Afleikur Ingibjargar Sólrúnar - krísa hægrikratanna

ISG Það er ekki hægt að segja annað en að það sé ótrúlegur afleikur hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að beita sér fyrir því að reyndur stjórnmálamaður á borð við Jón Baldvin Hannibalsson skipi ekki heiðurssæti á framboðslista. Jón Baldvin er enginn venjulegur flokksmaður Samfylkingarinnar; hann var formaður Alþýðuflokksins í tólf ár, fjármálaráðherra í eitt ár og utanríkisráðherra í sjö ár. Hann var í áratugi virkur stjórnmálamaður og leiðtogi á vinstrivængnum á örlagatímum í íslenskum stjórnmálum; leiddi Alþýðuflokkinn til vegs og virðingar í ríkisstjórn árið 1987 og var um langt skeið einn áhrifamesti stjórnmálamaður landsins, sprengdi t.d. ríkisstjórnir.

Það ber ekki vott um klókindi hafi Ingibjörg Sólrún í önugu skapkasti beitt sér gegn því að Jón Baldvin yrði um borð á listum flokksins. Það er enda ekki undarlegt að leitað sé eftir því; hann er kominn heim til Íslands eftir alllanga útlegð sem sendiherra og verið mjög virkur í þjóðmálaumræðunni. Fjarvera hans frá framboðslistunum er stingandi og gott betur um það. Ummæli hans í kvöldfréttum Stöðvar 2 bera því vitni að hann líti á þessa framkomu sem niðurlægingu fyrir sig. Gleymum því ekki að Jón Baldvin yfirgaf stjórnmálin til að greiða fyrir samfylkingu vinstriaaflanna og hélt út til að leggja drög að samstöðu um nýja tíma. Nú er hann kemur heim er ekki óskað eftir liðsinni hans á lista.

Ég get rétt ímyndað mér að armur Jóns Baldvins innan Samfylkingarinnar sé argur vegna stöðu mála. Í ljósi alls þessa ber að skilja mun betur ákvörðun Jakobs Frímanns Magnússonar um að yfirgefa Samfylkinguna. Þeir eru mun fleiri hægrikratarnir sem þar hafa dæmt skipið ómögulegt og haldið á önnur mið sem henta þeim betur. Það að Jón Baldvin sé ekki metinn sem öflugur til veru í heiðurssæti eru enda stórtíðindi. Ummælin í kvöld ber allavega að skilja að hann hafi viljað vera í hópnum, þó vissulega aftarlega hafi verið. Það að sá liðsauki reynds stjórnmálahöfðingja sé afþakkaður er athyglisvert í sjálfu sér.

Það er löng hefð fyrir því að leiðtogar sem yfirgefið hafa stjórnmálasviðið eða fari ekki fram aftur sé í heiðursskyni boðið sess sem hæfir því að þeim sé búinn vegsauki við hlið þeirra sem leiða vagninn. Hér hjá okkur í Norðausturkjördæmi er leiðtogi okkar sjálfstæðismanna í áratugi, Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og forseti Alþingis, í heiðurssætinu og eins og Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, bendir á í góðum skrifum á bloggvef sínum í kvöld eru fyrrum forsætisráðherrar og flokksformenn Framsóknarflokksins, þeir Steingrímur Hermannsson og Halldór Ásgrímsson, í heiðurssess hjá flokknum í Reykjavík og Kraganum.

Þessi afleikur Ingibjargar Sólrúnar vekur mikla athygli í ljósi þess hve Jón Baldvin Hannibalsson hefur verið handgenginn henni. Hann talaði mjög máli þess að hún færi í landsmálin fyrir kosningarnar 2003 og studdi hana í formannsslagnum 2005 þar sem sitjandi formanni var skipt út fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Hún virðist hafa reiðst mjög Jóni Baldvin vegna ummælanna í Silfri Egils og það hafa einhver hnútuköst orðið milli þessara fornu samherja. Merkilegt vissulega í ljósi þess sem þeirra hefur farið fyrr á milli.

Krísa hægrikratanna í Samfylkingunni verður sífellt meira skiljanleg í ljósi þess að Nestori þessa hóps er hafnað um heiðurssæti og enginn vilji sýndur um að hann eigi að vera í hópnum fyrir kosningarnar þó hann hafi greinilega viljað það sjálfur. Horfir hann nú í aðrar áttir? Það að hann tali svo hreint út við Stöð 2 ber því allavega vel vitni að hann sé ekki beint sáttur við stöðu mála, ekki frekar en margir samherjar hans sem hafa nú þegar reyndar yfirgefið flokkinn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anton Þór Harðarson

Er þetta ekki bara vandamál samfylkingarinnar í hnotskurn............

Þarna sjást foringjahæfileikarnir, eða kanski heldur forustuvanhæfið. Þegar formenn stjórnmálaflokka geta ekki tekið gagnrýni frá eigin flokksmönnum, það segir manni að hæfnin til forystu sé heldur bágborinn 

Anton Þór Harðarson, 28.2.2007 kl. 21:24

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Ég get verið sammála báðum ofangreindum athugasemdum.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 28.2.2007 kl. 21:53

3 identicon

Ingibjörg sagði í dag aðspurð um samskipti þeirra Jóns Baldvins að ekkert boð hefði verið afturkallað. Þátturinn Silfur Egils hefði ekkert með þetta að gera og hvorki Jón Baldvin né Ingibjörg vildu í dag ræða málið nánar í sjónvarpsviðtali. Jón Baldvin hefur undanfarið verið bendlaður við önnur framboð og haft hörð orð um Samfylkinguna. Myndi Davíð Oddsson reikna með heiðurssæti á lista Sjálfstæðisflokksins ef hann hefði hagað sér með líkum hætti og Jón Baldvin hefur gert undanfarið? Það væri af og frá í mínum huga.  

Steini Briem (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 22:11

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Stefán, báðir pistlarnir þínir eru því miður heldur götóttir og ekki vel tengdir veruleikanum. Það er stórlega ofmetið að JBH sé súr út af einhverju heiðurssæti, hver segir að hann hafi óskað eftir því? Heiðurssæti er í raun bara marklítil grafskrift þeirra stjórnmálamanna sem eru hættir sem slíkir og þannig séð bara kvittun. ISG er því í sjálfu sér ekki að gera nein sérstök mistök heldur hvað Jón varðar.

Þetta skýrist samt allt fljótlega.

Haukur Nikulásson, 28.2.2007 kl. 22:49

5 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Ef þetta heldur áfram, fylgið fer að hrynja af samfó og VG, öryrkjar og aldraðir stofni flokk, frjálslindir áfram smáir og svo bætist jónbaldvin/margrét/ómar framboð við, þá sjáum við þriggja flokka stjórn með sjálfstæðismönnum plús 2 flokkar... bara spurning um hverjir hinir tveir verða.

Allavegana eru ekki miklar líkur á að 1 flokkur nái að vega yfir 51% með sjálfstæðismönnum. Án sjálfstæðismanna verður ekki mynduð nothæf ríkisstjórn. Bara spurning hver bakkar mest og fær ráðuneyti til sín.

Júlíus Sigurþórsson, 28.2.2007 kl. 22:50

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Er sammála þeim flestum, en tel rétt að svara sérstaklega Hauki.

Það er alveg ljóst að þetta eru tíðindi miðað við sögu Jóns Baldvins. Ég er ekkert að segja að heiðurssæti hafi verið keppikefli fyrir Jón Baldvin, þetta er fyrst og fremst fyrir gamla flokksmenn með pólitíska sögu sem eru við hlið eftirmanna sinna. JBH var boðið þetta að hans sögn en svo hætt við eftir spjall við ISG. Það eru tíðindin. Hvað varðar JBH þarf hann ekkert á þessu sæti svosem að halda til að efla sig, en þetta eru samt mikil tíðindi. Þau er hægt að túlka þau á ýmsa vegu vissulega.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 28.2.2007 kl. 23:13

7 identicon

Sæll

ég er gamall hægri krati og mér líður hreint ágætlega í Samfylkingunni. ég held að þú sér að yfirdramatiksera kæri vinur :-) 

Jon Ingi Caesarsson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 23:42

8 Smámynd: Kristján Pétursson

Stefán þú ert "sérfræðingur" að búa til langar greinar um nánast ekki neitt,ef það getur komið flokknum þínum til góðs.Ég hélt að þið Sjálfstæðismenn hefðu fengið ykkar lexíu að verja Davíð síðustu ár hans á valdastól.Jón Baldvin er kappsamur.gagnrýninn og framgjarn og lætur ýmislegt flakka, stundum á mjög gagnrýninn hátt gangvart forustumönnum stjórnmálafl.Það boðar ekki að Jón sé að fara bakdyramegin út úr Samfylkingunni.Hann er miklu fremur að hvetja menn til dáða að fella núverandi ríkisstjórn.Ég held Stefán að þessar hugleiðingar  þínar nái ekki að lifa fram á kjördag,en þú hefur alla vega reynt að koma þínum sjónarmiðum á framfæri fyrir flokkinn þinn.

