Róleg kosningabarátta

Það eru bara 22 dagar til þingkosninga. Mér finnst rólegt yfir baráttunni. Kannski er það vegna þess að þetta eru fyrstu kosningarnar í fjölda ára þar sem ég er ekki á fullu í kosningavinnu fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ekki að taka þátt að neinu leyti þannig séð. Veit ekki svosem, en samt finnst mér þetta fjarskalega rólegt séð úr fjarlægðinni sem ég hef á þetta allt núna. Það er samt greinilega hiti að færast yfir þetta núna. Auglýsingarnar eru að komast á fullt og fundir eru auglýstir um dreifðar byggðir landsins.

Mér finnst mjög notalegt að vera ekki að taka þátt í þessu núna. Það er mjög þægilegt að geta skrifað meira og vera undir minni pressu, enda er mikil pressa að taka þátt í kosningabaráttu sitjandi á kosningaskrifstofu allan daginn. Kosningabaráttan hér á Akureyri í sveitarstjórnarkosningunum 2006 var mikil vinna. Þá tók ég þátt í eins miklu návígi og hægt var þá án þess að vera ekki frambjóðandi. Það var fínn tími. Mér finnst vera komið mál að linni og finnst þetta hið rétta nú. Það er líka gott að þurfa ekki að vera bundinn neinum við skrifin.

Það spurði mig einn vinur minn hvernig ég héldi að kosningarnar færu. Þó að það væri varhugavert að spá nú, enda eru síðustu 22 sólarhringar kosningabaráttu æði oft heil eilífð, er ég viss um að þær fara vel. Ég er viss um að fólk vegur og metur hvaða kostur sé farsælastur og hvaða flokksleiðtogi sé traustastur. Einhvernveginn finnst mér innst inni að það sé dómur sem minn gamli góði flokkur þarf eiginlega ekki að óttast núna. Hann stendur vel að mannskap í forystu og er með traust málefni. Hann hefur grunn sem er traustur á þessum tímapunkti.

Það var gaman að sitja landsfund um daginn. Ég var ekki bundinn neinum þar og hafði fyrst og fremst innilega gaman af að hitta vini og kunningja. Þetta var sannkölluð vinastund. Ég hef verið það lengi í Sjálfstæðisflokknum og í almennu félagsstarfi svosem að ég á marga vini, trausta vini sem ég met mikils. Það er það skemmtilegasta við svona landsfund að þetta er stund vina. Það jafnast í sannleika sagt ekkert á við það. Enda var þetta skemmtilegur vinafundur og það var um margt spjallað. Pólitíkin var þar ráðandi.

Mér fannst það áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi hversu vonda útreið hann fékk í miðstjórnarkjöri þar. Það stakk mig mest við þennan landsfund. Fulltrúar hér sameinuðust um tvo fulltrúa, annað að norðan og hinn að austan. Hvorugur náði kjöri. Einn spurði mig hverju sætti. Ég er þess fullviss að þar hafi ráðið úrslitum að tengingar hafi vantað á milli frambjóðendanna og stóru svæðanna innan flokksins og ég held að aldur hafi ráðið miklu líka. Bæði voru þau yfir fimmtugt. En svona kjaftshögg fyrir flokkinn hér vekur athygli.

Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi standi þó vel að vígi í væntanlegum kosningum. Blær uppstokkunar einkennir listann og það er ferskleiki yfir honum. Ennfremur er öllum ljóst að lykilsvæðin geta vel við unað. Ég held að þau verði að vinna vel fyrir sínu en ættu að geta komið vel standandi frá þessum slag. Þetta verður þeim barátta og þau geta ekki unnið nema berjast eins og ljón. Þau verða að vera sterk heild. Ef þeim auðnast það eru þau sigursveit. Það eru allar forsendur skv. könnunum fyrir góðum sigri.

En það er erfitt að spá um hvernig allt fer að lokum. En ég held áfram að spá og spekúlera úr þeirri góðu fjarlægð sem ég hef sjálfur valið mér og hef gaman af þeim pælingum sem ég set fram. Það er um að gera að vera lifandi í því að skrifa og fara yfir stjórnmálin. Vonandi verður þó lokaspretturinn og líflegur - við kjósendur fáum vonandi gargandi góða stemmningu á þessum blálokum.


Leyndardómar hafsins

Dead Calm Það er ekki hægt að segja annað en að þessi frétt um áströlsku draugaskútuna sé ansi draugaleg. Það er auðvitað mjög nöturlegt að heil skúta, þar sem matur er á borðum og öll merki þess að fjöldi fólks sé um borð, sé mannlaus. Þetta virðist vera mikið spurningamerki og óljóst hvað hefur orðið um fólkið. Það blasir við að eitthvað skuggalegt hafi gerst þarna, þetta er allavega eitthvað sem tekið er eftir.

Það eru að verða tveir áratugir síðan að kvikmyndin Dead Calm var gerð. Hún er ein sterkasta kvikmyndin frá Eyjaálfu í seinni tíma kvikmyndasögu, ef Piano, er undanskilin. Hún var byggð á frægri sögu Charles Williams, sem segir frá hjónum sem verða vör við mannlausa skútu á leið sinni. Ævintýri þeirra verða mikil og að því kemur að þau verða að berjast fyrir lífi sínu í grimmri baráttu. Það voru aðeins þrír leikarar að heita má í myndinni og hún var í senn bæði spennandi og dulúðug, flott blanda.

Þetta var myndin sem gerði óskarsverðlaunaleikkonuna Nicole Kidman að stjörnu og kom henni á kortið í Bandaríkjunum. Hún varð ein vinsælasta leikkona sinnar kynslóðar og hlaut óskarinn fyrir The Hours árið 2003. Sam Neill, traustur ástralskur leikari, átti þar eina af sínu bestu kvikmyndatúlkunum, og Billy Zane sló í gegn, einkum fyrir að vera óvæginn. Hann varð síðar heimsfrægur fyrir túlkun sína á Cal Hockley í stórmyndinni Titanic árið 1997.

Flott mynd, samt orðið of langt síðan að ég sá hana síðast. Set hana kannski í tækið um helgina. Það stefnir í rólega helgi, svo að það er ekki galin hugmynd. En vonandi verða leyndardómar draugaskútunnar áströlsku auðleyst.

mbl.is „Draugaskúta“ fannst við strendur Ástralíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfing Framsóknarflokksins að ná hámarki

Guðni Ágústsson Það blæs ekki byrlega fyrir Framsóknarflokknum þrem vikum fyrir alþingiskosningar. Hann er enn að mælast með lítið fylgi og ekkert ber á neinni uppsveiflu þar. Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, er greinilega orðinn ansi skelkaður og farinn að undirbúa sig og sína undir hið versta. Fylgi upp á minna en 10% mun án nokkurs vafa þýða stjórnarandstöðu fyrir Framsóknarflokkinn, augljós ábending kjósenda um að hann eigi að pása sig og taka sér hvíld frá setu í ríkisstjórn. Tölurnar segja sína sögu vel.

Það verða auðvitað tíðindi fái Framsóknarflokkurinn rauða spjaldið með þessum hætti, hrein og afgerandi skilaboð landsmanna um að fara í stjórnarandstöðu. Allir sem þekkja pólitíska sögu og staðreyndir hennar vel vita að allt undir 10% fylgi fyrir Framsókn þýðir það. Framsóknarflokkurinn hefur verið forn flokkur valda og áhrifa. Hann hefur setið nær samfellt í ríkisstjórn frá sumrinu 1971; aðeins ef undan er skilið tvenn tímabil, 1979-1980, er minnihlutastjórn Alþýðuflokksins sat og er fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, Viðeyjarstjórnin - stjórn sjálfstæðismanna og krata, sat 1991-1995.

Formenn Framsóknarflokksins áratugum saman hafa verið menn valda, menn sem hafa getað krafist oddastöðu í íslenskum stjórnmálum. Þeir hafa getað krafist mikils í stjórnarsamstarfi, þeir hafa sprengt ríkisstjórnir og myndað nýjar um leið án hiks, gott dæmi er þegar að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sprakk haustið 1988. Þessi staða markar nýjan grunn fyrir Framsóknarflokkinn verði hún að veruleika. Hún myndi marka formann Framsóknarflokksins sem hornkarl í íslenskum stjórnmálum, flokksleiðtoga sem skipti engu máli. Það yrði vissulega ný staða, en Framsókn hefur alltaf annaðhvort verið marktækt afl í ríkisstjórn eða leiðandi í stjórnarandstöðu.

Það blasir við öllum að fari Framsóknarflokkurinn niður í 5-7 þingsæti er hann kominn í biðstöðu, settur í endurhæfingu á meðan að hann byggir sig upp. Þetta er staða sem verður ekki túlkuð með öðrum hætti en sem sögulegt afhroð. Það yrði enda svo. Það er greinilegt af viðbrögðum Guðna Ágústssonar að honum er mjög brugðið. En því má ekki gleyma að Framsókn hefur stundum tekið kosningar á 10-20 dögum, jafnvel færri en tíu dögum. Öll munum við eftir ævintýralegum lokaspretti Framsóknarflokksins í kosningunum 2003, er hann sneri tapaðri skák sér í vil. Hann varð örlagaafl við stjórnarmyndun að kosningum loknum.

Þegar að 22 dagar eru til kosninga og sama down-staðan birtist æ ofan í æ verður kosningasérfræðingum og stjórnmálaspekúlöntum hugsað til þess hvort að þessir 22 dagar geti orðið tímabil sama viðsnúnings. Það yrði að ég tel metið sem algjör varnarsigur færi Framsóknarflokkurinn upp fyrir 12% úr þessu. Hann hefur ekki mælst með meira en 11% fylgi í háa herrans tíð í könnunum Gallups og góð ráð eru orðin dýr fyrir þennan forna flokk valda og áhrifa. Byrjað er að auglýsa Jón Sigurðsson í löngum sjónvarpsauglýsingum sem klettinn í hafinu í stjórnmálum með sama taktfasta blænum og var í tilfelli Halldórs og Steingríms. En trúir einhver því að hann verði jafn sterkur leiðtogi og þeir?

Guðni Ágústsson talar í þessu vefviðtali við Moggann með þeim hætti að Sjálfstæðisflokkurinn sé stikkfrí. Þessi ummæli og þessi örvænting ráðherra flokks í vanda eru með ólíkindum. Ég tel að staðan kristalli vel að landsmenn treysti Sjálfstæðisflokknum, þjóðin treystir Geir H. Haarde sem leiðtoga á næstu fjórum árum. Kannski er þjóðin að fella dóm yfir vandræðagangi Framsóknar sem hefur ekki borið barr sitt eftir að hún samdi sig í forsætisráðherrastól með umdeildum hætti.

Þjóðin er vissulega að fella mjög þungan dóm yfir Framsókn, en þar á bæ væri hollt að líta í eigin barm um stund, tel ég.

mbl.is Guðni: Sjálfstæðisflokkurinn virðist stikkfrí í umræðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun skuggi Silvíu Nætur skemma fyrir Eiríki?

Eiríkur Hauksson Eftir þrjár vikur mun Eiríkur Hauksson syngja lagið Valentine Lost í Helsinki. Stóra spurningin er hvort að Eiríki takist að komast upp úr undanriðlinum. Það verður fróðlegt hvort að skuggi Silvíu Nætur skemmi fyrir Eiríki í keppninni nú. Á síðasta ári söng Silvía Nótt sig út úr keppninni með bæði eftirminnilegum og magnþrungnum hætti. Hún stuðaði allt og alla í Aþenu en vakti um leið mikla athygli. Hún öðlaðist þó sögulegan sess í keppninni er púað var á hana fyrir og eftir flutning sinn.

Eiríkur Hauksson er maður sögu í Eurovision. Hann hefur keppt þrisvar og er mjög reyndur, bæði sem tónlistarmaður og áhugamaður um Eurovision. Hann býr að þeirri reynslu í þessari þriðju ferð sinni út. Lagið er vissulega mjög gott, textinn venst en er ekkert meistaraverk þó. Mörgum, þar á meðal mér, finnst íslenska útgáfan mun betri, hún rennur betur í gegn finnst mér og hljómar betur í heildina. Myndbandið við lagið vakti athygli og hann hefur fengið mikla bylgju stuðnings héðan að heiman.

Það er ekki auðvelt að bera saman Silvíu Nótt og Eirík Hauksson, þau eru ólík eins og dagur og nótt. Sem söngvarar á leið í Eurovison eru þau enn ólíkari en sem persónur. Ísland fer tvær mjög ólíkar leiðir á þessu ári og hinu síðasta. Þjóðin var ekki öll á bakvið Silvíu Nótt. Hún var mun umdeildari flytjandi í keppninni. Mörgum fannst og finnst reyndar enn að annað lag hefði átt að fara og sigur hennar varð umdeildur. Lagið sem slíkt varð miklu minna áberandi en karakterinn sjálfur. Í tilfelli Eiríks er þetta söngvari að flytja lag, en ekki lag sem er borið upp af miklum karakter sem hefur alla athygli á sér en ekki laginu. Þetta er því allt mjög ólíkt.

Silvía Nótt stuðaði mjög þá sem héldu utan um keppnina. Karakterinn varð ansi yfirdrifinn. Hef reyndar oft hugsað um það hvernig að Ágústa Eva Erlendsdóttir gat haldið dampi í gervi þessarar glamúrgellu þetta lengi. Þetta hefur eflaust tekið mikið á og verið þungur baggi að bera. Held að framkoman vikuna í Aþenu hafi skemmt mjög fyrir okkur. Þetta show varð einum of. Það sem byrjaði sem fínn local-brandari endaði sem súr og dýr brandari á erlendu sviði. Floppið varð mikið og áfallið varð gríðarlegt, bæði fyrir karakterinn og skaparann og síðast en ekki síst þá sem höfðu stutt hana hér heima, sem reyndar urðu sífellt færri eftir því sem styttist í stóru stundina.

Eiríkur er ekki alveg öfundsverður að fylgja á eftir þessu mikla show-i sem var í Aþenu í fyrra. Það verður fróðlegt að sjá hvort að þessi skuggi sem fylgir honum, skuggi Silvíu Nætur, skipti máli eður ei. Hann hefur einhver hliðaráhrif hið minnsta. Eiríkur ætti að geta með hressilegri framkomu og sínum karakter verið þar á eigin forsendum og varla munu skuggar fortíðar sliga hann. Lagið er gott og hefur allt til að bera að komast lengra. Hann fékk allavega góða dóma í norrænu deildinni um daginn, sem skiptir máli fyrir stolt okkar Íslendinga fyrst og fremst.

Það verður mikið áfall nái Eiríkur ekki að komast á úrslitakvöldið þann 12. maí. Það verður strax litlausara kosningakvöldið komist hann ekki áfram. Augu allra landsmanna verða á því sem gerist í Helsinki þann 10. maí og við vonum að andar fortíðar, hvort sem það er umdeild glamúrgella eða einhver annar, hafi ekki neikvæð áhrif á stöðu mála er á hólminn kemur.

Bloggfærslur 20. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband