Nicolas Sarkozy á sigurbraut í Frakklandi

Nicolas Sarkozy og Segolene Royal Fyrstu skoðanakannanir í Frakklandi eftir sigur Nicolas Sarkozy í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna í dag gefa til kynna að hann verði kjörinn forseti þann 6. maí nk. með nokkuð öruggum hætti. Hann mælist með 54% í baráttunni við Segolene Royal, frambjóðanda sósíalista, skv. könnun IPSOS í kvöld. Það stefnir því í að hann sé á sigurbraut í þessum kosningum altént á þessum tímapunkti.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig að þessar kosningar fara, en Sarkozy hefur haft mjög sterka stöðu í könnunum í nokkra mánuði. Það er orðið mjög langt síðan að Royal hefur leitt í könnunum þar sem spurt er um afstöðuna til Sarko-Sego einvígis. Segolene Royal hefur verið mjög umdeild innan rótgróna valdakjarna Sósíalistaflokksins en samt sjarmerað vinstrið mjög og mun eflaust raka meginhluta þess fylgis alls saman á bakvið sig, ekki ósvipað Lionel Jospin (þó mjög lítið þekktur væri) í seinni umferð forsetakosninganna 1995, er hann tapaði fyrir Jacques Chirac. Það er reyndar athyglisvert að heil tólf ár eru síðan að alvöru vinstrimaður komst í seinni umferðina.

Nicolas Sarkozy mun eflaust taka fullt af fylgi frá miðjumanninum Francois Bayrou sem fékk um 20% í fyrri umferðinni í dag, mun meira fylgi en mörgum hefði reyndar órað fyrir er hann gaf kost á sér. Bayrou komst reyndar á kafla kosningabaráttunnar ótrúlega nærri því að sverfa að Royal og verða keppinautur Sarkozy um Elysée-höll en tókst er á hólminn kom ekki að skáka henni. Enda hefði það orðið sögulegt í meira lagi ef vinstrimenn hefðu ekki náð frambjóðanda í seinni umferðina aðrar kosningarnar í röð. Þó að Sarkozy sé mjög afgerandi til hægri og þyki pólitískur harðjaxl getur hann höfðað til stórs hóps miðjumanna sem fylgdu Bayrou.

Það virðist að vissu marki vera hægribylgja í Frakklandi. Það sást í góðri útkomu Sarkozy og Bayrou í dag. Það verður þó fróðlegt að sjá hversu góða kosningu Segolene Royal fær í seinni umferðinni, en hún er eins og flestir vita fyrsta konan sem á raunhæfa möguleika á franska forsetaembættinu. Ef hún nær kjöri verður það svo sannarlega sögulegt, enda yrði ásýnd evrópskra stjórnmála mjög athyglisverð og nýstárleg með konur bæði við völd í lykilríkjum svæðisins, Frakklands og Þýskalands, en dr. Angela Merkel hefur eins og flestir vita verið kanslari Þýskalands frá nóvember 2005.

Royal er viss vonarneisti evrópskra vinstrimanna og verður því vel fylgst með mælingu á henni og vinstrinu í forsetaeinvíginu við Sarkozy. Reyndar má segja með vissu að Jacques Chirac, fráfarandi forseti Frakklands, verði ekkert hoppandi glaður með sigurvegarann hvor sem hann verður, þó hann hafi lýst yfir stuðningi við Sarkozy. Milli þeirra hefur verið kuldalegt en þeir hafa greinilega grafið stríðsöxina sem svo mjög hefur svifið yfir samskiptum þeirra frá forsetakosningunum 1995 er Sarkozy studdi frekar Edouard Balladur en Chirac í fyrri umferðinni.

Það eru spennandi vikur í frönskum stjórnmálum. Nýr forseti verður svarinn í embætti þann 17. maí. Chirac hefur ekki fyrr kvatt og látið lyklana að Elysée-höll í hendur eftirmannsins en það skella á þingkosningar. Þar verður enn ein sterka mælingin á hægri og vinstri. Kosið verður 10. og 17. júní. Þar kemur mæling á valdablokk nýja forsetans og hversu sterkur hann/hún verður í raun næstu fimm árin og hvort til komi kannski stirð valdasambúð hægri og vinstri líkt og árin 1997-2002.

mbl.is Ný könnun: Sarkozy með meira fylgi en Royal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er allt "fræga" fólkið?

Íslandshreyfingin Ég varð svolítið hissa áðan þegar að ég sá nöfnin yfir efstu menn á lista Íslandshreyfingarinnar hér í Norðausturkjördæmi. Þar eru nöfn sem ég kannast ekki við. Biðin eftir þessum lista og fleirum frá þessum flokki hefur verið nokkur og átti maður von á að þau myndu flasha einhverjum stórnöfnum til að reyna að hífa flokkinn úr þeirri vondu stöðu sem hann er í almennt í skoðanakönnunum.

Ekki eru þessi frægu nöfn að koma fram til sögunnar til framboðs og ekki sjást þau hér allavega í þessari nafnarunu, þó eflaust sé þetta allt hið mætasta fólk. Það er greinilega stórvandi þessa flokks að hann segist vera hægri grænn. Hvar er þá allt hægrafólkið? Það er von að spurt sé þeirrar stóru spurningar. Á þetta kannski að vera flokkur til vinstri í dulargervi? Á kannski að reyna að segja manni að lykilforystufólkið þarna utan mögulega Ómars Ragnarssonar sé ættað frá hægri?

Það er greinilegt skv. skoðanakönnunum að þessum flokki er ekki að takast með neinu móti að eiga nein þáttaskil í pólitískri umræðu. Hann er ekki að taka neitt fylgi frá hægri. Hann er að taka frá vinstri. Og ekki er ég hissa lítandi yfir þann mannskap sem þau hafa. Ég er ekki fjarri því að telja að tilkoma þessa flokks hafi verið hin mesta blessun sem Sjálfstæðisflokkurinn gat orðið vitni að í þessari kosningabaráttu.

mbl.is Hörður Ingólfsson í fyrsta sæti Íslandshreyfingarinnar í NA-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sarko-Sego áfram í seinni umferð í Frakklandi

sarko-sego Það er nú ljóst að Nicolas Sarkozy og Segolene Royal munu berjast um franska forsetaembættið í seinni umferð forsetakosninganna þann 6. maí er eftirmaður Jacques Chirac verður kjörinn. Sarkozy vann sigur í fyrri umferðinni með 30% atkvæða en Royal hlaut rúm 25%. Næst þeim er miðjumaðurinn Francois Bayrou með tæp 20%. Þjóðernisöfgamaðurinn Jean-Marie Le Pen sem komst óvænt í seinni umferð forsetakosninganna 2002 fékk rúm 11% nú.

Kjörsókn í þessari fyrri umferð forsetakosninganna var hin mesta frá forsetakosningunum 1981. Þá vann Valery Giscard d´Estaing, sitjandi forseti, fyrri umferðina en tapaði forsetakosningunum er á hólminn kom fyrir Francois Mitterrand, sem sat á forsetastóli í fjórtán ár. Mikill andi óvissu hvíldi yfir þessari fyrri umferð forsetakosninganna nú. Í síðustu könnunum sem birtust á föstudag var þriðjungur kjósenda óákveðinn og því erfitt að lesa í stöðuna. Um var að ræða mestu óvissu fyrir franskar forsetakosningar í áratugi og nær ómögulegt var að spá með vissu þó flestir hefðu hugmyndir um stöðuna.

Flestir hafa þó í gegnum þessa kosningabaráttu talið að þetta yrði að lokum einvígi Sarkozy og Royal. Fjölmiðlar í Frakklandi hafa allt frá vorinu 2006 talað um forsetakosningarnar 2007 sem Sarko-Sego kosningar. Það mun fara svo að lokum. Þau eru hefðbundnar andstæður vinstri og hægri og því eru valkostirnir eins afgerandi og þeir geta í raun orðið. Þungu fargi er væntanlega létt af sósíalistum við úrslit fyrri umferðarinnar, þó að Sarkozy hafi unnið hana. Margir þeirra óttuðust að eins færi fyrir Royal og Lionel Jospin vorið 2002 er hann var sleginn harkalega út af taflborði franskra stjórnmála í einu höggi.

Þessar kosningar marka endalok litríks stjórnmálaferils Jacques Chirac, forseta Frakklands, sem hefur verið lykilspilari í frönskum stjórnmálum í áratugi og verið áberandi þar allt frá valdadögum stríðskempunnar Charles De Gaulle. Það verður fróðlegt hver mun taka við af honum er á hólminn kemur. Barátta næstu vikna verður eflaust æsispennandi. Munurinn á milli Sarkozy og Royal er ekki afgerandi mikill. Kannanir síðustu vikna hafa sýnt Sarkozy sterkari en Royal sé spurt um afstöðu til þeirra beggja. Það verður fróðlegt að sjá þróun kannana næstu dagana.

Forseti Frakklands er einn af lykilleikmönnum stjórnmálanna, bæði innan Evrópusambandsins og á alheimsvísu, enda einn valdamesti stjórnmálamaður heims. Það verður fylgst vel með því hvort að hægri- eða vinstribylgja verður í Frakklandi eftir hálfan mánuð er nýr húsbóndi í Elysée-höll verður kjörinn. Fyrri umferðin gefur ekkert afgerandi til kynna, nema það að staða Sarkozy sé vænlegri.

En það er í raun erfitt að fastsetja neitt og því spennandi lokasprettur framundan í Frakklandi milli þessara afgerandi fulltrúa klassískra meginpóla í stjórnmálum.

mbl.is Sarkozy og Royal áfram samkvæmt útgönguspám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin eykur þingmeirihluta sinn

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde Ríkisstjórnin eykur þingmeirihluta sinn í nýjustu skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt er í dag; Framsóknarflokkurinn hækkar milli vikna og mælist með sjö þingsæti og Sjálfstæðisflokkurinn hefur 29 þingmenn og yfir 40% fylgi. Samfylking og VG mælast nærri jafnstór á meðan að Frjálslyndi flokkurinn mælist fallinn af þingi með engan þingmann rétt eins og Íslandshreyfingin.

Þessi könnun boðar merkileg tíðindi. Hún sýnir traustan meirihluta stjórnarflokkanna, meira að segja traustari en hann er í dag. Framsóknarflokkurinn virðist vera að rétta úr kútnum og auka fylgi sitt. Samfylkingin bætti við sig í síðustu viku í kjölfar landsfundar. Sú sveifla gengur snarlega til baka og flokkurinn fellur lóðbeint í sama 20% farið sem hann hafði fyrir landsfund. Könnunin sýnir því yfir 10% fylgistap Samfylkingarinnar frá kosningunum 2003 og að hann sé helmingi minni en Sjálfstæðisflokkurinn.

Það er merkilegt að sjá trausta stöðu Sjálfstæðisflokksins og góða mælingu ríkisstjórnarinnar. Það virðist vera sem að tilkoma Íslandshreyfingarinnar sé það besta sem fyrir stjórnarflokkana hefur komið í langan tíma. Það verður áhugavert að sjá hvort að tilkoma þess framboðs tryggi traustan og öruggan þingmeirihluta ríkisstjórnarinnar eftir 20 daga.

Sjálfstæðisflokkurinn drottnar yfir Suðurkjördæmi

Könnun í Suðurkjördæmi Skv. kjördæmakönnun Gallups í Suðurkjördæmi mælist Sjálfstæðisflokkurinn með fimm kjördæmakjörna þingmenn og rúmlega 10% meira fylgi en í kosningunum 2003. VG bætir við sig miklu fylgi á meðan að Samfylking og Framsóknarflokkur missa talsvert fylgi og kjördæmakjörinn mann. Íslandshreyfingin nær ekki flugi.

Mikla athygli vekur að aðeins tvær konur mælast inni, báðar frá Sjálfstæðisflokknum. Aðeins einn Suðurnesjamaður mælist inni, Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, en þetta er fjölmennasta svæði kjördæmisins.

Sjálfstæðisflokkurinn: 40,9% - (29,2%)
Samfylkingin: 24% - (29,7%)
Framsóknarflokkurinn: 14,2% - (23,7%)
VG: 13,7% - (4,7%)
Frjálslyndi flokkurinn: 4,8% - (8,7%)
Íslandshreyfingin: 2,2%
Baráttusamtökin 0,3%

Þingmenn skv. könnun

Árni M. Mathiesen (Sjálfstæðisflokki)
Árni Johnsen
Kjartan Ólafsson
Björk Guðjónsdóttir
Unnur Brá Konráðsdóttir

Björgvin G. Sigurðsson (Samfylkingu)
Lúðvík Bergvinsson

Guðni Ágústsson (Framsóknarflokki)

Atli Gíslason (VG)

Fallin skv. könnun

Drífa Hjartardóttir
Guðjón Hjörleifsson
Gunnar Örn Örlygsson (féllu öll í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins)

Þetta er merkileg mæling vissulega. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin tapa eins og fyrr segir nokkru fylgi og missa þingmann. Þetta virðist vera fylgistrendið um allt land. Sérstaklega er áfall Framsóknarflokksins mikið í könnuninni og yrði útkoma í einhverri líkingu við þetta umtalsvert pólitískt áfall fyrir Guðna Ágústsson, varaformann Framsóknarflokksins. Frjálslyndir mælast örlítið lægri kjörfylginu 2003 og missa þingmann sinn. Íslandshreyfingin virðist ekki vera að fá neitt alvöru start og virðist vandræði flokksins vera að sjást vel í fylgisleysi.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög vel yfir kjörfylginu og með fimm kjördæmakjörna þingmenn. Sá fimmti er reyndar mjög tæpur, en þetta er gríðarlega góð mæling. Þeir fengu vondar kosningar í þessu sterka kjördæmi sínu árið 2003, en þar varð mjög vondur klofningur með sérframboði þingmannsins Kristjáns Pálssonar þess valdandi að flokkurinn missti forystu á svæðinu til Samfylkingarinnar og hlaut ekki fjórða manninn. Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að ná fyrri flugi og endurheimta lykilstöðu í góðu vígi sínu.

VG bætir umtalsverðu fylgi við sig og eru greinilega á mikilli siglingu í kjördæminu undir forystu Atla Gíslasonar. Þeir hafa þó verið að mælast með tvo en missa nú nokkuð fylgi milli kannana og hafa nú aðeins Atla inni. Ef marka má þessa mælingu eru Bjarni Harðarson og Róbert Marshall báðir utan þings, sem hljóta að teljast mikil tíðindi. Það er þó stutt í þá báða í þessari mælingu og er t.d. Framsóknarflokkurinn að bæta stöðu sína milli kjördæmakannana.

Það er auðvitað gleðiefni að sjá þessa góðu stöðu sjálfstæðismanna en ég tel að stóra stjarna þeirra í þessum kosningum verði vinkona mín, Unnur Brá - í fimmta sætinu. Hún mælist þarna inni, sem eru mikil gleðitíðindi. Hún er greinilega í baráttusætinu þeirra og er hiklaust ferskasti kosturinn í baráttusæti þarna. Það er greinilegt að hún er að stimpla sig inn þarna og á marktæka möguleika á þingsæti skv. þessu.

En þetta er vissulega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna. Margir eru þó óákveðnir og spennandi 20 dagar sannarlega framundan í kosningabaráttunni þar.

mbl.is Sjálfstæðisflokkur bætir við sig tveimur þingmönnum í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Hillary Clinton að missa tökin á stöðunni?

Hillary Rodham Clinton Fram til þessa hefur það verið metið nær öruggt að Hillary Rodham Clinton yrði frambjóðandi demókrata á næsta ári og myndi eiga auðvelt með að næla í útnefninguna í forkosningum. En það er ekki tekið út með sældinni að vera lengi í forystu svona kapphlaups og það getur snúist upp í öndverðu sína er á hólminn kemur að lokum. Það er öllum ljóst að Barack Obama hefur sótt mjög á Hillary og eygir alvöru möguleika á því að jafnvel sigra hana er á hólminn kemur.

Fyrir forsetakosningarnar 2004 var mikið skorað á Hillary Rodham Clinton að gefa kost á sér gegn George W. Bush. Þá hefði hún getað snúið allri samkeppni upp bara með því að blikka augunum til flokksmanna. Hillary fór ekki fram enda vildi hún standa við loforð til íbúa í New York um að klára kjörtímabil sitt. Hún var hyllt sem sigurhetja væri á flokksþinginu í Boston árið 2004 og þau hjónin voru stjörnur þingsins þar sem krýna átti John Kerry sem forsetaefni flokksins í heimaborg sinni. Stjörnumáttur þeirra var þar yfirgnæfandi allt þingið, þó sérstaklega væri gætt upp á að þau kæmu saman fram bara fyrsta þingdaginn.

Það verða mikil tíðindi ef Hillary myndi tapa fyrir t.d. Barack Obama eða einhverjum öðrum. Barack Obama hefur saxað mjög síðustu vikurnar á forskot Hillary Rodham Clinton í baráttunni. Það er greinilegt að æ fleiri líta á hann sem raunverulegan valkost. Ljóst er nú að blökkumenn eru í æ ríkari mæli að horfa til hans og segja skilið við Hillary og þeir hópar sem voru síður að gefa sig upp áður horfa nú frekar til blökkumannsins frá Illinois sem vonarstjörnu en Hillary. Þetta eru vissulega mikil tíðindi - þessi mæling sýnir vel að Hillary er fjarri því örugg um útnefningu flokksins og framundan er hörð barátta. Obama virðist hafa veðjað á rétt.

Obama hefur enda engu að tapa með framboðinu og mun aðeins styrkja sig hvernig sem fer, ólíkt Hillary sem hefur miklu að tapa nái hún ekki útnefningunni, sem flestir hafa talið hennar eftir ósigur John Kerry í forsetakosningunum 2004. Obama er ekki í ólíkri stöðu nú og John Edwards við síðustu forsetakosningar, sem maður er tekur áhættuna vitandi að hann tapar engu hvernig sem fer. Hann mun aðeins eflast og það verulega - stimplar sig inn. Það hlýtur að fara um Clinton-hjónin í þessari stöðu. Það er alveg ljóst að tapi Hillary mun ekki aðeins hún veikjast verulega á þessari áhættu sem fylgdi framboðinu heldur líka eiginmaður Hillary, Bill Clinton, 42. forseti Bandaríkjanna.

Þau munu leggja allt sitt í framboðið og sækja bæði alla peninga sem þau geta safnað og leita í allar áttir stuðningsmanna sem þau telja mögulega geta styrkt framboðið. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Hillary að stjörnurnar í Hollywood og peningamenn í Kaliforníu eru í æ ríkari mæli að horfa til Obama. Til dæmis hefur áhrifamaður í Hollywood á borð við Steven Spielberg, sem ávallt hefur fylgt þeim hjónum til þessa, veðjað á Obama. Bill og Hillary Rodham Clinton lögðu grunn að þessu framboði með forsetatíðinni 1993-2001 og eiga víða vini og kunningja. Þau stóla nú á að það muni tryggja forsetafrúnni á þeim tíma vist í Hvíta húsinu nú.

Þau munu sækja inni alla greiða sem þau mögulega geta tryggt og leita víðar en það. Það sem eitt sinn var talið sigurganga Hillary gæti nú orðið þyrnum stráð og verulega erfið. Þetta gæti orðið þrautaganga og öllum er ljóst að Hillary skaðast verulega sem sterkur stjórnmálamaður og stjörnuljómi innan flokksins með tapi. Clinton forseti veit líka hvað er í húfi. Tap fyrir nýja vonarneistanum gæti orðið þungt til lengri tíma litið. Þetta verður því verulega harður slagur - óvæginn og hvass.

Obama þykir hafa sjarmann og útgeislunina sem t.d. John F. Kennedy hafði fyrir hálfri öld og virðist maður nýrra tíma meðal demókrata, ekki ósvipað því sem Bill Clinton var á sínum tíma. Fram að þessu hefur Hillary þótt stjarna á sviði flokksins. En er Hillary búin að missa sinn sjarma? Er hún að missa tökin á stöðunni? Þetta eru stórar spurningar óneitanlega. Margir hafa nefnt að sterkt væri að þau yrðu leiðtogapar flokksins. Það hefur hinsvegar breyst, enda hefur staða Obama styrkst mjög síðustu vikurnar og hann virðist geta komist langt án allrar hjálpar. Hann hefur þegar útilokað með afgerandi hætti að verða varaforsetaefni framboðs Hillary.

Við þetta hljóta Clinton-hjónin að vera hrædd, enda hefur Hillary verið markaðssett sem stjarna flokksins og með hinn fullkomna pólitíska maka sér við hlið. Þær sögusagnir ganga svo að Clinton forseti gæti orðið varaforsetaefni eiginkonu sinnar. Það er ekkert í lögum sem bannar það, en sögulegt yrði það næði Hillary útnefningunni. Það er reyndar ólíklegt en það er ekki þaggað á stórt hlutverk Clintons forseta, skv. þessari moggafrétt hér neðst. Þar er talað um að hann verði jafnvel farandsendiherra í nafni Bandaríkjanna. Ekki skortir honum reynsluna en við blasir að Hillary ætlar að reyna að nota til fulls vinsældir hans meðal þjóðarinnar.

En þetta verða bæði sögulegar og áhugaverðar forsetakosningar. Þetta verða fyrstu forsetakosningarnar frá árinu 1952 þar sem hvorki forseti eða varaforseti eru í kjöri og miklar breytingar blasa við. Persónulega taldi ég alltaf að Hillary myndi vinna hjá demókrötum og við myndum fá að ári eftir forkosningar að sjá loksins sögulega öldungadeildarslaginn í New York sem stefndi lengi vel í að yrði aðalslagurinn í kosningunum 2000 en varð svo aldrei af vegna veikinda annar þeirra; semsagt keppni milli Hillary Rodham Clinton og Rudolph Giuliani.

En maður er farinn að efast nú. Mun Obama stela sviðsljómanum af sjálfri Hillary, taka af henni tækifæri ferilsins? Jahérna, það yrði rosaleg frétt færi svo. Það er allavega ljóst að fáir spá nú afgerandi sigri Hillary og þetta gæti orðið mjög jafnt, jafnvel svo að forsetafrúin fyrrverandi sæti eftir með sárt ennið.

mbl.is Vill nýta vinsældir Clintons til að bæta ímynd Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykjavíkurborg kaupir brunarústirnar

Stórbruni í miðbæ Reykjavíkur Ein helsta frétt dagsins er að Reykjavíkurborg stefnir að því að kaupa húsin sem brunnu í miðbæ Reykjavíkur á síðasta vetrardag. Það kom greinilega í ljós með afgerandi hætti strax á þeirri stundu er húsin stóðu í ljósum logum að borgin vildi fylgja málum þar eftir. Þá kom enda borgarstjóri strax með þá pólitísku yfirlýsingu að götumyndin á svæðinu ætti að halda sér eftir uppbyggingu sama hvernig færi.

Það er skiljanlegt að Reykjavíkurborg vilji fylgja þessu máli eftir, enda er um að ræða elstu heillegu götumynd borgarinnar og svæði sem skiptir án nokkurs vafa talsverðu máli. Þetta er viðkvæmt svæði sem þarf að hafa umsjón með að fari ekki á einhverjar villuslóðir. Samt sem áður er það eflaust mjög umdeilt að borgin sé að kaupa þetta svæði upp og vinna málið með þeim hætti. Ég verð nú að segja það alveg eins og er að það er stórt spurningamerki í huga mér yfir því hvort það sé rétta leiðin. En ég er svosem ekki kjósandi í Reykjavík og sé þetta frá annarri hlið.

Í dag var Hrafn Gunnlaugsson, leikstjóri, gestur í hádegisviðtalinu á Stöð 2. Hrafn hefur ekki farið troðnar slóðir við að tjá skoðanir og hefur sérstaklega verið ófeiminn við að tjá sig um skipulagsmál í Reykjavík. Sumir eru ekki ánægðir með skoðanir hans, aðrir fagna þeim. Ég er einn þeirra sem sá báða þætti hans þar sem hann teiknar upp lifandi myndir af skipulagsbreytingum og leikur sér með lifandi form þeirra. Það voru áhugaverðar myndir og margar aðrar hugmyndir lifnuðu við í kjölfar þeirra. Til dæmis var þar komið með flugvallarkost á Lönguskerjum og talað um að byggja hátt og byggja meira við ströndina.

Hrafn gaf lítið fyrir þessar pælingar um að vernda götumyndina og sagði sem rétt er að menn byggja ekki fornminjar frá grunni aftur. Þegar þær eru farnar eru þær svo sannarlega farnar veg allrar veraldar. Hann kallaði þessa pólitík meirihlutans vinsældapólitík á örlagastundu. Það er kannski eitthvað til í því. Þetta var allavega viðtal sem var áhugavert að sjá. Hrafn hefur þann stóra kost að tala máli sem er auðvelt að skilja og setja fljótt í samhengi. Hann vill greinilega nota tækifærið og byggja með öðrum hætti á þessu brunarústasvæði og gaf lítið fyrir forna götumynd.

Ég veit ekki hvað er rétt í þessu. Persónulega finnst mér þó rétt að gera engar drastískar breytingar á þessari götumynd. En ég efast um að ég myndi vera talsmaður þess að Akureyrarbær keypti upp brunasvæði dýrum dómum þó á viðkvæmu svæði væri svo að ég hugsi málið frá mínum sjónarhóli í eigin sveitarfélagi. Þetta er eflaust umdeilt og sitt sýnist hverjum.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig byggt verður á þessu svæði og hvaða starfsemi verður þar. Varla ætlar borgin að eiga þau hús sem þar rísa.

mbl.is Reykjavíkurborg vill kaupa hús sem urðu eldi að bráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband