21.3.2007 | 22:43
Suðurlandsveg verður að tvöfalda

Ég hvet alla til að smella á sudurlandsvegur.is og skoða þar góðan vef þeirra sem berjast fyrir tvöföldun. Ég ritaði þar fyrir nokkrum mánuðum nafn mitt í áskorun til samgönguráðherra um að tvöfalda Suðurlandsveg, án tafar. Það er svo sannarlega mikilvægt að bæta úr samgöngum þar. Þessi slys öll segja sína sögu vel.
Ég stend með Sunnlendingum í þeirra baráttu - Suðurlandsveg verður að tvöfalda án tafar!
![]() |
Suðurlandsvegur lokaður áfram vegna alvarlegs umferðarslyss |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.3.2007 | 22:05
Chirac lýsir yfir stuðningi við Sarkozy

Hvorki Chirac né Dominique de Villepin, forsætisráðherra, tjáðu nokkurn stuðning við Sarkozy fyrr en nú, en forsætisráðherrann tilkynnti um stuðning við Sarkozy þann 12 mars sl, degi eftir ræðu forsetans. UMP-hægriblokkin var byggð upp sem pólitískur heimavöllur Jacques Chirac. Á nokkrum árum hefur Sarkozy tekist að gera hana að sinni með einkar athyglisverðum hætti og eiginlega má segja að völdin hafi hægt og hljótt fetað frá forsetanum og til innanríkisráðherrans klóka. Hann stendur nú eftir sem óskoraður leiðtogi franskra hægrimanna.
Það bauð sig enginn fram gegn Sarkozy innan flokksins sem forsetaefni hans er framboðsfrestur rann út um jólin. Sarkozy var svo staðfestur sem forsetaefni hægriblokkarinnar í janúar. Hann hlaut þó aðeins 70% atkvæða gildra flokksmanna í netkosningunni sem fram fór. Það þótti mikið áfall, enda sagði það með afgerandi hætti að hann væri ekki óumdeildur frambjóðandi hægriblokkarinnar og armur forsetans horfði þögull á útnefningarferlið sem byggði upp Sarkozy sem leiðtoga hægriblokkarinnar. Allt fram til þessarar stundar hafa lykilmenn forsetans ekki útilokað að hann færi fram sem óháður, en hann bakkaði út með nokkrum glans þó. Vill hann væntanlega tryggja einingu nú.
Það hefur verið greinilegt kalt stríð milli aðila og farið eiginlega sífellt versnandi eftir því sem styttist í örlagastund og lok kjörtímabils forsetans. Jacques Chirac hefur aldrei fyrirgefið Sarkozy að hafa ekki stutt sig í forsetakosningunum 1995 og það verið dökkur blettur í hans huga. Það var til marks um það pólitíska minni Chiracs að hann skyldi ekki velja Sarkozy sem forsætisráðherra í júní 2005 er hann sparkaði Raffarin og skyldi velja Villepin. En nú á að grafa stríðsaxir og allt traust er nú lagt á að Sarkozy haldi hægrimönnum við völd. Hægrimenn halda sameinaðir til kosninga. Það er gleðiefni.
Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna fer fram eftir mánuð. Þar eru tólf frambjóðendur í kjöri. Lengst af þótti öruggt um að Sarkozy og Segolene Royal, frambjóðandi sósíalista, myndu berjast um forsetaembættið. Nú hefur hinsvegar miðjumanninum Francois Bayrou tekist að saxa á þau og virðist eiga raunhæfa möguleika á að slá annað þeirra út. Nýjustu kannanir sýna að möguleikar hans aukast til muna nái hann í seinni umferðina. Hann myndi sigra hvort þeirra sem væri við þær aðstæður. Sarkozy hefur haft forskot á Royal nú um nokkuð skeið.
Þetta verða svo sannarlega spennandi kosningar. Fróðlegt verður að sjá hver mun hljóta kjör á forsetastól og ríkja í Elysée-höll frá 17. maí, er Chirac hverfur af hinu pólitíska sviði. Verður seinni umferðin Sarko-Sego stund eins og svo lengi hefur verið spáð, eða mun Bayrou koma á óvart? Með þessum kosningum verður víða fylgst enda er forseti Frakklands einn af lykilleikmönnum stjórnmálanna, bæði innan Evrópusambandsins og á alheimsvísu, enda einn valdamesti stjórnmálamaður heims.
![]() |
Chirac lýsir yfir stuðningi við Sarkozy |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.3.2007 | 17:12
Landsframboð Íslandshreyfingar kynnt á morgun

Framboðslistar nýs framboðs munu nú vera í vinnslu og væntanlegir innan skamms. Allir tengja framboðið fyrst og fremst við Margréti Sverrisdóttur, starfandi borgarfulltrúa F-listans og fyrrum framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins, og fjölmiðlamanninn Ómar Ragnarsson. Brátt verður ljóst hverjir skipa efstu sæti flokksins um allt land. Það verður fróðlegt að sjá hulunni svipt af því stig af stigi. Fyrst og fremst virðast þarna vera framarlega nánustu stuðningsmenn Margrétar Sverrisdóttur og þeir sem standa með Ómari í umhverfismálum og koma t.d. úr Framtíðarlandinu.
Það er mikið mál að stofna nýjan stjórnmálaflokk á landsvísu. Það verður fróðlegt að sjá hver krafturinn í þessu nýja framboði verður. Hef ég nokkuð fjallað um það síðustu dagana. Það er svosem ekki furða, enda er þetta nýja framboð athyglisvert og fáir vita hversu stóra rullu það spilar í kosningunum. Það bíða enda flestir eftir því að helstu forystumenn þess sýni á spil sín og hvaða tromp leynist þar.
Það eru rúmir 50 dagar til kosninga og mesti hiti baráttunnar að hefjast. Það verður fróðlegt að sjá hversu breið hreyfing fólks þetta er og ekki síður hvernig hún mælist á næstunni. Þá ætti að vera auðveldar að ráða í stöðu hennar. Eins og er virðist hún enda vera alveg sem óráðin gáta, gáta sem flestir flokkar vilja ráða og eiga eitthvað svar við.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.3.2007 | 15:24
Banaslys í umferðinni
Það er sorglegt að heyra af enn einu banaslysinu í umferðinni. Þetta er annað banaslysið á árinu 2007 - og það gerist á Suðurlandsvegi. Það hefur lengi verið talað um hætturnar þar - vonandi verður leiðin þar um brátt tvöfölduð. Árið 2006 var eitt það sorglegasta í umferðinni hérlendis. Rúmlega 30 einstaklingar létu þá lífið í umferðarslysum hérlendis.
Það var mjög napurt ár, enda veit ég að margar fjölskyldur voru í sárum á þeim krossgötum, sem þeim fylgdu. Í grunninn séð vekja þessi sorglegu umferðarslys okkur öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu mánaða og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa munu vonandi fá okkur til að hugsa vel um umferðarmál.
Ég votta aðstandendum samúð mína.
![]() |
Kona lést í umferðarslysi á Suðurlandsvegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.3.2007 | 13:56
Steingrímur J. fetar í fótspor Ólafs Ragnars
Það hafa allir tekið eftir því að Steingrímur J. Sigfússon hefur skipt mjög um gír. Hann leikur nú landsföðurtýpu af rólegu og yfirveguðu gerðinni - túlkar lykilforystumann til vinstri í taktföstu sólóspili. Þetta kristallaðist vel er hann eiginlega var rólegastur allra í pólitíska karpinu í Silfri Egils um síðustu helgi. Svo virðist sem að Steingrímur J. sé að feta í fótspor Ólafs Ragnars Grímssonar, hins forna samstarfsmanns í blíðu og stríðu í innanflokkserjum í Alþýðubandalaginu, í að leika fágaðan og rólegan statesman á örlagastundu ferils síns.
Fyrir ellefu árum breyttist Ólafur Ragnar úr pólitískum vígamanni í ljúfasta lamb sem lækkaði röddina og var orðinn hinn mjúki og yfirvegaði maður. Sú karakterbreyting tryggði honum umfram allt mjúka vist á Bessastöðum, tækifæri ferilsins til að leika leiðtoga. Á einni nóttu laðaði hann til sín fylgi úr öllum áttum; meira að segja fólk sem aldrei hefði dottið í hug að kjósa hann fyrr. Stór þáttur þessa var vissulega eiginkona Ólafs Ragnars, Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, sem heillaði þjóðina upp úr skónum, en breytingin á hjúpnum utan um persónu hans spilaði líka lykilþátt í því hversu vel honum gekk. Það kom einfaldlega til sögunnar ný týpa.
Allir sem sáu eldhúsdagsumræður á þingi fyrir viku sáu Steingrím J. með skrifaða ræðu. Hann var eins og nýr maður. Byrjað var að lesa fallegt ljóð Jónasar Hallgrímssonar. Steingrímur J. kom bjartsýnn og undirbúinn, eiginlega í stífelsisbúningi. Þeir sem hafa upplifað stjórnmálin hér undanfarin ár við bardagamanninn og strigakjaftinn Steingrím J. kipptust nokkuð við, enda kom þarna allt önnur týpa og mjög niðurtónuð. Þarna kom forsætisráðherraefni vinstri grænna. Staða VG er orðin þannig í dag að hann er í versta falli á pari við Samfylkinguna, ellegar hreinlega orðinn stærri. Það eru ný tíðindi og á það er sett ný nálgun. Nú er Steingrímur J. kominn með annan verðmiða og það á greinilega að sýna vel að þar fari leiðtogi í þungavigt.
En tekst þessi markaðssetning? Allir sem hafa lesið pólitíska ævisögu Margrétar Frímannsdóttur, fráfarandi alþingismanns, sjá beiska sýn á þennan stjórnmálamann sem hún vann svo lengi með í Alþýðubandalaginu. Margréti tókst að leggja hann í póstkosningu innan Alþýðubandalagsins um eftirmann Ólafs Ragnars Grímssonar á formannsstóli og marka sér sess. En Steingrímur fetaði eigin leiðir eftir það og er nú tólf árum síðar orðinn aðalleikari til vinstri, hærra verðlagður en gamla vonarstjarnan í Samfylkingunni sem hefur upplifað sannkallaða kreppu allt frá því að hún yfirgaf borgarstjórastól í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Margrét Frímannsdóttir lýsir Steingrími J. ekki beint sem femínista og umhverfisverndarsinna í pólitísku ævisögunni, öðru nær. Þar er talað mjög kalt og ákveðið um þennan mann sem nú virðist hafa tekið allt vinstrilitaðasta fylgið til sín. Enda er við því að búast að þeir sem nú stjórna flokknum hennar hjóli nú í Steingrím. Ekki nema von að Margréti sárni; hann hefur stofnað hið nýja Alþýðubandalag, hefur tekið allt þetta fylgi frá Samfylkingunni. Það sem meira er að hann sækir líka annað. Þetta er orðinn örlagavaldur að óbreyttu í íslenskum stjórnmálum. Slík fylgisaukning yrði söguleg og tryggði bændasyninum frá Gunnarsstöðum lykilstöðu í íslenskum stjórnmálum.
Hann er kominn í rulluna og hefur breytt sér. En ætla kjósendur að gleypa við þessari túlkun? Samþykkja að Steingrímur J. sé orðinn rólegur statesman? Kannski verður þetta stóra spurning kosningabaráttunnar að þessu sinni. Hver veit? Kannski mun svona karakterbreyting, extreme makeover, verða honum jafnfarsæl og pólitíska refnum á Bessastöðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.3.2007 | 00:27
Íslandshreyfingin kynnt í vikunni - merkt með I
Nú blasir við að nýr hægri grænn stjórnmálaflokkur Íslandshreyfingin - lifandi land verði kynnt opinberlega í vikunni. Mun flokkurinn bjóða fram undir bókstafnum I, enda mun ekki hefð fyrir framboðum með broddstaf, sem fylgir framboði með upphafsstafinn Í.
Biðin eftir þessum flokki hefur staðið í tæpa tvo mánuði og blasað við að til framboðs í þessum takti kæmi eftir að Margrét Sverrisdóttir yfirgaf Frjálslynda flokkinn í janúar. Flestir bíða eftir að sjá mannskap þessa framboðs og aðrar áherslur auk umhverfismála, enda getur varla verið að þetta framboð keyri aðeins á einu máli alla baráttuna í gegn og til næstu fjögurra ára.
Þessi hreyfing hefur verið persónugerð í Margréti og Ómari Ragnarssyni, fréttamanni. Orðrómur var um það í vikubyrjun að ágreiningur hefði orðið þeirra á milli um áherslur og meginlínur skipan forystu. Verður fróðlegt að sjá hvernig að þessi nýji flokkur verður mannaður, hvort hann fari fram um allt land, hverjar línur hans verða og hvernig forysta hans verði. Einnig hvernig hann verði keyrður áfram.
Spurningar hafa verið mjög áberandi um þetta framboð og fátt komið öruggt, en brátt virðast fást svör við þeim öllum. Það styttist í lok framboðsfrests og öllum ljóst að tíminn er að renna út fyrir þessa hreyfingu og forystu hennar. Nafninu hefur verið skúbbað og eins og fyrr hefur komið fram hér er vefsetur hreyfingarinnar; www.islandshreyfingin.is.
Fyrir okkur sem tilheyrum öðrum flokkum verður fróðlegt með að fylgjast hvernig þetta framboð verði kynnt og hvernig rammi þess verður. Svo verður auðvitað athyglisvert að sjá hvort að það hafi áhrif og verði jafnvel afl sem safnar fylgi úr öllum áttum. Það verður fróðlegt að sjá svo í ofanálag hvernig að það mælist í könnunum, en Gallup spyr nú um stöðu þess.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)