Mun Hillary marka söguleg pólitísk skref?

Hillary Rodham Clinton Ég hef síðustu dagana lesið bókina The Case for Hillary Clinton eftir Susan Estrich - keypti bókina í bókarölti í Pennanum um daginn og hef haft gaman af lestrinum. Hillary Rodham Clinton getur markað söguleg pólitísk skref á næstu 20 mánuðum, á því leikur enginn vafi. Hún er fyrsta konan sem raunhæfa möguleika á því að verða forseti Bandaríkjanna og er að flestum talin standa langbest að vígi á þessari stundu af sjö keppinautum sínum um útnefningu demókrata, hvað svo sem síðar verður.

Sex árum eftir að hún flutti úr Hvíta húsinu hefur hún hafið dýra og miskunnarlausa pólitíska baráttu fyrir því að flytjast þangað aftur. Það er ekkert áhlaupsverkefni sem tekur einhverjar vikur að sigra kosningu um embætti forseta Bandaríkjanna. Baráttan er hafin á fullum krafti nú þegar, fjáröflunarsamkomur eru komnar á fullt og ferðalög um ríki landsins eiginlega löngu hafnar. Slagurinn verður harðari nú væntanlega en nokkru sinni áður. Enn eru tæpir ellefu mánuðir í forkosningarnar og forsetakosningarnar verða 4. nóvember 2008.

Í bókinni The Case for Hillary Clinton fjallar höfundurinn um pólitísk verk Hillary og talar fallega og af krafti um hana. Hún gerir mikið í því að Hillary geti markað söguleg pólitísk skref á næstu tveim árum; er eiginlega að leggja grunn fyrir hana og framboðið með markvissum hætti. Þarna er engin tæpitunga um Hillary. Þetta er lofrulla og samansafn höfundar á því hvers vegna Hillary ætti að fá tækifærið mikla. Estrich er pólitískur strategíumeistari og vann fyrir Michael Dukakis, Jimmy Carter og Bill Clinton. Allir urðu forsetaefni demókrata og þeir tveir síðarnefndu eru síðustu tveir forsetar Bandaríkjanna frá demókrötum.

Estrich talar af áfergju um lykilmál sín, sem hún greinilega fer ekki leynt með. Hún er eindreginn talsmaður menntunar, valfrelsis, umhverfismála, sterks heilbrigðiskerfis og traustrar fjármálastjórnunar. Estrich virðist gefa öll þessi mál upp sem mál sem hún sjái best farveg sinn í Hillary Rodham Clinton. Um hana er skrifað af mikilli virðingu og enginn vafi leikur á því að þetta er strategíurit til varnar og stuðnings henni. Bókin er greinilega markaðssett á demókrata og miðjumenn innan Repúblikanaflokksins og þá sem óflokksbundnir eru. Tveir síðastnefndu hóparnir tryggðu án vafa sigur Clintons forseta árin 1992 og 1996 og fylgdu honum á örlagastundum.

Estrich er greinilega viss um að Hillary verði eina konan næstu 10-20 árin sem geti orðið forseti Bandaríkjanna og virðist mjög áfram um að skrifa bókina sem áminningu um að demókratar eigi ekki betri forsetaefni í stöðunni. Ég er ekki sammála öllu sem stendur í bókinni. Hún er samt fróðleg og góð lesning. Þar má nefnilega sjá hvernig að stuðningsmenn Hillary ætla að leggja upp baráttuna. Það á að kynna Hillary sem konu á framabraut, konu hugsjóna og skoðana, konu krafts og einbeitingar, sem þori að leggja áherslu á mjúk mál í bland við þau hörðu. Þetta er góð lesning fyrir mig í kjölfar bókanna Living History (opinberu ævisögunnar) og American Evita (þeirrar óopinberu og einbeittu) sem fjalla um Hillary vítt og breitt.

Búast má við gríðarlega spennandi átökum innan Demókrataflokksins um það hver verði forsetaefni hans. Þegar hafa sterk forsetaefni eins og öldungadeildarþingmennirnir Barack Obama og Chris Dodd komið fram auk Dennis Kucinich, John Edwards (varaforsetaefni John Kerry 2004) og Joe Biden. Tom Vilsack kom og fór úr slagnum snöggt. John Kerry, forsetaefni demókrata árið 2004, hefur gefið framboð upp á bátinn, enda það vonlaust fyrir hann að fá annan séns eftir tapið fyrir George W. Bush á sínum tíma, sem var mikið áfall fyrir alla andstæðinga forsetans, enda fékk hann meirihluta atkvæða, fyrstur forseta frá árinu 1988. Mikið er rætt um hvort að Al Gore fari fram, en hann tapaði forsetaslagnum árið 2000 fyrir Bush með sögulegum hætti.

Næstu forsetakosningar verða reyndar mjög sögulegar, hvernig sem þær munu fara, enda er ljóst nú þegar að þær verða hinar fyrstu frá árinu 1952 þar sem hvorki forseti eða varaforseti Bandaríkjanna verða í kjöri. George Walker Bush, forseti, situr sitt seinna kjörtímabil og má skv. lögum ekki bjóða sig fram aftur og mun því halda heim til Texas er hann lætur af embætti þann 20. janúar 2009. Dick Cheney varaforseti, hefur lýst því yfir að hann hafi engan áhuga á forsetaframboði og ætli að sinna sínum verkefnum út kjörtímabilið og njóta að því loknu lífsins með konu sinni og fjölskyldu, fjarri Washington, eins og hann hefur orðað það sjálfur.

Hillary Rodham Clinton er að flestra mati manneskjan á bakvið sigur eiginmanns síns í forsetakjörinu 1992 - hefur aukinheldur lengi verið útsjónarsamur stjórnmálaplottari með mikla yfirsýn yfir pólitískt landslag og stöðumat hinnar réttu strategíu. Hún hefur allt frá lokum forsetatíðar eiginmannsins markað sér sinn eigin stjórnmálaferil og gert það mjög vel. Hún hefur um nokkurn tíma haft verulegan áhuga á forsetaembættinu, en veit að það gæti orðið erfitt fyrir hana að leggja í slaginn, enda í húfi bæði pólitísk arfleifð eiginmanns hennar og hennar einnig. Framboð gæti reynst rétt en einnig verið alvarleg mistök fyrir þau bæði tapi hún. 

Í þessari bók er sagt æ ofan í æ að Hillary eigi söguleg tækifæri fyrir höndum með sigri. Hún yrði með sigri enda fyrsta konan á forsetastóli í Bandaríkjunum og aukinheldur fyrsta forsetafrú landsins sem hlýtur embættið. Það er erfitt að meta hvort að Hillary hafi kraft til að halda út allt til enda. Nú er hún þó afgerandi sterkust á sviðinu; er með mestu peningana og reyndustu kosningamaskínun. Hún hefur tengsl víða; er sterk á heimavelli í New York og hefur sterkar taugar í suðrið sem fyrrum ríkisstjórafrú Arkansas og er svo auðvitað ættuð frá Illinois; sama fylki og helsti keppinatur hennar innan flokksins; blökkumaðurinn Barack Obama er öldungadeildarþingmaður fyrir.

Það er alveg ljóst að ljón gætu orðið á veginum fyrir Hillary. Hún á sér andstæðinga bæði innan flokks og utan og víst er að mörgum stendur stuggur af því í flokkskjarnanum muni Clinton-hjónin aftur taka yfir flokkinn, rétt eins og í forsetatíð Bill Clinton. Fyrirfram er ljóst að Obama er hennar mesti keppinautur í baráttunni sé tekið mið af stöðunni nú. Hinsvegar á hún digrasta kosningasjóðinn, er með mikla peninga og öflugt eldsneyti til verka. Hún er án vafa forystumaðurinn í slagnum er af stað er haldið. En það hefur oft ekki dugað til enda. Allir muna eftir því hvernig að Howard Dean varð bensínlaus á viðkvæmasta hjallanum árið 2004.

En Hillary fer í slaginn vígreif og örugg. Þessi bók er maskínuritning baráttu hennar, það er alveg ljóst. Hún er góð lesning fyrir alla sem hafa áhuga á stjórnmálum og ætla sér að fylgjast með kosningabaráttunni 2008 frá upphafi til enda. Þetta verður lífleg barátta, sem verður í umræðunni af krafti. Þar verður ekkert til sparað og öllu greinilega til flaggað. Spenna og fjör - rétt eins og það á vissulega að vera.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Ég þakka þér fyrir að deila þessu. Ég er einn af þeim sem vona að við fáum ekki annan líkan Bush í forsetastjól að honum gengnum úr honum.

Ég las einhvers staðar að mjög mikill meirihluti republicana héldi að hlýnun jarðar væri ekki af mannavöldum en democatar væru jafn margir vissir um að svo væri.

Það sjónarmið bandaríkjamanna að þeir geti vaðið yfir heiminn með hervaldi af minnsta tilefni og þeir hafi í þeim efnum allt annann og meiri rétt en aðrir gengur ekki upp til lengri tíma litið. Það kemur þeim í koll þegar stórþjóðir eins og Kínverjar, Indverjar og Rússar heimta á grundvelli yfirvurða að fá að haga sér eins.

Ekkert stórveldi er eilíft. Með framkomu getur þú haft áhrfi á framkomu annarra í framtíðinni.

Ef mér verður að ósk minni þá eru líkur á því að næsti forseti skrifi nýjan kafla í sögu Bandaríkjanna - annað tveggja kona eða blökkumaður.

Jón Sigurgeirsson , 28.2.2007 kl. 23:59

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll

Takk fyrir kommentið og góð orð um skrifin. Já, það er alveg ljóst að hvernig sem fer verður sagt skilið við Bush-tímann. Hann hefur verið í átta ár og fínt að stokka upp. Tel að svo muni fara, enginn vafi á því. Giuliani er t.d. mjög ólíkur Bush myndi ég segja, tel að hann fari fyrir repúblikönum næst.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 1.3.2007 kl. 01:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband