Ákall Hjörleifs - dreifast kraftarnir til vinstri?

Hjörleifur Guttormsson Hjörleifur Guttormsson sat í árafjöld á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið í Austurlandskjördæmi hinu forna ásamt móðurbróður mínum, Helga Seljan. Hjörleifur er einn örfárra sósíalista sem hafa ríkt í iðnaðarráðuneytinu. Hann var áberandi á þeim vettvangi og var vissulega litríkur stjórnmálamaður. Hjörleifur barðist fyrir stofnun VG er Alþýðubandalagið rann sitt skeið og fylgdi Steingrími J. Sigfússyni einarðlega inn í nýjan vinstriflokk að þeirra lífshugsjón. Það gerði líka hann Helgi frændi minn. Þeirra nýja pólitíska heimili var hugsjónaheimili langt til vinstri. Þeir voru heiðarlegir í því.

Hjörleifur er vissulega nokkuð merkilegur stjórnmálamaður. Það er fjarri því að ég hafi alltaf verið sammála honum. En ég hef þó hlustað þegar að hann hefur talað og lesið þegar að hann hefur skrifað. Það er enda þannig að hjartað mitt slær þannig að það verður að virða skoðanir annarra jafnmikið og maður vill fyrir sjálfan sig. Enda geta aldrei allir verið sammála um allt. Hjörleifur vann af krafti fyrir Austfirðinga um langt skeið. Ekki ætla ég að gera upp þann feril. Hann fékk umboð þeirra meðan að hann gaf kost á sér. Stjórnmálaferlinum lauk með því að hann tók tjaldhælana úr jörðu með athyglisverðri yfirlýsingu snemma árs 1999. Hann hefur þó skipað heiðurssæti á listum VG jafnan síðan.

Hjörleifur varð bloggvinur minn hér fyrir tæpri viku og skrifaði gott komment hér í umræðu um Íslandshreyfinguna sem var áhugavert að lesa. Skömmu síðar sendi hann út athyglisvert ákall til Ómars Ragnarssonar um að Íslandshreyfingin bakkaði. VG fengi að njóta hugsjónar í umhverfismálum eitt og sér. Ég skil vel þetta ákall Hjörleifs reyndar. Ég held að þessi nýji flokkur muni aðeins skaða VG, leiða til flökts á fylgi frá VG sem þangað var áður komið. Það eru engir hægrimenn nafngreindir af alvöru í Íslandshreyfingunni. Kraftur hennar, skoðanir og baráttuþrek liggur til vinstri. Það segir umræðan okkur og það segja kannanir okkur. Ekki ætla ég svosem að kvarta en ég skil þó mæta vel áhyggjur vinstri grænna.

Ef marka má kannanir virðist Íslandshreyfingin byggð á sandi. Hún byrjaði í 5% mörkum og hefur síðan aðeins dalað. Þar virðist ekkert flug vera á liðinu, það er niðursveifla. Kannski breyta listar þeirra einhverju. Ég veit það hreinlega ekki. Ég veit þó að flokkur getur ekki sagt sig vera til hægri nema að sýna hægrifólk í framboði, marktækt hægrifólk. Það hefur enn ekki sést.

Ég skil því ákall Hjörleifs og skrif hans fyllilega í þessu ljósi öllu. Enda virðast kraftarnir aðeins dreifast til vinstri við tilkomu þessa nýja flokks. Kannanir sýna stöðuna vel og hún gefur þá mynd sem marktækust er í því flóði hugmynda og kosningapælinga sem streyma yfir okkur. Þetta er það allra augljósasta við stöðuna, 26 dögum fyrir kosningar altént.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er sammála því að Íslandshreyfingin er að taka frá VG... en við skulum ekkert hafa hátt um það

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.4.2007 kl. 17:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband