17.2.2007 | 23:52
Eiríkur sigrar í Eurovision - íslenskt rokk til Helsinki

Eiríkur söng Gleðibankann í Bergen í Noregi árið 1986 ásamt Helgu Möller og Pálma Gunnarssyni, undir merkjum Icy-tríósins, sem var fyrsta framlag Íslendinga til keppninnar. Síðan söng hann lagið Mrs. Thompson með hljómsveitinni Just 4 Fun sem var framlag Noregs árið 1991. Það lag hafnaði í 17. sæti en Gleðibankinn lenti í því 16. eins og frægt er orðið og var það hlutskipti okkar í keppninni fyrstu þrjú árin. Aðeins fjórum sinnum hefur Ísland náð að komast á topp tíu í keppninni. Frammistaða Selmu Björnsdóttur í Jerúsalem fyrir átta árum, annað sætið, er okkar besta.
Lagið Ég les í lófa þínum, eftir Svein Rúnar Sigurðsson við texta Kristjáns Hreinssonar, verður tuttugasta framlag Íslands í Eurovision. Sigur Eiríks nú er svo sannarlega verðskuldaður. Hann hefur ekki tekið þátt í undankeppninni hérna heima í tvo áratugi, en hann ásamt söngflokknum Módel lenti í öðru sæti í keppninni árið 1987 með lagið Lífið er lag. Eiríkur var einfaldlega langsterkasti flytjandinn og lagið hið besta. Ekta rokksveifla. Þetta er mjög góð niðurstaða og vonandi mun Eiríki ganga vel eftir þrjá mánuði.
En hver á nú að vera fulltrúi Íslands í norræna spekingahópnum sem fer yfir lögin nú þegar að Eiríkur er orðinn flytjandi sjálfur í keppninni? Þar verður eftirsjá af okkar manni. Við eigum að senda Selmu Björns til leiks í það dæmi núna að mínu mati.
![]() |
Eiríkur Hauksson verður fulltrúi Íslands í Helsinki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.2.2007 | 17:34
Hvaða lag mun sigra í Eurovision?
Framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Helsinki í Finnlandi þann 10. maí nk. verður valið í símakosningu í kvöld. Sigurlagið í ár er tuttugasta lagið sem Ísland sendir til leiks í Eurovision, en Ísland tók þar þátt í fyrsta skipti með Gleðibankanum árið 1986. Níu lög keppa til úrslita að þessu sinni og er keppnin mjög jöfn og erfitt að spá um sigurvegara.
Á morgun er ár liðið frá stórsigri Silvíu Nætur (a.k.a. Ágústu Evu Erlendsdóttur) í síðustu undankeppni Eurovision hér heima. Hún hlaut um 70.000 atkvæði í keppninni þá með lagið Til hamingju Ísland, eftir Þorvald Bjarna, rúmum 30.000 atkvæðum fleiri en Regína Ósk Óskarsdóttir hlaut fyrir lagið Þér við hlið. Silvía Nótt keppti svo í keppninni í Aþenu í Grikklandi í maí 2006 og lenti í þrettánda sæti í forkeppninni og komst því ekki áfram, en tíu efstu lögin fengu farmiða á sjálft úrslitakvöldið. Frægt varð að Silvía Nótt var púuð niður fyrir og eftir flutning lagsins, sem var sögulegt.
Árið hennar Silvíu Nætur hefur svo sannarlega verið skrautlegt. Það verður fróðlegt að sjá hvaða lag og flytjandi feta í fótspor hennar. Búast má við að ögn rólegra verði yfir þeim sem fer núna, enda öll atriðin nokkuð rólegri miðað orkubombuna og skvettuna sem send var út í fyrra. Í huga mér er þetta mjög jafnt. Enginn flytjenda er með afgerandi forskot og því spennandi kvöld framundan. Í kvöld á ég bæði ættingja og vini sem flytja lag. Ætla að vona að þau sem berjist um þetta séu Jónsi, Andri, Friðrik Ómar, Eiki Hauks, og Heiða. Lögin þeirra eru öll góð að mínu mati.
Hvaða lag haldið þið að muni vinna?
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.2.2007 | 15:42
Sigurlín Margrét tekur sæti á Alþingi

Í ljósi þess að þetta þingsæti tilheyrir ekki Sjálfstæðisflokknum sem slíkt, enda er þetta þingsæti í nafni F-listans í Suðvesturkjördæmi í kosningunum 2003, er ekki undrunarefni að varaþingmaður Gunnars sé óháð í þingstörfum, enda er Sigurlín Margrét sjálf ekki flokksbundin og mun ekki verða hluti að stjórnarmeirihlutanum við þessar aðstæður sem óháð. Það er því ljóst að stjórnarmeirihlutinn minnkar enn um eitt sæti, en stutt er síðan að Kristinn H. Gunnarsson sagði skilið við Framsóknarflokkinn. 33 alþingismenn styðja ríkisstjórnina við þessar aðstæður en 30 stjórnarandstöðuna Meirihluti ríkisstjórnarinnar er því orðinn tæpari en nokkru sinni í tólf ára sögu hennar.
Sú merka staða er reyndar komin upp að þrír efstu frambjóðendur á lista Frjálslynda flokksins í Suðvesturkjördæmi í kosningunum 2003 hafa allir yfirgefið flokkinn á kjörtímabilinu. Sigurlín Margrét gagnrýndi Gunnar harkalega er hann skipti um flokk fyrir tæpum tveim árum. Mér finnst það ekki réttmæt gagnrýni á Sigurlínu Margréti að hún sé að ganga á bak orða sinna með því að taka sjálf sæti á þingi nú verandi sjálf farin úr Frjálslynda flokknum. Hún tekur sæti á Alþingi sem óháð og skipar sér ekki sem fulltrúi flokks. Hún er þar á eigin vegum. Hefði hún verið komin í annan flokk sem fyrir er á þingi eftir úrsögn sína frá frjálslyndum hefði sama gagnrýni gilt um hana, en ekki ella.
Gunnar skipar nú tíunda sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokkins í Suðurkjördæmi, en hann hlaut sætið í prófkjöri í nóvember. Það er því öllum ljóst að þingmannsferli hans er lokið. Gunnar hefur verið áberandi í stjórnmálum á kjörtímabilinu. Deilur voru meðal frjálslyndra vegna stöðu hans í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum en hann var þá með dóm á bakinu og afplánaði refsingu strax eftir þær kosningar - hann hóf þingmannsferil sinn verandi í fangelsi. Engin lognmolla hefur verið í kringum hann hvort sem hann hefur skipað raðir frjálslyndra eða sjálfstæðismanna. Það verður fróðlegt að sjá hvort hann fari aftur á þing, með umboði sjálfstæðismanna, síðar.
Sigurlín Margrét er eini þingmaðurinn í tæplega 1100 ára sögu Alþingis Íslendinga sem er heyrnarlaus og tjáir sig því með táknmáli. Það er því ekki undrunarefni að barátta hennar fyrir þann hóp skipar stærstan sess í pólitík hennar - það er eðlilegt. Það er enda gleðiefni að sá hópur eigi fulltrúa á þingi. Í ljósi þess og að ég veit að Sigurlín Margrét sé heilsteypt kjarnakona sem hefur aldrei látið fötlun sína hefta sig óska ég henni góðs í þingstörfum næstu vikurnar, til loka starfstíma Alþingis á kjörtímabilinu.
![]() |
Óháður inn fyrir sjálfstæðismann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.2.2007 | 13:06
Ofsaakstur í íbúðahverfi

Þetta er auðvitað frekar sorglegt enda getur ökumaðurinn, sem missir dómgreind og viðbragðssnerpu, orðið bæði sjálfum sér og saklausum vegfarendum að bana. Sýnt var í Kastljósi í vikunni hversu mjög drykkja á örfáum áfengum drykkjum hefur áhrif á ökumanninn. Allir sem sáu áhrif áfengis á Freysa, Andra Frey Viðarsson, sáu að þetta er dauðans alvara.
Hver vill mæta svona bíl á ofsaakstri í myrkri, annaðhvort sem ökumaður annars bíls eða sem gangandi vegfarandi? Stórt er spurt. Þetta er dauðans alvara!
![]() |
Ökumaður í annarlegu ástandi skapaði stórhættu á götum Reykjavíkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.2.2007 | 10:20
Er klámþingið umdeilda ólöglegt?

Femínistar fullyrða að þinghaldið brjóti í bága við 210. grein hegningarlaga. Þar segir: "Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum ...1) eða fangelsi allt að 6 mánuðum.
Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt."
Ef marka má þetta er þetta fundahald varla löglegt. Mikilvægt er að lögregluyfirvöld taki af skarið í þessum efnum. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, hefur nú tekið undir kröfur femínista um að fundurinn sé ekki áhugaverður og telur það í mikilli óþökk borgaryfirvalda að í Reykjavík verði haldið klámþing. Segir hann að það sé yfirlýst stefna borgarinnar að vinna gegn klámvæðingu og vændi.
Hefur borgarstjórinn hvatt lögregluembættið til þess að rannsaka hvort ráðstefnugestir kunni að vera framleiðendur barnakláms, eða annars ólögmæts klámefnis, ef það mætti verða til þess að koma í veg fyrir dvöl meintra kynferðisbrotamanna hér á landi.
Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist nú en væntanlega minnka líkur á þessu þinghaldi og ef marka má hegningarlög er það ekki löglegt. Taka verður þá á því með þeim eina hætti sem fær er.
![]() |
Ung vinstri-græn harma að íslensk fyrirtæki taki á móti klámframleiðendum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)