16.4.2007 | 19:51
Skelfilegt fjöldamorð í Bandaríkjunum

Þetta eru óneitanlega mjög sjokkerandi tíðindi, þetta er gríðarlegt áfall fyrir bandarískt samfélag, svo skömmu eftir Columbine-skotárásina. Man mjög vel eftir þeirri skelfingu fyrir átta árum. Það bliknar þó hreinlega í samanburði við þær hörmungar sem þarna hafa átt sér stað og það blóðbað sem við blasir nú. Það eru skv. fréttum eins og fyrr segir 32 látnir og talað er um að allt að 30 séu særðir. Farið var bæði í kennslustofur og á heimavist og skotið á allt sem fyrir varð og byssumaðurinn hafi gnægð skota og vel vopnaður.
Þetta er svakalegt hreint út sagt. Þessi vondu tíðindi öðluðust óneitanlega enn meiri dýpt í lýsingum Dagmar Kristínar Hannesdóttur, sem sem er í doktorsnámi í sálfræði, í kvöldfréttum íslensku sjónvarpsstöðvanna. Heyrði á Sky áðan sjokkerandi lýsingar eins sem er nemandi við skólann og var nær vettvangi en Dagmar Kristín. Þetta er mikill sorgardagur vestanhafs og þessi vondu tíðindi skekja samfélagið þar og mun víðar.
Bowling for Columbine, mynd Michael Moore, í kjölfar skelfingarinnar í Columbine árið 1999 vakti ekki síðri alheimsathygli en voðaverknaðurinn sjálfur og myndin hlaut óskarsverðlaun sem besta heimildarmyndin árið 2003. Hún er eftirminnileg flestum sem hana sjá. Það er ógnvænlegt að sjá svona atvik gerast enn eina ferðina.
Það af hversu stórum skala þetta atvik nú er telst skelfilegt. Það geta engin önnur orð passað betur.
![]() |
22 látnir í skotárás í Virginíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.4.2007 | 17:30
Samfylking í mótbyr horfir framhjá vanda sínum
Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að opna landsfund Samfylkingarinnar á föstudag hafandi fengið framan í sig svo til í sömu andrá að flokkurinn væri að mælast með lægsta fylgi sitt í könnunum Gallups í rúm fimm ár, 18,1%. Þetta er enn eitt áfallið fyrir Samfylkinguna og gríðarlega mikið fall sé miðað við kosningarnar 2003, sem eru marktækustu viðmunarmörkin, enda markar það auðvitað núverandi þingstyrk.
Ég fylgdist mjög lítið með landsfundi Samfylkingarinnar. Á meðan að hann stóð var miðpunktur landsfundar Sjálfstæðisflokksins í sömu borg. Ég var staddur þar. Við gátum glaðst, enda er staðan góð. Það sem ég helst sá og heyrði voru fyrirsagnir í blöðum og orðrómur víða í þeirri borg þar sem flokksmenn ólíkra flokka voru samankomnir til fundahalda. Það allt sagði mér að þar fer flokkur sem á erfitt með að líta í eigin barm, erfitt með að greina vanda sinn og er með formann sem á erfitt með að feisa vonda daga. Ofan á allt annað var þeim þungbært að vakna upp við lesbóksgrein Jóns Baldvins á laugardaginn. Hún var mjög massíf.
Þetta var landsfundur haldinn í skugga kannana sem sýna að Samfylkingin muni tapa mestu fylgi þeirra fimm flokka sem sitja á Alþingi. Fari kosningar á þann veg sem kannanir eru að boða okkur verður mikið rætt um framtíðina. Þó að Samfylkingin skori 22% eins og könnun Fréttablaðsins boðaði eða fari jafnvel allt upp í 25% er fylgistap hennar enn mikið og áberandi. Þetta er flokkur sem gnæfði yfir til vinstri eftir síðustu kosningar og var drottnandi þar. Staðan hefur breyst mjög og VG er komin upp að hliðinni að hinum forna stóra bróður sínum og jafnvel orðinn stærri en hann og horfir jafnvel spekingslega niður til hans. Stór tíðindi það.
Ingibjörg Sólrún ákvað að taka þann kostinn að mála upp nær sömu mynd og hún gerði er hún felldi svila sinn, Össur Skarphéðinsson, af formannsstóli á landsfundinum 2005. En það er erfitt að líta á stöðuna sem óbreytta milli þessara tveggja ára. Kannanir sýna að Ingibjörgu Sólrúnu hefur ekki tekist að gera það á þessum tveim árum sem hún stefndi að. Staða flokksins er áberandi mun verri nú en þegar að Össur skildi við, var sparkað fyrir svilkonu sína. Stóru fyrirheitin sem Ingibjörg Sólrún og stuðningsmenn hennar boðuðu í formannskjörinu 2005 hafa brugðist.
Það eru 26 dagar til kosninga. Það virðist vera að aðeins pólitískt kraftaverk geti bjargað Ingibjörgu Sólrúnu. Hver dagur er altént orðinn mikilvægur fyrir flokk og formann. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins var með merkilegum hætti dregin upp mynd þess sem gæti gerst færi allt á versta veg - vondar kannanir yrðu að vondum kosningaúrslitum og sterk vonarstjarna vinstrimanna í áraraðir yrði að andliti kuldalegs kosningaósigurs. Hvað mun enda gerast springi samfylking vinstrimanna í loft upp? Það er stóra spurningin.
Ingibjörg Sólrún hefur ekki átt sjö dagana sæla. Kannanir eru henni mjög erfiðar, þjóðin treystir henni ekki og konur eru að flýja Samfylkinguna í áberandi mæli. Þetta er stóra myndin - hún er dökk vissulega. Samfylkingin horfðist ekki í augu við þessa mynd um helgina. En þess þá meiri verður skellurinn gangi kannanir eftir.
En nú ráðast örlögin. 26 dagar eru ekki langur tími... en þeir munu þó ráða pólitískri framtíð formanns sem hefur ekki náð markmiðum sínum á 700 dögum.... tveim árum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.4.2007 | 14:28
Ákall Hjörleifs - dreifast kraftarnir til vinstri?

Hjörleifur er vissulega nokkuð merkilegur stjórnmálamaður. Það er fjarri því að ég hafi alltaf verið sammála honum. En ég hef þó hlustað þegar að hann hefur talað og lesið þegar að hann hefur skrifað. Það er enda þannig að hjartað mitt slær þannig að það verður að virða skoðanir annarra jafnmikið og maður vill fyrir sjálfan sig. Enda geta aldrei allir verið sammála um allt. Hjörleifur vann af krafti fyrir Austfirðinga um langt skeið. Ekki ætla ég að gera upp þann feril. Hann fékk umboð þeirra meðan að hann gaf kost á sér. Stjórnmálaferlinum lauk með því að hann tók tjaldhælana úr jörðu með athyglisverðri yfirlýsingu snemma árs 1999. Hann hefur þó skipað heiðurssæti á listum VG jafnan síðan.
Hjörleifur varð bloggvinur minn hér fyrir tæpri viku og skrifaði gott komment hér í umræðu um Íslandshreyfinguna sem var áhugavert að lesa. Skömmu síðar sendi hann út athyglisvert ákall til Ómars Ragnarssonar um að Íslandshreyfingin bakkaði. VG fengi að njóta hugsjónar í umhverfismálum eitt og sér. Ég skil vel þetta ákall Hjörleifs reyndar. Ég held að þessi nýji flokkur muni aðeins skaða VG, leiða til flökts á fylgi frá VG sem þangað var áður komið. Það eru engir hægrimenn nafngreindir af alvöru í Íslandshreyfingunni. Kraftur hennar, skoðanir og baráttuþrek liggur til vinstri. Það segir umræðan okkur og það segja kannanir okkur. Ekki ætla ég svosem að kvarta en ég skil þó mæta vel áhyggjur vinstri grænna.
Ef marka má kannanir virðist Íslandshreyfingin byggð á sandi. Hún byrjaði í 5% mörkum og hefur síðan aðeins dalað. Þar virðist ekkert flug vera á liðinu, það er niðursveifla. Kannski breyta listar þeirra einhverju. Ég veit það hreinlega ekki. Ég veit þó að flokkur getur ekki sagt sig vera til hægri nema að sýna hægrifólk í framboði, marktækt hægrifólk. Það hefur enn ekki sést.
Ég skil því ákall Hjörleifs og skrif hans fyllilega í þessu ljósi öllu. Enda virðast kraftarnir aðeins dreifast til vinstri við tilkomu þessa nýja flokks. Kannanir sýna stöðuna vel og hún gefur þá mynd sem marktækust er í því flóði hugmynda og kosningapælinga sem streyma yfir okkur. Þetta er það allra augljósasta við stöðuna, 26 dögum fyrir kosningar altént.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2007 | 11:34
Geir Haarde sló í gegn með frábærum söng

Mér fannst Geir koma rosalega vel út úr þessum landsfundi. Flokksmenn treysta honum mjög vel og hann hefur líka sýnt okkur að hann stendur undir því trausti, hann er sterkur og afgerandi forystumaður. Mér fannst þessi helgi vera helgin hans. Hann varð sterkur formaður í flokknum á borð við forvera sinn. Ég held að mesti styrkleiki Geirs sé einmitt að hann er hann sjálfur, hann er hvorki að leika Davíð Oddsson né nokkurn annan forvera sinn eða að reyna að stæla þá. Hann er enda mjög vinsæll meðal landsmanna. Hann nýtur trausts.
Það er líka mjög góður kostur að góður formaður geti glatt með því að syngja og hann sló svo sannarlega í gegn á landsfundarhófinu. Þar var mjög góð stemmning og mjög ánægjulegt að skemmta sér í þessum góða hópi. Þetta var mjög sterk helgi, allir brosandi og glaðir, allir sameinaðir í að vinna vel að því sem skiptir máli. Í þeim efnum skiptir máli að skipstjórinn sé einstaklingur sem gefi hópnum eitthvað, afl til verkanna. Það gerði Geir svo sannarlega um helgina og söngur hans var flott fylling á góðri kvöldskemmtun.
![]() |
Geir Haarde tók Johnny Cash |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.4.2007 | 02:08
Dead on arrival?

Þessar mælingar hljóta að teljast áfall fyrir flokk og forystumenn hans. Vandræðagangur þeirra við að velja á lista og kynna lista um allt land hefur verið augljós, það hefur verið augljóst klúður bakvið tjöldin. Eftirspurnin eftir flokknum virðist vera harla lítil, það er ekki kallað eftir honum. Það er talað um Íslandshreyfinguna sem hægri grænt framboð. Kannski var það fyrst og svo reynt að tala þannig í veikri von um að því sé trúað. Hvar eru hægrimenn innan Íslandshreyfingarinnar? Það er von að spurt sé.
Í dag voru kynntir frambjóðendur í fimm efstu sætum á listum Íslandshreyfingarinnar í Reykjavík. Það eru fá ný tíðindi þar. Athygli vekur að ekki sé lagður fram 22 manna listi. Það eru bara 27 dagar til kosninga. Hvað er að gerast þarna? Ekki eykst trúverðugleiki flokksins með þessu. Enn er enginn heill listi þar kominn. Þetta vekur mikla athygli. Sá þó að þarna er Ólafur Hannibalsson, sonur Hannibals Valdimarssonar og því bróðir Jóns Baldvins Hannibalssonar. Hann var einu sinni varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins en það er orðinn óratími síðan að hann gufaði þar upp. Ekki er Ósk Vilhjálms nýtt nafn og varla Sigurlín Margrét.
Stóri vandi Íslandshreyfingarinnar er fyrst og fremst að þessi flokkur höfðar greinilega ekki til fólks. Þessar vondu mælingar eru vissulega stór tíðindi, þau vekja athygli. En þau hafa innan við fjórar vikur. Mér finnst vandræðagangur þessa flokks orðinn áberandi mikill. Hann blasir við öllum. Það er mjög einfalt mál. Vandræðin kalla á fólk. Það er enda vont að missa af lestinni.
Ég horfði um daginn á eðalmyndina Dead on arrival, D.O.A. með Edmond O´Brien frá gullaldardögum Hollywood. Hún var og er alla tíð yndisleg - titillinn er sterkur og ástæða þess að hann er notaður kemur strax í ljós í upphafsatriðinu. Einhverra hluta vegna dettur mér þessi titill helst í hug er ég hugsa til Íslandshreyfingarinnar 27 dögum fyrir alþingiskosningar.
![]() |
Ómar og Margrét leiða lista Íslandshreyfingarinnar í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)