Fróðlegur fundur með Steingrími J.

Steingrímur J. Ég var að koma heim af fundi með Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG, sem við aðstandendur bæjarmálavefritsins Pollsins héldum með honum í kvöld. Er hann fyrstur leiðtoga flokkanna í kjördæminu sem mætir til slíkra funda, en stefnt er að slíku og mun þeim öllum verða boðið slíkt hið sama. Flutti Steingrímur J. stutta framsögu í upphafi, en síðan var orðið einfaldlega gefið laust og gripu flestir tækifærið til að rabba um pólitíkina frá víðum grunni. Var þetta líflegt og gott spjall, svona algjörlega mér að skapi. Naut þessa í botn.

Stærstu umræðuefnin sem skipta máli að okkar mati eru að sjálfsögðu málefni Akureyrar og Eyjafjarðar. Steingrímur J. hefur verið þingmaður þessa svæðis í 24 ár og er ennfremur þungavigtarmaður í pólitísku starfi almennt. Það var því gaman að skanna málefni svæðisins og landsmálanna heilt yfir með honum. Við erum fjarri því sammála um alla hluti, og reyndar ekki grunninn allan svosem, en það er virkilega gaman að taka svona spjall engu að síður. Sýn okkar á þessum vef eru skiljanlega málefni Akureyrar og nærsvæðis. Það er og mun vera upplegg allra fundanna.

Sérstaklega var svo gaman að ræða er líða tók á kvöldið um hvernig eftirmáli kosninganna verða; myndun ríkisstjórnar. Fórum við yfir þau mál. Hann vildi lítið segja um kröfur VG kæmust þeir í oddastöðu en greinilegt er þó að hann mun selja sig dýrt í stefnumálum og stólapólitík fari svo að þeir nái einhverri uppsveiflu af því tagi sem þeir mælast með nú. Því er ekki að neita að VG er í ótrúlegri uppsveiflu og vandséð hvernig leið þeirra geti varla legið annað en upp á við miðað við síðustu kosningar. Ég kom með spurningar um þessa hluti; kosningar og eftirmálann. Það er mín tilfinning að VG muni selja sig verulega dýrt nái þeir einhverri oddastöðu. Allt tal um hógværð á þessum væng er ósannfærandi.

Mér finnst þessi tilraun með Pollinn mjög góð og ég stend stoltur að því og hlakka til þess að helga mig þessu verkefni betur en nú er á næstu mánuðum. Ég hef með þessum vef og öðrum sem ég hef haldið úti, með mikilli elju, vinnu og óþreytandi áhuga á málefnum samfélagsins, reynt að segja mitt um málin og vera lifandi í pólitískri umræðu. Ég hef gríðarlega gaman af þessu og nýt þessa algjörlega í botn.

Sama er með Pollinn, það er og mun verða svona lífleg deigla pælinga um málefni okkar, framtíðina og tækifærin. Það skiptir máli og það þarf svona góðan þverpólitískan vef, umræðuhóp og skemmtilega pólitíska stúdíu. Þetta er allavega á góðri leið.

Karl Bretaprins vill banna McDonalds-fæði

Karl Bretaprins Prinsinn af Wales, Karl, ríkisarfi Englands, hefur aldrei verið feiminn við að tala hreint út og valda hörðum skoðanaskiptum. Í dag sagðist hann vilja banna McDonalds-skyndibitafæði og slíkar keðjur yfir höfuð. Telur hann að það muni bæta fæðu barna og unglinga stórlega. Karl var ekki að skafa neitt utan af því þegar að hann flutti ræðu í heimsókn til Imperial College London Diabetes Centre í Abu Dhabi í S-Arabíu í dag og lét þessar skoðanir sínar flakka.

Prinsinn af Wales hefur alla tíð verið mikill umhverfisverndarsinni og ennfremur talsmaður heilbrigðrar fæðu, einkum lífrænnar fóðu, og talað mikið máli betri fæðu. Hefur hann verið mjög jákvæður t.d. út í átak Jamie Oliver í skólum Bretlands til að bæta fæði skólabarna. Árið 1986 setti prinsinn upp bú á Highgrove-setrinu. Þar er allt unnið og gert með lífrænum hætti. Prinsinn gekk reyndar svo langt að hann sagði í spjalli við heilsusérfræðinginn Nadine Tayara hvort að hún hefði reynt að fá vörur McDonalds bannaðar. Það væri lykillinn að betri heilsu ungmenna.

Til að staðfesta öll ummælin lét Karl senda út formlega yfirlýsingu frá skrifstofu sinni í Clarence House til að benda á mikilvægi hollrar fæðu. Þar er skyndibitafæðu sagt allt að því stríð á hendur. McDonalds mun hafa sent út yfirlýsingu og harmað ummæli prinsins. Já, hann Karl er ekki feiminn við að taka afstöðu í málunum.


Frekar vandræðalegt PR hjá Pizza Hut

Jessica Simpson Það er oft margt fengið í lífinu með því að hafa sætt hvítt Colgate-tannkremsbros og aulalegt bros. Svona bros eins og Jessica Simpson hefur. Nú fer það eins og eldur í sinu að hún presenteri Pizzu Hut með hvíta brosinu þrátt fyrir að vera með ofnæmi fyrir pizzunum. Finnst þetta nú frekar vandræðalegt PR fyrir Pizza Hut. Eftir þetta hugsa allir um auglýsingarnar með henni að þetta sé nú bara bros út á auglýsingadíl.

Enda hlýtur það að teljast frekar vandræðalegt að vera að auglýsa eitthvað sem viðkomandi getur ekki notað sjálfur. Þetta væri svona eins og að sykursjúk kona væri brosandi við að auglýsa kók í glansblaði eða blindur maður með blindrastaf í hendi væri að auglýsa Stöð 2 og hversu góð dagskráin þar væri. Absúrd. Kaupir nokkur pizzu vegna þess að hvítbrosandi söngkona presentarar það? Líður okkur karlmönnum betur með pizzu því að kynbomba kynnir hana?

Veit ekki. Auglýsingar hafa þó mjög lítil áhrif á mig. Kaupi vöruna ef hún er góð og ef hún er ekki góð kaupi ég hana ekki. As simple as that. Ég veit þó að ég myndi ekki kaupa mér pizzu ef ég hefði ofnæmi fyrir henni. En þetta slæma PR fyrir Pizza Hut sýnir okkur vel að auglýsingarnar með hvítbrosandi stjörnum geta verið sem holasta síldartunna undir niðri.

mbl.is Andlit pítsukeðju með ofnæmi fyrir pítsum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hetjusaga Thelmu kvikmynduð

Það er gleðiefni að kvikmynda eigi hetjusögu Thelmu Ásdísardóttur. Fullyrða má allir hafi verið djúpt snortnir þegar að hún sagði sögu sína í viðtali í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í október 2005. Thelma sagði þar söguna af því grófa kynferðislega ofbeldi sem hún var beitt af hálfu föður síns og fleiri karlmanna árum saman á æskuárum sínum. Styrkur hennar og kraftur við að segja frá beiskri æsku snerti alla landsmenn að mínu mati.

Fyrst og fremst dáðist ég að því hugrekki sem Thelma sýndi með því að rjúfa þögnina sem er svo mikilvægt að verði gert - þögnina um líkamlegt og andlegt ofbeldi og kynferðislega misnotkun. Fáum blandast hugur um að sú bók sem hafi haft mest áhrif á samfélagið á síðustu árum hafi verið bókin: Myndin af pabba - Saga Thelmu sem kom út haustið 2005 og var rituð af Gerði Kristnýju.

Segja má með sanni að Thelma Ásdísardóttir hafi orðið táknmynd hugrekkis og mannlegrar reisnar og hvernig hægt hafi verið að rísa upp yfir aðstæður sínar til að takast á við erfiðleika fortíðar. Þessa sögu verður að festa í minni fólks, til umhugsunar öllum, og það er því ánægjulegt að heyra fréttir af því að verði gert.

mbl.is Samið um sögu Thelmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menningarhús rís á Dalvík - mjög höfðingleg gjöf

Menningarhús á Dalvík Það er yndislegt að heyra fréttir af því að Friðrik Friðriksson og hans fólk hjá Sparisjóði Svarfdæla ætli að færa íbúum Dalvíkurbyggðar þá höfðinglegu gjöf að reisa menningarhús í miðbæ Dalvíkur. Sem fyrrum íbúi á Dalvík, er hugsar með hlýjum huga úteftir, gleðst ég með fólki þar. Það hefur löngum vantað alvöru miðstöð menningar og listar á Dalvík og þessi höfðinlega gjöf færir fólki þar mörg ný og glæsileg tækifæri.

Sparisjóður Svarfdæla hefur verið fjármálastofnun fólksins í heimabyggð í rúmlega öld. Fólk þar skiptir við sinn sparisjóð og unir þar vel við sitt. Frissi og hans fólk hafa haldið vel utan um sparisjóðinn og ræktað hann mjög vel. Þessi tíðindi sýna betur en allt annað hversu vel sparisjóðurinn stendur. Hann hugsar um hag fólksins. Þessi gjöf er til fólksins í bænum, viðskiptavina sparisjóðsins, enda mun gjöfin hagnast öllum íbúum, þó fullyrða megi að flestir íbúar þar skipti við sparisjóðinn, sem hefur sterka stöðu í heimabyggð og þakkar það vel með þessu.

En til hamingju íbúar á Dalvík. Það verður gaman að koma í heimsókn í menningarhúsið þegar að það verður risið. Það verða margar hamingjustundir í þessari miðstöð menningar og lista.

mbl.is Sparisjóður Svarfdæla kostar byggingu menningarhúss á Dalvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg tímaákvörðun Samfylkingarinnar

SamfylkinginÞað hefur vakið mikla athygli að Samfylkingin ætlar sér að hafa landsfund sömu helgi og við í Sjálfstæðisflokknum, 12.-15. apríl nk. Til þessa hef ég talið það vera óskráð lög í samskiptum flokka að þeir virði tímasetningar landsfunda eða æðstu stofnana flokka sinna og velji annan tíma fyrir þessa fundi sína. Ég man satt best að segja ekki eftir svona nokkru í seinni tíma stjórnmálasögu, þeir endilega bendi á í kommentakerfi ef önnur dæmi eru um, sem ég reyndar efast um að séu til.

Sjálfstæðisflokkurinn ákvað síðasta sumar að taka frá þessa helgi fyrir landsfund í Laugardalshöll og vissi ég reyndar tímasetninguna áður en ég hætti sem formaður Varðar, f.u.s. hér á Akureyri, í fyrrasumar, en þá var tímaákvörðun komin þegar á hreint og allur undirbúningur hafinn. Við í Sjálfstæðisflokknum getum ekki haldið landsfundi án mikils undirbúnings og því höldum við okkar fund eftir gott skipulag og gefum rúman tíma í það. Það er því ákvörðun með langan aðdraganda að funda þessa helgi. Nú þekki ég vissulega ekki hvernig þetta var ákveðið hjá Samfylkingunni en efast um að lengur hafi undirbúningur staðið þar en í Sjálfstæðisflokknum.

Það er því ljóst að báðir stærstu flokkar landsins, skv. stöðu á Alþingi nú, ætla að funda í sömu borg, um sömu helgi og á sömu tímasetningu. Það verður allavega vel troðið í borginni þessa helgi greinilega. Eflaust munu einhverjir spyrja um þetta og vilja vita hví Samfylkingin velur endilega þessa helgi. Ingibjörg Sólrún var spurð um þetta í Íslandi í dag í gærkvöldi en frekar voru nú svörin þar undarleg. En svona verður þetta þá bara. En þetta er undarleg tímaákvörðun, svo vægt sé til orða tekið.


Ekki er nú öll vitleysan eins....

Það er nú ekki hægt annað en að hlæja aðeins yfir fréttinni um kínverska kaupsýslumanninum sem hefur auglýst á netinu eftir hjákonustaðgengli til að þola barsmíðar reiðu eiginkonunnar hans. Það er ýmislegt reynt segir maður bara. Til að hlífa eiginkonunni að þá er bara auglýst eftir einhverri til að taka við fýlunni í frúnni. Fannst eiginlega merkilegast að þetta gerðist í Kína, hefði kannski búist við þessu í Bandaríkjunum eiginlega mun frekar.

Fyndnast við þetta allt er að skv. fréttinni hafa tíu konur sýnt áhuga á þessu djobbi, ef það má þá kalla það því nafni. Boðið er upp á greiðslu fyrir verkefnið. Þetta er því bissness fyrir þá konu sem verður valin. Finnst þetta svona frekar óviðurkvæmilegt eiginlega. Kannski er þetta til marks um það að fólk sé tilbúið til að gera næstum því hvað sem er fyrir peninga. Sennilega eru femínistarnir hérna heima ekki parhrifnir af þessu.

Enda er þetta ekki beint í þeirra huga góð framkoma við konur. En þarna á kona að taka við barsmíðum frá konu. Kostulegt alveg. Það er hægt að hlæja af þessu úr fjarlægð við Kína. Efast um a þetta væri eins fyndið ef þetta væri smáauglýsing í DV og þetta væri fjölskyldudrama í Breiðholtinu.


mbl.is Hjákonustaðgengill óskast til að þola barsmíðar eiginkonunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband