Hvaða lag mun sigra í Eurovision?

Söngvakeppnin 2007Framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Helsinki í Finnlandi þann 10. maí nk. verður valið í símakosningu í kvöld. Sigurlagið í ár er tuttugasta lagið sem Ísland sendir til leiks í Eurovision, en Ísland tók þar þátt í fyrsta skipti með Gleðibankanum árið 1986. Níu lög keppa til úrslita að þessu sinni og er keppnin mjög jöfn og erfitt að spá um sigurvegara.

Á morgun er ár liðið frá stórsigri Silvíu Nætur (a.k.a. Ágústu Evu Erlendsdóttur) í síðustu undankeppni Eurovision hér heima. Hún hlaut um 70.000 atkvæði í keppninni þá með lagið Til hamingju Ísland, eftir Þorvald Bjarna, rúmum 30.000 atkvæðum fleiri en Regína Ósk Óskarsdóttir hlaut fyrir lagið Þér við hlið. Silvía Nótt keppti svo í keppninni í Aþenu í Grikklandi í maí 2006 og lenti í þrettánda sæti í forkeppninni og komst því ekki áfram, en tíu efstu lögin fengu farmiða á sjálft úrslitakvöldið. Frægt varð að Silvía Nótt var púuð niður fyrir og eftir flutning lagsins, sem var sögulegt.

Árið hennar Silvíu Nætur hefur svo sannarlega verið skrautlegt. Það verður fróðlegt að sjá hvaða lag og flytjandi feta í fótspor hennar. Búast má við að ögn rólegra verði yfir þeim sem fer núna, enda öll atriðin nokkuð rólegri miðað orkubombuna og skvettuna sem send var út í fyrra. Í huga mér er þetta mjög jafnt. Enginn flytjenda er með afgerandi forskot og því spennandi kvöld framundan. Í kvöld á ég bæði ættingja og vini sem flytja lag. Ætla að vona að þau sem berjist um þetta séu Jónsi, Andri, Friðrik Ómar, Eiki Hauks, og Heiða. Lögin þeirra eru öll góð að mínu mati.

Hvaða lag haldið þið að muni vinna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Júlía

Ég held að Eiki hafi þetta en vona að Jónsi vinni!!

Ester Júlía, 17.2.2007 kl. 18:01

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Ester Júlía.

Ef ég á að velja eitt lag finnst mér lagið hans Jónsa best. Það er langsterkasta lagið að mínu mati. Eiki Hauks er magnaður og ég yrði mjög sáttur við hans sigur. Það eru núna 20 ár síðan að hann átti að fara út með Módel með Lífið er lag. Það var mun betra en Hægt og hljótt, þó fallegt hafi auðvitað verið. Sigur Eika yrði allavega mikil tíðindi. Svo er spurning hvernig Heiðu og Friðriki Ómari gangi. En allavega er sáttur svo fremi að eitt þessara fimm vinni.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 17.2.2007 kl. 18:09

3 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Einhvernvegin hef ég á tilfinningunni að Hafsteinni vinni þetta með lagið Þú tryllir mig. Það minnir mig mjög á lag Rúmeníu í fyrra Tornero en það endaði í 4 sæti. Þetta er fjörugt danslag og gjörólikt öllum hinum og höfðar örugglega til yngri kynslóðarinnar og konunnar minnar hehehe

Guðmundur H. Bragason, 17.2.2007 kl. 19:08

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Kæmi mér ekki á óvart að gamli Þróttarinn færi í þriðja sinn. Annars eru flest hin lögin prýðisgóð líka. Þjóðin velur þetta líklega ekki af sömu léttúð og við völdum í fyrra.

Haukur Nikulásson, 17.2.2007 kl. 21:16

5 Smámynd: Ester Júlía

Og hver vann ??  Eiríkur Hauksson ... Ég er alveg þokkalega sátt við það. Hefði þó viljað sjá Jónsa fara út.  Er hissa á því að lagið með Jónsa hafi ekki náð upp í fyrstu þrjú sætin.  Mér  fannst það  besta lagið með flottustu laglínuna.  

Ester Júlía, 17.2.2007 kl. 22:34

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentin og spárnar. Eiki hafði þetta flott og mér líst vel á að hann fari út. Verðskuldaður sigur.

Guðmundur: Hafsteinn náði góðum árangri, betri en margir aðrir. Lagið hans mun vonandi ekki gleymast, þetta var gott lag en ég held að fólk hafi viljað aðrar áherslur í keppnina nú að þessu sinni.

Jón Arnar: Lagið sem Andri frændi minn söng var rosalega gott, með þeim betri, og það mun lifa lengur. Andri náði betri árangri en mörgum hefði eflaust órað fyrir miðað við að hann er aðeins nú nýkominn í tónlistarmenninguna fyrir sunnan, en hann hefur búið fyrir austan alla sína ævi. Hann hefur alist upp við tónlist, bæði söng og spilun í böndum, nær alla sína ævi og þekkir þetta gríðarlega vel, þó nýtt nafn sé í bransanum. Hann er svo sannarlega að stimpla sig og á eftir að verða áberandi á næstu árum, spái ég.

Ester Júlía: Já, þetta var verðskuldaður sigur hjá Eika. Var hissa á að Jónsa tækist ekki að komast í topp þrjú, það voru stórtíðindi, enda var lagið hans besta sé litið á tónsmíðina eina og sér. Trausti átti reyndar tvö lög í keppninni að þessu sinni, spurning hvort það hafi haft áhrif. En þetta lag mun lifa lengur. Það eru mjög mörg sterk í keppninni núna og þau munu falla vel í Eurovision-söguna. Mörg þeirra laga sem ekki hafa unnið keppnina hérna heima hafa orðið eftirminnilegust. Svo var ég hissa að Heiða með gleðibombuna hans Dr. Gunna skyldi ekki ná í topp þrjú. Var ekki hissa með Frikka og lagið þeirra Grétars og Kristjáns Grétars.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.2.2007 kl. 10:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband