Elísabet II drottning á valdastóli í 55 ár

Elísabet II EnglandsdrottningÍ dag eru 55 ár liðin frá því að Georg VI Englandskonungur lést og dóttir hans, hin 25 ára gamla, Elísabet, varð drottning Englands. Elísabet II hefur verið áberandi persóna í sögu bresku konungsfjölskyldunnar og sett mikið mark á samfélag þjóðar sinnar og leitt konungsveldið á umbreytingatímum í sögu þess. Það segir sig sjálft að þjóðhöfðingi sem hefur setið vel á sjötta áratug hefur haft áhrif, mótað þjóðina og sögu hennar.

Elísabet II hefur í ljósi margs verið eftirminnilegur þjóðhöfðingi og niðjar hennar hafa ekki verið síður áberandi. Þegar að hún fæddis í desember 1926 hefði fáum órað fyrir að hún yrði æðsti valdhafi bresku krúnunnar. Hún fæddist enda ekki sem erfðaprinsessa. Örlög Elísabetar mótuðust í desember 1936 þegar að föðurbróðir hennar, Edward VIII, sagði af sér konungdómi til að giftast unnustu sinni, hinni tvífráskildu og bandarísku, Wallis Warfield Simpson. Með því dæmdi hann sig í ævilanga útlegð frá fjölskyldu sinni.

Með afsögn Edward VIII var Elísabet orðin erfðaprinsessa krúnunnar. Föður hennar var alla tíð illa við þau örlög að taka við þjóðhöfðingjahlutverkinu. Elísabet, eiginkona hans, leit alltaf á konungdóm hans sem bölvun yfir honum og fjölskyldunni. Hann var stamandi og órólegur og leit á verkefnið sem tröllvaxið sem það varð. Leiðarljós hans í gegnum verkefnin voru eiginkonan og dæturnar, Elísabet og Margrét. Staða krúnunnar þótti veik eftir skammarlega afsögn bróður konungsins, sem var konungur í ellefu mánuði, og þeir voru ólíkir sem dagur og nótt. Georg og Elísabet drottning, móðir Elísabetar II, unnu hug og hjörtu Breta í seinni heimsstyrjöldinni með vaskri framgöngu sinni.

Georg VI greindist með krabbamein síðla árs 1951 og heilsu hans fór ört hrakandi í raun síðustu árin vegna ýmissa kvilla. Veikindum hans var haldið leyndum fyrir þegnum landsins. Dauði hans kom þó óvænt. Hann lést einsamall í herbergi sínu í Sandringham House í Norfolk að morgni 6. febrúar 1952. Hann er eini handhafi bresku krúnunnar sem dó einn og án þess að nokkur væri dánarbeðið. Elísabet var stödd ásamt Filippusi, hertoga af Edinborg, í opinberri heimsókn í Kenýa er faðir hennar lést. Hún var stödd á afskekktu gistiheimili í sveitahéruðum Kenýa er henni voru færðar fregnirnar um dauða föður síns, fregnir sem mótuðu líf hennar fyrr en hún hafði átt von á.

Hún hélt til Englands þegar í stað og sneri aftur sem drottning heimsveldis, stórs heimsveldis. Hún var kona sinnar kynslóðar, mótuð af stríðsátökunum sem mörkuðu valdaferil föður hennar. Hún einsetti sér frá fyrsta degi að gera eins og foreldrar hennar, sem höfðu endurreist veg og virðingu krúnunnar eftir skammarlega brottför Edward VIII. Verkefnið hlýtur að hafa verið tröllvaxið 25 ára gamalli konu. En hún tók við og gerði krúnuna að sinni og tók upp sína siði og sitt verklag með áberandi hætti. Sér við hlið hafði hún ráðgjafann sem hún ráðfærði sig mest við; móður sína sem 52 ára gömul stóð eftir án hlutverks. Elísabet bjó móður sinni opinberan titil drottningamóður.

Elísabet II er sennilega áhrifamesta kona í sögu 20. aldarinnar, sú mest myndaðasta og mest áberandi. Hún hefur verið andlit heimsveldis, vissulega hnignandi heimsveldis, en þó enn áberandi og áhrifamikils heimsveldis, í yfir hálfa öld. Hún eignaðist fjögur börn með eiginmanni sínum, Filippusi; Karl, Önnu, Andrés og Játvarð. Öll hafa þau sett ekki síðra mark á breskt samfélag. Það þótti skandall fyrir ættina þegar að Margrét, systir drottningar, skildi við Snowdon lávarð, mann sinn, á áttunda áratugnum og hún átti í opinberum ástarsamböndum í kastljósi fjölmiðla sem systur hennar og móður mislíkuðu mjög. Það varð þó ekki toppur skilnaðanna í ættinni.

Meiri athygli vakti einkalíf barna drottningar. Er árið 1992 rann í aldanna skaut höfðu þrjú hin elstu öll skilið. Mesta athygli vakti án vafa skilnaður Karls, prins af Wales, og eiginkonu hans, Díönu, prinsessu af Wales. Díana og Karl deildu er á hólminn kom hart á hvort annað. Lögskilnaður þeirra í desember 1992 markaði ekki endalok þess. Bæði veittu fræg sjónvarpsviðtöl þar sem þau sögðu sína hlið skilnaðarins og ellefu ára hjónabands þeirra. Elísabet drottning fékk nóg af stöðunni og skipaði þeim að ganga frá skilnaði. Það tók fjögur að landa skilnaði. Í ágúst 1996 tók hann formlega gildi. Elísabet og Filippus töldu sig þar með hafa heyrt hið síðasta frá Díönu. Svo fór þó ekki.

Díana lést í bílslysi í París þann 31. ágúst 1997. Snögglegur dauði hennar varð sem þruma úr heiðskíru lofti. Breskur almenningur syrgði prinsessuna mjög. Þegar að komið var með kistu hennar til London síðla daginn sem hún dó varð öllum ljós að stórviðburður væri framundan. Hún dó í kastljósi fjölmiðla og var kvödd með sama hætti. Útför hennar og sorgarviðbrögðin voru atburður tíunda áratugarins í bresku samfélagi og um raun um allan heim. Drottningin og hefðarmenn hallarinnar vildu kyrrláta jarðarför án viðhafnar og sem minnst vita af stöðu mála. Að því kom að sorg landsmanna varð ekki beisluð. Drottningin gaf eftir og heimilaði viðhafnarútför í London.

Andlát Díönu, prinsessu af Wales, og eftirmáli þess haustið 1997 markar erfiðasta tímann á 55 ára valdaferli drottningarinnar. Hún stóð varnarlaus eftir gegn landsmönnum sem misbauð hversu litla sorg drottningin sýndi opinberlega. Ákvörðun hennar um að fara ekki til London og ávarpa þjóð í sorg, en halda þess í stað kyrru fyrir í Balmoral-höll í Skotlandi ærði almenning. Hún var sökuð um að vanvirða minningu prinsessunnar og virða ekki óskir landsmanna. Pressan og landsmenn sýndu óánægju með verk og forystu drottningar í fyrsta skipti á valdaferlinum. Hún var komin í vonda aðstöðu, aðstöðu sem hún hafði aldrei áður kynnst. Hún var varnarlaus gegn fjöldanum.

Þegar að sýnt var að staðan var að fara úr böndunum tveim dögum fyrir jarðarför prinsessunnar í London sneri drottningin af leið. Hún var allt að því neydd af Tony Blair, forsætisráðherra, sem tekið hafði við völdum nokkrum vikum áður á bylgju velvildar og mestu vinsælda í breskri stjórnmálasögu, til að viðurkenna sess prinsessunnar og votta henni virðingu opinberlega. Drottningin mætti sorgmæddum lýðnum á götum Lundúna, blandaði geði við þá, tók við blómum sem þöktu strætin utan við Buckingham-höll og vottaði prinsessunni hinstu (og mestu virðinguna) í ógleymanlegu sjónvarpsávarpi kl. 17.00 síðdegis þann 5. september 1997.

Það var í annað skiptið sem drottningin ávarpaði landa sína utan hefðbundins jólaávarps. Hið fyrra var upphaf Persaflóastríðsins. Ávarpið var sögulegt að öllu leyti. Þar sýndi drottningin tilfinningar og hugljúfheit, það sem landsmenn höfðu óskað eftir. Hún bjargaði sess sínum og konungdæminu sem tekið var að riðla til falls. Landsmenn tóku drottninguna í sátt og hún ávann sér að nýju þann sess sem hún hafði fyrir lát Díönu. Í minningu um prinsessuna var fánanum á Buckingham-höll, ríkisfánanum margfræga, flaggað í hálfa stöng. Það hafði aldrei gerst áður, ekki einu sinni er faðir hennar var jarðaður í febrúar 1952. Dauði Díönu breytti konungveldinu að eilífu.

Áratug eftir lát Díönu situr drottningin á friðarstóli, mælist vinsælust allra í fjölskyldunni. Margir hafa sagt að móðir hennar hafi verið sú sem að lokum ráðlagði drottningunni að fara til London og mæta fjöldanum - lækna sárin og laga stöðuna. Drottningamóðirin dó árið 2002, en hún var táknmynd fjölskyldunnar í átta áratugi og virtust þeirra allra. Hún varð 101 árs. Það virðist sem að drottningin hafi erft langlífi hennar og góða heilsu. Ef drottningin ríkir enn eftir níu ár slær hún frægt met Viktoríu, ömmu sinnar, er ríkti í 64 ár.

Hver veit nema það gerist.


Veikindi Björns

Björn BjarnasonÞað hefur varla farið framhjá neinum að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, var fluttur á sjúkrahús í gær í kjölfar þess að hægra lunga hans féll saman. Björn hefur nú sjálfur skrifað um þessa lífsreynslu á vef sínum og hvernig gærdagurinn var hjá honum.

Það er alltaf svo þegar að stjórnmálamenn veikjast að það vekur athygli, hvort sem þar er lítilsháttar eða af meira taginu. Það er fyrir löngu orðið svo að Björn á sér tryggan stað í huga netnotenda og því er mikilvægt við svona aðstæður að hann skrifi um málið og fari yfir hvernig það horfi við sér.

Þegar að Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, lenti í alvarlegu umferðarslysi á síðasta ári eyddi hann orðrómi um veikindi sín og stöðu þeirra með blaðamannafundi af sjúkrabeði. Það fannst mér vel til fundið, enda var engin umræða eftir það um hvernig hann væri á sig kominn af meiðslum sínum.

Björn hefur notað netið í tólf ár með áberandi og traustum hætti og skrifað um pólitísk verk sín og það sem gerst hefur hjá honum sem persónu á þessum tíma. Vefur hans er ómetanlegt safn skrifa og hugleiðinga. Það getur enginn íslenskur stjórnmálamaður státað af betra verki á veraldarvefnum en hann.

Það sem ég hef enda alltaf metið mest við Björn er hversu auðvelt er að fylgjast með störfum hans, hann þorir að hafa skoðanir og er áberandi málsvari sinna skoðana, sama hvað á gengur í blíðu sem stríðu. Þessi eiginleiki hefur gert það að verkum að ég met Björn mjög mikils sem stjórnmálamann og persónu.

Ég sendi honum mínar bestu kveðjur og óskir um góðan bata.


mbl.is Hægra lunga Björns Bjarnasonar féll saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífleg viðbrögð við hugmyndum um Kjalveg

Norðurvegur Lífleg umræða hefur verið síðustu dagana um hugmyndir Norðurvegs ehf. um að leggja nýjan veg yfir Kjöl í einkaframkvæmd. Er ég eindregið hlynntur þessum hugmyndum og fagna þeim metnaði og krafti sem félagið hefur í þessum efnum. Fór ég yfir skoðanir mínar í pistli hér á vefnum á sunnudag. Voru lífleg skoðanaskipti sem spunnust vegna skrifanna og þar komu mörg athyglisverð og góð innlegg.

Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hefur alla tíð verið mjög andvígur hálendisvegum og reynt í skrifum sínum að tala þær hugmyndir sem allra mest niður, við mjög litla gleði flestra Norðlendinga. Það eru því nákvæmlega engin tíðindi í mínum huga að heyra af andstöðu hans við þennan vegakost sem vel komu fram í leiðaraskrifum í Morgunblaðinu í gær. Hann gengur reyndar skrefið í andstöðu mun lengra en oft áður. Það virðist lítill vilji vera af hans hálfu að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur, altént með þessum hætti.

Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi gerði vegakost á hálendinu að kosningamáli í alþingiskosningunum 2003. Halldór Blöndal, leiðtogi flokksins í kjördæminu og fyrrum samgönguráðherra, hefur verið ötull baráttumaður þessa kosts í áraraðir. Það var heilsteypt og kjarngott hjá honum að leggja flokknum þá línu í sinni síðustu kosningabaráttu á litríkum stjórnmálaferli að feta þessa leið. Menn eru reyndar að horfa nú á annan kost en Halldór kynnti en þeir eru samt áþekkir að því leyti að þeir liggja báðir yfir hálendið. Þetta hefur verið eitt helsta grunnmál Halldórs í stjórnmálum á síðustu árum.

Fyrir síðustu alþingiskosningar leiddum við sjálfstæðismenn í kjördæminu saman fóstbræðurna og félagana Halldór og Styrmi saman á eftirminnilegum fundi hér á Hótel KEA. Umræðuefnið voru hálendisvegir og valkostir í þeim efnum. Þetta var debatt, þeir voru þá sem nú með algjörlega ólíkar skoðanir og tókust á af krafti í mjög málefnalegum en spekingslega inspíreruðum rökræðum. Það var mjög gaman af þessum fundi og hann er mjög eftirminnilegur í minningunni. Styrmir sagði sitt og Halldór svaraði með leiftrandi rökum. Það vissu allir sem sátu fundinn að himinn og haf væri á milli þeirra - óbrúanleg gjá. Skrif Styrmis koma því vart sem leiftrandi þruma í hausinn á okkur fyrir norðan.

Margir hafa ritað margt og mikið um þessar pælingar. Ein þeirra er Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri. Hún fer yfir málið í góðum pistli á vef sínum. Tek ég þar undir hvert orð. Það eru orð sem kristalla mjög vel skoðanir flestra hér í þessum efnum. Ég fer ekki ofan af því að þessi styttingakostur sé mikilvægur og mun tala máli hans með áberandi hætti. Það hef ég áður gert í fjölda greina og ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi tali máli hans með áberandi hætti í væntanlegri kosningabaráttu.


Átök um Akureyrarstofu hjá meirihlutanum

Elín Margrét HallgrímsdóttirÁtök voru innan meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í bæjarstjórn Akureyrar um hvort auglýsa ætti eftir framkvæmdastjóra Akureyrarstofu; menningar-, markaðs- og ferðamálaskrifstofu Akureyrarbæjar. Tókust Elín Margrét Hallgrímsdóttir, formaður Akureyrarstofu og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, og Helena Karlsdóttir, varaformaður Akureyrarstofu og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, á um hvora leiðina ætti að fara.

Gerði Elín Margrét kröfu um að staðan yrði auglýst. Um helgina var sáttafundur haldinn með bæjarfulltrúunum og leiðtogum meirihlutaflokkanna; Sigrúnu Björk Jakobsdóttur og Hermanni Jóni Tómassyni, og leitast við að leysa málið. Niðurstaða flokkanna varð sú að að Elín Margrét hafði sitt fram eftir nokkur átök milli flokkanna. Auglýst verður því eftir framkvæmdastjóra nýrrar Akureyrarstofu. Lýsi ég yfir ánægju minni með að sú varð reyndin. Það er algjörlega ólíðandi að mínu mati að ráðið sé í stöður á borð við þessa án auglýsingar.

Elín Margrét tók við formennsku í Akureyrarstofu þann 9. janúar sl. af Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, bæjarstjóra, en hún var fyrsti formaður stofunnar, sem stofnuð var eftir að menningarmálanefnd var lögð niður síðla síðasta árs. Í síðustu viku var haldinn kynningarfundur þar sem Sigrún Björk og nefndarmenn í Akureyrarstofu kynntu verkefnið og stöðu þess nú. Það var áhugaverður og gagnlegur fundur sem var fræðandi og athyglisverður.


Sorglegt mál úr fortíðinni

BreiðavíkÉg hef sjaldan eða aldrei orðið eins orðlaus og var í gærkvöldi. Ég sat þrumu lostinn yfir Kastljósinu eins og sennilega langflestir landsmenn. Það að hlusta á lýsingar af því sem gerðist á drengjaheimilinu í Breiðavík fyrir áratugum var sláandi; það var sorglegt og nísti í hjartastað.

Það að lýsingar á kynferðisofbeldinu og líkamlegum barsmíðum sem börn þurftu að þola komist fyrst í umræðuna fyrir alvöru nú er að mínu mati stóralvarlegt mál. Hversvegna var þetta mál í þagnarhjúpi öll þessi ár? Hvar var eftirlitið á þessum tíma eiginlega og hvar voru þeir sem báru ábyrgð á málaflokknum? Það þarf að afhjúpa allt þetta mál og sýna með afgerandi hvar brotalömin var í kerfinu á þessum tíma.

Þetta er mjög stórt hneykslismál að mínu mati - mikill áfellisdómur yfir þeim sem héldu á málum á þessum tíma. Það var sláandi að sjá harðfullorðna menn, meira að segja Lalla Johns sem þarna var vistaður sem barn, brotna saman við tilhugsunina eina um þennan stað, þessi örlög að vera þar neyddur til vistar, allt ofbeldið og ógeðið. Þetta var stingandi stund að sjá þessi viðtöl og skynja það sem hefur þarna gerst. Það er skylda þeirra sem leiða málaflokkinn í dag að taka á því.

Það er ekki til of mikils mælst að stjórnvöld dagsins í dag biðji þessa menn opinberlega afsökunar á því að hafa verið neyddir til vistar á þessum vítisstað sem þetta heimili hefur verið.


mbl.is Byrjað að undirbúa úttekt á Breiðavíkurmáli í félagsmálaráðuneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

D með 45,5% fylgi - VG stærri en Samfylkingin

AlþingiMiklar sviptingar eru á fylgi flokkanna í nýrri skoðanakönnun Blaðsins. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 45,5% fylgi og VG er orðin stærri en Samfylkingin. Frjálslyndi flokkurinn mælist heillum horfinn miðað við síðustu kannanir og Framsóknarflokkurinn er enn að mælast með innan við 10% atkvæða. Könnunin sýnir allt annað landslag en könnun Gallups fyrir tæpri viku, en hún er hinsvegar tekin á einum degi.

Af 750 þátttakendum svöruðu 88,8%, en af þeim voru 39% óákveðin. Könnunin er gerð með sama hætti og kannanir Fréttablaðsins, aðferðin er sú sama og hún sýnir stöðuna á einum tímapunkti í stað þess að kannanir Gallups sýni stöðuna á mánaðarlöngu tímabili. Það eru mörg stór tíðindi þarna. Vitanlega stendur þar hæst mikið fylgi Sjálfstæðisflokksins og það að Samfylkingin minnki enn. VG var með sterka stöðu í könnun Gallups og var að ná sterkri stöðu á höfuðborgarsvæðinu. Fylgishækkun VG er staðfest þarna með afgerandi hætti.

Þarna toppar VG hvorki meira né minna Samfylkinguna um tæp fjögur prósentustig og mælist næststærstur flokka. Staða Samfylkingarinnar getur vart annað en talist slæm, en varla hefur birst góð könnun fyrir flokkinn svo mánuðum skiptir. Það hlýtur að fara um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og samstarfsfólk hennar og flokksfélaga hennar í Samfylkingunni við að sjá þessar tölur. Verði staða flokksins á þessu róli eftir kosningar er vandséð hvernig að hún geti leitt flokkinn áfram. Fari staðan svona eins og Gallup og Blaðið sýnir hefur enda Samfylkingin misst yfirburðastöðu sína á vinstrivængnum til vinstri grænna.

Frjálslyndi flokkurinn tekur mikla dýfu og mælist aðeins með 3,1%. Þessi staða vekur mikla athygli, enda stutt síðan að flokkurinn klofnaði eftir átakaþing flokksins þegar að Margrét Sverrisdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri flokksins, gekk úr honum með stuðningsfólki sínu. Staða Framsóknarflokksins batnar lítið og það sama gildir um Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna að flokkarnir eru í frjálsu falli frá kosningunum 2003.

Þetta er merkileg staða og vafalaust verður mikið talað um þessa skoðanakönnun í dag og næstu daga - ekki vantar allavega tíðindin.


Tölur í könnuninni
Sjálfstæðisflokkurinn - 45,5%
VG - 22,9%
Samfylkingin - 19,1%
Framsóknarflokkurinn 9,4%
Frjálslyndi flokkurinn 3,1%



mbl.is Samfylkingin með minna fylgi en VG og ríkisstjórnin heldur velli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð nafnleysingjanna

Reiður tölvunotandiÞað hafa verið lífleg viðbrögð við skrifum Jónínu Benediktsdóttur um spjallvefi á vef hennar. Hún hefur ákveðnar skoðanir á spjallvefunum og tjáir þær óhikað. Það er gleðiefni. Sjálfur hef ég notað spjallvefi aðeins, var reyndar mun virkari í þeim bransa hér í denn en lít þar regulega og set stundum smáskrif þar inn. Ég er þó einn þeirra sem skrifa þar undir nafni, fyrst undir kenninafni mínu í áraraðir, stebbifr, og síðar undir fullu nafni. Það hefur verið gaman að fylgjast með skrifunum, en skrifin þar eru eins ólík og fólkið er margt sem skrifar.

Stór hluti blómalegrar risu Netsins í hversdagssamfélaginu er fjöldi bloggsíðna. Sumir skrifa á spjallvefunum; þeir hafa orðið stór þáttur netsamskipta um helstu hitamál samtímans. Með þeim hefur oft skapast málefnaleg og góð umræða, t.d. um pólitík. Enginn vafi er á því að spjallvefir eru almennt skemmtilegt og nokkuð áhugavert tjáningarform þar sem gefinn er kostur á að tjá skoðanir og jafnframt ræða þær við annað fólk sem hefur ekki síður eitthvað til málanna að leggja. Síðustu tvö til þrjú árin hafa spjallvefirnir þó fengið á sig sífellt neikvæðari merkingu.

Margir á þessum vefum skrifa undir nafnleynd og gefa ekki upp hverjir standa að baki. Það getur verið skiljanlegt ef fólk vill ekki þekkjast einhverra hluta vegna en jafnframt tjáð skoðanir sínar á málefnalegan hátt. Oft vill þó nafnleyndin snúast upp í að fólk noti hana til að vega að nafngreindu fólki með skítkasti og ómerkilegheitum og skrifa á ómálefnalegan hátt. Slíkur verknaður er eitthvað sem á ekki að þekkjast á opinberum vettvangi; alveg sama hvort fólk skrifar undir nafnleynd eða kemur hreint fram undir eigin nafni skal standa vörð um málefnaleika.

Leitt er frá því að segja að svo er það ekki alltaf, mýmörg dæmi eru fyrir því að fólk noti nafnleyndina til að vega úr launsátri að fólki og snúa umræðunni upp í hreina þvælu. Sjálfur hef ég haft gaman af að tjá mig á spjallvefum og ekki verið feiminn við að leggja nafn mitt við mínar skoðanir, enda þykir mér eðlilegt að ræða við annað fólk og koma með mitt sjónarhorn á helstu hitamál samtímans. Hef ég fylgst með spjallvefum í sjö til átta ár; sem lesandi og notandi. Þar hef ég kynnst fólki sem bæði vill tjá sig málefnalega undir nafnleynd og þeim sem misnota hana gróflega.

Hef ég verið málefnalegur og reynt eftir fremsta megni að sýna öllum sem þarna skrifa þá lágmarksvirðingu sem ég krefst að aðrir sýni mér. Eitt er að vera ósammála um málin en annað er að geta rætt málin með virðingu fyrir hvor öðrum og á málefnalegum forsendum. Því miður vill oft nokkuð mikið skorta á málefnalegar forsendur þessara spjallvefa og skítkast milli fólks vill oft ganga ansi langt. Þarf ég vart að benda daglegum áhorfendum þessara vefa á slíkt, enda hafa þeir sem eitthvað hafa fylgst með séð mörg dæmi að gengið sé of langt í skítkasti undir nafnleynd.

Ég tel að alltof lengi hafi vafi leikið á því hver taki ábyrgð á skrifum nafnleysingja. Það sjá allir að sumt nafnlaust fólk sem birtir skoðanir á vefunum gerir það til að þekkjast ekki og notar það tækifæri til að vega að öðru fólki á ómerkilegan hátt. Það þarf að komast á hreint endanlega hver ber hina endanlegu ábyrgð á skrifum þeirra sem þannig haga sér. Jafn nauðsynleg og beinskeytt þjóðmálaumræða er á Netinu, er sorglegt að sjá suma notendur þessara vefa sem ráða ekki við ábyrgðina sem fylgir tjáningarforminu.

Annað er að tjá sig undir nafni og taka fulla ábyrgð á skoðunum sínum og hinsvegar það að beina spjótum í allar áttir með níðskrif um annað fólk undir nafnleynd. Það á að vera sjálfsögð krafa að fólk með skoðanir tjái þær undir nafni eða leggi á þær áherslu með þeim hætti. Nafnleyndin vill oft verða skref til að vega að öðrum og sumir ganga of langt.

Það er einfaldlega hámark aumingjaskaparins að níða skóinn af samborgurum sínum með ómálefnalegum hætti undir nafnleynd á þessum vefum og þarf að komast á hreint hvar ábyrgð á slíku liggur.


Bloggfærslur 6. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband