henni fyrir utan það að heyra af henni í fjölmiðlum er að hún er bloggvinur minn hér á þessu bloggkerfi og er ekki ein um það.

Ég verð að viðurkenna að mér misbauð þessi skrif Ásthildar Cesil og svaraði þeim á vefnum. Hefði ég væntanlega ekki kært mig um það hefði einn nafnleysingjanna komið með þessa ómerkilegu kjaftasögu. Það að vefstjórinn sjálfur komi þar inn með hvaða kjaftasögur sem er olli mér vonbrigðum. Það er greinilegt að þar hefur verið farið fram með meiri kappi en nokkru sinni forsjá. Þessi vefur er reyndar fyrir löngu orðinn brandari. Nægir þar að benda á góð skrif bloggvinkonu minnar, Jónínu Benediktsdóttur, sem hefur staðið sig mjög vel í að skrifa um þennan spjallvef.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir er landsfræg stuðningskona Frjálslyndra, hefur verið varabæjarfulltrúi þeirra á Ísafirði og er skólasystir Guðjóns Arnars Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins og mikil vinkona hans. Það verður seint sagt að hún sé óháð og virðist stjórn hennar á þessum spjallvef sem hefur fyrir löngu farið úr öskunni í eldinn ráðast mest eftir hennar behag. Svona ósannar kjaftasögur sem breiddar eru út af vefstjóra þessa vefs eru með ólíkindum og gengisfella bæði vefinn sem slíkan og vefstjórann.

Það er ekkert leyndarmál að mér er mjög illa við Frjálslynda flokkinn og hef gagnrýnt hann í áranna rás allnokkuð. Þrjú ár eru liðin síðan að varaformaður flokksins sagðist í ölæði sínu vilja sprengja mig til helvítis í umræðu á þessum spjallvef. Það er allavega öllum ljóst sem mig þekkja að ég myndi aldrei sjálfviljugur ganga í þennan flokk. Hafi hinsvegar einhver skráð mig í flokkinn og kosið þar í sirkusnum sem var þar um daginn vildi ég gjarnan vita það.

Annars er til annar Stefán Friðrik Stefánsson á öllu landinu, maður sem ég þekki ekki en hef vitað af vegna þess að við berum sama nafn og nokkrum sinnum hef ég fengið símtöl og tölvupóst sem ekki er mér ætlaður heldur honum. Hvort hann hafi skráð sig til liðs við Frjálslynda veit ég ekki og vil ekki vita. Það sem mér finnst verra er að Ásthildur Cesil hefur ekki enn beðist afsökunar á þessum skrifum og eiginlega er ég að bíða eftir því umfram allt annað.

Mér finnst hún hafa sett mjög niður við þetta sem persóna, enda hef ég fram til þessa ekki þekkt hana af neinu vafasömu eða lágkúrulegu. En þessi umræða sannar í eitt skipti fyrir öll að þessi málefnaspjallvefur er orðinn algjör brandari og ekki er vefstjórinn að bæta fyrir virðingu vefsins með skrifum sínum, svo mikið er víst.


Slitinn brandari

Silvía Nótt Jæja, þá er víst Silvía Nótt að snúa aftur, eða allavega reyna að eiga kombakk.... og hún er farin að heimsækja bloggara. Ég botna engan veginn orðið í þessum karakter og þessu öllu. Þetta er orðin hálfgerð óraunveruleikasaga. Þessi brandari byrjaði sem öflugur, náði hámarki sínu með Eurovision-sigri Silvíu fyrir nákvæmlega ári... en eftir keppnina í Grikklandi hefur þetta verið lágstemmt frekar.

Fannst skondið að lesa sögur um heimsóknir Silvíu til bloggara.... maður veit eiginlega ekki hvað segja skal. Þetta er einum of langt gengið myndi ég segja og ég botna engan veginn í þessum vinnubrögðum. Á þetta kannski að vera listrænn gjörningur? Er nema von að spurt sé. Þetta er allavega á mjög undarlega lítinn hátt tengt tónlist allavega. Þetta meikar lítinn sens myndi maður allavega segja.

Fróðlegt verður að sjá hvort að Silvía Nótt eigi sér séns til endurkomu. Ég yrði ekki hissa þó flestir landsmenn væru búnir að fá alveg nóg af karakternum. Frábær leikkona eins og Ágústa Eva sem hefur ráðandi eignarhlut í Silvíu Nótt er fjölhæf leikkona sem sannaði sig í Mýrinni - hún er svo sannarlega betur komin í öðru... þessar nýjustu tiktúrur hennar til samskipta við bloggara landsins er svona einum of.

mbl.is Silvía Nótt herjar á bloggara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannleg grimmd í sinni verstu mynd

Misnotkun Það hefur því miður afhjúpast æ ofan í æ í gegnum árin að það er mikil grimmd í þessum heimi. Ofbeldi, bæði líkamlegt og sálrænt, er orðið of ráðandi þáttur samfélagsins og það er orðið svo margt ógeðslegt sem kemur upp. Gott dæmi um það hérna heima eru alvarleg mál kennd við Breiðuvík og Byrgið, sem mikið hafa verið í umræðunni. Það allra versta er þó þegar að foreldrar leggja hendur á börnin sín eða hefta frelsi þeirra.

Fannst frekar sorglegt að lesa þessa Moggafrétt. Það er skelfilegt að til séu foreldrar sem loki börnin sín af jafnvel svo árum skiptir og það á þessum tæknivæddu nútímalegu tímum sem við lifum á - þeim tímum sem við stærum okkur af að allt sé svo fullkomið; tæknin og velsældin aldrei meiri. En það er því miður svo að skemmd epli finnast alltaf í stórum körfum. Það sannast af þessari frétt og það er alltaf stingandi að sjá svona heim bakvið tjöldin; heim ofbeldis og kúgunar. Það er aldrei eðlilegt að horfa upp á slíkt.

Sálrænt ofbeldi er engu skárra en líkamlegt ofbeldi. Það vill oft leggjast þyngra á sálina. Það er vissulega hægt að bæla fólk með ýmsum hætti og slíkt ofbeldi er og verður jafnt því þegar að fólk er jafnvel barið sundur og saman. En það er alltaf ömurlegt að lesa svona fréttir.... því miður er hún ekkert einsdæmi.

mbl.is Einangraði þrjár dætur sínar frá umheiminum í sjö ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband