28.2.2007 | 23:46
Obama velgir Hillary - Giuliani eykur forystuna

Þetta eru vissulega mikil tíðindi - þessi mæling sýnir vel að Hillary er fjarri því örugg um útnefningu flokksins og framundan er hörð barátta. Obama virðist hafa veðjað á rétt. Hann hefur engu að tapa með framboðinu og mun aðeins styrkja sig hvernig sem fer, ólíkt Hillary sem hefur miklu að tapa nái hún ekki útnefningunni, sem flestir hafa talið hennar eftir ósigur John Kerry í forsetakosningunum 2004. Obama er ekki í ólíkri stöðu nú og John Edwards við síðustu forsetakosningar, sem maður er tekur áhættuna vitandi að hann tapar engu hvernig sem fer. Hann mun aðeins eflast og það verulega - stimplar sig inn.
Það hlýtur að fara um Clinton-hjónin í þessari stöðu. Það er alveg ljóst að tapi Hillary mun ekki aðeins hún veikjast verulega á þessari áhættu sem fylgdi framboðinu heldur líka eiginmaður Hillary, Bill Clinton, 42. forseti Bandaríkjanna. Þau munu leggja allt sitt í framboðið og sækja bæði alla peninga sem þau geta safnað og leita í allar áttir stuðningsmanna sem þau telja mögulega geta styrkt framboðið. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Hillary að stjörnurnar í Hollywood og peningamenn í Kaliforníu eru í æ ríkari mæli að horfa til Obama. Til dæmis hefur áhrifamaður í Hollywood á borð við Steven Spielberg, sem ávallt hefur fylgt þeim hjónum til þessa, veðjað á Obama.
Bill og Hillary Rodham Clinton lögðu grunn að þessu framboði með forsetatíðinni 1993-2001 og eiga víða vini og kunningja. Þau stóla nú á að það muni tryggja forsetafrúnni á þeim tíma vist í Hvíta húsinu nú. Þau munu sækja inni alla greiða sem þau mögulega geta tryggt og leita víðar en það. Það sem eitt sinn var talið sigurganga Hillary gæti nú orðið þyrnum stráð og verulega erfið. Þetta gæti orðið þrautaganga og öllum er ljóst að Hillary skaðast verulega sem sterkur stjórnmálamaður og stjörnuljómi innan flokksins með tapi. Clinton forseti veit líka hvað er í húfi. Tap fyrir nýja vonarneistanum gæti orðið þungt til lengri tíma litið. Þetta verður því verulega harður slagur - óvæginn og hvass.

En þetta verða bæði sögulegar og áhugaverðar forsetakosningar. Persónulega taldi ég alltaf að Hillary myndi vinna hjá demókrötum og við myndum fá að ári eftir forkosningar að sjá loksins sögulega öldungadeildarslaginn í New York sem stefndi lengi vel í að yrði aðalslagurinn í kosningunum 2000 en varð svo aldrei af; semsagt keppni milli Hillary Rodham Clinton og Rudolph Giuliani. En maður er farinn að efast nú.
Mun Obama stela sviðsljómanum af sjálfri Hillary, taka af henni tækifæri ferilsins? Jahérna, það yrði rosaleg frétt færi svo. Það er allavega ljóst að fáir spá nú afgerandi sigri Hillary og þetta gæti orðið mjög jafnt, jafnvel svo að forsetafrúin fyrrverandi sæti eftir með sárt ennið.
![]() |
Barack Obama saxar á forskot Hillary Clintons |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.3.2007 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.2.2007 | 21:07
Afleikur Ingibjargar Sólrúnar - krísa hægrikratanna

Það ber ekki vott um klókindi hafi Ingibjörg Sólrún í önugu skapkasti beitt sér gegn því að Jón Baldvin yrði um borð á listum flokksins. Það er enda ekki undarlegt að leitað sé eftir því; hann er kominn heim til Íslands eftir alllanga útlegð sem sendiherra og verið mjög virkur í þjóðmálaumræðunni. Fjarvera hans frá framboðslistunum er stingandi og gott betur um það. Ummæli hans í kvöldfréttum Stöðvar 2 bera því vitni að hann líti á þessa framkomu sem niðurlægingu fyrir sig. Gleymum því ekki að Jón Baldvin yfirgaf stjórnmálin til að greiða fyrir samfylkingu vinstriaaflanna og hélt út til að leggja drög að samstöðu um nýja tíma. Nú er hann kemur heim er ekki óskað eftir liðsinni hans á lista.
Ég get rétt ímyndað mér að armur Jóns Baldvins innan Samfylkingarinnar sé argur vegna stöðu mála. Í ljósi alls þessa ber að skilja mun betur ákvörðun Jakobs Frímanns Magnússonar um að yfirgefa Samfylkinguna. Þeir eru mun fleiri hægrikratarnir sem þar hafa dæmt skipið ómögulegt og haldið á önnur mið sem henta þeim betur. Það að Jón Baldvin sé ekki metinn sem öflugur til veru í heiðurssæti eru enda stórtíðindi. Ummælin í kvöld ber allavega að skilja að hann hafi viljað vera í hópnum, þó vissulega aftarlega hafi verið. Það að sá liðsauki reynds stjórnmálahöfðingja sé afþakkaður er athyglisvert í sjálfu sér.
Það er löng hefð fyrir því að leiðtogar sem yfirgefið hafa stjórnmálasviðið eða fari ekki fram aftur sé í heiðursskyni boðið sess sem hæfir því að þeim sé búinn vegsauki við hlið þeirra sem leiða vagninn. Hér hjá okkur í Norðausturkjördæmi er leiðtogi okkar sjálfstæðismanna í áratugi, Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og forseti Alþingis, í heiðurssætinu og eins og Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, bendir á í góðum skrifum á bloggvef sínum í kvöld eru fyrrum forsætisráðherrar og flokksformenn Framsóknarflokksins, þeir Steingrímur Hermannsson og Halldór Ásgrímsson, í heiðurssess hjá flokknum í Reykjavík og Kraganum.
Þessi afleikur Ingibjargar Sólrúnar vekur mikla athygli í ljósi þess hve Jón Baldvin Hannibalsson hefur verið handgenginn henni. Hann talaði mjög máli þess að hún færi í landsmálin fyrir kosningarnar 2003 og studdi hana í formannsslagnum 2005 þar sem sitjandi formanni var skipt út fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Hún virðist hafa reiðst mjög Jóni Baldvin vegna ummælanna í Silfri Egils og það hafa einhver hnútuköst orðið milli þessara fornu samherja. Merkilegt vissulega í ljósi þess sem þeirra hefur farið fyrr á milli.
Krísa hægrikratanna í Samfylkingunni verður sífellt meira skiljanleg í ljósi þess að Nestori þessa hóps er hafnað um heiðurssæti og enginn vilji sýndur um að hann eigi að vera í hópnum fyrir kosningarnar þó hann hafi greinilega viljað það sjálfur. Horfir hann nú í aðrar áttir? Það að hann tali svo hreint út við Stöð 2 ber því allavega vel vitni að hann sé ekki beint sáttur við stöðu mála, ekki frekar en margir samherjar hans sem hafa nú þegar reyndar yfirgefið flokkinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
28.2.2007 | 18:48
Ingibjörg Sólrún vildi ekki Jón Baldvin í heiðurssæti

Þetta eru svo sannarlega stórtíðindi, enda hefur Jón Baldvin verið einn af Nestorum Samfylkingarinnar og verið í hávegum hafður þar. Hann var ötull stuðningsmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í formannskjörinu í Samfylkingunni fyrir tveim árum er hún felldi svila sinn, Össur Skarphéðinsson, fyrsta formann flokksins, af formannsstólnum. Jón Baldvin hefur frá lokum stjórnmálaferils síns, er hann hætti til að rýma í raun fyrir fyrri tímum gömlu A-flokkanna og stuðla að stofnun Samfylkingarinnar, verið mjög áberandi á bakvið tjöldin og talað máli flokksins og lagt honum lið, t.d. í utanríkismálum að undanförnu. Þeir tímar virðast vera að líða undir lok.
Að undanförnu hefur sú kjaftasaga orðið meira útbreidd að Jón Baldvin verði jafnvel þátttakandi í nýju framboði Margrétar Sverrisdóttur og tengdra afla. Ekki mun sú kjaftasaga deyja við þessi tíðindi, svo mikið er nú alveg víst.
28.2.2007 | 15:52
Helen Mirren glæsilegust allra á Óskarnum

En þessi frétt er mjög fyndin í ofanálag. Það verður ekki af Dame Helen skafið að hún þorir að tala hreint út. Þess vegna var kannski viðeigandi að hún skyldi leika kjarnakonuna Elísabetu í þessari mynd. Þær eru nefnilega innst inni nokkuð líkar týpur held ég. Ákveðnar kjarnakonur. Nú heyrist reyndar að Mirren vilji leika Camillu Parker-Bowles, eiginkonu Karls Bretaprins, sem nú er orðin hefðarkona með titilinn hertogaynja. Það yrði nú heldur dúndurstöff, pent sagt.
Les. hér: Helen Mirren wants to play Camilla
![]() |
Nærhaldið fjarri á Óskarnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.2.2007 | 15:32
Fagrir kvikmyndatónar
Hef sett inn fagra en ólíka kvikmyndatóna í spilarann minn hérna. Ennio Morricone hlaut heiðarsóskarinn aðfararnótt mánudags fyrir sinn glæsilega feril. Tvö falleg stef ferils hans eru í spilaranum; Death Theme úr The Untouchables og The Good, the Bad and the Ugly, eðallinn sjálfur úr spagettí-vestrunum. Setti líka inn guðdómlegt saxófónstef Bernard Herrmann úr Taxi Driver, kvikmynd meistara Martin Scorsese, sem hlaut loksins leikstjóraóskarinn í vikunni. Það var kominn tími til að akademían heiðraði þessa miklu meistara. Saxófónstefið varð síðasta kvikmyndatónverk hins mikla snillings Herrmann og tekið upp aðeins nokkrum klukkustundum áður en hann varð bráðkvaddur.
Svo er þarna inni Tangóstefið ódauðlega með Carlos Gardel, en það gleymist engum sem sáu Scent of a Woman, myndinni sem færði Al Pacino löngu verðskulduð óskarsverðlaun. Tangóinn hans og Gabrielle Anwar í myndinni með stefið ómandi undir gleymist svo sannarlega ekki. Kvikmyndagaldrar. Svo er líka óskarsverðlaunalag Bob Dylan, Things have Changed, úr Wonder Boys. Besta lag Dylans frá gullaldarárunum. Svo má ekki gleyma I Don´t Want to Miss a Thing, óskarsverðlaunalagi Aerosmith sem prýddi myndina Armageddon árið 1998.
Svo er þarna Son of a Preacher´s Man með Dusty Springfield, en allir þeir sem sjá nokkru sinni Pulp Fiction gleyma því lagi ekki svo glatt. Svo er þarna að lokum síðast en ekki síst Streets of Philadelphia með Bruce Springsteen. Hann fékk óskarinn fyrir lagið, en það prýddi myndina Philadelphia árið 1993, myndinni sem færði Tom Hanks sinn fyrri óskar.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.2.2007 | 14:43
Eilífðartöffarinn frá Keflavík giftir sig loksins

Rúnar er Hr. Rokk í huga ansi margra landsmanna. Hann hefur verið samofinn íslenskri tónlistarsögu í yfir fjóra áratugi, eða frá því að Hljómar byrjuðu sinn glæsilega feril. Lög eins og Heyrðu mig góða, Fyrsti kossinn, Sveitapiltsins draumur og mörg fleiri hafa mótað feril hans og hann er enn á fullu. Það var t.d. mjög gaman að sjá Rúnar og Bubba taka lagið á afmælistónleikum Bubba í júní í fyrra. Mikið fjör og sá gamli hefur engu gleymt. GCD var dúndurviðbót reyndar á ferli Rúnars.
Rúnar var einn efnilegasti knattspyrnumaður landsins og einn af bestu mönnum Keflavíkurliðsins þegar að hann byrjaði í Hljómum og gaf þann feril upp á bátinn fyrir tónlistina. Hann hefur í fjóra áratugi búið með Maríu, en hún var valin fegurðardrottning Íslands í upphafi sambúðar þeirra, árið 1969 að mig minnir. Þau hafa verið sem eitt í huga landsmanna alla tíð síðan. Rúnar hefur ekki aðeins verið tónlistarmaður, hann hefur verið útgefandi tónlistar og pródúsent og á farsælan feril að baki.
Það er ekki hægt annað en að senda góðar kveðjur til gullna parsins, Rúnars og Maríu, suður til Keflavíkur á þessum merka degi í lífi þeirra.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.2.2007 | 13:37
Er undirbúningsleysi í Samfylkingunni?
Þau skilaboð frá Samfylkingunni um að Egilshöll hafi aðeins verið laus sömu helgi og landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn hafa vakið athygli. Þetta bendir til þess að undirbúningur hafi hafist frekar seint hjá Samfylkingunni við fundinn. Þetta er allavega merkileg tilviljun svo sannarlega. Eins og ég benti á í gær eru mjög fá, ef þá eru nokkur, fordæmi fyrir því að tveir flokkar haldi æðstu fundi sína sömu helgina.
Þetta hefur vakið mikla athygli stjórnmálaáhugamanna síðustu dagana. Sjálfur tel ég þetta vera enn meira áberandi í ljósi þess að kosningar eru framundan. Hefði þetta verið millilandsfundur á miðju kjörtímabili hefði þetta væntanlega verið mun minna í umræðunni. En það er stutt í kosningar, rétt rúmir 70 dagar, og því er þetta meira áberandi þannig séð. Ég man reyndar að fyrir síðustu kosningar héldum við sjálfstæðismenn landsfund um mánaðarmótin mars-apríl 2003 en Samfylkingin var með svokallað vorþing viku seinna, sem reyndar var ekki landsfundur.
Það er greinilegt að sú hefð er nú úr sögunni að flokkar virði landsfundi hvors annars og reyni að hliðra til. Landsfundir eru stórmál, sérstaklega í aðdraganda kosninganna. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur verið áætlaður þessa helgi í tæpt ár og því vaknar spurning um það hversu lengi undirbúningur Samfylkingarinnar hefur staðið. En við erum vissulega að sjá nýja tíma með þessu og væntanlega verður það síður virt úr þessu hvort einn flokkur heldur landsfund tiltekna helgi eður ei er aðrir flokkar skipuleggja sig.
Sjálfum finnst mér þetta ekki gott fyrir hvorugan flokkinn, enda skiptir máli að flokkur hafi athygli á sér og stefnuáherslum sínum. En það verður að lifa við þetta og ekki hræðumst við sjálfstæðismenn samanburð milli fundanna. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur alla tíð verið stórviðburður í pólitískri umræðu og öflugasti fundur stjórnmálaflokks á Íslandi. Þetta er jú langfjölmennasti flokkur landsins og býr yfir mjög öflugri hefð og vönduðu skipulagi við undirbúning þessarar stærstu samkomu sinnar.
Fundur okkar sjálfstæðismanna stendur hefð skv. í fjóra daga en fundur Samfylkingarinnar stendur yfir í tvo daga svo að þetta kemur varla að sök fyrir hvorugan flokkinn. Það er svosem gott ef báðir flokkar fá góða athygli, en ég efast ekki um að landsfundur Sjálfstæðisflokksins verði mikið í umræðunni nú. Stefnumótun flokksins fyrir kosningarnar verður spennandi með að fylgjast og ég á von á líflegu málefnastarfi. Sérstaklega tel ég að umhverfismálin verði stórt mál á fundinum.
![]() |
Var eina helgin sem var laus" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.2.2007 | 11:42
Misnotkun á greiðslukortum

Þetta er því miður sífellt að verða óprúttnara, en þetta dæmi telst nú með þeim svæsnustu. En hann er svo sannarlega dýr strætóinn á höfuðborgarsvæðinu. Ekki þurfum við þó að óttast svona dýran strætó hér. Eins og flestir vita eru nefnilega gjaldfrjálsar samgöngur hér á Akureyri og það kostar því ekkert í strætó. Og mun fleiri nota sér þennan samgöngukost eftir en var áður, sem hlýtur að teljast gleðiefni.
![]() |
Eyddi 300 þúsund kr. á þrem vikum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.2.2007 | 10:28
Mun Hillary marka söguleg pólitísk skref?

Sex árum eftir að hún flutti úr Hvíta húsinu hefur hún hafið dýra og miskunnarlausa pólitíska baráttu fyrir því að flytjast þangað aftur. Það er ekkert áhlaupsverkefni sem tekur einhverjar vikur að sigra kosningu um embætti forseta Bandaríkjanna. Baráttan er hafin á fullum krafti nú þegar, fjáröflunarsamkomur eru komnar á fullt og ferðalög um ríki landsins eiginlega löngu hafnar. Slagurinn verður harðari nú væntanlega en nokkru sinni áður. Enn eru tæpir ellefu mánuðir í forkosningarnar og forsetakosningarnar verða 4. nóvember 2008.
Í bókinni The Case for Hillary Clinton fjallar höfundurinn um pólitísk verk Hillary og talar fallega og af krafti um hana. Hún gerir mikið í því að Hillary geti markað söguleg pólitísk skref á næstu tveim árum; er eiginlega að leggja grunn fyrir hana og framboðið með markvissum hætti. Þarna er engin tæpitunga um Hillary. Þetta er lofrulla og samansafn höfundar á því hvers vegna Hillary ætti að fá tækifærið mikla. Estrich er pólitískur strategíumeistari og vann fyrir Michael Dukakis, Jimmy Carter og Bill Clinton. Allir urðu forsetaefni demókrata og þeir tveir síðarnefndu eru síðustu tveir forsetar Bandaríkjanna frá demókrötum.
Estrich talar af áfergju um lykilmál sín, sem hún greinilega fer ekki leynt með. Hún er eindreginn talsmaður menntunar, valfrelsis, umhverfismála, sterks heilbrigðiskerfis og traustrar fjármálastjórnunar. Estrich virðist gefa öll þessi mál upp sem mál sem hún sjái best farveg sinn í Hillary Rodham Clinton. Um hana er skrifað af mikilli virðingu og enginn vafi leikur á því að þetta er strategíurit til varnar og stuðnings henni. Bókin er greinilega markaðssett á demókrata og miðjumenn innan Repúblikanaflokksins og þá sem óflokksbundnir eru. Tveir síðastnefndu hóparnir tryggðu án vafa sigur Clintons forseta árin 1992 og 1996 og fylgdu honum á örlagastundum.
Estrich er greinilega viss um að Hillary verði eina konan næstu 10-20 árin sem geti orðið forseti Bandaríkjanna og virðist mjög áfram um að skrifa bókina sem áminningu um að demókratar eigi ekki betri forsetaefni í stöðunni. Ég er ekki sammála öllu sem stendur í bókinni. Hún er samt fróðleg og góð lesning. Þar má nefnilega sjá hvernig að stuðningsmenn Hillary ætla að leggja upp baráttuna. Það á að kynna Hillary sem konu á framabraut, konu hugsjóna og skoðana, konu krafts og einbeitingar, sem þori að leggja áherslu á mjúk mál í bland við þau hörðu. Þetta er góð lesning fyrir mig í kjölfar bókanna Living History (opinberu ævisögunnar) og American Evita (þeirrar óopinberu og einbeittu) sem fjalla um Hillary vítt og breitt.
Búast má við gríðarlega spennandi átökum innan Demókrataflokksins um það hver verði forsetaefni hans. Þegar hafa sterk forsetaefni eins og öldungadeildarþingmennirnir Barack Obama og Chris Dodd komið fram auk Dennis Kucinich, John Edwards (varaforsetaefni John Kerry 2004) og Joe Biden. Tom Vilsack kom og fór úr slagnum snöggt. John Kerry, forsetaefni demókrata árið 2004, hefur gefið framboð upp á bátinn, enda það vonlaust fyrir hann að fá annan séns eftir tapið fyrir George W. Bush á sínum tíma, sem var mikið áfall fyrir alla andstæðinga forsetans, enda fékk hann meirihluta atkvæða, fyrstur forseta frá árinu 1988. Mikið er rætt um hvort að Al Gore fari fram, en hann tapaði forsetaslagnum árið 2000 fyrir Bush með sögulegum hætti.
Næstu forsetakosningar verða reyndar mjög sögulegar, hvernig sem þær munu fara, enda er ljóst nú þegar að þær verða hinar fyrstu frá árinu 1952 þar sem hvorki forseti eða varaforseti Bandaríkjanna verða í kjöri. George Walker Bush, forseti, situr sitt seinna kjörtímabil og má skv. lögum ekki bjóða sig fram aftur og mun því halda heim til Texas er hann lætur af embætti þann 20. janúar 2009. Dick Cheney varaforseti, hefur lýst því yfir að hann hafi engan áhuga á forsetaframboði og ætli að sinna sínum verkefnum út kjörtímabilið og njóta að því loknu lífsins með konu sinni og fjölskyldu, fjarri Washington, eins og hann hefur orðað það sjálfur.
Hillary Rodham Clinton er að flestra mati manneskjan á bakvið sigur eiginmanns síns í forsetakjörinu 1992 - hefur aukinheldur lengi verið útsjónarsamur stjórnmálaplottari með mikla yfirsýn yfir pólitískt landslag og stöðumat hinnar réttu strategíu. Hún hefur allt frá lokum forsetatíðar eiginmannsins markað sér sinn eigin stjórnmálaferil og gert það mjög vel. Hún hefur um nokkurn tíma haft verulegan áhuga á forsetaembættinu, en veit að það gæti orðið erfitt fyrir hana að leggja í slaginn, enda í húfi bæði pólitísk arfleifð eiginmanns hennar og hennar einnig. Framboð gæti reynst rétt en einnig verið alvarleg mistök fyrir þau bæði tapi hún.
Í þessari bók er sagt æ ofan í æ að Hillary eigi söguleg tækifæri fyrir höndum með sigri. Hún yrði með sigri enda fyrsta konan á forsetastóli í Bandaríkjunum og aukinheldur fyrsta forsetafrú landsins sem hlýtur embættið. Það er erfitt að meta hvort að Hillary hafi kraft til að halda út allt til enda. Nú er hún þó afgerandi sterkust á sviðinu; er með mestu peningana og reyndustu kosningamaskínun. Hún hefur tengsl víða; er sterk á heimavelli í New York og hefur sterkar taugar í suðrið sem fyrrum ríkisstjórafrú Arkansas og er svo auðvitað ættuð frá Illinois; sama fylki og helsti keppinatur hennar innan flokksins; blökkumaðurinn Barack Obama er öldungadeildarþingmaður fyrir.
Það er alveg ljóst að ljón gætu orðið á veginum fyrir Hillary. Hún á sér andstæðinga bæði innan flokks og utan og víst er að mörgum stendur stuggur af því í flokkskjarnanum muni Clinton-hjónin aftur taka yfir flokkinn, rétt eins og í forsetatíð Bill Clinton. Fyrirfram er ljóst að Obama er hennar mesti keppinautur í baráttunni sé tekið mið af stöðunni nú. Hinsvegar á hún digrasta kosningasjóðinn, er með mikla peninga og öflugt eldsneyti til verka. Hún er án vafa forystumaðurinn í slagnum er af stað er haldið. En það hefur oft ekki dugað til enda. Allir muna eftir því hvernig að Howard Dean varð bensínlaus á viðkvæmasta hjallanum árið 2004.
En Hillary fer í slaginn vígreif og örugg. Þessi bók er maskínuritning baráttu hennar, það er alveg ljóst. Hún er góð lesning fyrir alla sem hafa áhuga á stjórnmálum og ætla sér að fylgjast með kosningabaráttunni 2008 frá upphafi til enda. Þetta verður lífleg barátta, sem verður í umræðunni af krafti. Þar verður ekkert til sparað og öllu greinilega til flaggað. Spenna og fjör - rétt eins og það á vissulega að vera.