Kristján Pétursson, 28.2.2007 kl. 23:45

9 Smámynd: Haukur Nikulásson

Stefán, ég hlustaði á frétt stöðvar 2 um þetta mál og verð að játa að það er lesið of mikið út úr fréttinni. Mér finnst líklegt að JBH hafi ekki viljað gefa ISG formlega andlátstilkynningu sína sem virks stjórnmálamanns og þess vegna hafi verið sjálfgert fyrir hana að draga nafn hans af framboðslistanum. Það að túlka þetta sem sérstaka andúð ISG á JBH sé þvi oftúlkun á fréttinni.

Haukur Nikulásson, 28.2.2007 kl. 23:52

10 Smámynd: Haukur Nikulásson

... rosalega ertu með gamaldags tónlistarsmekk. Það mætti halda að þú værir á mínum aldri

Haukur Nikulásson, 28.2.2007 kl. 23:58

11 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Jón Ingi: Það er gott að þér líður vel. Ég held reyndar að margir þarna brosi í gegnum tárin eins og fegurðardrottningarnar. Annars er reyndar alveg rétt að Össur sigraði í prófkjörunum um allt land, svo að einhverjir kratar eru glaðir vonandi.

Kristján: Takk fyrir hrósið. Þetta er fyrst og fremst minn vettvangur. Hef ekkert hikað við að gagnrýna það sem mér finnst aflaga fara í mínum flokki og verið beittur ef því er að skipta í allar áttir. Það er hollt og gott. Vissulega þykir mér vænt um flokkinn minn og hef alltaf þótt. Ég er þó ekki blindur flokkshestur og verð aldrei. Við sjáum til hvað gerist. Það verður fróðlegt hver mælingin er hjá Gallup á spurninguna um hvernig framboð með Möggu, Jóni Baldvin og Ómari stendur.

Haukur: Þetta eru merk tíðindi. Honum var boðið sætið. Hvað breyttist? Réð ISG því hver tók heiðurssætið. Merkilegt, annars ræðst hvernig fer. En ég verð þó að segja alveg eins og er að það er mjög spes að Jón Sig sé í heiðurssæti hjá Samfó en JBH ekki, þó honum hafi verið boðið það. Hvað breyttist? spurt enn og aftur.

Tónlistarsmekkur minn er fjölbreyttur. Ég er mikið fyrir nýtt en líka gamalt. Foreldrar mínir, einkum pabbi, kenndu mér að meta gamla tónlist. Hún er mér mikils virði. Þarna eru ný lög með Tatu, Rammstein, Fool´s Garden og Red Hot Chili Peppers en líka gamalt. Gamalt og gott eins og ég kalla það. Ég hef mjög breiðan tónlistarsmekk, við skulum bara orða það þannig.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 1.3.2007 kl. 00:28

12 identicon

ég held að þessi afleikur isg og landsfundur sf á sama tíma og hjá sjálfstæðisflokknum, þ.e þau ótrúverðugu rök sem formaðurinn notaði ætti ekki að gera neitt annað en hjálpa sjálfstæðisflokknum, landsfundur sf mun aldrei standast neinn samanburð við landsfund sjálfstæðisflokksins

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 07:54

13 Smámynd: Haukur Nikulásson

Stefán, málið er einfalt: JBH er vísast ekki tilbúinn að láta ISG ákveða fyrir sig með tilskipun að hann sé endanlega hættur í stjórnmálum. Hann á sig sjálfur og vill ráða því sjálfur.

Maðurinn á fullt erindi ennþá sem slíkur og er langt í frá útbrunninn. Hvað hann gerir á bara eftir að koma í ljós, og vonandi mjög fljótlega. Ég hef ekki dulið að ég tel að hann eigi að leiða nýtt framboð jafnaðarmanna og vonast eftir því að hann láti tilleiðast.

Tónlistarsmekkurinn þinn er mér alveg prýðilega að skapi, bæði þroskaður og breiður. Foreldrar þínir hafa ekki klikkað í þessu.

Haukur Nikulásson, 1.3.2007 kl. 08:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband